Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Guðrún hefur farið hátt í 60 skimanir: „Þetta er ákveðið afrek í mínu lífi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er mjög stolt, þetta er ákveðið afrek í mínu lífi,“ segir Guðrún Matthildur Sigurbergsdóttir og skellir upp úr.

Guðrún er búin að fara hátt í 60 sinnum í sýnatöku fyrir Covid-19, sem gerir hana einn reynslumesta Íslendinginn í því að fá sýnatökupinna upp í nefið. Hún segir þetta ákveðið afrek að hafa komist svo hátt, hún hafi ekki búist við því.

„Ég er ekki viss um að ég muni ná að toppa þetta. Þetta er svona once in a lifetime reynsla,“ segir hún og hlær sínum smitandi hlátri, með kúluna út í loftið. En Guðrún á von á sínu öðru barni í júlí.

Forréttindapésar hjá Íslenskri erfðagreiningu

Guðrún er líffræðingur að mennt og starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem útskýrir hve oft hún hefur farið í sýnatöku, en starfsfólkið þar fór um tíma vikulega í skimun. „Öryggið hérna innan húss er mjög gott og það er bara útaf því að við höfum tækin og tólin og mannaflann til að ganga úr skugga um að það séu ekki smit og þá bara nýtum við það,“ segir Guðrún. Hún segir það jafn framt mikil forréttindi að starfa hjá fyrirtæki sem fylgist svo vel með starfsfólki sínu. „Við erum algjörir forréttindapésar að fá staðfestingu á því að það sé allt í lagi í hverri viku.“
Sömuleiðis segir hún það hafa hjálpað kvíðanum, sem á það til að hrjá hana, að fá alltaf þessa staðfestingu að hún væri ekki kórónuveirusmituð.

„Ég hef alveg fundið það líka sem pínu kvíðasjúklingur að þetta hefur svona annað hvort haldið kvíðanum gangandi eða þá bara létt á manni alltaf á mánudögum, vitandi að ef maður var kannski með pínu kvef, þá var þetta bara pínu kvef. Þú varst kannski ekki að smita ömmu þína og afa þegar þú fórst í heimsókn til þeirra um helgina. Það er alveg þvílík forréttindi að fá að vita alltaf að maður sé ekki með þetta.“

- Auglýsing -

 

„Ég get bara lagt mig meðan þær taka þessi sýni“

Þrátt fyrir að allt starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar hafi farið í sýnatöku vikulega í tæpt ár hefur Guðrún nokkurt forskot á flesta samstarfsfélaga sína. Guðrún var nefnilega dugleg að bjóða sig fram sem sjálfboðaliða þegar það var „pinna drama í gangi“, eins og hún orðar það og útskýrir að í upphafi faraldursins hafi þurft að prufa sig áfram með sýnatökupinna, þegar útlit var fyrir pinnahallæri, til að vita hvort aðrir sýnatökupinnar virkuðu til að greina Covid. Prófa þurfti pinnana á fólki og þá var starfsfólk beðið um að hlaupa undir bagga.

- Auglýsing -

„Ég var einhvern veginn alltaf á staðnum þegar var verið að hóa í fólk,“ segir Guðrún, sem er orðin þaulvön og segir þetta lítið mál, hún finni orðið ekkert fyrir þessu. „Þær eru orðnar svo vanar sem eru að taka þessi próf að ég finn ekki fyrir neinu, ég get bara lagt mig meðan þær taka þessi sýni,“ segir hún með bros á vör og augljóst að henni er fúlasta alvara.

Guðrún segir það hafi verið fjórir, fimm stafsmenn sem hafi séð um skimunina frá byrjun, „alltaf á mánudagsmorgnum hoppa þær af rannsóknarstofunni til að skima okkur öll. Svo sér mín deild um að greina sýnin,“ segir Guðrún sem starfar á lífsýnadeild. „Við vinnum með allskonar lífssýni við að einangra veiruna, fá RNA erfðaefnið úr veirunni sem er svo lesið í PCR prófi ef hún er til staðar. Í PCR prófinu er verið að skima fyrir hvort að veiruerfðaefnið er í sýninu og því næst er það sent upp í raðgreiningu og þá er verið að skoða hvaða týpa það er.“

Guðrún Matthildur

Miðlar af reynslu sinni

Þótt ótrúlegt megi virðast miðað við fjölda skimana sem hafa átt sér stað hér á landi, leynist enn fólk sem aldrei hefur farið í Covid sýnatöku. „Mér finnst alltaf jafn fyndið að heyra um fólk sem hefur bara aldrei farið,“ segir Guðrún en hún hefur fengið skilaboð frá einstaklingum sem eru á leið í sína fyrstu skimun og er stressað. „Þannig ég þarf svona að hughreysta fólk, lýsa því fyrir þeim að þetta sé ekkert mál,“ segir reynsluboltinn kíminn.

En er hún komin með ákveðna tækni?

„Já þú andar pínulítið inn þegar pinninn fer upp og ert alveg slakur. Það þýðir ekkert að streitast á móti, þá er þetta leiðinlegt. Bara vera alveg slakur og það er gott að anda svona pínu inn með nefinu þegar pinninn fer, ekki of fast samt því þá fer hann of langt,“ segir hún og skellihlær, „bara rólega.“

Aðspurð hvort hún hafi ekkert orðið aum í nefinu þegar mest lét á heimsóknum þangað, segist hún svo ekki vera. „Ég hef ekki fundið fyrir neinu, en það er alveg fólk sem hefur fengið sýkingu hreinlega, kannski með þröng nefgöng eða eitthvað svoleiðis,“ segir hún og bendir á að fólk sé auðvitað mis viðkvæmt.

„En ég finn ekkert fyrir þessu, þetta bara losar frekar stíflur og svona,“ segir hún og rekur upp hlátur. „Þetta er fínt í staðinn fyrir nefdropa,“ segir hún enn hlæjandi sínum dillandi hlátri, „nei ég segi svona.“

Styttist í hjarðónæmi innanhúss

Í lok maí var vikulegri skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu hætt. Guðrún segir þó ekkert endilega víst að það verði ekki farið að skima aftur, það sé bara metið eftir ástandi. Þó telji hún að líklegt að hjarðónæmi fari að nást innanhúss, bólusetningar séu komnar það langt.

En hefði starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar átt að njóta forgangs í bólusetningu vegna aðkomu sinnar að greiningu kórónuveirunnar?

„Ég hefði nú alveg viljað fá bólusetningu þar sem við erum búin að vera vinna með veirusýnin, en við erum susum ekki í neinni aukinni hættu inni á rannsóknarstofunni,“ segir hún hógværðin uppmáluð og fer í framhaldinu að ræða hve ótrúlegt það sé að í öllum þeim skimunum sem hafi farið fram á starfsfólkinu hafi aldrei greinst jákvætt sýni. „Annað hvort erum við mjög heppin eða mjög passasamt og ófélagslynt fólk hérna,“ segir Guðrún og skellir upp úr.

Fór í tónleikaferðalag með Björk

Þó það sé nokkuð gott afrek að vera búin að fara í hátt í 60 skimanir, er annað afrek sem Guðrún er nú öllu stoltari af.
En Guðrún sem er söngfugl mikill, fór í tónleikaferðalag með okkar einu sönnu Björk.

Hvernig vildi það eiginlega til?
„Ég var í kór í Langholtskirkju, Graduale Noobili og Björk hafði samband við kórstjórann okkar, Jón Stefánsson heitinn og vildi fá okkur til að syngja inn á plötu með sér.“

Sem varð úr og söng kórinn inn á plötu Bjarkar, Biophilia.

„Við vissum náttúrulega ekkert hvað við vorum að fara út í. Æfðum bara þessi lög með henni og kórstjóranum okkar og fórum svo í upptökur.“

Guðrún segist muna það eins og það hafi gerst í gær þegar Björk hafði fyrst orð á því hvort kórinn væri til í að koma með henni í tónleikaferðalag.
„Það varð bara þögn í hópnum,“ segir hún og brosir við minningunni. „Við vorum náttúrulega alls ekki að búast við þessu, en við vorum allar svo spenntar. Svo varð þetta bara að veruleika. Við fórum og túruðum með henni út um allan heim.“

Guðrún segir tónleikaferðalagið hafa staðið yfir í um þrjú ár, frá 2011 til 2013. „Við fórum út og vorum svona mánuð í senn, komum svo heim í einn, tvo mánuði og svo aftur út.“

Hún segir þetta hafa verið ótrúlega lífsreynslu og mikil forréttindi að fá að upplifa.

En ein að lokum, hvernig er það að fara ekki lengur vikulega í skimun?

„Maður er svolítið í svona limbói núna, vantar pinna upp í nefið, saknar þess. Ég fæ eflaust post skimun depression, ég fæ kannski að ræna nokkrum pinnum og taka með heim,“ segir hún að endingu og skellihlær létt í bragði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -