Mánudagur 9. september, 2024
3.3 C
Reykjavik

Guðrún Hulda Fossdal býður sig fram fyrir Sósíalista: „Þú hefur ekki efni á að vera pjöttuð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mitt helsta baráttuefni er húsnæðismarkaðurinn í Reykjavík. Ég vil bæta hann og eins er ég með mjög sterkar skoðanir á því hvernig Félagsbústaðir Reykjavíkur eru reknir,“ segir Guðrún Fossdal sem býður sig fram í 15. sæti fyrir Sósíalista í Reykjavík í komandi kosningum og sem segist alltaf hafa verið heit fyrir því að vera í pólitík. „Ég myndi vilja að sett yrði reglugerð sem borgarstjórn myndi knýja á um að ríkið setti um þök á leigu; að það séu ekki bara endalaus hagnaðardrifin leigufyrirtæki. Það þarf til dæmis að hætta með útboð á lóðum. Sveitarfélög eiga yfir höfuð ekki að vera með útboð þannig að sá sem borgar mest fái bestu lóðina. Við þurfum kannski að fara aftur í tíma; einhvern tímann tíðkaðist lóðahappdrætti. Ef Reykjavíkurborg byrjar að vera þannig að það sé unnið meira að því að allir eigi meiri möguleika á húsnæði þá fylgja hin sveitarfélögin.“

Það stangast á við stefnu Reykjavíkurborgar um að fækka einkabílum.

Guðrún Hulda segir að Sósíalistar vilji samvinnu eins og varðandi almenningssamgöngur. „Þeir vilja vinna með Strætó í að skipuleggja ferðir. Strætó er að fækka ferðum og hækka verð en það stangast á við stefnu Reykjavíkurborgar um að fækka einkabílum. Þetta er hluti af því sem ég vil vinna með; árskort ungmenna í Strætó hækkuðu um 60% í haust. Þarna hefði ég viljað að Reykjavíkurborg sem stærsta sveitarfélagið myndi reyna að ná í einhverja samvinnu til að koma í veg fyrir svona.“

 

Álag og fjárskortur

Guðrún Hulda segist vita að búið sé að stokka upp hjá Félagsbústöðum en að þar megi gera betur; sjálf býr hún í íbúð á vegum Félagsbústaða. „Margir leigjendur Félagsbústaða upplifa enn að þeir séu ekki einu sinni núll þjóðfélagsþegnar heldur fyrir neðan það þegar þeir hafa beðið um að eitthvað yrði gert. Fólk á ekki að þurfa að marghringja og betla eftir því að fá eitthvað lagað. Það þarf að breyta áherslum þar. Reynsla mín af þessu er ekki góð og framkoma starfsfólks hefur ekki alltaf verið góð. Enginn myndi held ég sætta sig við sum tilsvörin sem ég hef fengið. Það voru til dæmis brunagöt á eldhúsbekkjunum þegar ég flutti inn 2008 og spurði ég starfsmann hvort það hafi ekki átt að skipta um þetta. Ég fékk svarið „þú hefur ekki efni á að vera pjöttuð“.“

Þögn.

- Auglýsing -

„Það var svarið sem ég fékk. Ég spurði manninn hvort hann ætti konu. Hann sagði svo vera. Þá spurði ég hvort hann myndi tala svona við konuna sína. Hann sagði að það myndi hann ekki gera. Þá sagði ég að hann skyldi ekki tala svona við mig.

Enn þarf maður að marghringja til þess að eitthvað sé gert

Það er búin að vera mikil breyting hvað þetta varðar en enn þarf maður að marghringja til þess að eitthvað sé gert. Ég held að þetta tengist álagi á starfsmenn; ég held að það sé ekki nógu mikill mannafli til að takast á við allt sem þarf að gera þarna. Auðvitað tengist þetta líka fjárskorti en ég held að þetta sé samt aðallega vegna álags á starfsfólk. Svo á leiga á félagslegu húsnæði ekki að vera vísitölutengd og það er líka svolítið hitamál hjá mér.“

- Auglýsing -

Gefur aukakrónurnar

Guðrún Hulda segist hafa skráð sig í Sósíalistaflokkinn við stofnun hans. „Ég skráð mig upphaflega í flokkinn af því að hann leggur áherslu á jöfnuð. Sósíalistaflokkurinn gengur út á að allir eigi sömu möguleika og að þeir sem eiga erfiðara með að nýta möguleikana fái þá hjálp.“ Hún segir að það hafi síðan verið Sanna Magdalena Mörtudóttir, sem er í oddvitasæti flokksins fyrir komandi kosningar, sem hafi beðið sig um að gefa kost á sér. „Sanna er náttúrlega búin að sanna það að við venjulega fólkið úti í bæ getum verið þarna. Ég hefði ekki haft trú á að maður gæti þetta nema af því að ég er búin að sjá hvað hún er búin að vinna ofboðslega gott starf.

Það að gefa kost á mér gefur mér tækifæri til að hafa áhrif og láta í mér heyra sem og að hlusta á aðra; þetta fær mig til að hugsa, velta hlutunum fyrir mér og hafa skoðanir. Það gefur mér mikið gildi í lífinu að reyna að sjá hlutina út frá öðru sjónarhorni.“

Ég hefði viljað að fleiri hefðu það gott.

Misskipting auðs kemur til tals. „Ég er náttúrlega ekki hlynnt þessari misskiptingu og ég er ekki hlynnt því eins og húsnæðismarkaðurinn er að það séu örfáir einstaklingar sem geti verið að kaupa upp eignir og haldið þeim frá sölu til þess að hækka markaðinn. Ég hefði viljað sjá einhverjar breytingar þar líka. Ég er ekki gröm eða sár út í þá sem hafa það gott en ég hefði viljað að fleiri hefðu það gott. Sumir sem eiga fullt af peningum hafa lagt hart að sér; aðrir fá þá upp í hendurnar. Það er hins vegar ekki mitt að meta hverjir það eru sem hafa ekki þurft að hafa fyrir hlutunum. Það er hins vegar ekki réttlátt að börn okkar sem erum í félagslegu húsnæði sem öryrkjar og/eða lágtekjufólk þurfi að fara að heiman þegar þau eru 18 ára en daginn sem barnið verður 18 ára má það ekki lengur vera skráð heima hjá sér vegna þess að þá þarf að fara að borga hærri leigu. Þá þyrfti barnið að fara að vinna með skóla.“

Guðrún Hulda vill hafa áhrif til góðs í samfélaginu sem myndi nýtast þeim sem þurfa á því að halda. „Það hefur alltaf verið framtíðardraumur minn og markmið að geta hjálpað. Ég nota hverja einustu aukakrónu sem ég finn til að styrkja einhver lítil félög ef ég mögulega get. Ég hef ekki þörf fyrir að vera kosin í borgarstjórn en ég hef þörf fyrir að hafa áhrif á hvernig stefnan er mótuð og geta kannski unnið baka til.“

 

Einelti og nauðganir

Nei, líf Guðrúnar Huldu hefur ekki alltaf verið dans á rósum, enda rósir með þyrna sem stinga. Mannlíf birti viðtal við hana í fyrra, sem hægt er að lesa hér. Þar kemur fram: Einelti alla grunnskólagönguna, neysla, nauðganir, meðferð, ofþyngd og átröskun, ADHD og sjálfsofnæmissjúkdómurinn rauðir úlfar.

Hún byrjaði að sniffa í kringum fermingaraldur. Byrjaði að drekka tæplega 16 ára.

„Ég man eftir fyrsta fylleríinu. Ég fann alsælu í líkamanum og ég var mjög fljót að þróa þetta. Ég fór hratt niður á botninn og fór í fyrstu meðferðina 19 ára eftir að hafa verið í neyslu og drykkju í margar vikur. Ég gat ekki meira.“ Hún segist aðallega hafa verið í sýru og hassi. „Þessi örvandi efni gerðu ekkert annað fyrir mig en að róa mig.“ Guðrún er spurð hvort hún sé með ADHD og hún segir svo vera. „Ég skildi ekki hvað fólk fékk út úr því að taka spítt.“

Ég kenndi sjálfri mér um þetta.

Hún segir að á neyslutímabilinu hafi hún upplifað sömu hluti og margar konur lenda í sem eru í neyslu. „Maður upplifði ofbeldi. Maður upplifði nauðgun.“ Hún segir að sér hafi nokkrum sinnum verið nauðgað og að hún líti á það ofbeldi sem hluta af fortíðinni. Hún hvorki kærði mennina sem nauðguðu sér né lét skoða sig hjá lækni í kjölfarið. „Ég kenndi sjálfri mér um þetta. Það nennti engin kona að fá þessar spurninga: Hvað varstu búin að drekka mikið? Hvernig varstu klædd? Hvað varstu að gera? Gafstu honum undir fótinn?“

Botninum var svo náð í neyslunni og hún fór í enn eina meðferðina þegar hún var 23 ára og hefur verið edrú síðan.

Í viðtalinu í fyrra sagði hún meðal annars: „Jú, Guðrún segist vera Pollýanna í sér; að hún sjái almennt jákvæðu hliðarnar á málunum. Hún er óvinnufær vegna rauðu úlfanna. Hún kláraði á sínum tíma skrifstofubraut MK og langar til að vinna við bókhald. „Mig langar til að upplifa að maður sé að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir samfélagið; að maður sé að leggja sitt af mörkum.“

Í dag, í maí 2022, er hún komin þangað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -