Gylfi Þór telur Covid-stríðið standa fram á næsta ár: „Hér verða til nýjar sögur á hverjum degi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég held að við verðum að berjast allt þetta ár og eitthvað fram á það næsta. En ég er náttúrlega ekki heilbrigðismenntaður. Þetta er bara tilfinning,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson sem hefur starfað sem umsjónarmaður farsóttarhúsa í ríflega ár. „Ég var sannfærður um að stóra bylgjan kæmi í október síðastliðin og það gekk eftir. Við sjáum til með þessa spá.”

Mikið hefur mætt á Gylfa og samstarfsfólki hans en hann hafði starfað í ríflega áratug innan viðbragshóps Rauða krossins sem sinnir sálrænni skyndihjálp í tilfellum slysa, náttúruhamfara eða annarra sorgarviðburða í lífi fólk. „Rauði krossinn leitaði til mín þar sem ég hef reynslu af stjórnun. Ég var eini starfsmaðurinn fyrstu þrjá mánuðina. Reyndar var ég ráðinn til þriggja mánuða. Þeir eru ennþá að líða.”

Aukin trú á manneskjuna

Gylfi Þór er þriggja barna faðir, á hundinn Trausta, hefur starfað til margra ára við fjölmiðla og markaðsmál og er mikill hestamaður. „Ég var líka hármódel þegar ég var 16 ára,” bendir Gylfi á. „En sá draumur dó út af náttúrulegum ástæðum!”

Gylfi hefur lagt nótt við dag í starfi sínu.

Mikið hefur mætt á Gylfa og samstarfsfólki hans í Covid-19 faraldrinum og segir Gylfi að vissulega hafi dagarnir verið langir og að Trausti, hestarnir og uppkomin börn hafi séð minna af honum. Sem dæmi má nefna að fyrstu þrjá mánuðina bjó hann á sóttvarnarhótelinu. „Ég fæ að fara heim á kvöldin. En ég er með símavaktina allan sólarhringinn.“ Hann hefur þó ekki staðið einn í baráttunni. „Trú mín á manneskjuna hefur aukist. Allir hjálpast að við að gera það besta fyrir alla, hvort sem þeir eru í sóttkví eða sýktir. Allar stofnanir hafa tekið vel í beiðnir mína, flugi hefur meira að segja verið breytt til að koma fólki til heimalanda sinna.“

Hlutir breytast daglega

Gylfi Þór vinnur með 90 manna teymi í að sinna smituðum sjúklingum og fólki í sóttkví en 2000 einstaklingar í sóttkví og 700 smitaðir hafa farið í gegnum sóttvarnarhús. Hann vinnur náið með öllum viðbragðsaðilum. „Heilt yfir litið hafa stjórnvöld staðið sig vel í þessu. Auðvitað má alltaf líta til einhvers sem betur hefði mátt fara en þegar að það þurfti að vinna hlutina hratt, eins og að opna sóttvarnarhótelin, var gengið til verks af krafti. Við réðum 80 manns, þjálfuðum þau og komum af stað á tveim til þremur dögum. Það sýnir samheldnina innan kerfisins. Hlutirnir breytast líka mjög hratt í Covid og við erum tilbúin að fylgja nýjum ferlum og nýjum reglum daglega.”

Sem dæmi nefnir Gylfi að þegar hann náði loksins að setjast niður með börnum sínum í páskakvöldverð náði hann varla að taka upp gaffallinn áður en síminn hringdi. „Dómurinn var fallinn og ég þurfti að rjúka. Þau sýndu því fullan skilning.“

„Þetta er bara dómur, byggður á landslögum og ég hef ekki þann munað að gera annað en að hlíta því“

Aðspurður um hvað honum finnist um dóminn sem féll í héraðsdómi á páskadag um að ekki megi skikka fólk til dalar í sóttkvíarhúsi í sóttkví segir hann ekki sitt að dæma. „Þetta er bara dómur, byggður á landslögum og ég hef ekki þann munað að gera annað en að hlíta því. Hlutirnir breytast hratt og við verðum bara að vinna með því. Þetta starf mótast daglega.”

Gylfi hefur aldrei óttast smit.

Þríeykið ótrúlega

Að sögn Gylfa Þórs eru það aðeins um það bil 40 manns sem sinna Covid faraldrinum einvörðungu hér á landi, jafnt innan sóttvarnarhúsa og heilbrigðisstofnana. „Og svo má ekki gleyma þríeykinu. Þau eru þekkt sem andlit þessa ástands en það má ekki gleyma hversu gríðarlega mikla vinnu þau hafa lagt af hendi. Ég held að allir átti sig ekki á umfangi hennar.”

Aðspurður hvort hann hafi aldrei óttast um að sýkjast sjálfur segir hann svo ekki vera. „Ég er reyndar nýlega bólusettur en ekkert af okkar starfsfólki hefur smitast. Það sýnir hversu góðar smitvarnirnar sem við búum við eru.”

Þakklátt starf

Það er ekkert hik á Gylfa þegar hann er spurður um hvort starfið sé þakklátt eður ei. „Starfið er langtum meira þakklátt en vanþakklátt. Við sinnum veiku fólki og við fáum þakkir fyrir. Hér upplifa börn öryggi kannski í fyrsta sinn í langan tíma og hér verða til nýjar sögur á hverjum degi.“

Hann rifjar upp bréf sem hann fékk frá erlendri konu sem hann, ásamt starfsfólki sínu, sinntu í veikindum hennar og náðu að aðstoða við að kveðja unnusta sinn hinstu kveðju. Þetta einstaka bréf birtir Gylfi á Facebook síðu sinni.

Ætla að taka við af Davíð

Er Gylfi ekki orðinn þreyttur? Hann hlær. „Hefurðu séð nýlega mynd af mér?! Auðvitað koma stundir sem maður er þreyttur en þá er ekkert betra en að fara upp í hesthús, moka skít og ríða út. Tækifærin gefast ekki oft en eru alltaf ánægjuleg.“

Næstu verkefni liggja þegar fyrir hjá Gylfa. „Við höldum áfram á sömu braut. Við munum opna sóttvarnarhús á Egilsstöðum vegna Norrænu og hugsanlega á fleiri stöðum líka. Það eina í stöðunni er að horfa fram á veginn. Ef maður horfir aftur fyrir sig fær maður hálsríg.

Aðspurður um hvað taki við að loknu Covid segir Gylfi Þór að það verði sennilega tíu til fimmtán ára hvíldarinnlögn. „Og kannski fer Davíð einhvern tíma af Mogganum, það er aldrei að vita nema ég taki bara við af honum,” segir Gylfi Þór Þorsteinsson, léttur í lundu þrátt fyrir langa Covid daga. Og nætur.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -