Miðvikudagur 24. maí, 2023
7.1 C
Reykjavik

Guðlaug klippir tannkremstúpurnar í tvennt – „Við Kalli gerum matseðil nokkra daga fram í tímann“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar að þessu sinn heitir Guðlaug Jónsdóttir. Guðlaug býr á Ísafirði með eiginmanni sínum, Karli Kristjáni Ásgeirssyni, en synir þeirra búa í Reykjavík. Hún er matreiðslumeistari að mennt, með kennsluréttindi og starfar við heimilisfræðikennslu í Grunnskólanum á Ísafirði. Árið 2012 kom út bók um mat og matarmenningu á Vestfjörðum. Bókin heitir Boðið vestur og er eftir þau hjón. Haustið 2021 gáfu þau sjálf út bókina Í huganum heim, en Guðlaug skrifaði hana. Í bókinni segir Guðlaug frá æskuárum sínum á Melum í Hrútafirði. Í huganum heim var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 í flokki barna- og ungmennabóka.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

Já, ég geri það að einhverju leyti. En, eftir því sem árin færast yfir gerir maður ríkari kröfur til þess að verð og gæði haldist í hendur. Þetta á við bæði í sambandi við vörur og þjónustu. Í dag getur maður frekar leyft sér að kaupa það sem er vandaðra. Ég er mjög löt við að fara búð úr búð til að bera saman verð og fagna því mjög tilkomu internetsins þar sem í flestum tilfellum er hægt er að kalla fram upplýsingar um verð á vörum og þjónustu á örskotsstundu.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Við Kalli, maðurinn minn, gerum oftast matseðil nokkra daga fram í tímann og förum eina svona aðalferð í viku í Bónus. Við höfum minnkað kjötneyslu nokkuð og þótt það sé aðallega gert fyrir heilsuna er það sparnaður í leiðinni. Ég er sannfærð um að þetta fyrirkomulag við innkaupin hjálpar til við sparnað, það eru auðvitað mun meiri líkur á því að ýmiss óþarfi detti í körfuna ef fólk er jafnvel að fara á hverjum degi í búð, tala nú ekki um ef það er með tóman maga. Ég rækta mikið af grænmeti, salati og kryddjurtum. Við erum því sjálfbær að nokkru leiti hluta ársins, sérstaklega eftir að við fengum okkur gróðurhús núna fyrir tveimur árum. Fyrir utan alla gleðina sem ræktunin veitir er hún auðvitað líka að skila heilmiklum sparnaði.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

- Auglýsing -

Já, ég endurnýti ýmislegt. Ef ég horfi til fyrstu búskaparáranna, þegar fjárráð voru afar knöpp, sé ég fyrir mér stórrósótta sófasettið sem við keyptum notað og dugði okkur fyrstu árin. Svakalegasta dæmið var auðvitað ermalausi, rósótti kjóllinn sem ég dró upp úr illa þefjandi hrúgunni í dósasöfnun um árið. Kjólinn notaði ég óspart í nokkur ár, þó aðeins heima við! Reyndar er þetta stórmerkilegt því ég hef prófað nokkrum sinnum að kaupa notuð föt en gengur afar illa að nota þau. Ég skammast mín svolítið fyrir þetta og dáist að fólki sem hefur þennan lífsstíl og sem betur fer fjölgar því hratt. Ég nýti allskonar plastdósir sem falla til við ræktunina, bæði hér heima og í skólanum. Sama plastpokann nota ég oft nokkrum sinnum og nýti poka sem falla til. Annars er plastpokanotkunin auðvitað orðin mun minni en var. Ég get verið hálf manísk á sumum sviðum og verð stundum aðhlátursefni samferðarfólks. Ég klippi til dæmis tannkremstúpurnar í tvennt og get þannig látið þær duga nokkrum dögum lengur. Sama geri ég við öll krem í plasttúpum, það er ótrúlegt hversu margir skammtar sitja eftir þegar þær hafa verið kreistar. Pítsuplastbrúsa saga ég oft í sundur og næ þannig að nýta alla sósuna. Nú er ég kannski komin út fyrir efni spurningarinnar! Í starfi mínu sem heimilisfræðikennari er mikið komið inn á flesta þætti sjálfbærni og er endurnýting einn þátturinn. Börnin læra til dæmis að búa til ný kerti úr gömlum kertastubbum og við klippum niður gamlar sokkabuxur og notum sem teygjur í hárið. Ég legg líka mjög mikið upp úr því að kenna þeim góða nýtingu á öllu hráefni.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Þegar ég kaupi inn fyrir heila viku í einu þarf ég auðvitað að passa upp á síðasta söludag á viðkvæmum vörum, útlitið á grænmetinu og ávöxtunum og slíkt. Ég kaupi alltaf mjólkurvörur frá Örnu í Bolungarvík. Bæði er það vegna gæðanna en einnig vil ég styðja við matvöruframleiðslu á svæðinu. Fiskinn kaupi ég að sjálfsögðu hjá honum Kára í Sjávarfangi. Ég kaupi mér ekki mikið af fötum en viðurkenni fúslega að mér finnst gaman að eignast nýja, fallega flík. Ég reyni að vanda valið og er hætt að kaupa flíkur bara vegna þess að þær eru svo ódýrar. Ég man ófá dæmi um slíka kauphegðun og nota þau óspart til að fræða nemendur mína. Mér finnst skemmtilegast að gefa eitthvað matarkynns, eitthvað sem ég hef bakað, eldað eða búið til. Ég er orðin mun kröfuharðari í sambandi við gjafir sem ég gef. Þá á ég ekki við að gjöfin þurfi að kosta svo og svo mikið heldur það að hún nýtist sem best, veki gleði og komi að notum. Hvað er betra en gleðja fólk í gegnum munn og maga?

- Auglýsing -

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Súkkulaði. Hef ánetjast dökku súkkulaði og er reyndar ekkert á þeim buxunum að draga úr neyslunni enda er hún sjálfsagt ekkert á neitt svimandi háu stigi. Annars dettur mér helst í hug allt plastið. Það er ótrúlega erfitt að reyna að sneiða hjá vörum í plasti og manni blöskrar allt það magn sem kemur frá tveggja manna heimili.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já, hún skiptir mig máli. Auðvitað er hver einstaklingur eins og agnarsmár maur og skiptir litlu í heildarsamhenginu, sérstaklega ef við miðum við risastórar eiturspúandi verksmiðjur, útblásturinn frá flugumferðinni á heimsvísu, plastið í hafinu og aðra slíka stóra þætti. Ég held samt og veit að hvert lítið skref sem hver einstaklingur tekur í átt til meiri sjálfbærni hefur áhrif til góðs. Við þurfum að fræða börnin og fara á undan með góðu fordæmi.

Annað sem þú vilt taka fram?

Í gamla daga skammaðist ég mín hálfpartinn fyrir mömmu þegar hún skolaði plastpokana og hengdi þá upp til þerris. Mér fannst systir mín líka ægilega púkaleg þegar hún tók með sér tuðrur í matvörubúðina. Nú geri ég hvorutveggja sjálf og er stolt af mömmu minni heitinni og systur. Ég flokka samviskusamlega þó maður viti ekki alltaf hverju það breytir. Auðvitað er aðalatriðið að kaupa minna –  kaupa minna drasl! Kaupa bara það sem maður virkilega þarf, hamingjan verður víst ekki fengin með því að sanka að sér dauðum hlutum.

Hér fylgir með uppskrift að fiskibollum úr bókinni Boðið vestur. Fjöldi fólks hefur haft samband og dásamað bollurnar! Aðalatriðið er að vera með glænýjan og ferskan fisk, ýsu eða þorsk. Í uppskriftinni er talað um fiskhakk. Sjálf geri ég alltaf bollurnar í matvinnsluvél. Mauka vel saman fisk, lauk og eggjahvítur og bæti síðan öðru hráefni við.

Fiskibollur – gamall og góður hversdagsmatur

800 g ýsuhakk
stór laukur, saxaður fínt
eggjahvítur
4 msk. hveiti
4 msk. kartöflumjöl
2 tsk. arómat
½ tsk. salt
1/8 tsk. pipar
matarolía eða smjör/smjörlíki til steikingar.

Setjið hakkaða ýsuna ásamt lauk og eggjahvítu í hrærivélarskál eða góðan blandara og þeytið saman í svolitla stund. Bætið út í hveiti, kartöflumjöli, arómati, salti og pipar.

Hitið olíu og/eða smjör/smjörlíki á pönnu og steikið bollurnar þar til þær hafa náð fallegum lit. Bakið í ofni á 130°C í 10-15 mínútur.

Með bollunum er tilvalið að hafa kartöflur og brúna lauksósu. Skerið heilan lauk niður í skífur og steikið í potti upp úr olíu og smjöri. Kryddið með salti og pipar. Bætið svolitlu hveiti út í pottinn og leyfið því að ristast aðeins með. Bætið köldu vatni í litlum skömmtum út í og hrærið vel á milli. Kryddið til með krafti, salti og pipar. Sósuna má einnig þykkja á annan hátt. Karrísósa og hrísgrjón koma einnig vel til greina. Okkur finnst einnig nauðsynlegt að hafa gott salat með eplum með fiskibollunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -