Laugardagur 25. mars, 2023
-3.2 C
Reykjavik

Gylfi Þór stóð í ströngu í Covid faraldrinum: „Ég var á vakt allan sólarhringinn þessi tvö ár“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Það er mjög jákvætt að heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra haldi blaðamannfund til að segja manni að maður sé rekinn. Það er mjög jákvætt að þessu sinni,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson og hlær en hann hefur í Covid-faraldrinum verið umsjónarmaður sóttvarnarhúsa í Reykjavík sem nú á að loka vegna betra ástands í tengslum við heimsfaraldurinn. „Nú fer ég að dusta rykið af ferilskránni og sækja um störf. Ég var bara ráðinn í þetta verkefni og nú er því lokið og þá snýr maður sér að einhverju öðru. Mér líður ósköp vel með þetta. Þetta þýðir náttúrlega að veiran er á þeim stað að hún er hættulaus að mestu. Það náttúrlega þýðir að við séum að ná árangri – þessi barátta sem stjórnvöld hafa verið í. Heilbrigðisyfirvöld. Maður fagnar alltaf þegar sigur vinnst.“

Hvað stendur upp úr frá þessum tíma í farsóttarhúsunum? „Það er ótrúlega margt. Auðvitað var fólk orðið þreytt á þessu undir lokin en ég sá það bara til dæmis alveg fyrsta eina og hálfa árið hvað samheldni þjóðarinnar var mikil; hvað fólk var tilbúið að leggja á sig til þess að reyna að berjast við veiruna. Það var líka eftirtektarvert hvað til dæmis allar stofnanir og félagasamtök voru tilbúin að vinna saman að þessu verkefni. Og það var aldrei eitthvað sem vann gegn manni í þessu. Það voru allir tilbúnir til að hjálpa. Við náttúrlega upplifðum bæði sorg og gleði í húsunum. Fólk var mjög veikt og fólk var að missa maka eða ættingja sína úr Covid sem var hjá okkur. Við vorum með mjög marga heimilislausa einstaklinga; ætli það hafi ekki verið hátt í 100 heimilislausir einstaklingar hjá okkur þegar allt er talið saman. Þannig að það er ýmislegt sem stendur upp úr. Svo er það kannski ekki síst það að sjá hvað heilbrigðiskerfið okkar getur sinnt stórum verkefnum eins og þessu þrátt fyrir hversu lamað það er.“

Þá vorum það við sem fólk gat talað við en það hafði enga aðra en okkur.

Gylfi Þór segir að erfiðast fyrir sig hafi verið þegar hann huggaði fólk og hann þurfti að vera til staðar fyrir fólk sem hafði engan annan þar sem það var í einangrun. „Þá vorum það við sem fólk gat talað við en það hafði enga aðra en okkur. Eðlilega reynir slíkt á en sem betur fer er maður þjálfaður í því en ég var í viðburðahópi á vegum Rauða krossins sem sinnir áfallahjálp eða sálrænum stuðningi þannig að maður hafði fengið þjálfun í slíku sem kom sér mjög vel að þessu sinni.“

Hann svaf oft lítið. „Ég var á vakt allan sólarhringinn þessi tvö ár. Fyrstu þrjá mánuðina voru þetta kannski tveir til þrír tímar á nóttu sem maður náði að leggja sig. Eftir að við réðum fleiri starfsmenn gat ég nú oftast farið heim til mín og sofið heima hjá mér á nóttunni en þá var það síminn sem vakti mig oftar en ekki. Ætli það sé ekki um hálft ár síðan ég byrjaði að ná fullum nætursvefni. Þá var maður hræddur um að hafa misst af einhverju símtalinu en sem betur fer var það nú ekki.“

Gylfi Þór Þorsteinsson

Þakklætið

- Auglýsing -

Gylfi Þór segir að fyrsti aðilinn sem gisti í farsóttarhúsi hafi verið hælisleitandi, Saeyd, frá Afganistan sem þurfti að fara í sóttkví við komuna til landsins. „Það hafði verið bankað á dyrnar á heimilinu í Afganistan og þegar bróðir hans opnaði dyrnar stóðu Talibanar fyrir utan og skutu hann. Saeyd flúði út um glugga og hætti ekki hlaupum fyrr en í rauninni þegar hann kom til Íslands og sótti um hæli en hann fékk hér alþjóðlega vernd. Hann er nú starfsmaður hjá mér í farsóttarhúsi.

Fyrsti Covid-sjúklingurinn var ung, áströlsk kona sem hafði misst eiginmann sinn úr Covid en hann var sá fyrsti sem lést af völdum sjúkdómsins hér á landi. Hún var hjá okkur í tvær vikur og við höfum verið í miklu sambandi síðan, ég og hún. Hún var eðlilega í mjög erfiðum aðstæðum, var í ókunnugu landi og átti mjög erfitt eins og eðlilegt er.

Og þetta er satt að segja skemmtilegasta starf sem ég hef unnið.

Það er margt annað eftirminnilegt. Í farsóttarhúsum gistu eins og eg hef nefnt heimilislausir aðilar sem eru í virkri neyslu þannig að við þurftum að vera með neyslurými; þetta er ekki meðferðarstofnun þannig að þeir aðilar þurftu annaðhvort að útvega sér efnin og fá þau send í húsin eða að við gátum boðið upp á viðhaldsmeðferð með fíknigeðdeild Landspítalans sem hjálpaði okkur gífurlega mikið. Það hafa allir lagst á eitt. Læknavaktin hjálpaði okkur með allar sýnatökur í húsi alveg sama hvort það var að degi eða nóttu; það er ekkert nema jákvætt sem kemur út úr þessu hvað okkur varðar. Og þetta er satt að segja skemmtilegasta starf sem ég hef unnið.“

- Auglýsing -

Gylfi Þór minnist fleira fólks sem dvaldi í húsunum. „Það er eftirminnilegt þegar hringt var í mig á aðfangadag 2020 en þá var ég einn á vakt en ég hafði gefið öllum starfsmönnunum frí. Rakningarteymið hringdi og sagði að það væri á leiðinni til mín unglingsdrengur sem hefði verið að greinast með Covid og vildi fjölskyldan koma honum út af heimilinu svo hann myndi ekki smita aðra. Hann kom til mín um klukkan sex á aðfangadagskvöld og á meðan við vorum á leiðinni upp í herbergi sem hann átti að dvelja í heyrðum við klukkurnar í Hallgrímskirkju hringja inn jólin. Jólin eru alltaf eftirminnileg í svona húsi og klæða flestir sig upp sem er mjög skemmtilegt. Maður var hlaupandi um milli hæða og herbergja með sendingar að heiman – pakka og mat sem fólk var að fá sendan.“

Gylfi Þór segir að það eftirminnilegasta sé þakklæti þeirra sem dvöldu í húsunum. „Fólk var mjög þakklátt og við höfum verið að fá mikið af bréfasendingum, blómasendingum, konfekti og fleiru þar sem fólk er að þakka fyrir sig. Það fann fyrir öryggi hjá okkur; þrátt fyrir mikil veikindi var það öruggt. Það vissi að það væri verið að fylgjast með því og það hversu vel rekstur þessara húsa hefur gengið hjá okkur er eitthvað sem maður getur verið stoltur af inn í framtíðina.“

Ef ég fengi Covid þá bara fengi ég Covid.

Gylfi Þór segist ekki hræðast Covid. „Ef ég hefði verið hræddur þá hefði ég örugglega aldrei farið í þetta starf vegna þess að þegar ég tók þetta að mér þá var fólk að deyja úti á götu út um allan heim. Ég var aldrei hræddur við að fá Covid. Ég bara leit svo á að þarna gæti ég lagt mitt lóð á vogarskálarnar til að aðstoða og hjálpa öðrum. Ef ég fengi Covid þá bara fengi ég Covid. Ég hafði gífurlegan metnað fyrir því að enginn af starfsmönnum mínum myndi veikjast og það tókst að mestu. Fyrsti starfsmaðurinn í farsóttarhúsi sýktist fyrir um fjórum mánuðum síðan og miðað við að hafa verið með hátt í 200 starfsmenn þá er það bara mjög gott. Við höfum aldrei lent í mikilli krísu vegna veikinda starfsmanna. Og enginn af þeim starfsmönnum sem veiktust smituðust út af störfum sínum í farsóttarhúsum heldur var hægt að finna uppruna sýkinganna annars staðar.“

Gylfi Þór Þorsteinsson

Kletturinn

Gylfi Þór hefur ýmislegt lært á þessum tveimur árum svo sem hvað mannskepnan er í rauninni með stórt hjarta þegar öllu er á botninn hvolft. „Ég hef lært hvað við erum tilbúin til að hjálpast að og veita hvert öðru aðstoð. Fyrstu þrjá mánuðina var ég til dæmis með 75 sjálfboðaliða frá Rauða krossinum sem komu og hjálpuðu mér og þeir unnu gríðarlega gott starf. Það var alveg sama hvort mig vantaði fólk að degi eða nóttu; alltaf var fólk tilbúið til að mæta. Við vissum að þetta væri stórhættulegur sjúkdómur en samt mætti fólkið; það var tilbúið til að leggja heilsu sína að veði fyrir aðra sem sýnir í raun hversu náin þessi þjóð er. Og ekki bara þessi þjóð því að þarna vorum við líka að hugsa um erlenda ferðamenn og erlenda gesti og allir fengu sömu meðhöndlun sama hvort um var að ræða einn af ríkustu mönnum heims, sem var á meðal þeirra sem voru hjá okkur, eða hvort um var að ræða heimilislausan Íslending í fíknivanda. Það fengu allir sömu meðferð og það var komið eins fram við alla. Ég held að það hafi verið lykillinn að velgengni þessara húsa að það fengu allir það sama.

Það eru um 400 manns heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu og það er mikill fjöldi.

Ég hef kynnst hælisleitendum, eins og ég hef minnst á, og sögu þessa fólks sem er að flýja stríð og hörmungar í heimalöndum sínum eins og við sjáum vera að gerast núna í Úkraínu. Þetta fólk er að leita sér að lífsbjörg í rauninni. Það var líka eftirminnilegt að kynnast veröld heimilislausra og þeirra sem eru í virkri neyslu; þetta er fólk sem hefur fengið litla aðstoð í lífinu. Heimilislausar konur eiga erfiðara að mörgu leyti heldur en heimilislausir karlar. Það eru færri úrræði fyrir þær. Þetta opnaði augu mín. Það eru um 400 manns heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu og það er mikill fjöldi. Ég komst að því að fólk sem er í neyslu er ekki að því til þess að komast í einhverja svakalega vímu heldur til þess að ná jafnvægi. Forðast fráhvörf. Það er ekki partístemmningin sem rekur það áfram heldur að ná jafnvægi. Það var til dæmis eitthvað sem ég vissi ekki. Þekkti ekki. Þannig að það er ýmislegt sem maður lærði.“

Gylfi Þór segir að starf sitt í farsóttarhúsunum hafi gefið sér heilmikið. „Þetta hefur í rauninni gefið mér það mikið að ég gæti vel hugsað mér að vinna við þetta áfram næstu tvö ár; ég verð örugglega fyrstur manna til að bjóða fram aðstoð ef á þarf að halda í framtíðinni.“

Mér er umhugað um manneskjuna.

Hvernig lýsir Gylfi Þór sjálfum sér? „Mér er umhugað um manneskjuna. Svo er ég að vissu leyti þannig að ég tek hlutina ekki inn á mig þannig að ég á auðvelt með að leiðbeina fólki og styðja það vegna þess að ég brotna ekki með því heldur get stutt það áfram. Það er til dæmis mikill kostur í þessu starfi sem ég hef verið að sinna en þegar öll sund virðast vera lokuð hjá fólki þá þarf einhver að vera við hlið þess til þess að rétta það við. Og í þessi tvö ár gat ég verið sá klettur í lífi þess sem er bara mjög gott og ég á eftir að hugsa til þessa tíma lengi með hlýju í hjarta.“

Gylfi Þór Þorsteinsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -