Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Guðný teiknaði sjálfa sig í glímu við krabbamein: „Ég var að upplifa það að ég gæti hreinlega dáið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta var aðferð mín til þess að tjá mig. Það sem gerðist í sálarlífinu hjá mér á þessum tíma var svo stórt og mikið að það var einhvern veginn ómögulegt að lýsa því með orðum á sama tíma og ég var að upplifa það að ég gæti hreinlega dáið,“ segir Guðný Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og myndlistarmaður. Sýning hennar, Ein kona – mörg andlit, verður opnuð í Gallerí 16, Vigastíg, 16., miðvikudaginn 27. október. Þar verða til sýnis sjálfsmyndir sem Guðný teiknaði í dagbók sína á sex mánaða tímabili á árunum 2016-2017 þegar hún var í krabbameinsmeðferð. „Ég er að gefa fólki innsýn inn í líf mitt; sálarlíf. Ég hugsa að margir geti tengt við þetta sama hvar þeir eru í lífinu og ég held að ég geti lofað hughrifum á þessari sýningu. Þetta mun koma á óvart.“

Það sem gerðist í sálarlífinu hjá mér á þessum tíma var svo stórt og mikið að það var einhvern veginn ómögulegt að lýsa því með orðum á sama tíma og

Guðný Ragnarsdóttir

Guðný greindist með eitlakrabbamein vorið 2016 og eftir 11 lyfjagjafir um haustið var ljóst að þær voru ekki að virka sem skyldi og þurfti hún að fara í harðari meðferð. „Það var þá sem ég byrjaði að teikna; þegar mér varð ljóst að ég væri ekkert að fara út úr þessu á auðveldan hátt og þá varð mér svolítið allri lokið. Raunveruleikinn var ansi harður. Ég skrifaði ekki mikið í dagbókina mína í þessu krabbameinsferli. Þetta var ferli sem var svolítið erfitt að ná utan um en ég náði að teikna í dagbókina. Það var eiginlega tjáning mín í raun og veru og líka bara til að ná utan um breytingarnar á sjálfri mér af því að inni í mér var ég alltaf sama manneskjan en ytra byrðið breyttist svo svakalega mikið og það breytti því hvernig fólk upplifði mig. Þetta var kannski aðferð mín til þess að reyna að ná utan um það, skilja það og átta mig á þessu. Það er svolítið krefjandi að skoða þessar myndir því þær eru svo lýsandi. Þær segja miklu meira heldur en ég gæti lýst í orðum.“

Guðný Ragnarsdóttir

Guðný segir að allar myndirnar hafi verið teiknaðar á ákveðnum augnablikum. „Ég stóð fyrir framan spegilinn á sjúkrahúsinu og teiknaði myndina. Þannig að myndin er nákvæmlega eins og ég var á þeim tímapunkti. Ferlið endaði í 10 mínútna kroti einn daginn þar sem ég var komin með sýkingu í háskammtameðferð og var mjög hætt komin; það er seinasta myndin,“ segir Guðný og bætir við að með háskammtameðferð sé átt við að sjúklingnum sé gefinn banvænn skammtur af krabbameinslyfjum og svo þegar blóðgildin eru öll í núlli þá séu honum gefnar stofnfrumur til að stytta tímann sem sjúklingurinn er veikur eftir þessa hrikalegu meðferð. „Ég tengi ekki við neitt í seinustu myndinni; ekki andlitslagið, ekki augabrúnirnar né varirnar. Ég var svo bólgin, hvít, sköllótt og hárlaus og horfði í spegilinn og sá að ég var alveg horfin. Ég þekkti ekki sjálfa mig en ég sá bláu augun í speglinum sem þýddi að sálin var ennþá þarna þótt allt hitt væri farið. Það er sú mynd sem mig langar til að flestir sjái.“ Guðný segist ekki hafa fundið fyrir ótta á þessum tíma. „Ég veit ekki hvort það hafi verið út af lyfjunum en mér voru gefin alls kyns róandi lyf. Það var bara kyrrð og ró. Ég vissi að ég hafði ekkert um þetta að segja en ég var undir teymi hjá Landspítalanum sem bara sá um mín mál. Ég var með næringu í æð og hafði ekki borðað í langan tíma. Ég var bara þarna og ég upplifði mesta frið sem ég upplifði á þessum tíma.“

Ég stóð fyrir framan spegilinn á sjúkrahúsinu og teiknaði myndina.

Guðný Ragnarsdóttir

- Auglýsing -

Að þvera landið

Guðný er enn í endurhæfingu í kjölfar krabbameinsins.

„Ég þurfti að sætta mig við að lifa lífi sem telst ekki til norms hjá 35-40 ára gamalli konu. Það tók langan tíma að vera ekki í þessum gír sem samfélagið býður manni upp á og sem ég hefði viljað vera í en þegar maður er búinn að sætta sig við þetta þá stendur maður frammi fyrir því að maður verður hreinlega að njóta þess. Ég var búin að vera í „survivor mode“ – sem sé bara að lifa af – í fjögur ár og færði mig yfir í að njóta og hætta að vera í þessari vörn og ótta og hreinlega að fara yfir í það að geta skapað eitthvað og verið kannski í sókn. Í dag horfist ég í augu við það sem maður getur raunverulega gert og sem maður vill gera og brennur fyrir. Það sem þetta hefur kennt mér er að ég er allt önnur manneskja. Ég held ég hafi einhvern veginn fundið mig. Þetta er ekki endilega neikvætt þótt að ferlið hafi verið erfitt en ég er smátt og smátt að finna kjarnann í sjálfri mér. Og ég verð einhvern veginn að treysta ferlinu.“

Ég held ég hafi einhvern veginn fundið mig.

- Auglýsing -

Þessi lífsreynsla hefur kennt Guðný miklu fleira. „Það sem ég finn til dæmis svo sterkt fyrir þegar ég tala við fólk er að þá hreinlega skil ég hvaðan það kemur, tengi strax.“

Maður er manns gaman og svo er náttúran annað og hún hefur hjálpað Guðnýju mikið undanfarin ár. Hún er í gönguhópi og svo hefur hún farið í göngur á eigin vegum og setti sér það markmið eftir meðferðina að þvera landið. Hún á nú um 100 kílómetra eftir.

„Ég fylltist svo miklum lífskrafti eftir stofnfrumuskiptin. Ég var með skýra mynd á meðan ég lá á milli heims og helju; auðvitað vildi ég lifa fyrir drengina mína en þessi mynd tengdist því þegar ég gekk Fimmvörðuhálsinn 17 ára gömul. Það var það sem mig langaði til að gera aftur.“

Ég fylltist svo miklum lífskrafti eftir stofnfrumuskiptin.

Guðný Ragnarsdóttir

Guðný hresstist smátt og smátt og fór að ganga og sumarið 2018 gekk hún ein Laugaveginn og hélt hún reyndar fyrst sjálf og héldu aðrir líka að það yrði óyfirstíganlegt. „Þegar ég sat í Þórsmörk og horfði á Stóra-Dímon þá hljóp í mig kapp og ég fann hvernig ég styrktist bæði líkamlega og andlega í náttúrunni.“ Hún ákvað þá að hún myndi þvera landið.

„Ég sagði engum frá því verkefni til að byrja með því þetta var svo klikkað. Ég ætlaði bara að klára einn bita í einu og svo fór ég smátt og smátt að segja fólki frá þessu og þá var sagt að ég vissi ekki hvað þetta væri mikið afrek. Ég sagði að ég væri bara að gera þetta fyrir sjálfa mig. En svo var þetta víst svolítið afrek. Ég var samt alltaf að gera þetta fyrir mig af því að ég þurfti svo mikið að finna að líkaminn og sálin væru til í að vera með mér í slarkinu og undirlaginu og að fæturnir væru að bera mig. Ég gekk um 40 kílómetra á dag í sjö daga; ég þurfti bara að finna að fæturnir bæru mig þangað til ég gæfist upp. Svo lagði ég af stað næsta morgun og gekk þangað til ég var við það að gefast upp og þetta gerði ég í sjö daga. Þetta sagði mér að ég gæti staðið undir mér og börnunum mínum og það var það sem skipti mig mestu máli. Þetta var svo rosalega magnað. Og þetta er undir okkur sjálfum komið og það var kveikjan að þessu í raun og veru. Þetta var hugsjón og prakkaraskapur og þarna var ég að ögra sjálfri mér. Það verður hver og einn að kveikja þennan eld í hjartanu sínu. Svo þarf fólk bara að koma sér á óvart varðandi það hvað það getur mikið. Ég held að það sé málið.“

Ég gekk um 40 kílómetra á dag í sjö daga; ég þurfti bara að finna að fæturnir bæru mig þangað til ég gæfist upp.

Guðný Ragnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -