Gaman að vera hluti af Marvel-fjölskyldunni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir las aldrei myndasögur í æsku en í dag vinnur hún að hverri ofurhetjumyndinni á fætur annarri í Hollywood; nú síðast að stórvirkinu Avengers: Endgame sem er aðsóknarmesta kvikmyndin í íslenskum bíóhúsum um þessar mundir og malar gull um allan heim.

Avengers: Endgame er framhaldsmynd Avengers: Infinity War og hálfgerður lokakafli í Marvel-myndabálkinum, þar sem hún hnýtir ýmsa lausa enda. Förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir, sem hefur verið að gera það gott í Hollywood, kom að gerð hennar en hún sá um förðun leikarans Paul Rudd sem fer með hlutverk Mauramannsins geðþekka (Ant-Man) í myndinni. Þegar blaðamaður nær tali af Hebu byrjum við einmitt á því að tala um það, þ.e.a.s. hvernig hafi verið að vinna með stórstjörnu á borð við Rudd.

Heba sá um förðun leikarans Paul Rudd bæði í Ant-Man og Avengers- myndunum.

„Við Paul höfum unnið saman nokkrum sinnum; Fyrst við gerð Ant-Man árið 2015, svo að þessum tveimur Avengers-myndum og loks Ant-Man and the Wasp og þótt hann geti verið smágrallari, sérstaklega þegar hann er á setti með Payton Reed, leikstjóra Ant-Man-myndanna, þá er hann algjört ljúfmenni og einstaklega þægilegur í samstarfi. Giftur tveggja barna faðir á beinu brautinni, þannig að maður þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að hann sé að mæta í förðunarstólinn illa fyrirkallaður eftir djamm.“

„Ég fékk gæsahúð við að sjá alla þessa stórleikara samankomna á einum stað, ásamt Kevin Feige, og forstjóra Marvel og Stan Lee, skapara allra þessara hetja. Það var pinku súrreallískt.“

Heba segir að það sama gildi um aðra leikara sem hún hafi unnið með eða hitt í tengslum við gerð Marvel-myndanna, allt sé þetta hið geðþekkasta fólk. Hvort sem það er Samuel Jackson eða Scarlett Johansson sem hún hefur oft unnið með áður eða Robert Downey Jr. Spurð hvernig sé eiginlega að vera á setti innan um svona heimsþekkta leikara, segist hún sjaldnast kippa sér upp við það núorðið. Það hafi þó komið fyrir alla vega tvisvar sinnum á meðan tökum þessara mynda stóð að hún fékk stjörnur í augun. Það hafi gerst þegar leikkonan Michelle Pfeiffer, sem hefur haldið sig svolítið fjarri sviðsljósinu síðustu ár, mætti í tökur og eins þegar allur stjörnuleikarahópur Marvel safnaðist saman fyrir stóra hópmyndatöku í tengslum við 10 ára kvikmyndafmæli Marvel-myndanna.

„Fæstir sem unnu að myndunum fengu að sjá handritin. Við fengum bara reglulega afhent rafræn minnisblöð með útlistun á senum næsta dags og maður hafði bara nokkra klukkutíma til að leggja þau á minnið áður en þau hurfu af skjánum,“ segir Heba, um gerð myndanna Avengers: Infinity War og Endgame, en sú síðarnefnda er aðsóknarmesta kvikmyndin í íslenskum bíóhúsum um þessar mundir.

„Í síðarnefnda tilvikinu farðaði ég Paul Rudd, Hannah Kamen-Johnson og Tom Holland fyrir tökuna og fékk gæsahúð við að sjá alla þessa stórleikara samankomna á einum stað, ásamt Kevin Feige, forstjóra Marvel, og Stan Lee, skapara allra þessara hetja. Það var pinku súrreallískt,“ játar hún. Maður upplifir svolítið eins og þetta sé orðin hálfgerð fjölskylda þarna hjá Marvel, er það rétt? „Það er náttúrlega mikið af sama fólkinu í öllum myndunum, þannig að já, það er alveg rétt hjá þér. Það má alveg segja að þetta sé orðin stórfjölskylda,“ segir hún.

Fjórar Marvel-myndir á einu bretti
Þegar Heba er innt út í það hvernig það hafi heilt yfir verið að vinna að stórvirki eins og Avengers: Endgame, segir hún það hafa verið gaman en krefjandi líka og þá aðallega vegna þess hversu mikli leynd hvíldi yfir gerð myndarinnar.

„Málið er að Infinity Wars og Endgame voru teknar upp samtímis í Atlanta undir einu nafni, Mary Lou og það tók heilt ár. Það sem meira er, fæstir sem unnu að myndunum fengu að sjá handritin. Við fengum bara reglulega afhent rafræn minnisblöð með útlistun á senum næsta dags og maður hafði bara nokkra klukkutíma til að leggja þau á minnið áður en þau hurfu af skjánum. Þannig að við vissum því í raun aldrei að hvorri myndinni við vorum að vinna hverju sinni, sem varð til þess að stundum var svolítið erfitt að átta sig á hvað væri að gerast í sögunni. Maður varð bara að vona að förðunin væri í samræmi við senurnar, sem gat skiljanlega stundum verið svolítið áskorun,“ útskýrir hún og hlær.

Förðunarmeistarinn Heba Þórisdóttir. Mynd / Arnold Björnsson

Hún segir að málið hafi svo flækst enn frekar þegar hún var að auki beðin um að vinna að tveimur öðrum Marvel-myndum sem voru í tökum á svipuðum tíma, þ.e. Captain Marvel og Ant-Man and the Wasp. Á tímabili hafi hún því verið á hálfgerðu flakki á milli mynda en áralöng reynsla úr bransanum hafi auðveldað henni verkið. „Svo hafði ég nú unnið áður með leikstjórum Avengers: Infinity War og Endgame, bræðrunum Anthony og Joe Russo og framleiðandanum Michael Grillo að Captain America: Winter Soldier og þekkti þar af leiðandi til þeirra vinnubragða sem hjálpaði líka.“

Þekkti bara Andrés önd
Það er auðheyrilegt að vinna förðunarmeistarans fer ekki eingöngu fram á setti. Oft liggur líka mikil heimildavinna að baki, eins og í tilviki Marvel-myndanna þar sem Heba hefur þurft að kynna sér sögurnar vel en hún viðurkennir að hafa ekki þekkt mikið til slíkra sagna þegar hún kom að sinni fyrstu Marvel-mynd, The Avengers, árið 2012.

„Captain Marvel. Mér fannst hrikalega gaman að vinna að þeirri mynd,“ segir hún. „Meðal annars af því að við vorum búin að bíða svo lengi eftir mynd um kvenhetju frá Marvel.

„Nei, enda las ég satt best að segja aldrei myndasögur á mínum yngri árum, nema þá kannski einna helst Andrés önd, sem ég fékk að glugga í hjá systur hennar ömmu. Þegar ég las handritið að The Avengers í fyrsta sinn skildi ég til dæmis ekkert í því af hverju hetjurnar hétu allar tveimur nöfnum, Hulk / Bruce Banner, Iron Man / Tony Stark og svo framvegis, botnaði hvorki upp né niður í því,“ rifjar hún upp hlæjandi. Í dag sé hún mun betur að sér í þessu öllu saman og segist bara hafa nokkuð gaman af myndunum. „Mér fannst til dæmis Avengers: Endgame mjög skemmtileg,“ segir hún. „Allir leikararnir fengu að baða sig í sviðsljósinu í smástund og ég er ánægð og fegin yfir því að myndin skuli ekki hafa endað sem einn langur bardagi.“

Captein Marvel er upphálds Marvel-mynd Hebu, en hún hafði umsjón með förðun aðalleikkonunnar, Brie Larson, og þar fyrir utan stýrði hún að miklu leyti förðunardeildinni fyrir myndina.

Kveið fyrir viðbrögðum aðdáendanna
Þetta er nú orðinn langur listi af Marvel-myndum sem þú hefur unnið að, er einhver þeirra í sérstöku uppáhaldi? „Captain Marvel,“ svarar Heba hiklaust. „Mér fannst hrikalega gaman að vinna að þeirri mynd,“ segir hún. „Meðal annars af því að við vorum búin að bíða svo lengi eftir mynd um kvenhetju frá Marvel. Brie Larson, sem fer með aðalhlutverkið, valdi mig sem förðunarmeistara sem var líka ánægjulegt og þar fyrir utan stýrði ég að miklu leyti förðunardeildinni fyrir myndina.“ Hún játar að það hafi verið svolítil áskorun að ákveða hvernig söguhetjan Captain Marvel ætti að líta út, bæði af því að hún sé sýnd á ólíkum aldri í myndinni, sem gerði að verkum að samræma þurfti útlit hennar og svo séu til alls konar útgáfur af henni í blöðunum. „En eftir að hafa lesið mér aðeins til um þessa persónu, sem elst upp við mótlæti, þarf að vinna enn harðari höndum að því að sanna sig af því að hún er kona og fer eigin leiðir þá fór ég að horfa svolítið til kvenfrumkvöðla í tónlist eins og Stevie Nicks, Chrissie Hynde og Patti Smith. Ég vildi að stelpur sem sæju myndina gætu samsamað sig og tekið sér til fyrirmyndar þessa kvenhetju sem getur allt og útkoman varð því svona aðeins rokkaður uppreisnarseggur,“ lýsir hún og kveðst hafa beðið með öndina í hálsinum eftir viðbrögðum aðdáenda myndasagnanna, því þarna hafi þessi útgáfa hetjunnar verið að birtast í fyrsta sinn á hvíta tjaldinu. „Og sem betur fer var henni nú bara tekið nokkuð vel,“ segir hún fegin.

Heba hefur unnið að hverri myndinni á eftir annarri úr smiðju Marvel, en í sumar hoppar hún yfir til myndasögufyrirtækisins DC þar sem hún mun vinna að Suicide Squad 2.

Margt spennandi á döfinni
Heba er önnum kafin kona og þar sem ég heyri á henni að tíminn er alveg að hlaupa frá okkur, ákveð ég að nota tækifærði og spyrja í lokin hvort einhver spennandi verkefni séu á döfinni – til dæmis fleiri ofurhetjumyndir. „Næst á dagskrá er nú bara að skjótast aðeins til að Cannes til að vera viðstödd nýjustu mynd Quentins Tarantino, Once Upon A Time In Hollywood, en ég hafði yfirumsjón með förðuninni í þeirri mynd. Og jú, talandi um ofurhetjumyndir, þá er ég sem sagt í sumar að fara að stýra förðunardeildinni fyrir Suicide Squad 2, myndar í leikstjórn James Gunn og með Idris Alba og Margot Robbie í aðalhlutverkum. Sem sagt, hoppa frá Marvel og yfir til DC,“ segir hún létt í bragði.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira