Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Gerður listakona synti ávallt gegn straumnum – Ótrúleg tenging við dulspeki og hið yfirskilvitslega

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Mynd: Gerðasafn

Gerður Helgadóttir (1928–1975) var merkilegur íslenskur myndhöggvari og abstraktlistakona á 20. öld og leikur hún stórt hlutverk í íslenskri listasögu, ekki síst vegna Gerðarsafns sem rekið er í hennar nafni. Gerður barðist gegn samfélagsgerðinni og þeim kynhlutverkum sem konum voru ætluð. Hún helgaði líf sitt alfarið listinni og synti gegn straumnum.

Gerður virðist hafa verið mikið með hugann við himintunglin og hvað sé handan við tunglið, þó svo að það sé misbókstaflega hægt að sjá í verkum hennar. Hún var mikið fyrir dulspeki, en þessi dulspekifræði sem hún kynnti sér og stundaði í mörg ár eru mikið til byggð á stjörnufræði og það endurspeglast talsvert í verkum hennar, bæði í formi og tákni. Hægt er að sjá þessi hvirfilform birtast þar sem þau minna á himingeiminn og hvernig hreyfingin er í himingeimnum.

Iðkaði heilaga dansa
Gerður stundaði hugrækt eftir dulspeki og kenningakerfi G.I. Gurdjieffs og eins og fyrr segir

Dulspekidansar

má sjá margvísleg merki þess í listaverkum hennar. Hún stundaði hugleiðslu og iðkaði heilaga dansa með hópi undir stjórn Madame Jeanne de Salzmann, svissnesks dansara sem var hægri hönd G.I. Gurdjieffs á meðan hann lifði. Heilögu dansarnir sem Gerður iðkaði byggðust á hreyfingu eftir geómetrískum hrynjanda. Í bókinni GERÐUR frá 2010, ritstýrðri af Guðbjörgu Kristjánsdóttur, skrifar J.B.K. Ransu kafla um tengsl Gerðar Helgadóttur við heimsmyndarfræði G.I. Gurdjieffs. Þar skrifar hann: „List Gerðar er óneitanlega margþætt en fyrir mitt leyti er lykillinn fundinn. Hann er dulspekilegs eða yfirskilvitslegs eðlis og verður því alltaf leyndardómsfullur partur af listinni, eitthvað ósnertanlegt og framandlegt.“ Gerður Helgadóttir var fjölhæfur myndlistarmaður en leit fyrst og fremst á sig sem myndhöggvara. Stærstan hluta ævinnar bjó hún og starfaði sem listamaður í París.

Óhefðbundinn og róttækur leiðbeinandi andlegrar visku

Mynd: Gerðasafn

Hver er þessi dulspeki sem Gerður hafði svona mikinn áhuga á og hvernig komst hún í kynni við hana? Árið 1922 fluttist rússneski dulspekingurinn G.I. Gurdjieff frá Georgíu til Frakklands ásamt hópi af nemendum sínum, þar á meðal stærðfræðingnum P.D. Ouspensky og svissneska dansaranum Jeanne de Salzmann, og settust þau að í nágrenni við París.

- Auglýsing -

Gurdjieff þótti óhefðbundinn og róttækur leiðbeinandi andlegrar visku og var brautryðjandi í aðferðum til að miðla henni til hins siðmenntaða manns. Hann var þekktur fyrir að ögra nemendum sínum og beitti óspart því sem kallast „shock treatment“ til að koma fjarhugum aftur til sín sjálfs.

„Fjórða leiðin“ kallaðist kennsluaðferðin hans, en Gurdjieff áleit að þrjár algengustu leiðir manna til að vakna af andlegum svefni hingað til dygðu ekki. Þær leiðir sem höfðu helst átt við nútímamanninn á þessum tíma voru leiðir eins og; fakírsins, munksins og jógans. Gurdjieff taldi þessar þrjár leiðir ekki nægja og því þyrfti fjórðu leiðina sem sameinaði helstu þætti hinna þriggja. Markmiðið var að vinna með þolmörk líkamans, tilbeiðslu og einbeitingu hugans, sem jafnframt sameinaði aðferðarfræði islam, hindúisma, kristni og búddisma.

Þegar Gurdjieff lést í París árið 1949 voru fræði hans þá þegar útbreidd um Evrópu og Bandaríkin. Þetta sama ár fluttist Gerður frá Flórens til Parísar og settist þar að til að sinna listsköpun.

- Auglýsing -

Lykillinn að listsköpun hennar
Í ævisögu Gerðar, ritaðri af Elínu Pálmadóttur, er Gurdjieff tvívegis nefndur á nafn. Í fyrra

Mynd: Gerðasafn

skiptið er það útdráttur úr bréfi Gerðar sem hún sendir föður sínum frá París þar sem hún bendir honum á að lesa bækur eftir Gurdjieff og nemanda hans, Ouspensky, því að í bókunum megi finna lykilinn að því sem hún sé að fást við í sinni listsköpun.

Í seinna skiptið er hann nefndur í sambandi við dansþjálfun Gerðar hjá Jeanne de Salzmann, en Gurdjieff og de Salzmann höfðu þróað saman svokallaða „heilaga leikfimi“ eða „heilaga dansa“ sem byggðu á samhæfðum hreyfingum og geómetrískum hrynjanda.

Á fyrstu Parísarárunum vann Gerður höggmyndir undir áhrifum kúbismans og konkretverka danska myndhöggvarans Roberts Jacobsen, sem bjó einnig í París um þetta leyti. Upp úr miðjum sjötta áratugnum, eftir að hún hafði sökkt sér í fræði Gurdjieffs, tók list hennar á sig persónulegri mynd. Verkin urðu merkingarfyllri með trúarlegum tilvísunum og snerust um hreyfingu og/eða innra rými. Bein tenging var á þessari nálgun við hugleiðslutækni Gurdjieffs en síhreyfing var mikilvægur þáttur í hans tækni til þess að þenja þolmörk líkamans, öðlast tilfinningalegt jafnvægi og viðhalda einbeitingu hugans.

Þegar verk hennar eru skoðuð er auðvelt að heillast af höggmyndum hennar frá þessu tímabili, en það var einmitt það tímabil sem hún var á kafi í fræðum Gurdjieffs.

Fólk heillaðist af nálgun hennar þó svo að ekki hafi komið í ljós fyrr en síðar meir tengingin við dulspekina. Sumir vilja meina að hennar bestu verk séu einmitt beintengd þessum dulspekilegu og guðspekilegu fræðum. Samt eru engar heimildir til um málið; – um lykilinn að því sem hún var að gera. Eins og svo oft með áhrif dulspeki og guðspeki á þróun abstraktlistarinnar, þá virðast þau fara fram á bak við tjöldin, gleymast síðan í umræðu og detta jafnvel út, eins og raunin er með heimildir um list Gerðar. Kannski er einhver þarna úti sem þekkir til sambandsins af eigin raun og getur upplýst okkur sem hafa áhuga á því að rýna í þetta stórmerkilega mál?

 

 

Heimildir.

Elín Pálmadóttir. 1998. Gerður: ævisaga myndhöggvara. Listasafn Kópavogs, Gerðasafn. Kópavogur.

Gerður: meistari glers og málma = sculptor and glass artist. 2010. Ritstjóri Guðbjörg Kristjánsdóttir. Listasafn Kópavogs, Gerðasafn. Kópavogur.

Jón B.K. Ransu. 2007. „Gerður og Gurdjieff.“ Morgunblaðið, 10. maí.

.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -