Föstudagur 2. júní, 2023
9.8 C
Reykjavik

Gunnar var skotinn í hnakkann af hermanni: „Nóg komið af óhappaverkum „verndara“ okkar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Laugardaginn 14. mars árið 1942 gerðist sá hroðalegi atburður að amerískur hermaður skaut Gunnar Einarsson í hnakkann í gegnum bílrúðu í bifreið sem Gunnar var farþegi í. Gunnar lést af sárum sínum.

Dagblaðið Verkamaðurinn skrifaði harðorða frétt, viku seinna, þann 21. mars enda vakti málið óhug og reiði Íslendinga um allt land.

„Hroðalegur glæpur.

Amerískur hermaður myrðir íslenzkan mann.

S.l. laugardagskvöld gerðist sá atburður í Sogamýri við Reykjavík, að amerískur varðmaður skaut Gunnar Einarsson, starfsmann hjá Kol & Salt h.f., til bana, þar sem hann var á ferð, í bíl, með kunningja sínum, Magnúsi Einarssyni, framkvæmdastjóra Dósaverksmiðjunnar.
Fara hér á eftir helstu atriðin úr skýrslu, sem Magnús Einarsson hefir gefið sakadómara um þetta mál.

Gunnar Einarsson var staddur hjá Magnúsi, á laugardagskvöldið, en hann býr að Sogamýrarbletti 54. Kl. 10.15 ætlaði Magnús að aka Gunnari heim í bifreiðinni R 1183, en hún er með hægri handar stýri. Ók Magnús bifreiðinni, en Gunnar sat við hlið hans. Þeir ætluðu að koma við í Laufskálum á leiðinni, en þeir liggja við Engjaveg, en að honum liggur
tröðningur frá Suðurlandsbrautinni. Liggur troðningurinn rétt vestan við herbúðirnar „Hálogaland Camp“, en þar dvelja amerískir hermenn. Rétt fyrir norðan þann stað, þar
sem beygt er út af Suðurlandsbrautinni voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni. Kom hann hægra megin að bílnum — þeim megin er Magnús sat — og inti þá eftir hvert förinni væri heitið. Svöruðu báðir samtímis, en Magnús segir, að hann skilji ekki vel ensku og tók hann því ekki vel eftir, hvað þeim Gunnari og varðmanninum fór á milli, en því lauk á þann veg, að varðmaðurinn sagði „all right“ og leyfði þeim að halda áfram. En þegar þeir höfðu ekið um fjórar bifreiðalengdir stöðvaði annar varðmaður þá og kom hann vinstra megin að bílnum — Gunnars megin — og talaði við hann. Sögðu þeir þrjár til fjórar setningar hvor, og fór varðmaðurinn síðan frá bílnum, svo ekki var hægt að skilja þetta öðru vísi, en að þeir mættu halda leiðar sinnar með samþykki hans. Ók Magnús þá af stað, en þegar hann hafði ekið um 3—4 bílalengdir kvað við skot. Áleit hann að það væri þeim óviðkomandi, en
stöðvaði þó bifreiðina til vonar og vara. Tók hann þá eftir því að framrúða bílsins var mölbrotin og í sama mund hné höfuð Gunnars á vinstri öxl hans. Leit hann þá framan í Gunnar og sá, að blóð streymdi úr vitum hans, og þegar hann þreifaði á höfði hans fann
hann skotsár á hnakkanum. Fór Magnús strax úr bílnum, en í því bili kom hópur Bandaríkjahermanna þarna að og tóku þeir Gunnar út úr bílnum. Virtist Magnúsi hann þá látinn, en hann mun ekki hafa andast fyr en um klukkan 3 um nóttina.

- Auglýsing -

Þessi atburður hefir vakið hrylling og viðbjóð um allt land. Ameríski herinn hefir áður framið hér óhæfuverk, en nú er gengið feti framar og virtist mönnum þó áður nóg komið af óhappaverkum „verndara“ okkar. Enginn íslendingur fær skilið, að ameríska hernum sé nauðsynlegt að myrða íslenska menn til þess að vernda öryggi ameríska hersins. Vér fáum ekki séð, að öryggi ameríska hersins sé stefnt í hættu, þó látið sé vera að beita skotvopnum gegn vopnlausum Islendingum. Reynsla bretska setuliðsins hér á landi bendir ekki til þess að nauðsynlegt sé að beita glæpamannaaðferðum í umgengni við þá menn, sem eru undir „vernd“ ensku og amerísku setuliðanna. Það væri betur, að ameríski herinn sýndi meiri dugnað, í baráttunni gegn Japönum, en að skjóta vopnlausa íslendinga aftan
frá. Slíkur atburður, sem þessi má ekki endurtaka sig. íslenska þjóðin krefst þess, að gerðar verði tafarlaust ráðstafanir til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Ríkisstjórnin verður að halda fast og skörulega á rétti íslendinga í þessu máli, og ekki láta þann málflutning niður falla fyr en trygt er að amerísku hermennirnir komi fram í viðskiftum sínum við íslendinga,
sem fulltrúar siðmenningarþjóðar en ekki sem fyrirlitlegir glæpamenn. Á þann eina hátt verður best borgið öryggi íslendinga og öryggi og sæmd ameríska hersins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -