Föstudagur 27. maí, 2022
13.1 C
Reykjavik

Guðmundur Felix kynntist Sylwiu handalaus: „Ég er rosa mikið að flengja hana núna því ég get það“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Guðmundur Felix Grétarsson, handhafi eins og hann kallar sjálfan sig, er nýjasti gestur þeirra bræðra Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið. Þar fór hann yfir slysið sem breytti lífi hans og bataferlið sem er bæði gríðarlega erfitt og mjög gefandi.

Sjá einnig: Guðmundur Felix vill hjálpa öðrum með reynslu sinni: „Ég hætti að streitast á móti lífinu“

Felix eins og hann er gjarnan kallaður hefur skrifað sig djúpt í hjörtu fólks bæði hér heima sem og erlendis en fyrir jól kom út bókin hans, 11.000 volt. Felix lenti í slysi janúar 1998 er hann vann sem rafveituvirki. Slysið sem hefði dregið flesta til dauða varð til þess að líf hans breyttist úr hefðbundinni sögu yfir í hálfgerða hryllingssögu á örskotsstundu.

Nú 23 árum síðar er hann nýkomin heim í jólaheimsókn með sinni ástkæru konu Sylwiu og orðinn handhafi. Hann gekkst undir aðgerð eins og flestir vita í janúar á þessu ári þar sem græddir voru á hann nýjir handleggir frá öxlum og niður.

Guðmundur Felix nýklipptur og fínn.

Slysið

Felix fór yfir það í þættinum hvernig óskipulag og röð mannlegra mistaka urðu til þess að hann einfaldlega fór upp í vitlausan staur þennan afdrifaríka morgun með þeim afleiðingum að hendur hans nánast sprungu af. Hann féll átta metra niður á jörðu sem hann reyndar segir að hafi gert það að verkum að hann hafi lifað af. Ef hann hefði ekki kastast í jörðina hefði hann einfaldlega brunnið upp til agna þarna upp í staurnum. Við fallið þríbrotnaði hann á hrygg ásamt því að rifbein losnuðu frá hryggjarsúlunni. Þar að auki fékk hann talsverða innri áverka sem þýddu að hann hefur tvisvar þurft að gangast undir lifraígræðslu.

- Auglýsing -

„Það sem verður mér til lífs er að detta úr staurnum. Þetta er svona sérstakir skór sem maður er í sem krækist utan um staurinn og svo er maður með belti og lífól utanum staurinn. Ég er sem sagt búin að losa lífólina og gríp í línuna og ef ég hefði ekki dottið þá hefði ég bara verið þar þartil ekkert hefði verið eftir, þá er maður bara eins og kyndill,“ segir Felix í hlaðvarpsþættinum og heldur áfram.

„Í langan tíma var skömm því ég vissi ekki hvað hefði gerst, ég mundi ekkert. Það tók mig talsverðan tíma að muna atburðarrásina, það fóru svo allskonar sögur afstað meðal annars að ég hefði bara ætlað að kála mér,” segir Felix og bætir svo við. “en ég vissi samt að það var eitthvað óeðlilegt, ég meina ég var ekki fáviti, ég vissi nákvæmlega hvað ég var að gera en eitthvað hefur farið úrskeiðis sem fær mig til að fara upp í rangan staur.“

Fljótlega tók að halla undan fæti

- Auglýsing -

Fljótlega eftir slysið byrjaði fölskylduformið að molna undan honum. Hann í raun segir að hann og kona hans þáverandi hafi bara verið krakkar með krakka.

„Konan mín þáverandi verður fyrir alveg gríðarlegu áfalli þegar þetta gerist og er allt í einu bara þarna orðin ein með pínulítil börn og maðurinn hennar bara eins og pezkall.“

Hann segist hafa verið þjakaður af sekt og skömm, fullur vanmáttar og sjálfsvorkunar. Mikil verkjalyfjagjöf gerði það að verkum að hann ánetjaðist lyfjum sem leiddu hann í harðari fikniefnaneyslu sem nánast gengu af honum dauðum.

„Það kemur engin leiðarvísir á því hvernig maður dílar við þetta og ein góð leið við díla við þetta er bara að díla ekkert við þetta og ef þú ert bara í einhverju móki þá er þetta ekkert vandamál,“ segir Felix í viðtalinu.

Hann minntist þess að hafa upplifað sig sem skrítna gula kallinn í Smáralindinni er hann kom auga á unga drengi sem eltu hann, störðu og gerðu grín af. Þarna hafi hann upplifað nokkurskonar augnabliks skýrleika sem svo færði hann í ferli sem snéri að edrúmennsku og andlegum vexti.

Sylwia breytti öllu

Felix er búinn að bíða lengi eftir handleggjunum. Hann fór til Frakklands og hóf þessa vinnu fyrir um sjö árum síðan. Mikill tími hefur farið í allskonar rannsóknir og samsetningu á liði lækna og hjúkrunarfræðinga sem myndu svo framkvæma aðgerðina þegar að réttu hendurnar myndu dúkka upp. Erfiður og langur biðtími tók við sem þó tók miklum breytingum eftir að Sylwia, núverandi eiginkona hans birtist í lífi hans. Sylwia Grétarsson sem er frá Póllandi hefur verið Felix ómetanlegur styrkur í þessu ferli öllu saman. Hún starfar sem yoga kennari og búa þau saman í úthverfi Lyon með þrjá hunda. Felix segist njóta lífsins í Frakklandi og segir að þrátt fyrir að alltaf hafi planið verið að flytja aftur heim til Íslands geti þau alveg ímyndað sér að búa áfram í Frakklandi.

Guðmundur Felix og Sylwia.

„Hún náttúrulega bara kynnist mér og ég er bara algjörlega handleggjalaus og ég segi henni hvað ég er að gera þarna í Lyon en hún bara einhvernvegin eins og svo margir aðrir hélt að það yrði aldrei neitt úr þessu og var bara alglörlega sátt við það, við verðum ástfangin þegar staðan er svona,“ segir Felix og bætir svo við sposkur á svip og hlær „en ég er rosa mikið að flengja hana núna því ég get það.“

Endurhæfingin enginn dans á rósum

Dagleg endurhæfing Felix er löng og ströng. Hann mætir snemma á morgnana og stendur endurhæfingin yfir nánast allan daginn. Hann segir hana ekki bara gríðarlega erfiða og krefjandi heldur einnig alveg drepleiðinlega oft á tíðum. Mikil endurtekning þarf að eiga sér stað svo að nýjar tengingar taugakerfisins geti orðið að veruleika. Árangurinn sem Felix sýnir í sinni bataþróun er framar öllum vonum. Taugar virðast vera að vaxa miklu hraðar en vonir stóðu til um en jákvætt viðhorf og þrautsegja Felix er mögulega ráðandi þáttur hvað það varðar.

Guðmundur Felix í góðum höndum
Mynd: France 3 – skjáskot

Karllæg spurning úr sal

Gunnar bar upp spurningu úr sal eða réttara sagt úr símanum sínum. Spurningin kom frá félaga þeirra bræðra, honum Ívari á gröfunni. Ívar vildi vita hvort Felix væri búinn að „hrista“ hann. Felix svaraði þessari spurningu hlægjandi en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann er spurður að þessu. Hann segist halda að þetta sé það fyrsta sem mörgum drengjum og mönnum detti í hug í þessum málum. Hann sagði að gripstyrkur og hreyfigeta væri á hraðri uppleið og þegar að hann myndi hverfa af samfélagsmiðlum eða sjónarsviði almennt í mánuð eða svo þá vissum við hvað hann hefði fyrir stafni og hvar hann væri staddur í sinni bataþróun. Það tæki líklega einhverja mánuði að vinna upp 23 ár án handleggja. Davíð tók glettinn undir þetta og fannst þetta mikilvægur „milestone“ í þessum efnum.

Heimkoman

Við heimkomuna til Íslands hefur hann gengið í gegn um alla flóruna af tilfinningum. Til dæmis hitti hann og fékk að halda á mánaðar gömlu barnabarni sínu honum Felix Jr. í fyrsta skiptið. Þessi tilfinning að fá að halda á barnabarni sínu með það til hliðsjónar að yngra barn hans var aðeins þriggja mánaða þegar að hann lenti í þessu afdrifaríka slysi, var ólýsanleg. Hann upplifir ómælda heilun á fortíð sinni í þessu ferli öllu saman. Hann segist vera í þessum aðstæðum svo djúpt snortin að það jaðri við taugaáfalli oft á tíðum, hann meira að segja óttaðist það að vera í stanslausum grátköstum í þessari Íslandsheimsókn sinni því tilfinningarnar bera hann nánast ofurliði stundum.

Felix faðmar dóttur sína fyrr á árinu.
Mynd: Instagram

Felix vill ekki vita hver gaf honum hendurnar

Gunnar spurði Felix hvort hann vissi eitthvað um hendurnar, hvaðan þær kæmu og hverjum þær eitt sinn tilheyrðu. Hann sagðist ekkert vita annað en að þær tilheyrðu manni sem lést 35 ára gamall. Auðvitað er mikill harmleikur í kringum þetta þó að fyrir honum er það ekkert annað en kraftaverk. Hann sagði frá því að aðstandendur gjafans vita að öllum líkindum hver ber hendurnar í dag og því í færi til að fylgjast með þeim úr fjarlægð því gríðarleg umfjöllun er í gangi í Frakklandi hvað hendurnar hans Felix varða. Felix segist ekki vilja vita hver bar þær í 35 ár en klárlega er hjarta hans fullt af kærleik, þakklæti og auðmýkt.

Guðmundur Felix Grétarsson. Mynd: Brynjar Snær

„Ég er ekkert viss um að ég vilji vita það,“ segir Felix og bætir svo við „þetta er tragedía, hann var 35 ára og andlát 35 ára manns er aldrei af góðu. En fyrir mig, ég þarf að lifa með þessu einhvernvegin þannig að fyrir mig að vera mikið að fara inn í tragedíuna á bakvið þennan sigur hjá mér, þú veist, reyna að sjá fyrir mér andlit mannsins eða eitthvað, það gengur ekki, það er það sama með aðrar líffæragjafir. Ég veit ekkert hvernig Daninn sem gaf mér lifrina lítur út.“ segir Felix við bræðurna.

Þáttinn má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -