2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Ganga flóttafólks verður að pólitísku hitamáli

Á bilinu fimm til sjö þúsund flóttamenn frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras og El Salvador stefna í átt að suðurhluta landamæra Bandaríkjanna þar sem þeir freista þess að hefja nýtt og betra líf. Fólkið sem ferðast ýmist fótgangandi eða í rútum er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu en flestir flóttamannanna koma frá Hondúras þar sem morðtíðni er sú hæsta í heimi.

Hópgöngur sem þessar eru tíðar en þetta er sú fjölmennasta til þessa og sú sem vakið hefur langmesta athygli fjölmiðla vestanhafs. Þar spilar tímasetningin lykilhlutverk því innan við tvær vikur eru til þingkosninga í Bandaríkjunum og ferðalag flóttafólksins er orðið eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni. Þar hefur forsetinn Donald Trump farið fremstur í flokki. Hann hefur hótað því að koma hernum fyrir á landamærunum við Mexíkó sem og að skera á efnahagsaðstoð við Mið-Ameríkuríkin þrjú.

sdfklsda

Leggja á sig 4.000 kílómetra ferðalag
Göngurnar nefnast á ensku „caravan“ og eiga uppruna sinn í því að grasrótarsamtök hvöttu flóttamenn sem leita til Bandaríkjanna til að ferðast í hópum enda leiðin löng og hættur á hverju strái. 160 flóttamenn lögðu af stað frá San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras, þann 13. október en fljótlega bættist í hópinn sem taldi 5000 manns þegar komið var að Tecún Umán í Gvatemala, stór hluti þeirra konur og börn. Þaðan freistuðu flóttamennirnir þess að komast yfir landamærin til Mexíkó og kom til átaka á landamærunum en stjórnvöld í Mexíkó gátu þó ekki komið í veg fyrir að þúsundir manna kæmust yfir landamærin þar sem þau söfnuðust saman í borginni Tapachula. Þaðan var haldið norður á bóginn á mánudaginn.

Beita ríki Mið-Ameríku þvingunum
Bandaríkjastjórn hefur gert hvað hún getur til að hefta för fólksins. Þeim skilaboðum var komið áleiðis að ef ríkisstjórnir landanna þriggja stöðvuðu ekki fólkið yrði því svarað af hörku. Þegar hópurinn var kominn til Mexíkó lýsti Trump því yfir að efnahagsaðstoð til landanna þriggja yrði skorin niður en Bandaríkin veittu samtals yfir hálfum milljarði króna í efnahagsaðstoð til þeirra í fyrra. Þá hafa Bandaríkin beitt Mexíkó miklum þrýstingi vegna málsins en tilraunir til að stemma stigu við straumnum hafa litlu skilað.

AUGLÝSING


Vatn á myllu Trumps?
Donald Trump hefur notað málið til að kveikja í stuðningsmönnum sínum fyrir þingkosningarnar þann 6. nóvember. Hann segir fólkið ógn við þjóðaröryggi og hefur sagst ætla að senda herinn að landamærunum að Mexíkó þótt hann þurfi til þess stuðning þingsins. Sömuleiðis segir hann þetta sýna mikilvægi þess að repúblíkanar verði áfram við stjórn í báðum deildum þingsins og fjölmargir frambjóðendur Repúblíkanaflokksins hafa tekið undir þennan málflutning Trumps.

Hverfandi líkur á hæli
Óvíst er hversu margir muni ná að bandarísku landamærunum en ljóst er að fæstir munu fá draum sinn uppfylltan. Í síðustu göngu af þessu tagi sem farin var í mars héldu 700 flóttamenn af stað frá Hondúras og taldi gangan 1.200 manns þegar mest var en ekki nema um 228 komust svo langt að sækja um hæli. Ellefu voru handteknir fyrir að reyna að komast ólöglega yfir landamærin. Lögum samkvæmt ber bandarískum stjórnvöldum að veita fólkinu málsmeðferð en tölfræðin sýnir að í langflestum tilvikum er umsókn þess hafnað.

Fleyg ummæli
„Gvatemala, Hondúras og El Salvador gátu ekki komið í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið þeirra og kæmi ólöglega inn í Bandaríkin. Við munum nú byrja að stöðva, eða skera verulega niður, þá miklu efnahagsaðstoð sem við höfum veitt þeim.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is