Sunnudagur 28. nóvember, 2021
4.8 C
Reykjavik

Grein Sigmundar Davíðs vekur reiði: „Vá hvað þetta eru kengrugluð skrif“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Greinaskrif Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins í morgunblaðinu í dag, hafa vakið þónokkra reiði á samfélagsmiðlum. Í grein sinni fjallar formaðurinnn um skaðleg áhrif pólitísks rétttrúnaðar og segir meðal annars hreyfinguna Black Lives Matter ala á kynþáttahyggju.

„Sko. Sigmundur Davíð telur baráttu Black Lives Matter EKKI endurvekja kynþáttafordóma. Hann er þrátt fyrir allt ekki svo vitlaus og fáfróður að hann átti sig ekki á Black Lives Matter snýst um nauðsynlega og löngu tímabæra baráttu gegn aldalöngum og vandlegum inngrónum kynþáttafordómum í bandarísku samfélagi – og miklu víðar. Sigmundur hefur hins vegar tekið ískalda og kalkúleraða pólitíska ákvörðun um að róa á rasistamiðin í næstu kosningum, þau mið þar sem ótti við tilbúna óvini á að skila honum fylgi. Hann um það – svo flýgur hver sem hann er fiðraður, eins og þar stendur. En látum hann ekki ná árangri í þessari lágkúru sinni.“ Þetta skrifar Illugi Jökulsson í nýjustu færslu sinni á Facebook.

Tilefni skrifa Illuga er fyrrnefndur pistill Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni Sumarið 2020 og nýja menningarbyltingin. Í pistlinum segir Sigmundur Davíð áhrif póli­tísks rétt­trúnaðar vera skaðleg samfélaginu og nefnir í því samhengi endurskoðun sögunnar, fórnarlambsmenningu og samfélagslegar aftökur, með áherslu á hreyfinguna Black Lives Matter. Eins og kunnugt er berst sú hreyfing gegn ofbeldi stjórnvalda og lögreglu á svörtu fólki í Bandaríkjunum, en Sigmundur setur spurningamerki við réttindabaráttuna og telur hreyfinguna endurvekja kynþáttahyggju.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tekur í svipaðan streng og Illugi. „Þetta er klassískur strámaður,“ skrifar Björn á Facebook. „Það er rétt að að eru ákveðnar öfgar í pólitískum rétttrúnaði þar sem réttmæt gagnrýni er kölluð fordómar og öll réttindabarátta kölluð rétttrúnaður eða „góða fólkið“. Það á við um suma gagnrýni og suma réttindabaráttu og mögulega um suma einstaklinga í ákveðinni gagnrýni eða réttindabaráttu. Í þessu tilfelli byggir Sigmundur niðurstöðu sína hins vegar á því að segja ósatt, markmiðið er _ekki_ að það eigi að gera greinarmun á litarhætti húðar heldur er verið að vekja athygli á því að það er _enn_ verið að gera slíkan greinarmun þrátt fyrir allt.“

Egill Helgason fjölmiðlamaður furður sig á skrifum Sigmundar Davíð og skilur ekki hvers vegna formaður Miðflokksins líkir Black Lives Matter hreyfingunni við kínversku menningarbyltinnguna. „Þetta er skrítinn samtíningur. Réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum líkt við kínversku menningarbyltinguna. Hafandi ferðast vítt og breitt um Bandaríkin og fylgst með fréttum þaðan allt frá tíma MLK sýnist mér að þarna sé illa skotið fram hjá markinu – eða hvað er markið,“ spyr fjölmiðlamaðurinn á Facebook.

„Er hann ekki bara að þjappa durgafylginu um sig svo hann hafi sín 10-15% trygg og traust,“ spyr tónlistarmaðurinn Svavar Knútur á móti.

- Auglýsing -

„White man’s burden á heilsíðu í mbl í dag. Allir minnihlutahópar sem berjast skipulega fyrir bætti stöðu eru, samkvæmt greininni, sameiginlegur óvinur vestrænnar (og þar af leiðandi hvítrar) siðmenningar. Menningarbyltingarpólitík mætt af fullum krafti til Íslands,“ tístir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

„Það má segja ýmislegt um Sigmund og Miðflokkinn og það fátt gott, en það er dapurlegt að deila samfélagi með þessu fólki og þeim sem styðja skoðanir hans, sem í þessu tilfelli eru eigendur og Morgunblaðsins,“ segir Þór Saari, fyrrverandi þingmaður.

„Þessi grein er ekki beinlínis rasísk á hátt sem er hægt að benda á, en hún er augljóslega að grafa undan markmiðum um jafnrétti og efast um tilgang og trúverðugleika þeirra sem finnst enn margt vera að, og það talar til rasistanna. En fyrst og fremst snýst þetta um að pirra okkur, og geta svo bent sínum afturhaldsfylgismönnum á að við séum á móti honum. Hann veit alveg hvað hann er að gera,“ segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata.

- Auglýsing -

Svavar Gestson fyrrverandi þingmaður og ráðherra segir að í raun sé um tímamótagrein að ræða. „Þetta er mikilvæg grein. Formaður stjórnmálaflokks notar sumardagana í að setja þetta saman. Hann ræðst í raun gegn BLM. Tímamót. Enginn annar stjórnmálaleiðtogi skrifar með þessum hætti. Hann vill kalla til þeirra 10 % þjóðarinnar sem gætu verið sammála þessu ákalli. Það er mikilvægt að hann sé einn úti í þessu horni. Aleinn. Hafa einhverjir stjórnmálaleiðtogar aðrir á Norðurlöndum þessa skoðun?“

„Vá hvað þetta eru kengrugluð skrif og laus við nokkurn einasta skilning á bandarískri sögu,“ skrifar Gauti B. Eggertsson, prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -