Sunnudagur 14. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Guðný og Lilja segja frá lífi og dauða Daníels – Þær syrgja. Hann hvílir í eilífum svefni

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Daníel Eiríksson lést í byrjun mánaðarins í kjölfar þess að ekið var á hann fyrir utan heimili kærustu hans. Ökumaðurinn ók í burtu frá slysstað og lá Daníel helsærður og rænulaus í götunni í þó nokkurn tíma. Lögreglan handtók í kjölfarið þrjá Rúmena og sat einn í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á andlátinu. Sá sem sat í gæsluvarðhaldi viðurkenndi svo að hafa ekið á Daníel en sagði að um slys hefði verið að ræða. Rúmenarnir voru allir látnir lausir og enn vinnur lögreglan að rannsókn málsins. Systir Daníels heitins, Guðný Sigríður Eiríksdóttir, og kærasta hans, Lilja Björg Randversdóttir, segja hér frá sjálfum sér, lífi og dauða Daníels og sorginni. Þetta er örstutt saga þriggja einstaklinga í blóma lífsins. Þær syrgja. Hann hvílir í eilífum svefni.

Daníel Eiríksson og Guðný Sigríður Eiríksdóttir voru alsystkini, börn hjónanna Eiríks Sigurbjörnssonar, stofnanda kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega, og eiginkonu hans, Kristínar Kui Rim, sem er frá Suður-Kóreu. Fyrir átti Eiríkur tvo syni.

Guðný og Daníel með föður sínum, Eiríki Sigurbjörnssyni.

„Æskan var fín,“ segir Guðný. „Mig skorti aldrei neitt. Ég fékk gott uppeldi en strangt. Ég á yndislega foreldra. Pabbi og manna eru mjög trúuð og við Daníel fengum trúarlegt uppeldi. Ég er ekki öfgakennd eins og þau. Þótt við Daníel höfum ekki alltaf verið á samkomum þá var trúin stór hluti af lífi okkar. Ég fékk svo eiginlega leið á þessu,“ segir hún og á við trúna. „Maður nennti þessu ekkert. Ég vildi vera með vinkonum mínum en ekki alltaf með mömmu og pabba í kirkju. Ég er komin af góðu fólki og er þakklat fyrir allt sem foreldrar mínir hafa gert fyrir mig og mína fjölskyldu.

Mamma fórnaði öllu fyrir okkur systkinin. Við vorum alltaf litlu börnin hennar mömmu þrátt fyrir að við værum orðin fullorðin. Hún gerði allt fyrir okkur sama hvað. Hun sá ekki sólina fyrir Daníel. Pabbi átti svo erfitt að skilja það hvað hún dekraði hann mikið þótt hann væri orðinn fullorðinn. Pabbi er mjög góður maður, hann talar alltaf vel um alla, gerir allt fyrir alla og nær til allra og er gjafmildur og ljós í myrkri. Daníel hefur fengið alla góðu kostina hans.“

Guðný talar um mikla fordóma á æskuárunum sem tengdust bæði því að hún kom af mjög trúuðu heimili sem og að móðir hennar er asísk.

Daníel sem lést í byrjun apríl í kjölfar þess að ekið var á hann. Blessuð sé minning hans.

„Við Daníel vorum einu börnin sem voru „útlensk“ í útliti og var okkur strítt í skóla; við vorum til dæmis uppnefnd. Við áttum samt alltaf okkar vini. Það voru alltaf einhverjir leiðinlegir krakkar sem voru að stríða okkur bæði út af trúnni og útlitinu. Ég held að Daníel hafi fengið að finna fyrir því meira af því að hann var strákur.“

- Auglýsing -

Guðný segist ekki hafa sagt foreldrum sínum frá stríðninni sem í dag væri sennilega kölluð einelti.

„Þetta voru ekkert alltaf sömu krakkarnir og þetta hafði ekkert það mikil áhrif á mig þá en þegar ég lít til baka þá finnst mér þetta hafa haft áhrif á mig.“

Guðný: „Hann breyttist rosalega á unglingsárunum. Það var mikil reiði og uppreisn. Hann kom sér stundum í vandræði í skólanum fyrir að svara fyrir sig; hann þoldi ekki óréttlæti.“

Guðnýju fannst stundum vera óþægilegt að fara í skólann út af stríðninni. Hún fór að sjá verr um 12 ára aldur og hefði þurft að fá gleraugu. Hún sagði foreldrum sínum ekki frá því og sagðist hafa séð illa í tvö ár og hafði það áhrif á námsárangurinn.

- Auglýsing -

„Ég þorði ekki að ganga með gleraugu. Ég var svo óörugg á þessum tíma. Það var ekki kúl að vera með gleraugu. Ég vildi vera eins og hinir. Ég hélt að mér yrði strítt meira ef ég væri með gleraugu.“

Hún fór líka að finna fyrir kvíða sem hún finnur stundum enn fyrir; kvíðinn tengist óörygginu sem svo aftur tengist stríðninni. Eineltinu. Þetta er eins og dómínókubbar.

„Ég leit aldrei á þetta sem einelti af því að þótt ég liti öðruvísi út þá féll ég inn í hópinn. Ég man að aðrir krakkar voru líka lagðir í einelti í skólanum en þeir áttu kannski bágt fjölskyldulega.“

Guðnýju dreymdi um að verða snyrtifræðingur. Hún byrjaði í snyrtifræðinámi en hætti fljótlega í náminu.

„Ég hætti í skólanum út af kvíða. Svo eignaðist ég tvö börn og er núna útivinnandi.“

Unglingsárin

Jú, árin liðu. Systkinin urðu unglingar.

„Daníel byrjaði með félögum sínum í saklausu fikti á unglingsárunum. Hann breyttist rosalega á unglingsárunum. Það var mikil reiði og uppreisn. Hann kom sér stundum í vandræði í skólanum fyrir að svara fyrir sig; hann þoldi ekki óréttlæti. Hann var vinur vina sinna og gerði allt fyrir vini sina og kom sér líka í vandræði fyrir að hjálpa þeim. Ég varð ekki vör við allt sem gekk á í skólanum því þetta var ekki rætt heima við mig. Hann talaði alls ekki um vandamálin sín eða vandræði sem hann kom sér í. Hann vildi alltaf bara harka allt af sér. Hann var svo mikill nagli. Og við til dæmis ræddum ekki stríðnina sem við fengum að þola í skólanum við mömmu og pabba. Daníel leitaði í hugbreytandi efni seinna meir til að deyfa tilfinningar sem hann gat ekki tjáð.“

Systkinin Guðný og Daníel.

Daníel fór að æfa líkamsrækt þegar hann var 16 ára.

„Hann varð fljótt heltekinn af að vera í góðu formi og vera sterkur og prófaði stera og þá var ekki aftur snúið. Hann leiddist seinna meir í önnur hugbreytandi efni.“

Daníel dreymdi síðar um að verða einkaþjálfari en þess má geta að hann vann mikið hjá föður þeirra systkina á sjónvarpsstöðinni Omega á Íslandi og í Noregi.

Kynntust í meðferð

Lilja Björg Randversdóttir, kærasta Daníels, fæddist og ólst upp fyrir norðan og var hún átta árum eldri en Daníel.

„Ég á mjög langa og erfiða fortíð. Það er spurning hvernig ég eigi að segja frá henni í stuttu máli.

Ég var mjög feimin og hlédræg sem barn. Það vantaði allt sjálfstraust. Ég tók engar sjálfstæðar ákvarðanir. Það var mikið áfall fyrir mig þegar foreldrar mínir skildu og í kjölfarið þróaði ég með mér „borderline-persónuleikaröskun“. Þetta var ljótur skilnaður og hefur mamma verið kletturinn minn. Mér leið illa og fór að drekka. Ég fór í kjölfarið á skilnaðinum að vera með sjálfskaðandi hegðun; ég var með sjálfseyðingarhvöt. Ég fór að skera mig. Ég hugsað oft um dauðann; mig langaði ekki til að lifa. Mér fannst ég ekki eiga skilið að lifa. Vegna þess að ég elskaði ekki sjálfa mig þá fannst mér ég ekki eiga að vera á jörðinni og það myndi enginn elska mig. Ég reyndi oft að fremja sjálfsmorð en þegar maður var 14-15 ára þá var það misheppnað. Ég vissi ekkert hvað var að mér.

Ég flutti að heiman þegar ég var 16 ára til að fara að búa með stráki. Ég var svolítið þunglynd og var auk þess með átröskun – var með anorexíu sem varð að búlemíu – og fékk enga almennilega hjálp.“

Hún talar um önnur sambönd í gegnum árin og í einhverjum þeirra varð hún fyrir ofbeldi – bæði andlegu og líkamlegu.

Lilja: „Það er búið að taka framtíðina af mér; allt sem ég ætlaði að eiga. Það er búið að taka manninn sem ég elskaði út af lífinu.“

Drykkjan jókst og hún segist hafa misst tökin.

Hún fór í sálfræðinám og lauk BA-prófi. Vildi standa sig. Dreymir um að geta unnið við að aðstoða ungmenni sem hafa farið í neyslu.

Vanlíðanin var mikil og hún reyndi svo að fyrirfara sér 29 ára gömul og var lögð inn á sjúkrahús í kjölfarið.

„Þar spurði læknir mig hvort ég væri kannski alkóhólisti. Vandamálið tengdist ekki bara drykkju. Ég fór í meðferð og þar kynntist ég fólki sem var í harðari efnum og ég leiddist út í harðari efni.

Ég var brotin á þessum tíma og náði mér ekki almennilega upp úr neyslunni. Ég gerði nokkrar tilraunir í viðbót til að drepa mig, ég fór nokkuð oft í innlagnir á geðdeild og fór í tíma hjá sálfræðingum og geðlæknum, ég fór í meðferðir og komst svo á göngudeild. Ég var inn og út. Þetta var mjög erfiður tími. Ég reyndi nokkrum sinnum að drepa mig á þessum tíma.

Ég átti erfið ár þangað til ég fór á Krísuvík árið 2015 þar sem ég var í hálfs árs meðferð. Það eina sem ég vildi þegar ég fór í meðferðina var að vera á lífi. Eftir það náði ég löngum tíma edrú nema einn dag eftir að besti vinur minn fyrirfór sér en ég datt í það sex mánuðum eftir að ég kom úr meðferðinni; ég datt í það í einn dag sem tengdist sorg vegna vinamissisins. Ég varð svo edrú, fór á fund og viðurkenndi að ég hafði fallið.“

Hún talar um ofbeldissamband þar sem viðkomandi varð eltihrellir um tíma í kjölfar sambandsslitanna.

„Hann hringdi úr ýmsum númerum, elti mig í ræktina og sendi mér ógeðsleg skilaboð. Hann þóttist vera aðrir menn. Ég fór aldrei til lögreglunnar þótt þetta hafi verið ógeðslegt sem hann gerði. Þetta stóð yfir í tæpt ár. Ég var mjög brotin og hrædd eftir að hafa verið með þessum manni.

Guðný: „Ég get ekki séð eins og staðan er núna hvernig ég á að geta haldið lífi mínu áfram fyrr en ég veit að maðurinn sem gerði þetta fái dóm.“

Ég datt svo í það í fyrra í tvo mánuði; það var ekki langur tími. Ég fór inn á Vog í september og þar kynntist ég Daníel og við byrjuðum að vera saman. Mér fannst ég hafa kynnst sálufélaga mínum. Ég hef aldrei kynnst eins fallegri og góðri sál. Við vorum eins og samlokur. Hann hjálpaði mér í gegnum mjög erfiðan tíma. Ég hef átt erfiða ævi og mér fannst guð hafa sent manninn til mín sem mér fannst ég eiga skilið að eiga.

Þetta gekk ótrúlega vel hjá okkur. Loksins var ég ánægð. Ég hafði barist lengi við þunglyndi og átt erfitt líf en með Daníel var ég ánægð alla daga. Ég gat verið erfið úr af „borderline-persónuleikaröskuninni“ en hann var aldrei reiður við mig og dæmdi mig aldrei. Hann studdi mig ótrúlega vel og hann var að koma mér inn í trúna.“

Hún grætur.

Heldur svo áfram.

„Við vorum búin að plana framtíðina og okkur hlakkaði mikið til. Hann var svo góður maður. Ég hef lent í mörgum vondum mönnum. Ég sagði oft að það væri ótrúlegt hvað hann kæmi vel fram við mig. Ég hafði ekki kynnst þessu.“

Lá helsærður í blóði sínu

Daníel féll. Hann féll í byrjun apríl. Var undir áhrifum. Hafði verið edrú í sjö mánuði.

Hann var á áfangaheimilinu Vin og átti svo að mæta í viðtal hjá ráðgjafa hjá Vogi 2. apríl vegna væntanlegrar innlagnar þar.

„Ég vildi að hann væri heima hjá mér til að ég gæti passað hann,“ segir Lilja. „Hann sofnaði á sófanum hjá mér og ég sofnaði inni í rúmi. Ég vaknaði aðfaranótt 2. apríl og sá að hann var í símanum. Hann hefur örugglega ætlað að redda sér einhverju. Ég sagði að hann ætti ekki að vera að gera þetta en hann átti að fara inn á Vog daginn eftir.

Ég sofnaði aftur og vaknaði aftur kannski einum til einum og hálfum klukkkutíma síðar og kallaði í Daníel en hann svaraði ekki. Ég fékk strax ónotatilfinningu.“

Lilja: „Við vorum búin að plana framtíðina og okkur hlakkaði mikið til. Hann var svo góður maður. Ég hef lent í mörgum vondum mönnum. Ég sagði oft að það væri ótrúlegt hvað hann kæmi vel fram við mig. Ég hafði ekki kynnst þessu.“

Lilja fór fram en Daníel var ekki inni í íbúðinni. Hún leit út um glugga og sá Daníel liggja fyrir framan fjölbýlishúsið þar sem hún býr. Hún fór út og þar lá hann rænulaus í blóði sínu. Hún segir að stelpa nokkur hafi verið komin að honum á undan sér og sú hafði hringt á sjúkrabíl.

„Það voru miklir áverkar á höfðinu á honum. Blóðið lak. Þetta var hræðilegt. Hann var bara alveg „out“. Ég fékk ekki að fara með bílnum niður á sjúkrahús þar sem ég fór inn í yfirheyrslu og tók lögreglan skýrslu af mér.“

Sími Daníels hafði legið brotinn á götunni. Mölbrotinn.

Lilja fékk svo skilaboð um að það væru litlar líkur á að Daníel myndi lifa af. Hún fór á sjúkrahúsið og sat þar ásamt fjölskyldu Daníels og vinkonum. Hann hafði fengið mikla blæðingu á heila og auk þess viðbeinsbrotnað og um sólarhring síðar var slökkt á öndunarvél. Hann lést um klukkutíma síðar.

Daníel og Lilja.

„Ég hef kvatt fleiri,“ segir Lilja, „en þetta er það erfiðasta sem ég hef gert – að kveðja Daníel. Þetta er hálfgert í „blörri“. Ég hélt ég gæti ekki sleppt hendinni á honum. Ég vildi ekki trúa þessu. Hann var svo fallegur og friðsæll; hann var náttúrlega mjög myndarlegur strákur. Þetta var mjög erfitt.“

Gullfallegur silfurhringur með sirkonsteini er á baugfingri hennar. Daníel gaf henni hringinn.

„Ég átti eftir að sækja hringinn úr minnkun og það var svolítið erfitt að gera það stuttu eftir að hann dó.“

Enn í rannsókn

Jú, Daníel hafði legið rænulaus og helsærður í blóði sínu.

Lögreglan handtók þrjá Rúmea í kjölfarið og sat einn í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á andlátinu. Sá sem sat í gæsluvarðhaldi viðurkenndi svo að hafa ekið á Daníel en sagði að um slys hefði verið að ræða. Þeir voru síðan allir látnir lausir og enn vinnur lögreglan að rannsókn málsins.

Blaðamaður hafði samband við Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Málið er enn í rannsókn og ég get ekki farið í einstaka þætti,“ sagði hann. „Beðið er gagna svo sem frá réttarmeinafræðingi og tæknideild. Viðkomandi er enn með réttarstöðu sakbornings en ástæða fyrir því að ekki var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald er að ekki þótti líklegt að dómur myndi fallast á þá kröfu lögreglu. Því var gerð krafa um farbann,“ sagði Margeir en farbannið gildir til 9. maí. Í kjölfarið verður skoðað hvort gerð verði krafa um áframhaldandi farbann.

Guðný og Lilja eru sannfærðar um að ekki hafi verið um slys að ræða og gagnrýna að maðurinn sem var í gæsluvarðhaldi sé laus úr haldi og virðist njóta lífsins.

Lilja: „Ég fór að leiði Daníels síðastliðinn laugardag. Ég gat eiginlega ekki grátið; ég var svo reið.“

„Ég get ekki séð eins og staðan er núna hvernig ég á að geta haldið lífi mínu áfram fyrr en ég veit að maðurinn sem gerði þetta fái dóm,“ segir Guðný. „Það eru allir sammála okkur um hvað þetta er skrýtið. Það ekur enginn í burtu frá svona slysstað; maðurinn hefði getað hringt á sjúkrabíl. Síðustu vikur hafa verið mjög slæmar. Ég hafði byrjað í nýrri vinnu nokkrum dögum áður en Daníel dó og ég hef ekkert getað mætt síðan hann dó. Maður er bara upp og niður allan daginn. Sorgin kemur í bylgjum. Maður tekur einn dag í einu og það er enginn dagur eins. Ég var orðin góð á föstudaginn en ég fór þá til sálfræðings og ætlaði að fara að mæta í vinnuna en svo var ég ekki tilbúin.“

„Maðurinn hafði kannski getað bjargað Daníel,“ segir Lilja. „Ég mun aldrei geta sætt mig við að þetta hafi verið slys. Ég mun ekki geta haldið lífi mínu áfram eftir að ástin í lífi mínu var tekin á þennan hrottalega hátt. Ég get ekki byrjað að syrgja almennilega fyrr en maðurinn fær dóm. Þessi maður virðist ekki sýna neina iðrun en hann sást á djamminu eftir að honum var sleppt og í ræktinni; ættingjar Daníels sáu hann í ræktinni. Hann hefur verið heldur betur að lifa „the good life“.

Ég fór að leiði Daníels síðastliðinn laugardag. Ég gat eiginlega ekki grátið; ég var svo reið. Ég hugsaði með mér að ég væri að eyða laugardagskvöldinu þarna með kærasta mínum – og hvað ætli hinn maðurinn hafi verið að gera á sama tíma? Var hann með kærustu sinni á djamminu? Ég get engan veginn haldið áfram fyrr en þessi maður er kominn með dóm. Ég er alltaf að spyrja sjálfa mig ef ég hefði gert þetta eða hitt og ef ég hefði verið vakandi hvort hann væri þá á lífi. Ég hef ekkert getað lifað. Ég er bara í fangelsi. Og í hvert skipti sem ég kem heim til mín þá sé ég fyrir mér nákvæmlega hvar Daníel lá og hvernig ég hélt í hendina á honum þegar hann lá í götunni. Þetta er að „hönta“ mig rosalega. Ég á erfitt með að sofa. Ég á efitt með að lifa. Ég á erfitt með að hugsa. Ég á bara erfitt með að halda áfram. Það er búið að taka framtíðina af mér; allt sem ég ætlaði að eiga. Það er búið að taka manninn sem ég elskaði út af lífinu.“

Guðný: „Hann varð fljótt heltekinn af að vera í góðu formi og vera sterkur og prófaði stera og þá var ekki aftur snúið. Hann leiddist seinna meir í önnur hugbreytandi efni.“

Lilja segist fá mikinn styrk hjá Guðnýju og einni vinkonu sinni. Þá er hún komin í sorgarteymi og mun fara til sálfræðings eftir nokkrar vikur.

„Ég er að vinna í þessu.“

Hún segist hafa íhugað sjálfsmorð eftir að Daníel lést en að hún vilji ekki að sonur sinn, sem er 13 ára, upplifi sorgina. Hún segir að hann hafi hjálpað sér mikið við að vilja halda áfram að lifa og gefast ekki upp.

Guðný og Lilja þekktust lítið áður en Daníel dó; höfðu örfáum sinnum hist og þá aðallega á fyrrverandi vinnustað þeirrar fyrrnefndu. Verslun.

„Þau voru alltaf með grímu þannig að ég sá aldrei hvernig Lilja leit út,“ segir Guðný. „Við höfum hins vegar verið í miklu sambandi eftir að hann dó.“

Síðan Daníel dó hafa þær meðal annars talað við prest og tvisvar farið saman í kirkju.

„Það hjálpaði eitthvað,“ segir Guðný sem talar um að trúin hjálpi sér í dag.

Jarðarförin.

Hvít kista.

Blómakransar.

Forspil: Dag í senn.

 

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum í mel.

 

Ó Danni minn (O Danny boy).

 Guðs son, mín sanna von.

 

Faðir vor. Þú sem ert á himnum.

 

Moldun.

 

Líkmenn lyftu kistunni og báru út.

 

Halleluja.

Leiði Daníels.

Hvítur kross stendur við leiði Daníels. Þrítugur kvaddi hann þetta líf.

Einfaldur kross eins og oftast er áður en legsteinn er settur við leiði. Nafnið hans. Fæðingardagur og -ár og dánardagur og -ár. Og ein setning.

Ein setning sem segir svo margt.

„Minning þín lifir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -