Fimmtudagur 10. október, 2024
2.4 C
Reykjavik

Guðmundur var með lögregluvernd allan sólarhringinn: „Ég var með áhöfnina á stofuglugganum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur Kristjánsson, sem hættir bráðum störfum sem hafnarstjóri á Ísafirði, á að baki langan og áhugaverðan sjómannsferil sem hann lýsti í viðtali við Reyni Traustason sem birt var fyrir viku síðan og er þetta framhald af því viðtali. Hér birtist seinni kaflinn í því viðtali, Falklandseyjar, og eftir hann er svo framhaldið (https://www.mannlif.is/frettir/gudmundur-kristjansson-islandsmid-falklandseyjar-og-graenhofdaeyjar/)

„Stefán Þórarinsson hafði samband við mig og þá var hann með í undirbúningi að stofna útgerðarfyrirtæki með Granda og Kristjáni Guðmundssyni á Rifi; KG, Grandi og Nýsir. Þá voru þeir að fara í útrás með tvö skip. Það var Engey og línuveiðarinn Tjaldur og þeir voru að fara að huga að útgerð á Falklandseyjum. Stefán spurði hvort ég myndi hafa hug á því að vera útgerðarstjóri á Falklandseyjum og ég ræddi þetta við þáverandi konuna mína.

Hvers vegna ekki að verða útgerðarstjóri á Falklandseyjum?

Þessi úthafssjómennska var þreytandi. Hún reyndi mikið á mann sem einstakling en ég held ég hafi sloppið vel frá því. En þetta er langur tími í fjarvisum; við vorum að landa fjarri heimahögunum. Það var þannig lagað séð ekkert í pípunum á Stakfellinu þannig að ég var alveg til í það að skoða eitthvað annað. Og hvers vegna ekki að verða útgerðarstjóri á Falklandseyjum? Það voru traustir aðilar sem stóðu að þessum rekstri og launin sem þeir buðu voru ágæt og það var í sjálfu sér ekkert flókið eða erfitt að ákveða að söðla um.“

Og Falklandseyjar urðu það.

„Undirbúningur stóð yfir í nokkra mánuði hér heima. Engey, togari Granda, og svo Tjaldurinn fóru að veiða Patagonian toothfish sem er kallaður tannfiskur – mjög verðmætur fiskur.“

Og Engey fór á smokkfiskveiðar.

- Auglýsing -

„Hlutverk mitt var að vera í landi; á skrifstofu. Á Falklandseyjum er það þannig að menn stofna fyrirtæki og fá úthlutuð veiðileyfi sem þeir síðan leigja áfram til útgerða. Það eru margir sem hafa atvinnu af þessu á Falklandseyjum að vera bara veiðileyfishafar og leigja áfram út og fá eitthvað af því í eigin vasa. Og þannig var þetta fyrirtæki í rauninni sett upp – í samvinnu við nokkra aðila eða fyrirtæki á Falklandseyjum sem útveguðu veiðileyfin. Íslendingarnir sköffuðu skipin og að hluta til áhafnir en yfirmennirnir voru íslenskir. Við náðum í sjómenn til Chile og starf mitt fólst í að ráða og reka og sjá til þess að sjómennirnir fengju vistir og veiðarfæri fyrir næstu veiðiferð og að taka á móti afla og koma honum í frystigeymslu og síðar franktara eða þá að landa beint í fraktara. Þarna var ég í eitt og hálft ár og þá ákváðu þessir aðilar að slíta samstarfinu; kalla skipin heim. Ég held að árangurinn hafi ekki verið nægur. Þeir fiskuðu greinilega ekki nógu mikið en verðmætin eins og í þessum tannfiski voru alveg lygileg.“

Þá voru meðeigendirnir búnir að skipta um lás og búnir að taka tölvuna.

Það var ákveðið að Guðmundur færi sem skipstjóri í síðustu veiðiferðina á Engey.

Allir sjómennirnir frá Chile voru komnir á gluggann hjá mér.

- Auglýsing -

„Á meðan ég var í þessari veiðiferð þá gerðist eitthvað sem ég veit ekki hvað var. Ég ætlaði á skrifstofuna mína þegar ég kom í land en þá voru meðeigendirnir búnir að skipta um lás og búnir að taka tölvuna. Útgerðin hafði skaffað mér nýjan Land Rover þegar ég kom fyrst og þeir voru búnir að fjarlægja hann.“

Hann segir að heimamennirnir hafi gefið skít í sig þannig lagað séð og hann gat ekki borgað áhöfninni laun en Íslendingarnir fengu laun í gegnum Ísland.

„Eitt mjög krítískt móment var þegar ég var heima í stofu að pakka búslóðinni okkar til að að koma um borð í Engey var að allir sjómennirnir frá Chile voru komnir á gluggann hjá mér.“

Lögregluvernd

Og það voru öskur og læti í sjómönnunum. Og hótanir.

Þeir vildu bara fá borgað.

„Skiljanlega. Ég bað þá afsökunar og sagði að ég væri að reyna að vinna í þessu; þeir fengju launin sín en að ég ætti í erfiðleikum með að tala við þá akkúrat þarna. Ég vissi raunverulega ekki neitt. Ég fékk engar upplýsingar frá þeim sem raunverulega voru þannig lagað séð rekstraraðilar fyrirtækisins, meðeigendurnir á Falklandseyjum. Þeir voru búnir að loka á mig öllum dyrum. Þeir töluðu ekki við mig. Þeir sögðu bara að ég myndi sjá um þetta. Og þar var tékkheftið. Og þar var aðgangurinn að öllu. Ég náði að lokum, sem betur fer, sambandi við Stefán og hann hjálpaði mér í gegnum þetta. Og gerði það vel. Akkúrat þarna þegar ég var með áhöfnina á stofuglugganum varð ég svolítið smeykur. Ég þorði ekki út og hringdi á lögregluna. Þá hafði lögreglan fengið einhvern pata af þessu og að ég væri hugsanlega í smáhættu. Þegar menn eru orðnir hræddir um að það sé verið að hlunnfara þá, og smáfyllirí og ofsi kominn í mannskapinn, þá fer maður ekki bláedrú beint í fangið á þeim. Þannig að þessa sólarhringa sem ég var þarna að ganga frá þessum málum á Falklandseyjum þá var ég undir lögregluvernd. Löggan passaði mig 24/7 og vildi að það kæmi ekkert fyrir þennan ágæta mann. Og gerði það vel. Samstarfsmenn mínir á Falklandseyjum voru ekkert endilega að hafa áhyggjur af mér. Ég átti bara að leysa þetta.“

Sjómenninir höfðu enga trú á að þetta gæti gengið.

Þeir voru búnir að loka og taka tékkheftið.

Guðmundur segir að þeir Stefán, sem höfðu ráðið mannskapinn og voru með samning við umboðsmann í Punta Arena í Chile, hafi reynt að gera upp við mannskapinn í gegnum umboðsmanninn. „Við borguðum mönnum bara beint. Sjómenninir höfðu enga trú á að þetta gæti gengið upp þrátt fyrir að þeir hafi skrifað undir ráðningarsamninga hjá þessu fyrirtæki sem var umboðsmaður okkar í Punta Arenas. “

Guðmundur segist hafa verið undir lögegluvernd allan sólarhringinn í þrjá til fjóra daga eða á meðan hann var að ganga frá. Þeir Stefán og skrifstofan í Punta Arenas gengu þannig frá því að hægt var að segja áhöfninni hvernig uppgjörið yrði. „Peningarnir komu frá Íslandi; þeir fóru ekki í gegnum Falklandseyjar heldur voru greiddir beint inn á reikning hjá þessu fyrirtæki í Punta Arenas í Chile og þar var listi með nöfnum þeirra og hvað hver átti að fá mikinn pening. Það var svolítið flókið að koma þessu á og áhöfnin hafði enga trú á þessu; það var sagt að allir í Chile væru mafíósar og að þeir myndu stela þessu.“

Þá hafði ég sólarhring í viðbót til þess að klára öll mál fyrir skipið.

Einungis um klukkutíma flug er á milli Falklandseyja og Punta Arenas og keypti Guðmundur með bankaábyrgð frá Íslandi flugmiða fyrir áhöfnina sem þurfti að senda heim til Chile. „Það stóð helvíti tæpt að róa mannskapinn,“ segir Guðmundur sem fékk vinn sinn sem var góður í spænsku til að útskýra málin. „Við náðum á endanum að koma öllum Chile-áhafnarmeðlimum í bíl, út á flugvöll og í flug heim. Þá hafði ég sólarhring í viðbót til þess að klára öll mál fyrir skipið og okkur sem vorum þarna til að sigla því heim. Við vorum með nokkra stráka frá Grænhöfðaeyjum; gamla vini okkar Stefáns frá þeim árum. Þeir voru þarna dekkmenn og ákaflega fínir og góðir drengir. Þeir stóðu allaf með sínum manni. Ég vissi alltaf hvar ég hafði þá. Þetta var viðskilnaðurinn þarna.“

Guðmundur segist vera ágætis kunningi þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins á Falklandseyjum en sá maður býr núna í London. „Þeir hafa sjálfsagt haldið að þeir væru að tapa öllu sínu. Ég held að þetta fyrirtæki hafi gert þannig upp án þess að ég viti nákvæmlega um það þannig að það stóðu allir sáttir frá borði. En vissulega var veran þarna á Falklandseyjum miklu styttri en lagt var upp með því að þegar ég var ráðinn í þetta þá voru þeir með fimm ára plan.“

Guðmundur Kristjánsson

Yrði kyrrsett

Skipinu var fyrst siglt til Grænhöfðaeyja og þar fóru fimm áhafnarmeðlimir í land og síðan var siglt til Kanaríeyja þar sem tekin var olía. Þá var það Vigo á Spáni þar sem var landað og loks var siglt til Reykjavíkur.

„Þar var mættur á kajann þegar við komum nýr eigandi að skipinu.“ Og skipið fékk nýtt nafn. Kleifarberg.

Þar sem þetta skip færi næst í höfn þar yrði það kyrrsett þangað til ég fengi launin mín.

Ný verkefni tóku við; þetta var árið 1996. „Magni Guðmundsson hjá Netagerð Vestfjarða hafði samband við mig en þá var hann að búa til rækjutroll fyrir spænskan togaara sem hafði verið á karfa á Reykjaneshryggnum; þeir ætluðu að fara á Flæmingjagrunn á þessu spænska skipi og veiða rækju. Magni spurði hvort ég væri ekki til í að verða milligöngumaður fyrir sig þarna og hjálpa þeim að útbúa. Og ég gerði það. Þeir fóru síðan á rækju og á sama tíma hafði samband við mig útgerðarmaður í Portúgal sem spurði hvort ég væri tilbúinn að fara sem fiskiskipstjóri á togara sem hann átti, Santa Isabel. Ágætis vinur minn var skipstjóri þar. Ég hafði kynnst honum þegar ég var á Stakfelli uppi í Smugu. Ég var í ágætis sambandi við alla portúgölsku togarana sem þar voru að veiða; ég tala portúgölsku og þar kynntist ég mörgum góðum manninum. Ég samdi við þennan portúgalska útgerðarmann um þóknun fyrir að fara þarna í fjórar vikur með þessu skipi að veiða rækju á Flæmingjagrunni og það tókst bara vel nema að fá launin mín; það tókst ekki vel en hafðist á endanum. Og þökk sér Farmanna- og fiskimannasambandinu fyrir það. Benedikt Valsson, sem var framkvæmdastjóri þar, hjálpaði mér að innheimta launin mín. Ég var náttúrlega með samning og útgerðarmaðurinn fékk bara tilkynningu held ég frá Alþjóða verkamannasambandinu um að þar sem þetta skip færi næst í höfn þar yrði það kyrrsett þangað til ég fengi launin mín.“

Þannig að hann hefur borgað í hvelli.

„Eins og skot.“

Full swing

Leiðir þeirra Stefáns lágu aftur saman í gegnum bátasmíðina Trefja í Hafarfirði.

„Árni heitinn Gíslason, sá mikli aflaskipstjóri sem átti Ísafold í Danmörku, hafði held ég verið búsettur í Mexíkó á þessum tíma. Hann hafði komist inn í verkefni í Argentínu sem var fjármagnað af held ég Alþjóðabankanum, Chubut-fylki í Patagóníu og ríkisstjórn Argentínu. Þetta fyrirtæki hét Patagonian Seafood. Árni komst í samband við þessa aðila sem leiddi til þess að bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði, Auðunn Óskarsson og fjölskylda, smíðuðu sex báta fyrir þetta verkefni sem Árni hafði undirgengist að koma á laggirnar þar. Þetta átti að vera endurnýjun á smábátaflota niðri í Patagóníu; smábátafiskerí. Ég hafði í sjálfu sér enga sérstaka reynslu af smábátum annað en að hafa verið á færum með Ella Ketils þegar ég var 15 ára.

Áður en þetta verkefni komst á það stig að það væri verið farið að vinna við það á staðnum, en bátarnir voru smíðaðir á Íslandi, þá lést Árni í flugslysi á leiðinni frá Argentínu til Mexíkó. Ég held ég fari rétt með það. Þá fór þetta verkefni í uppnám. Auðunn, eigandi Trefja í Hafnarfirði, og Stefán voru kunningjar og þeir höfðu samband við mig og spurðu hvort ég væri til í að stökkva inn í þetta verkefni og klára það. Ég var þarna í raun og veru á þeim krossgötum að ég vissi ekkert hvað ég væri að fara að gera. Ég var búinn að klára minn samning við þennan portúgalska útgerðarmann og var að spá í hvað ég ætlaði að fara að gera. Ég sló til og fór í þetta og með mér fóru tveir íslenskir sjómenn, Ómar Sigurðsson minnir mig að hann heiti og Bessi frá Húsavík. Báðir vanir trillukarlar, handfærajaxlar. Við fórum þrír saman niður eftir. Ég leiddi þetta verkefni áfram; koma bátunum af stað og þurfti að registera þetta allt saman. Það tók langan tíma að koma þessu í fúnksjón.“

Þá var það forseti Argentínu, Carlos Menem.

Verkefnið átti að hefjast í útgerðarbæ einum og fóru hermenn að verða áberandi þar. „Við áttum að byrja þetta formlega daginn eftir og ætlaði eigandinn að koma þá og kíkja á þetta. Það voru hermenn þarna skríðandi út um allt. Svo kom þyrla morguninn eftir með hinn raunverulega eiganda fyrirtækisins. Þá var það forseti Argentínu, Carlos Menem. Þá birtist hinn raunverulegi eigandi Patagonian Seafood; Carlos Menem.

Ég var sá eini í hópnum sem var spænskumælandi og ég sýndi honum bátana og virkni þeirra, hvernig þetta fúnkeraði allt saman og hvernig við hugsuðum okkur að þetta verkefni hæfist og hver þróunin í því yrði. Svona bla, bla bla í klukkutíma. Hann var spenntur og við fórum í smáhring með hann út úr höfninni og hann virtist vera voðalega áhugasamur um þetta.“ Fjölmiðlafólk var mætt á staðinn og segist Guðmundur hafa farið í útvarpsviðtal. „Þetta vakti mikla athygli.“

Guðmundur segir að Ómar og Bessi hafi fljótlega farið heim til Íslands eftir að verkefnið hafi verið farið af stað. „Og ég var einn þarna með konu og eitt barn og keyrði þetta áfram og kom öllum bátunum í snúning. Á meðan ég var þarna var þetta allt komið í full swing. Fljótlega eftir að ég fór heim frétti ég af því að þetta fyrirtæki hafði splittast upp og bátarnir seldir. Það virkaði eins og það væri verið að koma peningum út úr heildarverkefninu. Þessir bátar eru þarna ennþá og þetta eru ákaflega vel heppnaðir bátar.“

Guðmundur fór heim eftir eitt og hálft ár og þá var verkefni hans lokið. „Þá var ég áfram í tengslum við Trefja, sem höfðu smíðað sjö báta, og Auðun Óskarsson, eigandi fyrirtækisins, spurði hvort ég væri tilbúinn að fara á þessum staka bát sem þeir héldu út úr þessu verkefni og sigla honum um Evrópu í sýningarferð. Þá var það verkefni sem þeir voru að setja upp með Útflutningsráði og fleiri aðilum. Þetta var samstarfsverkefni nokkurra fyrirtækja. Ég sló til og tók níu mánuði í þetta verkefni. Báturinn fór með einu skipa Eimskipafélagsins til Rotterdam; ég tók við honum í Rotterdam og sigldi honum yfir til Belgíu þar sem verkefnið hófst formlega. Það var þannig hugsað að ég sigldi bátnum á milli fiskibæja og -borga og sýndi bátinn; færi út með áhugasama fiskimenn og sýndi þeim virkni bátsins.“

Í framhaldinu hefur bátasmiðjan Trefjar selt megnið af sinni framleiðslu á erlendan markað.

Guðmundur sigldi bátnum frá Belgíu og eftir norður- og vesturströnd Frakklands og eftir norður- og vesturströnd Spánar og með fram Portúgal. „Báturinn var í tvo mánuði á heimssýningunni í Lissabon 1998.“ Síðan var siglt til Suður-Englands, til Danmerkur og loks Noregs og báturinn fór á sýningu í Þrándheimi. Þaðan var svo siglt til Shetlandseyja og endaði í Bretlandi þar sem hann fór um borð í einn Fossinn og var siglt með hann heim.

„Í framhaldinu hefur bátasmiðjan Trefjar selt megnið af sinni framleiðslu á erlendan markað.“

Kynningin skiptir öllu máli.

„Þetta var byrjunin á því.“

Annað verkefni tók þá við. Framkvæmdastjóri Útflutningsráðs Íslands hafði samband við Guðmund og spurði hvort hann væri til í að fara til Malasíu. „Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, hafði farið með íslenska sendinefnd fyrirtækja og fjárfesta til Tælands og Malasíu á viðskiptashow; það var skrifað upp á díl við fiskimálaráðuneytið í Malasíu um að Íslendingar væru vel heima í því sem kallast sjálfbær sjávarútvegur og var ákveðið að fá einhvern íslenskan sérfræðing til þess að skoða hvort það væri hægt að uppgreida malasískan sjávarútveg á einhvern hátt. Til að gera langa sögu stutta þá var ég til í þetta. Ég var fyrst ráðinn í sex mánuði og fór ég á milli fiskiþorpa í Malasíu og talaði við fiskimenn. Við vorum aðallega við línuveiðar og svolítið í trolli; þetta var verkefni sem hálfpartinn misheppnaðist,“ segir Guðmundur sem var þó þarna í þrjú ár.

 

Hafnarstjóri

Starf hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar var auglýst og Guðmundur var hvattur til að sækja um.

„Ég henti inn umsókn. Ég þekkti ekkert af þessu fólki sem var að úthluta þessu starfi. Sjálfstæðisflokkurinn var við völd og ég yfirlýstur kommúnisti; stofnfélagi í Vinstri Grænum. Þannig að allra síst átti ég von á því að fá starfið.“

En Guðmundur fékk starfið og það er búið að laða að fjölda skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar. 20 ár og Guðmundur er að hætta.

Ég komst fljótlega að því að það gengur út á persónuleg tengsl.

„Ég verð 67 ára fljótlega eftir áramótin og ég er búinn að vera þarna í 10 ár og þetta er mjög krefjandi starfi. Það hafa verið mörg tækifæri sem við höfum náð að nýta. Eitt aðaluppleggið þegar ég var ráðinn sem hafnarstjóri á Ísafirði var að það var minnkandi kvóti í bænum, minni afli landaður, tekjurnar höfðu minnkað og höfnin var í viðvarandi taprekstri. Aðaluppleggið með það þegar ég var ráðinn var að auka tekjur og fara í markaðssetningu fyrir skemmtiferðaskip. Forveri minn, Hermann heitinn Skúlason, var byrjaður á því en svo féll hann skyndilega frá. Það var ákveðið að ég myndi taka þann bolta og halda áfram. Ég fór blautur á bak við eyrun inn í þá ljónagryfju að fara að kynnast því hvernig markaðssetning gengur fyrir sig; hvernig hafnir eru markaðssettar sem viðkomustaður skemmtilferðaskipa. Ég komst fljótlega að því að það gengur út á persónuleg tengsl. Maður nær að tengjast fólki sem raunverulega ræður því hvar skipin eru að sigla og maður byggir upp það samband og reynir að gera eins vel og maður getur þegar skipin koma í höfn. Ferðaþjónusta eða ferðaþjónar á Ísafirði hafa byggst upp með þessu og við höfum alltaf fengið gott feedback á það.“

Skipakomur árið 2018 voru 106. Gerð var könnun það ár og segir Guðmundur að í ljós hafi komið að 1,2 milljarður króna hafi orðið eftir í samfélagiu á Ísafrði. „Þetta er meira en menn þorðu að giska á í sínum blautustu draumum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -