Jónas nokkur er með heldur furðulega fyrirspurn innan Facebook-hóps íbúa í Reykjanesbæ. Hann spyr, nokkuð afslappað, hvort einhver viti um símanúmerið hjá stúlkunni sem hann ók á í hádeginu í gær. Honum til varnar þá segist hann hafa áhyggjur af stúlkunni.
„Hæ hæ, lenti í því að keyra á stelpu sem var að hjóla yfir Aðalgötuna í gær um hádegið, sem betur fer sá ekkert á henni en ég var ekki með símann minn en gaf henni mitt númer og hver ég er að vinna. Langar að heyra í henni og athuga hvort það sé ekki allt í lagi. Ef þið þekkið til endilega komið henni í samband við mig. Með fyrirfram þökk,“ skrifar Jónas.
Færslan hefur enn ekki fengið margar athugasemdir en honum er þó bent á að ef þetta gerist aftur að hafa samband við Neyðarlínuna til vonar og vara. „Er ekki að gagnrýna þig en vil bara benda á, svona ef þú lendir í þessu aftur, að annaðhvort hringja á 112 eða fara með viðkomndi á Hss. Því þó það sjáist ekki neitt á fólki þá getur það verið með innvortis meiðsli og sjokkið og hræðsla valdið að það finni ekki fyrir því eða þori ekki að segja neitt. Sérstaklega þegar um börn er að ræða. En vonandi finnuru stelpuna og allt í lagi með hana,“ segir ein kona.