Miðvikudagur 11. september, 2024
4.1 C
Reykjavik

Frosti um föðurmissi og endalok Harmageddon: „Stundum skjálfandi og grátandi inni í stúdíói“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frosti Logason og Þorkell Máni Pétursson eru hættir með útvarpsþáttinn Harmageddon á X-inu 977 en síðasti þátturinn var sendur út í morgun. 14 ár eru liðin síðan þeir byrjuðu með þáttinn.

„Þetta hefur svo sem staðið til nokkuð lengi og þetta er svolítið langur tími á sama stað,“ segir Frosti. „Við vorum búnir að undirbúa hvernig við ætluðum að slíta þessu einn góðan veðurdag í svolítinn tíma og við ákváðum að þessi tímapunktur yrði í lok kosningabaráttunnar. Við höfum fjallað um fimm alþingiskosningar á þessum tíma sem við höfum verið með Harmageddon en þátturinn hefur að öðrum þræði verið mjög pólitískur í gegnum tíðina þannig að þetta var fínn endapunktur. Ég hef verið að starfa á öðrum miðlum hjá Sýn undanfarin ár og hef fundið mig mjög vel í sjónvarpinu og ætla að einbeita mér meira að því núna.“

 

Frosti hefur starfað á X-inu frá árinu 1999 og Máni frá árinu 1997. „Það stóð aldrei til að við yrðum svona lengi á X-inu 977. Þetta er auðvitað stöð unga fólksins og við höfðum engan áhuga á að verða einhverjir gamlir karlar á slíkum miðli; kannski ekki endalaus eftirspurn eftir því. Við erum þess vegna fegnir að vera að ljúka þessu núna á þessum tímapunkti. Það hefur gengið ótrúlega mikið á á þessum tíma bæði í þættinum og í einkalífi okkar þannig að þetta er orðið gott.“

Þegar Frosti er spurður hvað standi upp úr varðandi Harmageddon segir hann það vera forréttindi að hafa verið með daglegan útvarpsþátt þar sem tekin voru fjögur til sex viðtöl á hverjum degi, fjalla um þjóðfélagsmál og vera í þeirri stöðu að geta kallað inn í viðtöl alla þá viðmælendur sem þeim datt í hug. „Það hafa afskaplega fáir sagt „nei“ við okkur. Við höfum örugglega tekið viðtöl við alla þingmenn á þessum tíma.“

Við höfum fjallað um fimm alþingiskosningar á þessum tíma sem við höfum verið með Harmageddon en þátturinn hefur að öðrum þræði verið mjög pólitískur í gegnum tíðina þannig að þetta var fínn endapunktur.

Frosti Logason

- Auglýsing -

 

Óvirkur alkóhólisti

Frosti nefndi að mikið hefði gengið á bæði í þættinum og í einkalífinu.

- Auglýsing -

„Við Máni höfum eignast fjóra stráka.“ Frosti eignaðist tvo og Máni tvo. „Og við erum búnir að nefna syni okkar í höfuðið á hvor öðrum; ég á strák sem heitir Máni og Máni á strák sem heitir Frosti. Við höfum upplifað alls konar hæðir og lægðir á þessum tíma; alls konar persónulegar krísur og jafnvel verið á stundum skjálfandi og grátandi inni í stúdíói á milli viðtala þegar hlustendur urðu þess ekki varir án þess að ég fari nákvæmlega út í hvað var að gerast á þeim tíma. Lífið hefur bara verið að gerast á sama tíma og Harmageddon hefur verið í loftinu.“

Frosti hætti að drekka á þessum tíma. „Áður en það gerðist var ég oft í vanda staddur með neysluna.“ Hann fór í meðferð.

„Til að hætta að drekka þurfti ég að fara í ótrúlega mikla sjálfsskoðun; það að stunda stöðuga sjálfsskoðun er eitthvað sem óvirkir alkóhólistar þurfa að leggja stund á. Það er auðvitað mikill lærdómur í því. Maður var áður í miklum hroka og fastur í eigin hugmyndum og það víkkar sýn manns á allt lífið þegar maður fer að einbeita sér að því að bæta sjálfan sig en ekki vera stöðugt að gagnrýna aðra. Það er stóri lærdómurinn sem maður fær úr þessari 12-spora vinnu.“

Áður en það gerðist var ég oft í vanda staddur með neysluna.

 

Áfallameðferð

Frosti segir að það erfiðasta sem hann hefur upplifað sé þegar faðir hans lést eftir að hafa lent í bílslysi. „Það var rosalegur skellur og það tók mörg ár að vinna úr þeim tilfinningum. Ég er á þeim stað í dag að mín áföll hafa einhvern veginn öll verið yfirstíganleg á endanum og ég hef tamið mér það viðhorf að það sé alltaf einhver sem hefur það verra en maður sjálfur.“

Hann segist hafa unnið sig í gegnum áfallið sem tengdist föðurmissinum meðal annars með mikilli 12-spora vinnu og samtalsmeðferðum hjá fjölskyldu- og fíkniráðgjöfum. „Ég fór í áfallameðferð mörgum árum eftir að pabbi dó og þá fór ég að vinna í þessu. Það var ótrúlega mikilvægt og hjálpaði mér mikið.“

Ég fór í áfallameðferð mörgum árum eftir að pabbi dó og þá fór ég að vinna í þessu.

Frosti segist líta á dauðann sem endalok. „Ég trúi ekki á upprisu eða annað líf. Konfúsíus sagði að allir menn eigi tvö líf og að seinna lífið byrji þegar þeir gera sér grein fyrir því að það er bara eitt líf. Ég held mikið upp á þetta spakmæli og það er svolítið síðan ég gerði mér grein fyrir því að þetta líf er það eina sem maður fær og að það er í raun og veru allt of stutt. Það hefur haft mikil áhrif á lífsviðhorf mitt að lífið er stutt og það er bara eitt tækifæri.“

Og Frosti ætlar að nýta þetta tækifæri vel.

Talið berst að ástinni en Frosti kvæntist eiginkonu sinni á afmælisdegi föður síns, 31. janúar á þessu ári. Hann hefði þá orðið áttræður. „Það sem gefur mér mest í lífinu er að eignast og ala upp börnin mín og eiga góða fjölskyldu.“ Hjónin eiga tvo syni, fimm ára og þriggja mánaða. „Þetta hefur maður lært síðan maður sleppti hrokanum en ég hélt áður að ég væri ósigrandi. Ástin er kraftmesta afl jarðarinnar og það sem límir lífið saman einhvern veginn. Auðvitað er ást mikilvægt hráefni til þess að búa til börn og það er mikilvægt að ala þau upp saman í ást og kærleika. Við værum með fullkomið þjóðfélag ef öll börn myndu alast upp í algerri ást og kærleika.“

Frosti Logason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -