Þriðjudagur 16. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Guðmundur Ari: „Held að ég eigi enn met í Valhúsaskóla fyrir að vera rekinn til skólastjórans …“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hann ólst upp á Seltjarnarnesi, æfði handbolta og fótbolta og var í tónlistarnámi við Tónlistarskóla Seltjarnarness.

„Þegar ég var orðinn 10 ára fór ég að hætta að finna mig í skólakerfinu og hætti hægt og rólega að passa í það þrönga form. Áhuginn minn var á fótbolta, að vera með vinum og að spila tölvuleiki og ég skildi í raun ekkert af hverju ég þurfti að vera í þessum blessaða skóla. Þegar ég var kominn í unglingadeild í Valhúsaskóla var þetta árangursleysi og árekstrar í skólanum farið að hafa mjög neikvæð áhrif á sjálfsmyndina mína og ég var farinn að nýta orkuna mína í uppreisn gegn skólanum frekar en að reyna að ná að læra námsefnið og vera til friðs. Ég held að ég eigi enn met í Valhúsaskóla fyrir að vera rekinn til skólastjórans í fyrstu kennslustund á fyrsta kennsludegi eftir sumarfrí,“ segir Guðmundur Ari Sigurjónsson, verkefnastjóri og bæjarfulltrúi, sem mun leiða framboðslista Samfylkingarinnar og óháðra í sveitarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi.

Aukið sjálfstæði og nýtt hlutverk varð til þess að ég fór að vilja standa mig.

„Þegar líðan mín og viðhorf til skóla breyttist ekkert á fyrsta ári mínu í Fjölbrautaskólanum við Ármúla ákvað ég að ráða mig í sumarvinnu á Eskifirði við að leggja hitaveitu og skipta þannig um umhverfi og aðstæður. Ég hafði kynnst stelpu að austan og fékk að búa með henni og frábærri fjölskyldu hennar. Lífið fyrir austan hafði mjög mótandi áhrif á mig en aukið sjálfstæði og nýtt hlutverk varð til þess að ég fór að vilja standa mig. Ég tók einn vetur í Verkmenntaskóla Austurlands sem var minna og heimilislegra umhverfi en ég hafði áður kynnst og það hentaði mér afar vel. Það slitnaði upp úr sambandi mínu með kærustunni um vorið og ég flutti aftur suður eftir þetta eina ár á Austurlandi.

Ég sá krakka sem voru á svipuðum stað og ég hafði verið á.

Þegar ég flutti aftur suður byrjaði ég að vinna smíðavinnu og skráði mig í húsasmiðinn í Iðnskólanum í Reykjavík. Skólinn fékk þó litla athygli og datt lífið fljótt aftur í kunnuglegt far partístands og að einblína meira á frítímann en skólann. Ég skipti yfir í fjórða framhaldsskólann á fjórum árum þegar ég skráði mig í Fjölbrautaskólann í Breiðholti til að vera nær vinum mínum að austan sem voru fluttir í bæinn. Þetta var veturinn 2008/2009 og var ég staddur í upplýsingatæknitíma í FB þegar Geir bað Guð um að blessa Ísland. Á þeim degi tvöfaldaðist bílalánið á nýlegum bíl sem ég hafði keypt á myntkörfuláni og ég missti smíðavinnuna sem átti að borga fyrir kaggann. Þá voru góð ráð dýr en blessunarlega hafði ég ráðið mig um haustið í afleysingarstarf í Félagsmiðstöðinni Selinu á Seltjarnarnesi. Í því starfi fann ég aftur þessa tilfinningu um að vilja standa mig; þarna var ég byrjaður að vinna í félagsmiðstöðinni í heimabænum þar sem ég hafði sjálfur verið til eilífra vandræða. Ég sá krakka sem voru á svipuðum stað og ég hafði verið á og fann hvernig ég gat hjálpað þeim í félagsmiðstöðinni með því að skapa öruggt umhverfi þar sem þeir gátu ræktað styrkleika sína og byggt upp sjálfsmyndina. Það sem var svo best við starfið í félagsmiðstöðinni var þegar ég sá og fann að krökkunum fór að líða betur sem hafði svo jákvæð áhrif á aðra þætti í lífi þeirra, þar á meðal námsárangur. Í Selinu fékk ég tækifæri til að vaxa í starfi, taka að mér fjölbreytt verkefni eins og að stofna ungmennaráð Seltjarnarness með öflugum hópi ungmenna. Ég tók sjálfur út mikinn persónulegan þroska á árunum í Selinu og fór úr því að kennarar héldu þegar þeir sáu mig fyrst að ég væri í 12 spora kerfinu að bæta upp fyrir gamlar syndir yfir í það að leiða forvarnar- og frístundastarfið í sveitarfélaginu.“

Guðmundur Ari segir að sú lífsreynsla sem hefur mótað hann hvað mest sé ferðalag hans í gegnum skólakerfið. „Að byrja ágætlega, fara svo út af sporinu og missa alla trú á eigin getu sem námsmanni. Ná svo að finna tilgang með náminu og snúa blaðinu við og klára háskólann með góðum árangri,“ segir hann en meira um það síðar.

 

- Auglýsing -

Skynsemi og ábyrgð í fjármálum

Guðmundur Ari byrjaði að vinna í fullri vinnu í Selinu eftir tvö ár í hlutastarfi og sótti um nám í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann komst inn með undanþágu en hann var ekki með stúdentspróf en þrátt fyrir fimm ár í framhaldsskóla átti hann talsvert í land að sækja hvíta hattinn eins og hann orðar það.

„Í tómstundafræðinni fann ég aftur til mín í litlum hópi með talsvert sjálfstæði og frelsi til að samþætta vinnuna í Selinu við námið. Ég endaði með að útskrifast með B.A.-gráðu og 10 í einkunn fyrir lokaverkefnið mitt sem var mikill sigur fyrir unglinginn sem brotnu sjálfsmyndina í skólakerfinu.

Vissi bara að Sjálfstæðisflokkurinn væri með völdin á Nesinu.

- Auglýsing -

Í starfi mínu sá ég meðal annars um nemendaráð Valhúsaskóla og Selsins og það var eftir kynningarfund með krökkum þar sem ég hvatti þá til að bjóða sig fram í nemendaráði til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt að ég fór að hugsa að ég væri nú meiri hræsnarinn, enda sjálfur ekki að taka nokkurn þátt í eigin nærumhverfi. Ég ákvað því að mæta á fund hjá Sjálfstæðisfélagi Seltirninga því á þessum tímapunkti var ég lítið að pæla í pólitík og vissi bara að Sjálfstæðisflokkurinn væri með völdin á Nesinu. Það þurfti þó ekki nema þennan eina opna fund hjá Sjálfstæðisfélaginu til að komast að því að sýn þeirra á skatta og þjónustu við íbúa rímaði ekki við mína persónulegu sýn. Ég hafði fundið á eigin skinni og í starfi mínu hvernig þjónusta eins og félagsmiðstöð og önnur virkniúrræði eru ekki peningaeyðsla heldur fjárfesting í fólki sem eflir og styrkir einstaklinga og borgar sig svo margfalt til baka í formi farsældar þeirra, vinnuframlags og skattgreiðslna til samfélagsins. Ég mátaði mig því næst við Samfylkingarfélagið á Seltjarnarnesi og fann mig vel þar. Áherslurnar þar voru skynsemi og ábyrgð í fjármálum á sama tíma og horft var á þjónustu og forvarnir sem fjárfestingu og skyldur sveitarfélaga.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson

Breytt í 16 íbúðir

Og Guðmundur Ari fór í framboð og komst inn í bæjarstjórn í kosningunum 2014.

„Ég leiddi svo listann í kosningunum 2018 og gekk okkur afar vel í báðum kosningum og höfum haft tækifæri til að hafa áhrif á umræðu og ákvarðanir í sveitarfélaginu. Þrátt fyrir að hafa verið í minnihluta öll þessi átta ár þá er ég stoltur af mörgum góðum málum sem við höfum haft áhrif á. Ég er stoltur að hafa leitt starfshóp sem kom íbúalýðræðisverkefninu Nesið okkar á koppinn en það er verkefni þar sem íbúar fá að kjósa um og forgangsraða framkvæmdum í sveitarfélaginu. Ég er einnig stoltur af litlu skipulagsverkefni þar sem lóð með tveimur húsum var breytt í 16 íbúðir til að auka framboð af fjölbreyttu húsnæði. Á þeim reiti búa fleiri börn heldur en í þremur stórum lúxusblokkum sem byggðar voru á Hrólfskálamel sem „íbúðir fyrir ungt fólk“. Að lokum er ég stoltur af því að hafa staðið vörð gegn niðurskurði á þjónustu og að meirihluti hafi náðst fyrir hækkun á útsvari síðastliðið haust. Sú hækkun hefur stoppað upp í hallarekstur bæjarins og gert bænum kleift að standa vörð um þjónustu við bæjarbúa og sækja fram.“

Seltjarnarnesbær er eftir á í grænu málunum.

 

Guðmundur Ari segir að verkefni næsta kjörtímabils verði einmitt að klára að snúa við rekstri bæjarins svo hann nái jafnvægi og verði sjálfbær. „Við viljum að næsta kjörtímabil snúist um að búa til betri bæ fyrir börn. Það er mikilvægt að rýna aðstöðu og stoðþjónustu við börn frá leikskóla og upp úr, auka snemmtæka íhlutun og samþætta betur kerfin okkar. Það er uppsöfnuð viðhaldsþörf víða í bænum og mörg svikin loforð um uppbyggingu sem þarf að uppfylla til að endurheimta traust foreldra og fagfólks. Seltjarnarnesbær er eftir á í grænu málunum og er mikilvægt að við útbúum markvisst grænt plan sem snýr að öllum þáttum reksturs, uppbyggingu og þjónustu við íbúa. Miðbæjarsvæðið er svo sérlegt áhugamál hjá mér en þar eru gríðarleg tækifæri til að ráðast í uppbyggingu og styðja við svæðið til að efla þjónustu við íbúa sem og fyrirtækin á svæðinu.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson

Áhugamaður um pítsur og íþróttir

Guðmundur Ari er spurður hvað það gefi honum að vera í bæjarstjórninni og að vinna að þessum málum.

„Mér finnst vera gríðarlega verðmætt að vera treyst fyrir því að sitja í bæjarstjórn fyrir íbúa og sækist eftir stuðningi til að verða bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Í bæjarstjórn eru teknar ákvarðanir sem snúa að nærumhverfi íbúa og finnst mér að við getum gert betur í að hlusta á þarfir íbúa, raddir fagfólks og vera stefnumiðaðri í stjórnun bæjarins. Það er ekki hægt að gera allt fyrir alla á sama tíma en mikilvægt að eiga í góðu samráði við íbúa og teikna upp langtímaplön þar sem verkefnum er forgangsraðað og fólk fái tilfinningu fyrir því að verkefnin séu í ferli og þau séu kláruð. Ég vil standa vörð um og efla skóla- og frístundastarfið á Nesinu í samstarfi við félagsþjónustuna svo að öll börn fái tækifæri til að upplifa öryggi og tilgang í starfinu. Ég tel það vera frumskyldu sveitarfélagsins að halda vel utan um börnin okkar og tryggja farsæld þeirra.“

Tekur það eitthvað frá honum að vera í bæjarstjórninni og vinna að þessum málum?

Guðmundur Ari Sigurjónsson

„Neikvæðu hliðar sveitarstjórnarstarfsins eru að þetta tekur tíma frá fjölskyldunni. Á Seltjarnarnesi eru fundir haldnir fyrir eða eftir vinnu því það virðist vera viðurkennt að taka ekki óþarfa tíma frá öðrum störfum en á sama tíma bitnar það stundum á fjölskyldunni og útilokar algjörlega foreldra sem hafa ekki öflugt stuðningsnet í kringum sig.“

Hvernig myndi Guðmundur Ari lýsa sjálfum sér?

„Ég myndi lýsa mér sem nokkuð lífsglöðum og temmilega kærulausum fjölskyldumanni. Ég er áhugamaður um pítsur og íþróttir og stelst í að spila tölvuleiki þegar tími gefst.“

Hann er kvæntur Nönnu Kaaber íþróttafræðingi og eiga hjónin þrjú börn. Árni Bergur er níu ára, Kjartan Kári er sex  ára og Magnea er þriggja ára. Hann segir að helstu áhugamálin séu að nýta frítímann í samveru með fjölskyldu og vinum. „Ef maður er með góðu fólki þá er aukaatriði hvort við séum í golfi, fjallgöngum, hjólreiðaferðum eða fótbolta.“
Það er nóg að gera en Guðmundur Ari er að ljúka ljúka Med.-gráðu með áherslu á stjórnun og þróunarstarf ásamt því að vera þátttkandi í þróunarverkefnum og rannsóknum með háskólanum. „Þessi reynsla hefur búið til það mottó hjá mér að það eru allir flottir og ef við sköpum réttu aðstæðurnar og styðjum við fólk með réttum hætti á réttum tímapunkti þá geta allir ræktað styrkleika sína, fundið tilgang sinn og blómstrað. Þetta viðhorf litar mig í pólítík, leik og starfi.“

Guðmundur Ari Sigurjónsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -