Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Freyja Haralds syrgir fallinn félaga: „Takk fyrir að kenna okkur að hrista af okkur skömm“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blær Ástríkur Ástuson Ástráðsson, áður Ásdís Jenna Ástráðsdóttir, var borinn til grafar í gær. Freyja Haraldsdóttir ásamt Emblu Guðrúnu Ágústsdóttur minnast hans í fallegri minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Það gera þær í nafni feminísku fötlunarhreyfingarinnar Tabú en Blær barðist alla ævi fyrir réttindamál fatlaðs fólks. Blær var heyrnaskertur og með truflaða vöðvaspennu sem leiddi til þess að hann gat hvorki stjórnað höndum né fótum. 

Freyja og Embla segja mikinn missi af Blæ. „Elsku Blær okkar. Þegar við, Tabúsystur þínar, hittumst til þess að minnast þín eftir að þú kvaddir lá í loftinu mikil sorg yfir því skarði sem þú skilur eftir meðal okkar en um leið þakklæti fyrir allt sem þú gafst okkur og lagðir af mörkum til baráttu fatlaðs fólks á Íslandi. Þú varst sterk baráttumanneskja og tókst þér pláss á ólíkum sviðum samfélagsins, án þess að afsaka þig, og bjóst þannig til pláss fyrir okkur,” segja þær. 

Fyrirmynd

Freyja og Embla segja að Blær hafi verið þeim fyrirmynd þegar þær voru yngri. „Þú varst okkur mikilvæg fyrirmynd þegar við vorum að alast upp en fatlað fólk var svo ósýnilegt í samfélaginu og gátum við því lítið speglað okkur í fólki sem bjó við sambærilegan veruleika og við. Við þekktum þig ekki allar persónulega sem börn en vissum allar hver þú varst. Þú varst óþreytandi við að ryðja brautina og sýna okkur að við eigum framtíð. Ljóðin þín færðu hug okkar og hjarta rödd og orð yfir fötlunarreynslu okkar, sem oft er svo erfitt að koma orðum að,” segja þær.

 „Hindranirnar á vegi þínum í gegnum lífið voru ófáar en það var stundum eins og þú sæir þær ekki. Þú óðst áfram og gerðir kröfu um jöfn tækifæri til tjáskipta, sjálfstæðs lífs, menntunar, aðgengis og foreldrahlutverksins. Það var samt ekki alltaf auðvelt og dáumst við að þrjósku þinni og eldmóði enda gafstu aldrei drauma þína upp á bátinn.”

Skilur eftir stórt skarð

Freyja og Embla rifja svo upp eina af síðustu minningum þeirra af honum. „Þú varst óhræddur við að leita ráða hjá öðru fötluðu fólki en á sama tíma óspar á hvatningu, ráðleggingar og leiðbeiningar fyrir fólk í sambærilegri stöðu. Rétt áður en þú kvaddir hélstu þétt utan um eina Tabúsystur sem var á leið í aðgerð og leiðbeindir annarri um hvernig ætti að setja fagfólki með fordóma mörk í tengslum við foreldrahlutverkið,” segir Þær.

- Auglýsing -

 „Elsku baráttubróðir okkar. Takk fyrir að kenna okkur að hrista af okkur skömm og vera stoltar fatlaðar manneskjur. Nærvera þín skilur eftir stórt skarð en við munum leggja okkur fram um að heiðra minningu þína með því að gefa engan afslátt af réttlætinu og biðjast ekki afsökunar á neinu.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -