Gunnlaugur Helgason – sem allir þekkja undir nafninu Gulli Helga – er einn af vinsælari útvarpsmönnum Íslands, og líka afar vinsæll sjónvarpsmaður. Hann hefur starfað við fjölmiðla áratugum saman.
Gulli Helga var gestur vikunnar í Einkalífinu.
Í viðtalinu opnar hann sig í fyrsta skipti um systurmissi; elsta systir Gulla svipti sig lífi árið 2004:
„Þetta breytti manni að því leytinu til að maður fór kannski aðeins að hugsa meira inn á við. Maður fór að bera meiri virðingu fyrir lífinu.“
Erfiðar tilfinningar gerðu eðlilega vart við sig hjá Gulla:
Ég varð aldrei reiður út í hana, en ég varð kannski reiður út í sjálfan mig fyrir að hafa ekki hringt oftar í hana, athugað með hana og dregið hana út í göngutúr og haft ekki meiri áhyggjur af henni út af hennar þunglyndi. Ég hugsa oft um hana, mjög oft.“
Óhætt er að mæla með þættinum enda fer Gulli út um víðan völl, hefur frá miklu að segja; ræðir um upphafsárin í útvarpi; leiklistarnám í Los Angeles; útvarpsþáttinn Tveir með öllu og öll árin í Bítinu á Bylgjunni; um þættina Gulla Byggi og um eiginkonu sína og börn, framtíðina og ýmislegt fleira.