Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Geta ekki útskrifað sjúklinga af Kleppi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Öryggis- og réttargeðdeildin á Kleppi getur ekki útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð vegna skorts á félagslegu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan er ekki hægt að taka við nýjum sjúklingum. Algjört ófremdarástand segir sálfræðingur á Kleppi.

Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

„Við getum ekki tekið við nýjum sjúklingum og ekki heldur útskrifað fólk sem hefur lokið meðferð hjá okkur vegna skorts á félagslegu húsnæði í Reykjavík og í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elsa Bára Traustadóttir, sálfræðingur á öryggis- og réttargeðdeildinni á Kleppi.

Hún segir þetta skapa ófremdarástand fyrir fólk sem er með geðraskanir og hefur lokið meðferð á öryggisgeðdeild og réttargeðdeild og þarf á öruggu húsnæði að halda til að fóta sig í samfélaginu á nýjan leik.

Á öryggisgeðdeildinni á Kleppi geta verið átta sjúklingar. Þar eru nú sjö. Af þeim eru fjórir sem hægt er að útskrifa og bíða þeir búsetuúrræða. Á réttargeðdeildinni á Kleppi eru fjórir einstaklingar og eru þrír þeirra útskriftarhæfir. Allir eru sjúklingarnir á milli tvítugs og fertugs. Sótt var um húsnæði fyrir einn þremenninganna á réttargeðdeildinni í vikunni en hinir tveir hafa beðið eftir húsnæði síðan í nóvember og byrjun árs. Elsa segir einstaklingana þurfa mismikla þjónustu, sumir þeirra geti séð um sig sjálfir en aðrir þurfi hvatningu við daglegar athafnir og allt upp í sólarhringsþjónustu.

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því.“

„Einn þeirra sem bíður eftir húsnæði hjá okkur er nýkominn með fulla vinnu. En hann getur ekki flutt út frá okkur og þarf að sofa á réttargeðdeildinni hjá okkur eins og aðrir sjúklingar. Það er skammarlegt,“ segir Elsa Bára og rifjar upp að fyrir nokkru hafi einn sjúklingur þurft að bíða í tvö ár eftir að fá húsnæði. Hún óttast að þeir sem eru útskriftarhæfir á báðum deildum Klepps, sem hún vinnur á, geti líka þurft að bíða í tvö ár eftir húsnæði.

„Fólk hefur beðið í mjög langan tíma eftir húsnæði. Á meðan við getum ekki útskrifað fólk þá getum við ekki tekið við öðrum,“ segir Elsa og bendir á að eitt málið hafi strandað á því í tvö ár að ríki og borg gátu ekki komið sér saman um hvor eigi að borga fyrir búsetuúrræðið.

Elsa hóf störf á Kleppi fyrir fjórum árum. Þá var sama staða uppi og nú. Hún segir þörfina eftir þjónustu vegna geðheilbrigðisvanda aðeins aukast og séu nú mörg hundruð manns á biðlista eftir félagslegum íbúðum. Fjölgun úrræða í félagslega íbúðakerfinu helst hins vegar ekki í hendur við það eftirspurnina.

- Auglýsing -

„Okkar fólk er í viðkvæmustu stöðunni. Það er galið að ekki sé hægt að hjálpa því,“ segir Elsa Bára.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -