Þriðjudagur 25. janúar, 2022
4.8 C
Reykjavik

Gósentíð í veðri flýtir bráðnun jökla

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Tíðarfarið í ár flýtir enn fyrir bráðnun jökla. Fjórir smájöklar munu að líkindum hverfa innan 10 ára og Snæfellsjökull að óbreyttu innan 30 ára.

Samfara hlýnandi loftslagi á þessari öld hefur orðið gríðarleg breyting á íslenskum jöklum. Hefur flatarmál jökla á Ísland minnkað á síðastliðnum 130 árum úr því að vera 12 prósent í 10 prósent af flatarmáli landsins. Um aldamótin var heildarflatarmál jökla 11.082 ferkílómetrar en árið 2012 var það komið niður í 10.600.

Hlýindaskeið eins og við höfum upplifað undanfarið ýtir enn frekar undir þessa þróun. „Það gerir það vissulega. Við sjáum það vel á jökulánum, þær eru að verða mjög miklar. Venjulega eru þær vatnsmestar síðla sumars, þá er vetrarsnjórinn að mestu horfinn, snjórinn er dökkur og tekur þar af leiðandi í sig meiri geislun. En þessi hiti flýtir öllu þessu ferli,“ segir Oddur Sigurðsson, sérfræðingur á sviði jöklarannsókna á Veðurstofu Íslands. Hann býst við að jöklar landsins muni rýrna verulega í ár. „Breytileiki jökla er fyrst og fremst háður sumarhita og úrkomu. Þetta var tiltölulega rýr vetur, úrkoma var ekki mikil og jöklarnir bættu ekki miklu við sig. Þannig að jöklarnir munu rýrna verulega í ár, það er ekkert vafamál.“

„Samfara hlýnandi loftslagi á þessari öld hefur orðið gríðarleg breyting á íslenskum jöklum.“

Smájöklum fækkar hratt
Því hefur verið spáð með gildum rökum að jöklar Íslands verði í stórum dráttum horfnir eftir tvær aldir haldi fram sem horfir um hlýnun lofthjúps jarðar. Nú þegar eru jöklarnir farnir að týna tölunni (sjá umfjöllun um Okjökul hér til hliðar) og því er spáð að Snæfellsjökull verði horfinn fyrir árið 2050. Smájöklarnir týna óðum tölunni. „Þetta eru fyrst og fremst jöklar sem eru tiltölulega lágir og flatir. Til dæmis Hofsjökull eystri sem er hér um bil að gefa upp öndina. Torfajökull er mjög tæpur orðinn og Kaldaklofsjökull og Þrándarjökull. Ég efast um að Hofsjökull og Kaldaklofsjökull nái 10 árum,“ segir Oddur sem kortlagði íslenska jökla um aldamótin og svo aftur 2017. Margir þessara jökla eru horfnir. „Það eru 50 til 60 jöklar sem lifðu ekki af fyrstu tvo áratugi þessarar aldar. Þetta eru allt smájöklar. Nema Ok, hann hvarf mjög hratt.“

Snæfellsjökull óðum að hverfa
Um síðastliðna páska var vetrarafkoma í Snæfellsjökli mæld í fyrsta sinn. Kom fram í færslu á Veðurstofu Íslands að jökullinn hafi rýrnað mjög í hlýnandi loftslagi síðustu áratuga og er flatarmál hans nú minna en 10 ferkílómetrar, en var um 22 ferkílómetrar árið 2010. Jökullinn er að jafnaði aðeins um 30 metra þykkur og því líklegt að hann verði að mestu horfinn um miðja þessa öld. Sú spá er gerð út frá þeim forsendum að hitastigið hækki um 2 gráður á þessari öld en sjálfur telur Oddur að hlýnunin verði hraðari og að jökullinn hverfi jafnvel fyrr.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -