Fimmtudagur 25. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Guðmundur Kristjánsson, Muggi, hættir sem hafnarstjóri: Vildi verða kokkur en varð skipstjóri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjórinn á Ísafirði, á að baki langan og áhugaverðan sjómannsferil.

Hvernig byrjaði þetta?

„Ég fæddist og ólst upp í Bolungarvík og byrjaði snemma að beita og þvælast í kringum bátana,“ segir Guðmundur í viðtali við Sjóarann.

„15 ára var ég orðinn atvinnusjómaður.“

Það er nú svolítið.

„Það bara þótti á þeim tíma ekkert sérstakt. Allir ungir strákar fóru bara á sjóinn og ég var einn af þeim. Ólíklegur samt.“

- Auglýsing -

Varst þú ekki típan í það?

„Ég veit það ekki. Allavega líkaði mér alltaf vel eftir að ég byrjaði á sjó. Ég hef aldrei þurft að þjást af sjóveiki og þetta var mér auðvelt.“

Hann ætlaði aldrei að verða skipstjóri eins og síðar varð heldur ætlaði hann að verða kokkur. „Svo atvikaðist það að ég fór í Stýrimannaskólann eins og margir ungir menn.“

Helvítis brælurnar voru leiðinlegar.

- Auglýsing -

Hann segist hafa byrjað á handfærum með góðum manni, Ella Ketils. „Margir ungir drengir byrjuðu sinn sjómannsferil hjá honum. Hann er góður maður og það var gott að byrja hjá honum. Hann fór vel með bát og mannskap og að vera unglingur á sjó með honum var góður skóli og ég á ljúfar minningar frá því. Það var svolítið framandi fyrir ungan mann að draga fisk úr sjó.

Svo fór ég á línu með Jóni, frænda mínum. Jóni Egils. Hann var þá skipstjóri á Hugrúnu og ég byrjaði sem háseti hjá honum og eftir fyrstu línuvertíðina gaf ég sjálfum mér alltaf loforð um að fara aldrei aftur á línu og velja einhvern skemmtilegri veiðiskap heldur en það.“

Var ekki skemmtilegt að vera á línu?

„Æi, þú veist hvernig þessar vetrarvertíðir voru; helvítis brælurnar voru leiðinlegar. Svo komu góðu dagarnir og þá gleymdi maður vonda veðrinu. Og svo á haustin sagði Jón frændi: „Jæja, frændi, eigum við ekki að fara að útbúa?“ Jú, auðvitað fórum við að útbúa og ég var mættur á næstu vertíð.“

Hvert var fyrsta plássið sem stýrimaður?

„Það var hjá Hálfdáni Einarssyni, hinum mikla aflaskipstjóra. Þá var hann útgerðarstjóri hjá Einari Guðfinnssyni. Þetta var um sumartíma og ég var 17-18 ára. Þá vantaði stýrimann og það var farið til Símons Helgasonar á Ísafirði einn eftirmiðdag og þar kenndi Símon mér að stinga út í kort og á kompás og þar með var ég kominn með þessi svokölluðu 30 tonn og út á það fékk ég undanþágu á stærri skip og þá byrjaði minn stýrimannaferill.“

Hér má horfa á viðtalið við Guðmund í heild sinni.

Mugison

Svo fór Guðmundur suður með æskuvini sínum, Olgeiri Hávarðarsyni.

„Ég ætlaði eiginlega að skrá mig í kokkaskólann sem var á fyrstu hæðinni í Sjómannaskólanum en við byrjuðum á að fara upp á 3. hæð og þá sagði Jónas skólastjóri: „En þú, ungi maður; hefur þú ekkert hug á því að skrá þig?“ Og ég er svo meðvirkur í öllu sem ég geri og er áhrifagjarn.“ Og Guðmundur skráði sig í skólann og útskrifaðist árið 1977.

Honum höfðu leiðst línuveiðarnar.

„En samt ekki meira en svo að ég réði mig beint á línubát sem stýrimaður. Þegar ég kom úr skólanum fór ég með Jóni, frænda mínum sem var þá að taka við nýjum báti, Flosa, sem var 30 tonn og smíðaður á Akureyri. Þetta var splunkunýr trébátur og ég byrjaði á honum haustið 1977 og reri með honum í nokkrar vertíðir.“

Guðmundur bjó í Bolungarvík og var þegar þarna var komið við sögu kominn með fjölskyldu en sonur hans, Örn, fæddist árið 1976. Flestir þekkja hann sem tónlistsarmanninn Mugison.

„Hann heitir Örn Elías í höfuðið á móðurafa sínum sem var merkilegur kall. Góður maður.

Síðan fór ég í afleysingatúra á Guðbjarti; skuttogara á Ísafirði. Svo þegar Einar Guðfinsson fór í loðnuútgerð á Hafrúnu þá fór ég þar sem 2. stýrimaður á Hafrúnu sem var gamla Eldborgin. Þar var skipstjóri Lárus Grímsson; ákaflega fiskinn, fylginn sér og lunkinn. Hann var harður húsbóndi en við áttum farsæla samveru á sjó. Ætli ég hafi ekki verið hjá honum í eitt ár.“

Ég hætti þegar mér bauðst til að fara til Afríku.

Svo bauðst Guðmundir pláss sem afleysingastýrimaður á Guðbjarti.

„Það var gott pláss og ég var þar í fjögur ár og átti farsælan feril þar. Ég hætti þegar mér bauðst til að fara til Afríku,“ segir Guðmundur sem fór þangað á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

Hann notar þann stökkpall til að æfa sig á harmonikkuna.

Aðeins að Mugison.

„Hann hefur einhverja sérgáfu sem aðrir hafa ekki. Þetta liggur létt fyrir honum. Hann er til dæmis ekkert menntaður sérstaklega sem tónlistarmaður en hann hefur hæfileika til þess að spila og semja. Hann spilar á mörg hljóðfæri. Ég fór ungur í tónlistarskóla í Bolungarvík til að læra á básúnu og hætti þegar ég var 13 ára en hyggst núna 67 ára halda áfram þar sem frá var horfið þegar ég var 13 ára. Ég ætla að fara í tónlistarskólann á Ísafirði og halda áfram að læra að blása,“ segir Guðmundur sem segist spila með nokkrum körlum einu sinni í viku og vera í lúðrasveit og karlakór.“

Þið fegðarnir hafið verið svolítið verið að leika ykkur saman.

„Já, hann er til dæmis í þessari hljómsveit með okkur. Hann notar þann stökkpall til að æfa sig á harmonikkuna.“

Til Grænhöfðaeyja

Hvernig datt þér í hug að fara til Afríku?

„Við vorum að byggja í víkinni á þessum tíma og verðbólgan var 100%.“

Bara hörmung.

„Bara örmung. Það var eilíft djöfulsins basl en það var ekki endilega það sem ýtti á það að ég sótti um. Það var auglýst starf; stýrimaður á skipi sem átti að fara til Grænhöfðaeyja, Fengi sem var í smíðum á Akureyri. Og í einhverju bríaríi sótti ég bara um og ég þekkti hvorki persónur né leikendur í því batteríi sem þar réðu.

Þá stóð ég á krossgötum í mínu lífi þannig að ég hugsaði með mér að það væri djöfull gott að komast frá þessu helvítis basli og fara eitthvert langt út í geim þar sem enginn næði í mann. Ég gat losað mig út úr öllum mínum skuldum, losnað við húsið og við keyptuml litla íbúð í Reykjavík, í Breiðholtinu, og fórum til Afríku. Krakkarnir voru litlir; Örn var þá sjö ára og systir hans, Erla Sonja, hefur verið fjögurra til fimm ára.“

Ég hef aldrei verið greindur en ég er ábyggilega með svona gríðarlegan athyglisbrest.

Hann segir að þetta hafi verið framandi veröld. „Þetta var spennandi og við vorum að gera eitthvað allt annað heldur en við vorum vanir. Ég hef aldrei verið greindur en ég er ábyggilega með svona gríðarlegan athyglisbrest og er fljótur að setja mig inn í aðstæður hvar sem ég er og hvað sem ég er að gera. Ég hef alltaf átt auðvelt með að kynnast fólki, ræða við fólk og ég á mjög auðvelt með að læra tungumál og setja mig inn í hugarheim og aðstæður. Það var það sem einhvern veginn dreif mig áfram.“

Áhafnirnar voru tvær og var Guðmundur ráðinn í sex mánuði til að byrja með.

„Þetta var fínn byrjunartími og svo eftir þessa sex mánuði þarna úti var komið að lokum hjá okkur í þessu tímabundna períódi sem var lagt upp með og þá var verkefnið stokkað upp,“ segir Guðmundur og fór hann til Lissabon til að læra portúgölsku og fleira. Þeir voru síðan endurráðnir í verkefnið; frá haustinu 1984 til vors 1985.

„Þá fór ég aftur til baka og var ráðinn skipstjóri.“

Var gert mikið gagn fyrir íbúa Grænhöfðaeyja?

Guðmundur segir að Fengur hafi verið meira heldur en bara fiskiskip. „Við vorum að búa til sjókort og við vorum í sjómælingum,“ segir hann og einnig var um að ræða hafrannsóknir. „Við vorum á túnfiskveiðum og við vorum að veiða humar í gildrur og það var eitthvað sem heimamenn voru að gera líka; við vorum að reyna þetta á annan hátt og vorum kannski afkastameiri með öflugri spil og annað. Við leyfðum okkur að vera með humargildrur í lengri trossum. Það var ákaflega gaman.“

Það var vissulega breyting á högum og lífsgæðum.

Guðmundur er spurður hvernig hafi verið að flytja með fjölskylduna til Grænhöfðaeyja.

„Börnin voru komin á skólaaldur þannig að við fórum með námsefni með okkur og konurnar voru að kenna börnunum. Þegar ég lít til baka þá held ég að þau hafi ekkert skaðast á þessu. Þetta er allt ágætis vel gert fólk sem upp úr þessu stóð. En jú, það var vissulega breyting á högum og lífsgæðum.“

Voru börnin eins frjáls og í Bolugnarvík?

„Þetta var alls ekki síðra. Þau voru út um allt. Þetta var mjög friðsamt samfélag og Örn fór út eftir morgunmatinn í fótbolta með strákunum og þeir þvældust um allt. Í sjálfu sér þurftum við aldrei að hafa áhyggjur af því.“

Þarna bjuggu þau þar til verkefnið var stokkað upp í kringum 1987 og þá var siglt heim.

Guðmundur Kristjánsson

KEA

Guðmundur réð sig til Kaupfélags Eyfirðinga eftir Afríkudvölina. „Ég var síðasti skipstjóri hjá útgerðarfélagi KEA; KEA hætti síðan rekstri og seldi útgerðardeildina til Samherja.“

Hann segir frá upphafinu.

„Þegar ég kom heim frá Afríku fór ég í eina loðnuvertíð. Þá var Lárus Grímsson skipstjóri á Hilmi II og ég fór með honum sem fyrsti stýrimaður. Svo um vorið hafði Jóhann Þór Halldórsson samband; þá var hann útibússtjóri KEA, Kaupfélags Eyfirðinga, í Hrísey. Hann hafði frétt af mér og spurði hvort ég væri til í að skoða það að verða skipstjóri hjá KEA.“

Sólfell var fyrsti báturinn sem Guðmundur var með hjá KEA og segir hann að það hafi verið annálað skip. Þar varð hann skipstjóri.

„Við vorum á Síðunni og vorum á rækju og fiskitrolli sitt á hvað.“

Þá var tíska að landa í gáma og senda út.

Guðmundur var með þrjú skip hjá KEA. „Ég byrjaði á Sólfelli. Síðan stóð KEA frammi fyrir því að fara að gera eitthvað meira; þetta gekk mjög vel og KEA vildi halda mér og halda mér ánægðum og það var alltaf verið að spá í að kaupa ný skip,“ segir hann og var gamli Siglfirðingur keyptur. „Þeir keyptu hann og skírðu Súlnafell. Ég var með hann í nokkur ár. Þetta var skemmtilegur bátur; Siglfirðingur hafði verið fyrsti skuttogari Íslendinga. Það gekk alltaf vel að fiska og vorum við ýmist á rækju eða fiskitrolli. Þetta var áfallalaust og við lentum aldrei í neinu og það gekk vel að halda mannskap. Við lönduðum yfirleitt í Hrísey og einstöku sinnum lönduðum við í gáma hér og þar en þá var tíska að landa í gáma og senda út.“

KEA bað Guðmund um að taka við Snæfellinu síðustu mánuðina sem þeir áttu það og segist hann síðan hafa farið aftur á Súlnafell.

„Svo kláraði ég minn feril á Súlnafellinu og KEA ákvað að hætta rekstri í útgerð.“

Guðmundur var síðan skipstjóri á frystitogaranum Stakfelli í um tvö ár. „Það var svolítið sérstakt. Þá var mikil áhersla hjá íslenskum útgerðarmönnum að halda skipum sínum á þessum alþjóða hafsvæðum; við vorum norður í Smugu, við vorum vestur á Flæmingjagrunni og lönduðum á Nýfundnalandi. Þetta var öðruvísi sjómennska.

Guðmundur Kristjánsson
Guðmundur og núverandi eiginkona hans, Halldóra Magnúsdóttir.

Falklandseyjar

Svo hófst nýtt ævintýri.

„Stefán Þórarinsson hafði samband við mig og þá var hann með í undirbúningi að stofna útgerðarfyrirtæki með Granda og Kristjáni Guðmundssyni á Rifi; KG, Grandi og Nýsir. Þá voru þeir að fara í útrás með tvö skip. Það var Engey og línuveiðarinn Tjaldur og þeir voru að fara að huga að útgerð á Falklandseyjum. Stefán spurði hvort ég myndi hafa hug á því að vera útgerðarstjóri á Falklandseyjum og ég ræddi þetta við þáverandi konuna mína.

Þessi úthafssjómennska var þreytandi. Hún reyndi mikið á mann sem einstakling en ég held ég hafi sloppið vel frá því. En þetta er langur tími í fjarvisum; við vorum að landa fjarri heimahögunum. Það var þannig lagað séð ekkert í pípunum á Stakfellinu þannig að ég var alveg til í það að skoða eitthvað annað. Og hvers vegna ekki að verða útgerðarstjóri á Falklandseyjum? Það voru traustir aðilar sem stóðu að þessum rekstri og launin sem þeir buðu voru ágæt og það var í sjálfu sér ekkert flókið eða erfitt að ákveða að söðla um.“

Og Falklandseyjar urðu það.

„Undirbúningur stóð yfir í nokkra mánuði hér heima. Engey, togari Granda, og svo Tjaldurinn fóru að veiða Patagonian toothfish sem er kallaður tannfiskur – mjög verðmætur fiskur. “

Og Engey fór á smokkfiskveiðar.

„Hlutverk mitt var að vera í landi; á skrifstofu. Á Falklandseyjum er það þannig að menn stofna fyrirtæki og fá úthlutuð veiðileyfi sem þeir síðan leigja áfram til útgerða. Það eru margir sem hafa atvinnu af þessu á Falklandseyjum að vera bara veiðileyfishafar og leigja áfram út og fá eitthvað af því í eigin vasa. Og þannig var þetta fyrirtæki í rauninni sett upp – í samvinnu við nokkra aðila eða fyrirtæki á Falklandseyjum sem útveguðu veiðileyfin. Íslendingarnir sköffuðu skipin og að hluta til áhafnir en yfirmennirnir voru íslenskir. Við náðum í sjómenn til Chile og starf mitt fólst í að ráða og reka og sjá til þess að sjómennirnir fengju vistir og veiðarfæri fyrir næstu veiðiferð og að taka á móti afla og koma honum í frystigeymslu og síðar franktara eða þá að landa beint í fraktara. Þarna var ég í eitt og hálft ár og þá ákváðu þessir aðilar að slíta samstarfinu; kalla skipin heim. Ég held að árangurinn hafi ekki verið nægur. Þeir fiskuðu greinilega ekki nógu mikið en verðmætin eins og í þessum tannfiski voru alveg lygileg.“

Þá voru meðeigendirnir búnir að skipta um lás og búnir að taka tölvuna.

Það var ákveðið að Guðmundur færi sem skipstjóri í síðustu veiðiferðina á Engey.

„Á meðan ég var í þessari veiðiferð þá gerðist eitthvað sem ég veit ekki hvað var. Ég ætlaði á skrifstofuna mína þegar ég kom í land en þá voru meðeigendirnir búnir að skipta um lás og búnir að taka tölvuna. Útgerðin hafði skaffað mér nýjan Land Rover þegar ég kom fyrst og þeir voru búnir að fjarlægja hann.“

Hann segir að heimamennirnir hafi gefið skít í sig þannig lagað séð og hann gat ekki borgað áhöfninni laun en Íslendingarnir fengu laun í gegnum Ísland.

„Eitt mjög krítískt móment var þegar ég var heima í stofu að pakka búslóðinni okkar til að að koma um borð í Engey var að allir sjómennirnir frá Chile voru komnir á gluggann hjá mér.“

Viðtalið í heild sinni er hér.

Framhaldi í næstu viku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -