Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Garðari bjargað á seinustu stundu þegar Krossnes fórst: „Hann átti aðeins örfáar mínútur ólifaðar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar brotnar bylgjan þunga, brimið heyrist yfir fjöll, þegar hendir sorg við sjóinn, syrgir, tregar þjóðin öll, vertu ljós og leiðarstjarna“, skrifaði Halldór Finnsson í minningarorðum um menninasem fórust þegar togarinn Krossnes SH fórst á Halamiðum.

Allir fóru til hjálpar

Það var um klukkan 8 að morgni sunnudagsins 23. febrúar 1992 að neyðarkall barst frá togaranum Krossnesi þar sem þeir segjast vera komnir á hliðina. Öll nálæg skip hífðu strax upp veiðarfæri og héldu til hjálpar hinu nauðstadda skipi. Örfáum mínútum eftir að neyðarkallið barst hvarf Krossnes af ratsjá. Sléttanes ÍS var eitt þeirra skipa sem næst voru slysstaðnum, aðeins um eina sjómílu frá Krossnesi.

Við neyðarkallið var strax unnið samkvæmt neyðarplani um borð í Sléttanesi. Stýrimaður sem var á vakt í brúnni ræsti þegar út alla áhöfnina og gaf út skipun um að gert yrði klárt til björgunar mannanna.

„Hann var greinilega langt leiddur“

Reynir Traustason var þá fyrsti stýrimaður um borð í Sléttanesi og á vakt í brúnni þennan örlagaríka morgun. Hann sagði síðar í viðtali við Morgunblaðið að Það hafi ráðið úrslitum að allir gerðu rétt á þessari stundu.

- Auglýsing -

„Ég rauk í spilið og hífði í einum grænum hvelli. Bað strákana að vera fljótir að afgreiða þetta því að skip væri að sökkva við hliðina á okkur. Öll áhöfnin var sett í stöðu samkvæmt neyðarplani. Kokkurinn settur í að hita kakó eins og gert er ráð fyrir. Þegar búið er að ná mönnunum upp verður að hita þá strax upp með öllum ráðum,“ sagði Reynir.

Stýrimaðurinn var uppi í brú ásamt Steinari Jónassyni vélstjóra sem var á útkikki. Fljótlega sáu þeir á Sléttanesi neyðarblys frá tveimur gúmmíbjörgunarbátum og komu samtímis að með togaranum Guðbjörgu. Steinar vélstjóri kallaði upp yfir sig að hann sæi mann í sjónum. Skipið var stöðvað. „Í því sáum við glitta í tvo flotgalla í sjónum. Sá sem við komum fyrst að var opinn og tómur. Þegar við komum að hinum sáum við að maður var í honum. Við kölluðum en fengum lítil viðbrögð. Hann var greinilega langt leiddur.”

Kastaði sér fyrir borð

- Auglýsing -

Á því augnabliki kastaði Bergþór Gunnlaugsson, annar stýrimaður, sér fyrir borð í flotgalla og með líflínu til að bjarga manninum. „Hann tók hárrétta ákvörðun á hárréttu augnabliki og það held ég að hafi orðið þessum manni til lífs því ég held að hann hafi ekki átt nema örfáar mínútur ólifaðar þegar hann kom hér um borð. Það var mikill veltingur og hann setti sig í stórhættu,“ sagði Reynir síðar. Halldór Lárus Sigurðsson bátsmaður fylgdi svo á eftir Bergþóri í sjóinn og sameiginlega tókst þeim að koma Garðari í Markúsarnet og hann var hífður um borð.

Maðurinn sem bjargað var um borð í Sléttanes, ,Garðar Gunnarsson, átti að baki áratugaferil sem sjómaður og skipstjórnarmaður. Talið er að hann hafi verið hálftíma í fimm gráða köldum sjónum áður skipverjar  af Sléttanesi björguðu honum með líftaug og Markúsarneti.

„Mér finnst það ótrúlegt þrek hjá svona gömlum manni að lifa þetta af. Við sáum það allir sem tókum við honum að hann var á mörkum lífs og dauða þegar hann kom um borð. Hann var alveg máttlaus, náfölur og við héldum á tímabili að hann væri farinn“.

Níu bjargað

Garðar, sem hafði rétt fyrir slysið farið í hjartaþræðingu, reyndist fótbrotinn þegar hann kom um borð. Björgunarbáturinn Daníel Sigmundsson fór með lækni frá Ísafirði til móts við Sléttanesið. Þegar þeir mættust við utanvert Djúpið var það slæmt í sjóinn að ekki var talið ráðlegt að flytja lækninn milli skipanna. Björgunarbáturinn sigldi því með Sléttanesinu til Bolungarvíkur og þar fór læknirinn um borð og bjó um hann til flutnings á sjúkrahúsið á Ísafirði. Hann fór síðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur síðdegis á sunnudaginn og gekkst undir aðgerð á Landakotsspítala.

Bergþór og félagar hans unnu mikið afrek með björgun Garðars og var það það meðal annars þakkað björgunaræfingum sem skylda er að gera einu sinni á ári um borð í skipum.

Alls var níu mönnum bjargað af Krossnesinu þennan dag en þeir Gísli Árnason, Hans Guðni Friðjónsson og Sigmundur Elíasson fórust.

Garðar Gunnarsson lést í september, árið 2000, rúmum átta árum eftir slysið.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -