Mánudagur 22. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Geir Ólafsson: „Þunglyndi og kvíði er bara ömurlegur sjúkdómur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við erum með tvö lög sem þeir hafa áhuga á að gefa út í Kólumbíu fyrir kólumbínskan markað og við unnum þau hérna í Kólumbíu. Þessi tónlist hefur fengið góða dóma og menn eru hrifnir af þessu og kveikja á perunni varðandi það að þetta gæti náð langt. Ég ætlast ekki til neins og er miklu frekar að vinna þetta af ástríðu heldur en einhverri hugmyndafræði um það hvað þetta gæti verið; þetta verður bara það sem verður,“ segir Geir Ólafsson sem flutti fyrr á þessu ári til Kólumbíu ásamt kólumbískri eiginkonu sinni, Adriana Patricia Sanchez Krieger, og sex ára gamalli dóttur þeirra, Önnu Rós.

Geir samdi annnað lagið, She’s My Whole World, sem er tileiknað Adriana. Textinn er eftir Terry Knudsen. Richard Scobie samdi hitti lagið, All That I Wish For, og er textinn einnig eftir hann. Lögin eru fleiri og koma þau öll síðar út á geisladiski. „Það eru bara þessi tvö lög sem við erum að leggja áherslu á hér.“ Hér á Íslandi er Geir í samvinnu við Óttar Felix Hauksson. „Ég er mjög ánægður og stoltur yfir því verkefni. Ég er stoltur yfir því að ég sé að koma með músík eftir mig sjálfan og að hún sé að fá góða dóma. Mér finnst það bara ótrúlega magnað.“

Upptökustjórinn fyrrnefndu laganna tveggja er Harbey Marin Martinez sem hlotið hefur Grammy-verðlaun í Suður-Ameríku og voru lögin hljóðblönduð þar. Önnur lög voru tekin upp á Íslandi og var upptökustjórinn Vilhjálmur Guðjónsson. Undirleikurinn var tekinn upp í Los Angeles.

Geir Ólafsson

 

Ég er með algjörlega heimsklassa hljóðfæraleikara.

Það er fleira fram undan hjá Geir en í desember heldur hann sína árlegu jólatónleika hér á landi, Las Vegas Christmas Show, sem haldnir verða í Gamla Bíói 1., 2., 3. og 4. desember. Þetta verður sjöunda árið í röð sem tónleikarnir verða haldnir. Don Randi, sem starfað hefur með stórstjörnum í Bandaríkjunum svo sem Frank Sinatra og Barbara Streisand, mætir enn eitt árið með stórsveit sína. „Þarna verður þriggja rétta galadinner, rosalega flott skreyttur salur og heimsklassa hljóðfæraleikarar. Þetta er orðið svakalega rútínerað og ég er með frábært fólk. Ég er með algjörlega heimsklassa hljóðfæraleikara. Ég er með Vilhjálm Guðjónsson, Þóri Baldursson, Birgi Nielsen, Heimi Inga Guðmundsson og Ástvald Þrastason og svo er ég með sjö gæja frá Ameríku. Þetta er náttúrlega svakalegt band. Þetta er æðislegt band. Þessu fylgir mikil vinna og yfirlega. Ég er ekki með nein stórfyrirtæki sem kaupa 500 miða. Ég þarf að hafa fyrir þessu sjálfur og ég er bara ánægður með það. Og orðið á götunni um þessa sýningu er gott og ég hef heyrt fólk sem hefur farið á sýninguna segja að það vilji fara aftur. Þetta er aldrei eins. Við erum aldrei með sömu músíkina nema að litlum hluta af því að það eru ákveðin lög sem ganga alltaf vel í fólk. Það er gaman að vinna með Don Randi sem spilaði inn á allt hjá The Beach Boys, Elvis Presley og Frank Sinatra. Fólk gerir sér ekkert grein fyrir því þegar það mætir hverjir eru á sviðinu að spila fyrir það. Þetta er ótrúlega gaman.“ Hér má sjá viðburðinn.

- Auglýsing -

Geir Ólafsson

Geir segir að tónlistin sé Guðs gjöf. „Þegar maður er í tónlist þá verður maður að þakka Guði fyrir þessa frábæru gjöf og þakka honum fyrir að hafa gefið sér hæfileika til þess að geta sinnt henni.“

 

- Auglýsing -

Kom að lokuðum dyrum

Geir flutti tímabundið til Kólumbíu ásamt fjölskyldu sinni fyrr á þessu ári þar sem eiginkona hans fékk ekki starf við hæfi á Íslandi þar sem þau bjuggu saman um árabil en Adriana sagði sögu sína í viðtali við Mannlíf fyrr á þessu ári. Þar segir meðal annars: „Mér var sagt að hér á landi fengi fólk frá heimalandi mínu vinnu við þrif eða við að gæta barna,“ segir Adriana Patricia Sanchez Krieger, efnahags- og markaðsfræðingur, um reynslu sína af því að fara í atvinnuviðtal hjá ráðgjafafyrirtæki sem var eitt það stærsta hér á landi en hún vildi fá starf miðað við menntun sína og reynslu hér á landi; þess má geta að hún stundaði háskólanám í heimalandi sínu, Kólumbíu, og einnig í Mexíkó og Bandaríkjunum. Hún hafði áður komið að lokuðum dyrum hjá stórfyrirtækjum hér á landi eftir að hafa farið í fjölda atvinnuviðtala.“

Adriana er með margra ára reynslu úr alþjóðlegum viðskiptaheimi og vann til dæmis sem yfirmaður markaðsmála hjá Santander-bankanum bæði í Suður-Ameríku og á Spáni. Hún gafst upp á atvinnuleitinni á Íslandi og fékk í fyrra starf sem framkvæmdastjóri markaðsmála hjá VISA í fjórum löndum í Suður-Ameríku og býr fjölskyldan nú í Bogotá. Geir nefnir að yfirmenn VISA á alþjoðavísu hafi valið Adriana ásamt fleirum til að fara á vegum VISA til Katar síðar á þessu ári þegar heimsmeistaramótið í fótbolta verður haldið þar en VISA er aðalstyrktaraðili þess.

Ég skammast mín fyrir móttökurnar sem hún fékk á Íslandi.

„Þetta er fyrir neðan allar hellur í samfélagi okkar,“ segir Geir um móttöku íslenskra atvinnurekenda þegar Adriana sótti um fjölda starfa hér á landi. „Það er fullt af fólki sem hefur ótrúlega hæfileika sem getur látið samfélag okkar blómstra enn meira en fær ekki tækifæri til þess vegna þess að það eru einhverjir aðilar með minnimáttarkennd í einhverjum stöðum sem geta komið í veg fyrir það. Þetta gengur ekki. Adriana er heimsþekkt í sínu starfi fyrir dugnað og fyrir það að vera frjó í starfi og hugsun. Það fer ekkert nema gott orð af henni. Hún er vel metin í öllum löndum í Suður-Ameríku sem eru hjá VISA. Öllum. Ég skammast mín fyrir móttökurnar sem hún fékk á Íslandi; að þetta skuli vera til í mínu samfélagi. Í landi sem ég hef alla tíð elskað og virt; að það skuli taka þátt í svona. Að þetta skuli vera til í okkur.“

Geir segir að ástæðuna megi rekja til fámennisins á Íslandi. „Við erum í sjálfu sér ekki þjóðfélag. Við erum ættbálkur og það sést bara best á því hvernig við störfum og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á Íslandi. Ef við ætlum að vera þjóðfélag þá þurfum við að koma með nýja stjórnarskrá og við þurfum að fara að segja skilið við eitthvað sem við erum búin að venja okkur á og temja okkur í gegnum áratugi og aldir. Við þurfum samfélag sem fúnkerar og segja skilið við ættbálkana. Og fólkið í landinu á að eiga landið en ekki einhverjir örfáir aðilar sem eru gjörsamlega að eyðileggja allt fyrir öllum.“

Ísland er í framtíðarplönum okkar sem fjölskyldu.

Geir segir að fjölskyldan sé ekki alflutt frá Íslandi. „Við verðum hérna í smátíma og ég fer náttúrlega fram og til baka. En við tökum bara einn dag í einu. Við eigum íbúðina okkar á Íslandi og Ísland er í framtíðarplönum okkar sem fjölskyldu. Yfirmenn VISA vilja nú helst að fólk vinni heima og mæti á skrifstofuna kannski tvisvar í viku. Adriana var tjáð um daginn að hún mætti vinna hvar sem hún byggi en akkúrat í augnablikinu er hún að vinna að ákveðnu verkefni sem felur í sér að hún þarf að ferðast á milli Kólumbíu og annarra landa í Suður-Ameríku og þar af leiðandi ákváðum við að hún myndi vera hér á meðan þetta varir.“

Geir Ólafsson

Fatlaðir að betla

Talið berst að fátæktinni í Kólumbíu.

„Hjón með lítið barn stóðu nýlega fyrir utan húsið sem við búum í og kallaði maðurinn að hann þyrfti hjálp vegna þess að þau ættu ekki heimili, væru fátæk og ættu lítið barn sem þyrfti að fá að borða. Hann kallaði að þau þyrftu að sofa einhvers staðar um nóttina.“

Þögn.

„Það eru svona hlutir sem eru til og þetta sér maður hérna því miður. Þegar maður er að keyra og stoppar á rauðu ljósi þá koma til dæmis rosalega færir listamenn og sýna list sína og afla sér þannig tekna og svo kemur fólk sem er blint, er í hjólastól eða sem vantar hendurnar á; þetta er náttúrlega ógeðslegt og það er ömurlegt að vita að þetta sé í samfélögum hvort sem það er hér eða einhvers staðar annars staðar.“

Geir segir að þrátt fyrir ástandið í landinu sé læknisþjónusta almennt góð í Kólumbíu og að hún sé í 22. sæti yfir bestu heilbrigðiskerfi í heiminum. „Hérna eru frábærir læknar og hjúkrunarfólk alveg eins og heima en hérna er prótókól í kringum það sem virkar miklu betur. Ég fór í flensusprautu um daginn og þurfti ekki að borga krónu fyrir það vegna þess að það er almannaheill að fólki líði vel. Og þetta er hvatning fyrir það að mæta í bólusetningu til þess að koma í veg fyrir að fólk veikist.“

Það eru spítalar fyrir börn fátæklinga.

Geir segir að þetta bjóðist öllum landsmönnum. „Fátækt fólk getur allt leitað til læknis og fengið heilbrigðishjálp án þess að borga krónu fyrir það. Það eru spítalar fyrir börn fátæklinga. Það er allt hér. Það er hugsað fyrir öllu.“

Hvað hefur Geir lært af því að búa í Kólumbíu? „Ég hef lært það hvað við megum vera þakklát á Íslandi fyrir margt. Hér eru hlutir sem þú myndir aldrei sjá á Íslandi og Íslendingar hafa ekki hugmynd um; hér er handalaust fólk að biðja um pening og fólk sem á ekki skó. Það er ekkert kerfi hér til að taka við fólki; það þarf að bjarga sér sjálft. Ísland gæti verið paradís á jörðu. Ísland gæti verið flottasta land í heimi. En það er langt frá því að svo sé. Hugsunarháttur okkar er þess eðlis. Hann er ættbálkslegur. Hann er ekki þjóðernislegur. Það er vandamálið.“

 

Kvíðastillandi og jafnvel róandi

Fyrir utan flensusprautuna hefur Geir þurft að nýta sér heilbrigðiskerfið í Kólumbíu en hann hefur í mörg ár þjáðst af miklum kvíða.

„Ég hef verið heppinn af því að ég hef verið með gott bakland en það eru ekki allir sem hafa það. Og ég hef verið heppinn að hafa kynnst góðum lækni sem heitir Ólafur þór Ævarsson; þú mátt nafngreina hann af því að hann er frábær læknir og hann er búinn að hjálpa mér og gera mig í raun og veru að því sem ég er í dag.

Ég sagði einhvern tímann að það sé eitt að vera kvíðinn í tengslum við það að fara að gera eitthvað þegar fólk veit hvað það er að fara að gera en það er ekkert hægt að gera þegar maður er með sjúklegan kvíða sem er líkamlegur og andlegur og hann hellist yfir mann og maður getur ekki tengt hann við neitt. Það er miklu erfiðara. Þunglyndi og kvíði er bara ömurlegur sjúkdómur og það er ömurlegt að vita til þess að fólk skuli vera að þjást af þessu.“

Þunglyndið. „Auðvitað verður maður deprímeraður þegar maður fær þetta. Ég verð aldrei reiður eða skapbráður; ég læt þetta ekki bitna á fjölskyldunni minni. Ég þarf bara að leggjast út af, hvíla mig og slaka á. En ég get ekki gert neitt á meðan. Það versta við þetta er að þetta er að gerast allt of oft.“

Fólk á ekki að hafa skoðanir á einhverju sem það þekkir ekki.

Kvíðinn og þunglyndið hafa jú áhrif á lífsgæði Geirs. Mikil áhrif. „Þetta er bara erfitt. Og þetta er mjög misjafnt eftir fólki. Þannig að það skal enginn gera lítið úr þessu því þeir sem þekkja þetta vita hvað þetta er en þeir sem þekkja þetta ekki eiga bara að hafa hljótt því þeir vita ekki hvað þetta er. Þannig að fólk á ekki að hafa skoðanir á einhverju sem það þekkir ekki. Það á ekki að hafa skoðanir á fólki sem það þekkir ekki eða hafa fyrir fram ákveðnar skoðanir. Það er svo mikil tímasóun að eyða tímanum sínum í það til dæmis að tala um annað fólk.“

Geir segir að það hjálpi sér að vera mjög upptekinn. „Það breytir þó ekki því að ég get fengið kvíðakast þótt ég sé að spila á píanó.“

Ég hef hringt á sjúkrabíl af því að mér hefur liðið svo illa.

Hann tekur kvíðastillandi lyf og hann hefur reglulega þurft að taka róandi lyf. „Kvíðinn hefur þá verið svo mikill að ég hef ekki ráðið við mig. Ég hef hringt á sjúkrabíl af því að mér hefur liðið svo illa. Þetta er rosalegt. Það sem hjálpar mér mest er að ég er aldrei upp á kant við neinn. Ég eyði ekki tímanum mínum í að tala illa um fólk eða að vera að rífast við fólk. En ég læt ekki vaða yfir mig.“

Geir Ólafsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -