Miðvikudagur 17. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Góð skemmtun og fyrirtaks líkamsrækt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi útveru og margir að draga fram reiðhjólin sem legið hafa í geymslum yfir veturinn eða að kaupa sér ný.

Stærðir og stillingar

Viðurkenndur hjálmur af réttri stærð er auðvitað ómissandi.

Þegar nýtt hjól er valið þarf að huga að stærð hjólsins. Þumalputtareglan við hjól með slá er að þegar notandinn stendur yfir þverslánni eiga að vera um það bil þrjár tommur eða tæplega átta sentimetrar upp í klof. Einnig er mikilvægt að hnakkurinn sé í réttri hæð. Hnakkurinn er rétt stilltur þegar hjólreiðamaðurinn situr á hnakknum, lætur annað fótstigið í neðstu stöðu, stígur á það með hælnum og getur þá rétt alveg úr fætinum. Rétt stilling hnakksins er afar mikilvæg, sérstaklega í lengri hjólreiðaferðum, til að álag á fæturna verði rétt. Þriðja mikilvæga atriðið er að stærð sjálfs hjólastellsins sé rétt. Ef hnakkurinn er rétt stilltur á stýrið að vera um fimm sentimetrum lægra en hnakkurinn og á stýrið að skyggja á framöxul hjólsins þegar hjólreiðamaðurinn hefur báðar hendur á því.

Viðhaldið er mikilvægt
Gott viðhald hjóla skiptir miklu máli bæði fyrir endingu þeirra og öryggi. Ráðlegt er að smyrja keðju hjólanna vikulega með sérstakri teflonolíu og sérstaklega ef hjólið hefur staðið úti í rigningu. Einnig er mikilvægt að hugsa vel um bremsuborða hjólsins, kanna slit reglulega og gæta að því að þeir séu rétt stilltir. Rétt stilltir borðar eiga hvorki að rekast í dekkin né í gjörð og ekki á að heyrast ískur þegar bremsað er. Auk þess að fylgjast með keðju og bremsum er mikilvægt að fylgjast með gírum hjólsins. Gírvírar teygjast yfirleitt nokkuð með tímanum og mynda því eins konar hlaup í gírunum. Gott er að strekkja á vírunum um það bil mánuði eftir að hjólið er keypt. Þá er gírastrekkjaranum á hjólinu snúið rangsælis þar til strekkist á vírunum. Með tímanum má einnig gera ráð fyrir slaka í legum hjólsins. Skemmdar legur eru fljótar að skemma út frá sér en með því að skipta þeim út eða herða þær upp í tæka tíða má spara mikið í viðhaldskostnað.

Sprungið dekk
Dekkjaskipti og -viðgerðir á hjóli eru lítið mál. Fyrst á að taka bremsur úr sambandi við gjörð. Þá er farið með keðjuna niður á minnsta tannhjólið að aftan og að framan til að slaka á keðjunni og öxulrær losaðar. Þá er dekkið laust og hægt að ná slöngunni úr því með hjálp dekkjaþvingu. Þegar gatið hefur verið fundið er gúmmíið í kringum það pússað, bótalím borið á slönguna og bótin sett á gatið. Síðan er slangan sett aftur inn í dekkið og lofti pumpað í áður en haldið er af stað.

Öryggið í fyrirrúmi
Rétt er að minna á nokkur öryggisatriði sem vert er að hafa í huga þegar þeyst er um á stálfáknum úti í góða veðrinu. Glitaugu eiga að vera bæði framan og aftan á reiðhjólum. Reiðhjólabjöllur eru einnig nauðsynlegur öryggisbúnaður og þær ber að nota til að gera öðrum viðvart, t.d. við framúrakstur á gangstéttum. Að sjálfsögðu er viðurkenndur hjálmur af réttri stærð algjörlega ómissandi. Hjólreiðafólki er heimilt að hjóla á gangstéttum jafnt sem á götum. Að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn að fylgja umferðarreglum eins og aðrir vegfarendur og hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga réttinn á gangstéttunum.

Texti / Vikan
Mynd / Ernir Eyjólfsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -