Fullur þakklætis fyrir heilsuna og lífið

Deila

- Auglýsing -

Ólafur Stephensen missti systur sína úr krabbameini fyrir einu og hálfu ári. Þremur mánuðum eftir að Þóra systir hans lést lenti Ólafur í hjólreiðaslysi, reyndar á afmælisdegi hennar, og hefur síðan farið í hverja aðgerðina á fætur annarri til að ná fullri hreyfigetu á ný. Hver voru tildrög slyssins?

„Á einum af þeim fáu fallegu dögum sem við fengum á höfuðborgarsvæðinu í fyrrasumar vöknuðum við Ragnheiður eldsnemma og ákváðum að nýta morguninn til að fara í hjólatúr,“ segir Ólafur. „Verandi gamall antisportisti lærði ég ekki að hjóla fyrr en ég var tuttugu og átta ára gamall en hef dálítið hjólað síðan. Eftir að ég kynntist Ragnheiði, sem er dálítið hjólaóð, keypti ég mér fjallahjól og fékk svo lánað racer-hjól hjá félaga mínum. Var búinn að prófa það á hjólastígum innanbæjar í einhverja daga og fannst það ógurlega gaman þannig að ég var mjög spenntur fyrir því að hjóla Nesjavallaveginn þennan dag. Þegar við vorum á leiðinni til baka var ég kominn á milli 30 og 40 kílómetra hraða, þegar ég lenti með framdekkið í sprungu á veginum. Síðan tók við lausamöl þegar ég var að reyna að ná jafnvæginu aftur og svo bara man ég ekki meira. Ég flaug af hjólinu og steinrotaðist þannig að þegar Ragnheiður kom að mér andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður, en ég slapp með höfuðhögg og svolítið af beinbrotum.

Viðbeinsbrotið var erfiðast viðureignar en afleiðingarnar af höfuðhögginu voru þær að ég sá tvöfalt til að byrja með. Það gekk yfir á nokkrum vikum og mér var sagt að það væri ekkert óalgengt eftir heilahristing. Ég var frá vinnu í þrjár vikur en skrönglaðist svo af stað aftur og fór kannski of geyst, ég veit það ekki.

„Þegar Ragnheiður kom að mér andaði ég eitthvað lítið og hægra viðbeinið stóð út í jakkann minn, ég var sem sagt með opið beinbrot í öxlinni. Ef ég hefði ekki verið með hjálm væri ég náttúrlega steindauður.“

Viðbeinið var skrúfað saman með stálplötu en sú viðgerð hélt ekki, þannig að ég þurfti að fara í annan uppskurð í desember þar sem sett var í mig veigameiri stálplata. Hún var svo tekin úr mér aftur núna í maí með þriðju skurðaðgerðinni og síðan er ég búinn að vera að reyna að koma mér aftur í form. Ég hef líka verið duglegur að synda og á tímabili vakti ég mikla athygli og fólk gaf sig gjarnan á tal við mig í Laugardalslauginni af því að ég synti bara með annarri hendinni. Nú er ég farinn að geta gert flest sem ég gat fyrir ári. Áhuginn á hjólreiðum hefur þó heldur dalað, ég er búinn að fara í einn hjólatúr í sumar, nokkurn veginn réttu ári eftir að ég datt, og ég verð að viðurkenna að fyrstu kílómetrana var ég bara skíthræddur en það rjátlaðist sem betur fer af mér. En ég hugsa að ég fari voðalega varlega í hjólreiðunum hér eftir. Ég hjólaði í vinnuna einn daginn og tók tímann á mér og niðurstaðan var sú að ég hjóla hægar en ég hleyp, þannig að þú sérð að ég fer óskaplega varlega til að byrja með.“

Ólafur viðurkennir að síðasta eina og hálfa árið hafi verið ansi erfitt en segist hafa tekist á við það sem upp á hefur komið með því að ræða öll mál við sína nánustu. Þessi reynsla hafi þó að ýmsu leyti breytt lífssýn hans.

„Fyrst og fremst finnst manni líf og heilsa ekkert sjálfsagðir hlutir lengur,“ segir hann hugsi. „Ég var mjög heppinn að slasa mig ekki verr í þessari byltu og er líka heppinn að vera laus við alls kyns illvíga sjúkdóma sem fólk er að glíma við allt í kringum mann. Þannig að í rauninni hefur þetta fyllt mig af þakklæti fyrir heilsuna, lífið og það sem ég hef og ég tek hlutunum síður sem sjálfsögðum.“

Mynd / Unnur Magna

- Advertisement -

Athugasemdir