2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Greindist með krabbamein 32ja ára og lét frysta egg

„Lífið snýst um að læra, læra af sjálfum sér og öðrum. Við vitum aldrei hvaða verkefni við fáum og það skiptir svakalega miklu máli hvernig við tæklum verkefnin. Lífið getur tekið óvæntar beygjur hvenær sem er. Munum að lifa í dag,“ segir hin 36 ára Guðný Ásgeirsdóttir. Guðný er læknir og í sérnámi í heimilislækningum en hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir rúmum þremur árum.

Guðný lærði læknisfræði í Danmörku og var 29 ára þegar hún fann fyrst fyrir hnút í brjóstinu.

„Ég lét skoða þetta úti í Danmörku þar sem ég bjó, fór þar í brjóstamyndatöku og ómskoðun og var þetta talið vera góðkynja æxli, sem sagt ekki krabbamein. Ekki þótti þörf á eftirliti. Svo flyt ég heim til Íslands í byrjun árs 2014 og fer þá að vinna á heilsugæslu. Ég fylgist vel með hnútnum og finn að hann er eitthvað að breytast, stækkar og verður harðari, eiginlega eins og bingókúla,“ segir Guðný, sem reyndi fyrst um sinn að hunsa vöxtinn í brjóstinu.

„Ég reyndi fyrst að humma fram af mér að láta skoða þetta því ég hafði jú látið skoða þetta í Danmörku. Ég var þó alltaf að hugsa að þetta væri eitthvað skrítið og gæti alveg eins verið krabbamein, svona miðað við það sem ég hafði lært. Svo kemur til mín ung stúlka á heilsugæsluna með hnút í brjósti. Ég sendi hana áfram í skoðun og fæ svo fréttir af því að hún hefði greinst með brjóstakrabbamein. Það vakti mig til umhugsunar, fyrst hún gat greinst með brjóstakrabbamein svona ung gæti ég það í raun alveg líka. Þá ákvað ég að skella mér í skoðun og reyndist þá grunur minn réttur því miður, ég var líka með brjóstakrabbamein.“

AUGLÝSING


Hér er Guðný með skalla en síðan til hægri er mynd af henni með hárkollu sem hún keypti í London og mörgum fannst raunveruleg.

Mistök þegar átti að tilkynna fréttirnar

En hvernig tilfinning var það að greinast með krabbamein svona ung?

„Það er eiginlega mjög erfitt að lýsa tilfinningunni. Ég var til dæmis fyrst mjög reið, en það var aðallega af því það urðu mistök þegar ég fékk fréttir af þessu í fyrsta skipti. Ég hafði farið niður í Krabbameinsfélag og þar var tekið sýni. Læknirinn sem ég hitti hafði beðið mig um að vera með símann á mér milli klukkan 13 og 14 mánudaginn eftir og svara ef hún myndi hringja. Ég er svo að vinna á heilsugæslunni og er með móttöku þar sem ég tek á móti sjúklingum og er með viðtöl. Ég er með skjólstæðing inni hjá mér þegar síminn hringir og ég afsaka mig og segist þurfa að taka símtalið. Þá er í símanum hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem segir mér að ég eigi tíma hjá skurðlækni á morgun og hvort það sé möguleiki að flytja tímann. Ég verð náttlega mjög hissa og skil ekki alveg símtalið þar sem ég hafði jú ekki enn fengið að vita niðurstöðuna úr sýnatökunni. Hún afsakar sig og segist líklega vera að hringja á undan lækninum. Þá fatta ég að þetta þýði líklega að ég er með krabbamein. Ég ákvað að reyna að hugsa ekki um það og bíða eftir að læknirinn myndi hringja. Ég held áfram með viðtalið en er í hálfgerðri geðshræringu og meðtók líklega ekkert það sem skjólstæðingurinn sagði. Læknirinn hringir svo 5 mínútum síðar og segist vilja hitta mig. Ég verð þá svolítið reið og segist alveg vita hvað hún sé að fara að segja við mig. Ég fór svo og hitti lækninn og við fórum yfir málið. Ég hef svo hitt hjúkrunarfræðinginn oft eftir þetta og hún er ekkert nema yndisleg,“ segir Guðný. Hún segir næstu daga hafa liðið hjá í hálfgerðri móðu.

„Eftir þessa reiðitilfinningu man ég eftir hræðslu. En í raun er þetta allt í hálfgerðri móðu. Líklega vegna þess að áfallið var mikið. Ég man samt að ég hugsaði mjög fljótt að ég vildi geta eignast börn þrátt fyrir þetta. Ég hafði ekki enn eignast barn og var bara nýbyrjuð með kærastanum mínum þarna. Ég vildi sko ekki missa möguleikann á því að geta eignast barn síðar meir og var það eitt af því fyrsta sem ég ræddi við skurðlækninn minn.“

Erfið áramót

Guðný greindist með brjóstakrabbamein þann 15. desember 2014, í miðju læknaverkfalli. Jólahátíðin var því frekar skrýtin það árið, en sem betur fer komst Guðný undir hnífinn áður en nýja árið gekk í garð.

„Ég vissi ekkert hvenær ég færi í aðgerð til að fjarlægja meinið en skurðlæknirinn hafði sagt mér að líklega væri það ekkert fyrr en á næsta ári, sem mér fannst fáránlegt. Ég vildi bara losna við krabbameinið strax í dag. Jólin voru frekar dofin. En svo fékk ég símtal frá skurðlækninum milli jóla og nýárs um að hann hefði komið mér að í skurðaðgerð á gamlársdagsmorgun, 31. desember. Ég þáði það með þökkum og endaði því á að eyða áramótunum á Landspítalanum. Ég var reyndar frekar óheppin að eftir aðgerðina, sem var fleygskurður, hafði opnast æð í brjóstinu og blætt mikið inná brjóstið. Ég varð mjög lasin og féll til dæmis mjög mikið í blóðgildinu. Þetta voru því ansi erfið áramót en tilhugsunin að geta byrjað árið 2015 krabbameinsfrí var svakalega góð.“

Bónorð á Flórída.

Notar árið 2018 til að búa til barn

Við tók frjósemismeðferð í Svíþjóð í janúar og síðan lyfjameðferð sem hófst í febrúar.

„Lyfjameðferðin samanstóð af tvenns konar meðferð. Fyrst fékk ég lyf vikulega í tólf vikur og eftir það lyf á þriggja vikna fresti í aðrar tólf vikur. Eftir það fór ég í 33 geislameðferðir, alla virka daga, sem tók sirka sex vikur. Síðan þurfti ég að halda áfram að fá eitt lyf á þriggja vikna fresti en það þurfti ég að fá uppá Landspítala í heilt ár. Eftir þetta hef ég verið í hormónameðferð sem samanstendur af töflum og sprautum sem ég sé um sjálf. Þessi lyf þarf ég að fá næstu tíu árin,“ segir Guðný. Hún fær hins vegar núna að taka sér pásu frá hormónameðferðinni til að reyna við barneignir. í Svíþjóð lét hún frysta ófrjóvguð egg, þar sem meðferðin sem hún fór í getur valdið ófrjósemi.

„Ég hafði kynnst kærastanum mínum, sem nú er unnusti minn, aðeins þremur mánuðum áður en ég greinist. Ég fór í Art Medica og hitti þar lækni sem sagði mér að skynsamlegast væri að frysta ófrjóvguð egg þar sem við hefðum verið svo stutt saman og lögin á Íslandi segja að ég megi ekki nota fósturvísi fyrrverandi maka þó svo að hann gefi fullt leyfi. Allt getur gerst og því var þetta ákveðið. Ég flaug sem sagt út til Svíþjóðar því ekki var hægt að frysta ófrjóvguð egg hérlendis á þessum tíma. Mér skylst að það sé hægt núna hjá IVF klínikkinni. Nú hugsa ég alltaf um eggin mín sem litlu Svíana mína, þar sem eggin hafa „búið” í 3 ár í Svíþjóð,“ segir Guðný og brosir.

„Í rauninni er þetta ferli allt komið af stað og ef allt gengur vel hugsa ég að ég noti árið 2018 í að búa til eins og eitt stykki barn.“

Ekki alslæmt að greinast með krabbamein

Hún segir þetta ferli hafa sína ljósu punkta, þó erfitt sé.

„Kvöldið sem ég rakaði af mér hárið, en þá var ég byrjuð að missa það og fannst betra að hafa stjórnina og sjá um þetta sjálf. Systir mín hjálpaði mér og við prófuðum allskonar klippingar, svona af því við gátum það.“

„Þetta ferli hefur verið langt og strangt en alls ekki alslæmt. Það hefur alveg komið fullt jákvætt útúr þessum veikindum, eins og dýrmæt reynsla. Að prófa að sitja hinumegin við borðið og vera sjúklingur. Þó mér hafi í raun aldrei liðið eins og sjúklingi, þá er ég allavega búin að prófa þetta og skil vonandi skjólstæðingana mína betur. Einnig hef ég kynnst mikið af fólki sem allt hefur kennt mér eitthvað. Og svo er auðvitað mjög dýrmætt að finna stuðning frá ættingjum og vinum. Ég er alveg örugglega búin að breytast að einhverju leyti, það er líklega auðveldara fyrir aðra að dæma um það. Ég tel samt að ég hafi alltaf verið frekar jákvæð manneskja og hefur það alveg örugglega hjálpað mér að tækla þessi veikindi. Ég var líka heppin að ég varð aldrei mjög lasin. Var oft þreytt og uppgefin en aldrei þannig að ég þyrfti að liggja í rúminu heilan dag. Ég reyndi eftir fremsta megni að fara út á meðal fólks á hverjum degi og fór til dæmis mikið í ræktina með Ljósinu og einnig á ýmis námskeið hjá Ljósinu. Ég fór einnig í nokkra sálfræðitíma hjá Krafti og hitti stuðningsfulltrúa í gegnum Kraft sem var ung stelpa sem hafði gengið í gengum svipað ferli,“ segir Guðný. Hún er ekki frá því að hún kunni meira að meta daginn í dag en áður.

„Ég hef alltaf verið dugleg að njóta í núinu en líklega hugsa ég enn meira um það nú. Ekki fresta því sem mig langar til að gera eða upplifa. Reyna að umvefja mig jákvæðu og skemmtilegu fólki og gera meira af því sem mér finnst skemmtilegt. Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er til dæmis að ferðast og hef ég verið dugleg við það síðustu ár. Einnig finnst mér mikilvægt að vera dugleg að heimsækja fjölskyldu og vini þar sem maður veit aldrei hvenær við hittumst í síðasta skipti,“ segir hún.

Guðný í átaki Krafts.

Þiggið alla hjálp sem býðst

Guðný segir stuðning frá fjölskyldu og vinum ómetanlegan, en einnig stuðning frá Krafti, félags ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda þess. Hún segir sögu sína í nýju átaki Krafts, Krabbamein kemur öllum við, sem lýkur á sunnudag 4. febrúar, á alþjóðdegi gegn krabbameini. Þá ætlar Kraftur að setja Íslandsmet í perlun armbanda í Hörpu. En áður en ég kveð þessa jákvæðu, ungu konu verð ég að spyrja hana hvað hún vill segja við þá sem greinast með krabbamein í blóma lífsins?

„Þetta er í flestum tilfellum ekki dauðadómur. Flestir lifa góðu lífi þrátt fyrir greiningu. Reynið að einblína á jákvæðu hliðarnar, það er ekki allt slæmt við að greinast með krabbamein. Gerið meira fyrir ykkur sjálf og þiggið alla þá hjálp og stuðning sem býðst. Mér fannst gott að líta á veikindin sem verkefni. Verkefni sem ég þurfti að gefa allan minn tíma og orku í en svo kláraðist það að lokum. Þetta er oftast bara tímabil sem þarf að komast í gegnum. Það að segja að fólk sé að „berjast“  við krabbamein finnst mér ekki lýsa þessu rétt. Flestir eru ekki að berjast en frekar að ganga í gegnum og leysa verkefnin sem verða á veginum.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni og Kraftur

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is