Glúmur Baldvinsson kann að skemmta fólki með góðum sögum; fáir betri en hann í þeim efnum.
Hann skrifar um sundferð á Facebook-síðu sinni, og hefst nú sagan:
„Skellti mér í sund í dag og tók hraustlega á því enda annálaður sundgarpur og íþróttamaður almennt einsog ég á kyn til. Góður í nánast öllu líkt og móðurbróður minn Ellert Schram.“
Glúmi brá þá:

„En þarna syndi ég í Vesturbæjarlauginni á sæmilegu skriði þegar kona fer óvænt framúr mér en slíkt hefur aldrei gerst áður. Ég snöggreiðist og herði róðurinn og kemst loks framúr konunni en með full miklu álagi fyrir minn smekk á meðan hún rennur þarna áreynslulaust einsog hnísa á sterum.“
Og Glúmur gefst ekki svo auðveldlega upp, ó nei:
„Ég trúði ekki eigin augum og gaf nú allt í. Allt sem ég átti og náði að halda henni rétt svo í skefjum næstu þrjú hundruð metrana sem ég átti eftir í andköfum og nauð. Svo lagðist ég á bakkann til að súpa hveljur á meðan hún leið einbeitt áfram án þess að gefa mér nokkurn gaum.“
Segir að endingu:
„En alla vega þá vann ég fjandans konuna sem veit ekki einu sinni að við vorum í keppni. Fer aldrei aftur í Vesturbæjarlaugina. Aldrei.“