- Auglýsing -
,,Sæl kæru vinir. Síðdegis í gær fékk ég óvænta tilkynningu frá forseta sveitarstjórnar um að sveitarfélagið hyggðist segja mér upp störfum hjá Safnahúsi Borgarfjarðar eftir um 15 ár í starfi,“ segir Guðrún Jónsdóttir sem býr í Borgarnesi, og bætir við:
,,Sú ákvörðun er mér þungbær enda var það gert í kjölfar þess að ég lagði fram eineltiskvörtun á hendur sveitarstjóra vegna óréttmætrar framkomu hennar í minn garð og í kjölfar þess að ég höfðaði dómsmál gegn Borgarbyggð þar sem ég taldi að á mér væri brotinn réttur sem starfsmanni.“
Guðrún er barnabarn Björns Sv Björnssonar, sem var sonur fyrsta forseta Íslands, Sveins Björnssonar.
Guðrún segir að hún sé ánægð með störf sín:
,,Þegar ég lít yfir feril minn í Safnahúsinu get ég verið sátt við verk mín, fastasýningar safnsins sem ég kom á fót og vakið hafa mikla athygli, rafræna skráningu safnkosts og ýmsar aðrar úrbætur á húsinu og faglegri starfsemi þess. Ég er stolt af því að hafa staðið með menningararfi Borgfirðinga og nágranna þeirra, varðveislu hans og miðlun þó móti blési, sér í lagi í átökum við embættismenn sem ekki sáu gildi hans fyrir samfélagið.“
Hún nefnir að ,,á þessum tímamótum er mér þó efst í huga innilegt þakklæti til allra þeirra sem ég hef átt samskipti við á þessum vettvangi. Ég yfirgef þetta skemmtilega og áhugaverða starf með trega en tek með mér margar fallegar minningar. Ekki síst hugsa ég með hlýju og þakklæti til kærra samstarfsmanna og alls þess góða fólks sem ég hef verið svo lánsöm að eiga samskipti við á löngum starfsferli. Nýtt upphaf blasir við hjá mér, en ég óska þess eins að sú merka stofnun sem Safnahús Borgarfjarðar er fái að blómstra áfram sem menningarhús, héraðinu öllu til heilla.“