Fimmtudagur 18. ágúst, 2022
11.8 C
Reykjavik

Gunnar Jóhannsson hrefnuveiðimaður í Hveravík: „Ég hef alltaf verið í vinnu hjá mömmu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Það eru náttúrlega gallar á því sem erfitt er að sníða af,“ segir Gunnar Jóhannsson, fyrrverandi sjómaður, um kvótakerfið í viðtali við Reyni Traustason. „En mér finnt oft að menn gleymi því að ef að bátur var kannski keyptur áður en kvótakerfið var sett á sem kostaði kannski 25 milljónir þá var hægt eftir þrjú eða fjögur ár að fá eina og hálfa til tvær milljónir fyrir hann. Þá var búið að færa verðmætin á bátnum sem keyptur var yfir á fiskinn í sjónum. Og allt í einu var búið að gera þessa eignaupptöku af þessu fólki sem átti þessa báta eða þessi skip. Því það er ekkert annað en eignaupptaka.“

En þú varst á móti þessu í upphafi eins og Vestfirðingar er það ekki?

„Jú, ætli það ekki.“

Skipstjórinn í gróðurhúsinu í Hveravík.

Gunnar fæddist og ólst upp á Hólmavík. Það er áhugavert hvernig veiðiheimildir hafa sogast eitthvað annað; Hólmavík er að mestu leyti án veiðiheimilda í dag. Er það ekki?

„Jú, það er ekki mikið.“

Samherji á rækjuvinnsluna.

- Auglýsing -

„Ég segi það er bara gott, Samherji á hana ekki. Það er Snæfell.“

En ég segi það er happ fyrir Hólmavík að hafa fengið Þorstein Má eða svona öflugan aðila til þess að taka þessa rækjuvinnslu.

Dótturfyrirtæki.

„Hann á það held ég hann Mái sjálfur, forstjórinn. En ég segi það er happ fyrir Hólmavík að hafa fengið Þorstein Má eða svona öflugan aðila til þess að taka þessa rækjuvinnslu,“ segir Gunnar og bætir síðar við að þarna væri annars engin rækjuvinnsla.

- Auglýsing -

Þannig að hann hefur komið því til bjargar.

„Það er ekki spurning. Það er mín skoðun.“

Gunnar er spurður hvernig hann myndi vilja sjá strandveiðikerfið þróast.

Við þurfum að hafa þetta svæðaskipt.

„Ég hef ekkert verið Jónsmaður í þessu; sem var sjávarútvegsráðherra á sínum tíma sem kom þessu á, Jón Bjarnason. Ég er hrifinn af því. Ég er mjög hrifinn af því. Hér voru allar bryggjur dauðar. Það var ekkert að gerast í þessum plássum. En þetta bara gerði það að vekum að það var líf í plássunum. Og við megum ekki koma strandveiðikerfinu þannig fyrir að allir bátarnir hópist saman þar sem mest hefur verið veiðin og þar verði líf á bryggjunum en ekkert á hinum. Við þurfum að hafa þetta svæðaskipt. Ég held það. Eða einhverja skiptingu. Menn hljóta að geta fundið eitthvað út úr því.“

 

Að lesa í ölduna

Gunnar Jóhannsson fæddist og ólst upp á Hólmavík eins og þegar hefur komið fram. Sonur Sigurbjargar Jónsdóttur og Jóhanns Guðmundssonar.

„Pabbi var í útgerð og byrjaði snemma í útgerð á smærri bátum. Stærsti báturinn sem hann var með var 37 tonn.“

Sjórinn togaði fljótt í Gunnar

„Ég held maður hafi byrjað á tunnuflekum og dívan eða einhverju slíku í höfninni á Hólmavík og oft fór maður nú á bólakaf í sjóinn.“

Gunnar byrjaði á sjó með föður sínum og segist mest alla sína sjómennsku hafa verið á sjó með honum.

„Ég man þegar við vorum að sigla einhvers staðar út af Gjögri og hann var að sýna mér til miða. Ég sagði „þetta þarf nú kannski ekki í dag, pabbi, nú erum við með lóra og allar græjur“. Þá horfði hann á mig og sagði „hvað ætlar þú að gera þegar tækin bila því að þau bila?““

Hann hefur verið að benda þér á að það er vissara að bera eitthvað skynbragð á umhverfið.

„Já, bæði sjólag og annað slíkt. Hvernig sjólag breytist eftir botnlagi. Lesa í það hvernig aldan hagar sér. Þetta virtist vera honum alveg í blóð borið.“

Verðin voru greinilega svo góð að menn lifðu á því að fara kannski tvsivar þrisvar á sjó í viku.

Gunnar segist hafa verið á þessum bátum með föður sínum mest á innfjarðarrækju og grásleppunni.

„Þetta var svo skrýtið. Það var ekki mikið sem við máttum veiða en verðin voru greinilega svo góð að menn lifðu á því að fara kannski tvsivar þrisvar á sjó í viku. Því að vinnslan réði ekki við meira miðað við bátafjöldann og menn máttu veiða kannski tvo til í mesta lagi fimm tonn á viku á bát af rækju.“

 

Ráðherralaun

Svo voru það hrefnuveiðar; Gunnar segist hafa verið byrjaður á hrefnuveiðum með föður sínum árið 1972.

„Pabbi var skipstjóri. Við vorum með Norðmann með okkur gamlan sem bjó á Hólmavík, Einar Hansen, og hann var skyttan og var náttúrubarn í skotveiði. Og það gekk nú á ýmsu. Virkilega gaman. Það var mikið adrenalín sem flæddi um æðar ungs manns þegar var verið að eltast við hvalinn eða hrefnuna.“

Var þetta aðallega nýtt til manneldis?

Gunnar Jóhannsson útgerðarmaður og ferðabóndi í Hveravík.

„Fyrst var það þannig. Fyrst var þetta nýtt bara hér heima. Við fórum á bryggjurnar á Hvammstanga og Skagaströnd og seldum kjötið beint upp úr bát. Og svo náttúrlega Hólmavík og Drangsnesi. En svo kom Japansmarkaður til fyrir hrefnuveiðarnar 1976 og það voru bara algjör umskipti. Verðin náttúrlega ruku upp og nýtingin á hvalnum miklu meiri. Það var allt nýtt nema bara beinagrindin.“

Hörkutekjur.

„Já, miklar tekjur. Það voru ráðherralaun á þessu og aldrei róið nema í blankalogni.“

Hvernig leituðið þið uppi dýrin?

„Þá þarf maður að líta í kringum sig. Og líta eftir fuglagerjum og svartfugli á sjónum og öðru slíku. Og þá eru miklar líkur á að það sé hvalur einhvers staðar á því svæði.

Svo komu hrefnurnar eins og járnbrautarlest.

Einu sinni vorum við að koma frá Skagaströnd frá því að skera hval, hrefnu, og ég man að við vorum þreyttir. Það var siglt út um kvöldið eftir að hafa landað deginum áður. Við vorum komnir norður undir Selskerið og sá ég mikið af fugli en enga hrefnu. Þannig að ég stoppaði og drap á og þá fóru að myndast fuglager. Svo komu hrefnurnar eins og járnbrautarlest. Svo var reynt að mjaka sér nær gerinu. Þá var ég farinn að skjóta og mestu áhyggjurnar sem ég hafði voru hvort skutullinn skyldi fara í gegnum tvær í einu. Hvað gerði ég þá?“

Það var problemið.

„Það hefði verið ávísun á vandræði. En það varð nú ekki.“

Þið hafið fengið góða veiði þarna.

„Já, við gerðum það og vorum farnir af stað aftur fljótlega á Skagaströnd.“

Svo lögðust þessar veiðar af.

„Já.“

Var það út af einhverjum friðunarsjónarmiðum?

„Já, ég held að það sé nú. Það voru engin vísindaleg rök fyrir því að hætta. En það var náttúrlega friðunarsjónarmið og það fór fyrir Alþingi og það féll á einu atkvæði má segja; það munaði einu atkvæði að við gætum haldið áfram eins og Norðmenn gerðu og hafa gert og Japanir.“

Og gera enn.

„Og gera enn.“

Þeir kaupa stórhvali af Kristjáni en ekki hrefnukjöt af okkur.

Gunnar bendir á að bannið gildi ekki lengur þar sem það mega vera atvinnuveiðar á Íslandi í dag en að markaðurinn leyfi þetta ekki. „Japanir kaupa ekki af okkur hrefnujöt. Þeir kaupa stórhvali af Kristjáni en ekki hrefnukjöt af okkur þannig að innanlandsmarkaðurinn er ekki nógu burðugur til þess að halda úti bæði veiðum og vinnslu.“

Er ekki þekkingin að hverfa af þessu veiðiskap?

„Jú, það eru einstaka gamlingjar eins og ég sem þekkja þetta en við erum ekkert að veiða. Og auðvitað hverfur þetta smám saman. Það er hætt við því. En það eru engin rök fyrir því að gera það ekki nema þá bara efnahagsleg rök; að maður geti ekki selt þetta.“

Það er nóg af þessu dýri segir þú?

„Já, annars hefur þetta verið svolítið skrýtið ástand undanfarin ár og engin hrefna veidd en þeim hefur fækkað. Það er miklu sjaldnar sem maður sér hrefnu úti á sjó heldur en var áður. Í kringum 1972-3 sá maður aldrei hval hér innfjarðar. Aldrei nokkurn tímann. En krökkt af hrefnu. En núna er fullt af hnúfubak hér inn um alla firði en engin hrefna. Við náttúrlega sáum það í gegnum tíðina að hrefnan vildi ekkert vera á þeim svæðum sem hnúfubakurinn var á. Þannig að hnúfubakurinn er búinn að taka yfir þessi svæði. Hann ræðst ekki á hana en hann einhvern veginn stuggar henni frá. Bæði hnúfubakur og hrefna eru tækifærissinnar í fæðuvali þannig að ef það er einhvers staðar torfa eða torfa af þorski þá renna þeir sér í torfu af þorski. Það gerir hrefnan líka. Við höfum tínt bæði stórufsa og góða, væna ýsu úr hrefnumögum. Og bara helling.“

Þannig að það skiptir máli að hafa jafnvægi í lífríkinu og nýta þetta jöfnum höndum?

„Ég veit ekki hvort það breytir öllu. Miðað við massann af hval sem er í hafinu þá breyta litlar veiðar hér á Íslandi sáralitlu um það. En ef má skjóta önnur dýr og deyða önnur dýr þá sé ég engan mun á að deyða hval sér til matar eða kind.“

Hvað veldur að þetta verður ofan á; þessi friðunarsjónarmið þó það sé búið að leyfa í einhverjum mæli? Hvernig metur þú það?

Ef það er vel hanteruð hvalkjötssteik þá gefur hún ekkert eftir nautasteik.

„Þetta snýst náttúrlega um umhvefissamtökin í Bandaríkjunum fyrst og fremst og margir hafa talað um byssusamtökin í Bandaríkjunum og nautgripasamtökin sérstaklega; að þeir voru hræddir við það að missa spón úr aski sínum við að selja nautakjöt því hvalkjötið er öðruvísi en það er ekkert ósvipað nautakjötinu. Ef það er vel hanteruð hvalkjötssteik þá gefur hún ekkert eftir nautasteik. Kannski hefur þetta byrjað þar. Svo var þetta að manngera skepnuna. Að hún hugsaði eins og maður og það væri ljótt að skjóta hval. Það gerðist einhvern veginn svoleiðis. Það var Greenpeace og Sea Shepherd og þessi öfgasamtök sem ég segi að séu öfgasamtök.“

Gunnar segist einstöku sinnum borða hvefnukjöt en ekkert í neinum mæli miðað við það sem hann gerði áður. „Þetta er einstöku sinnum til hátíðabrigða.“

 

Búinn að fá nóg

Gunnar varð skipstóri upp úr 1984-5.

Keyptir þú þinn eigin bát?

„Nei, ég hef alltaf verið í vinnu hjá mömmu.“

Faðir Gunnars lést árið 1989.

„Mamma seldi ekkert útgerðina. Hún hélt bara áfram. Hún fór svo reglulega á miðilsfundi til að spyrja hvort hún ætti að selja. Og það kom alltaf „nei, nei, þetta er í lagi“.“

Hvað fannst þér um það? Trúir þú því?

„Nei, ég hef aldrei trúað á þetta en hún trúði þessu.“

Trúir þú á framhaldslíf?

„Já, ég geri það.“

En ekkert endilega að þú munir geta haft samband við jarðarbúa?

„Nei, það held ég ekki. En það er þá einhverjum snillingum gefið að geta gert það. Og öðrum snillingum að taka við því.“

Útgerðin var svo seld eftir að móðir Gunnars lést.

„Svo var ég farinn að drekka of mikið brennivín og ég fór í meðferð 2004 og síðan hefur allt gengið alveg dásamlega.“

Besta skref sem ég hef tekið á ævinni er að hætta að drekka brennivín.

Það er gott skref að hætta að drekka brennivín.

„Besta skref sem ég hef tekið á ævinni er að hætta að drekka brennivín.“

Gunnar bauð á sínum tíma í hafrannsóknarskipið Dröfn og fylgdu því verkefni til tveggja ára sem var svo framlengt. „Ég hefði aldrei fengið það hefði ég ekki verið hættur að drekka. Ég er alveg sannfærður um það. Og ég fékk það og var að vinna fyrir Hafró í nærri 13 ár.

Ég var skipstjóri á Dröfninni í rannsóknum, rækjurannsóknum, síldarrannsóknum, skel og fleiri verkefnum. Svo var ég í vitunum um tíma; 10-12 ár. Að þjónusta þá vita sem ekki var hægt að þjónusta á landi. Og það er eitt það skemmtilegasta verkefni sem ég hef komist í.“

Gunnar hætti svo á sjónum.

„Það var bara eitthvað sem kallaði á mig í landi. Og svo var ég búinn að fá nóg.

Svo flutti Gunnar til Hveravíkur á Ströndum.

„Við keyptum þessa jörð, ég og félagi minn, Magnús Magnússon. Við vorum ákveðnir í að koma heitu vatni til Hólmavíkur og boruðum eftir heitu vatni. Við fengum mikið af heitu vatni. 45 lítra var giskað á að þetta væri eða mælt í upphafi af tæplega 80 gráðu heitu vatni. Og það var hellingur. Hólmavík þarf ekki nema kannski 10-12 lítra. En það var ekki borun sem gert var til að dæla úr. En allavega sýndu vísbendingar að það er nóg af heitu vatni hér í Hveravík. En við reyndum allt hvað við gátum til að koma þessu til Hólmavíkur. Svo er hlé á þessu og einhvern veginn glöptust þeir ekki á því að taka heitt vatn hver sem ástæðan er fyrir því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -