2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hættur að láta kvíðann og sjálfsniðurrifið stjórna sér

Ný plata Jónasar Sigurðssonar, Milda hjartað, kemur út í dag. Á henni er hann á hugljúfari nótum en oft áður, enda segist hann viss um að tími mildi og manngæsku sé að renna upp. Hann hefur þó ekki alltaf verið á þeirri línu, glímdi ártugum saman við afleiðingar ADHD, Tourette-heilkennis, vanmetakenndar og kvíða og hætti á tímabili allri tónlistarsköpun. Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi hann á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum.

„Þú fyrirgefur hvað ég er rámur,“ er það fyrsta sem Jónas segir þegar við hittumst á kaffihúsi í miðbænum á grámyglulegum morgni í vikunni. Hann hefur verið á þeysireið vítt og breitt um landið undanfarið að kynna nýju plötuna þótt flensan herji á hann og fram undan eru hverjir tónleikarnir á fætur öðrum, alveg fram á Þorláksmessu. Það er enginn tími til að láta það eftir sér að leggjast í rúmið. „Sjóvið verður að halda áfram,“ eins og hann segir hlæjandi um leið og hann reynir að kæfa hósta. Ég tek undir það og eftir að við höfum bæði fengið okkur kaffi set ég segulbandið í gang og spyr hinnar hefðbundnu íslensku spurningar hvaðan hann sé og hvernig hann hafi byrjað í tónlistinni.

„Ég ólst upp í Þorlákshöfn þar sem pabbi var útgerðarmaður og ég byrjaði tólf, þrettán ára að vinna í fiskverkun hjá honum,“ segir Jónas. „Tónlistin var samt rosalegur drifkraftur í lífi mínu alveg frá því að ég var pínulítill strákur. Þegar ég var tólf ára byrjaði vinur minn að læra á gítar og ég hermdi eftir honum. Svo fór ég í sveit þegar ég var þrettán ára og þar var strákur sem átti trommusett sem mér fannst svo flott að ég var alveg friðlaus þangað til ég gat keypt það af honum, vann í saltfiski, önglaði saman peningum og gerði alls kyns víla og díla þangað ég var kominn með trommusettið heim í stofu. Þannig byrjaði þetta.“

Dæmigerður ADHD-strákur

Jónas segir þessa þráhyggju hafa verið mjög lýsandi fyrir hann sem krakka, hann hafi verið dæmigerður ADHD-strákur, átt ótrúlega auðvelt með að læra en verið afskaplega fljótur að missa áhugann á skólanum.

AUGLÝSING


Jónas ólst upp í Þorlákshöfn og byrjaði snemma að vinna í fiskverkun. Mynd / Hákon Davíð

„Strax á öðru ári í barnaskóla grét ég á hverjum morgni yfir því að þurfa að fara í skólann,“ útskýrir hann. „Þá byrjaði þetta mynstur sem síðan varð sterkasta aflið í lífi mínu áratugum saman. Mamma og pabbi þurftu nánast að draga mig fram úr rúminu og koma mér í skólann og það að sitja í skólanum fannst mér alveg ofboðslega leiðinlegt, þótt mér gengi vel, kennararnir væru góðir og ekkert út á neitt að setja. Skólakerfið bara virkaði ekki fyrir mig. Það var samt eiginlega ekki fyrr en ég var sjálfur orðinn foreldri og upplifði sömu einkenni hjá syni mínum sem ég áttaði mig á samhenginu. Þá bjuggum við í Danmörku og krakkarnir mínir voru í Waldorf-skóla þar sem þeir fengu miklu meira svigrúm heldur en í hefðbundnu skólakerfi, fengu að vera úti, klifra í trjám og tálga spýtur í staðinn fyrir að hanga inni í skólastofum allan daginn. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði gengið í þannig skóla, það var bara ekki í boði. Mín útrás var öll í gegnum tónlistina. Hún bjargaði mér algjörlega.“

Þegar Jónas var tólf ára bættust ýmis einkenni Tourette-heilkennisins ofan á ADHD-ið og honum fannst hann verða enn ömurlegri.

„Þá byrjaði ég að þróa með mér alls konar kæki,“ segir hann. „Var alltaf að blikka augunum og geifla mig í framan, alveg klassískt Tourette, þótt ég væri auðvitað aldrei greindur, það tíðkaðist ekkert í þá daga að senda börn í greiningarferli. Það var svo sem ekki gert neitt veður út af þessu, allir ypptu bara öxlum og litu á það sem sjálfsagðan hlut að hann Jónas væri nú bara svona. Mér var aldrei strítt á þessu eða neitt en mér fannst þetta auðvitað óskaplega leiðinlegt. Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér. ADHD-inu fylgdi líka mikil hvatvísi, ég var alltaf að gera einhverja hluti sem voru algjörlega fáránlegir. Eftir á hugsaði maður oft hvers vegna maður hefði gert þetta, hvort það væri ekki allt í lagi með mig, en ég gat samt ekki hætt þessu. Stundum var ég að meiða aðra krakka eða skemma dótið þeirra og allt eiginlega bara óvart, allavega í minningunni. Maður bara hugsaði aldrei áður en maður framkvæmdi. Ég átti alveg rosalega góða vini og félaga í skólanum en innra með mér ríkti alltaf tilfinningin að vera ekki nógu góður og passa ekki alveg inn í heiminn. Það var bara í tónlistinni sem mér fannst ég passa inn í. Svo eignaðist ég tölvu og fór að forrita og þá kom inn annað element sem ég var góður í, það var talsverður léttir.“

Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér.

Andinn í samfélaginu kallaði á karlmennsku

Tónlistin var samt áfram sterkasta aflið í lífi Jónasar og þegar tveir vinir hans fluttu austur á land og byrjuðu þar í hljómsveitum leið ekki á löngu þangað til hann hélt á eftir þeim austur að Eiðum, aðeins fimmtán ára gamall. Hann segist halda að foreldrar sínir hafi orðið ánægðir með að hann tæki þá ákvörðun, þótt það hafi auðvitað verið erfitt fyrir þau. Þau hafi þó alltaf stutt hann og þessi tilfinning hans að vera ómögulegur og passa ekki inn hafi ekki haft neitt með uppeldið að gera.

Nýjasta plata Jónasar kemur út í dag.

„Pabbi var gamall sjómaður og hefði samkvæmt steríótýpunni átt að gera kröfur til mín um að sýna af mér karlmennsku en það gerði hann aldrei. Pabbi minn er í rauninni blíður maður þótt hann birtist oft sem grjótharður út á við. Hann má ekkert aumt sjá og var til dæmis oft að koma heim með illa farna flækingsketti til að gefa þeim að borða og hlúa að þeim. Pressan um að sýna af sér karlmennsku kom ekki frá foreldrum mínum. Hún var bara innbyggð í samfélagið. Ég man þegar ég var ungur að vinna í fiski eða fara út á sjó að þá sýndu karlmenn yfirleitt ekki tilfinningar sínar. Það var bara þagað nema ef þú gerðir eitthvað vitlaust, þá var öskrað á þig. Samskiptin voru bara þannig í þá daga. Ég hef oft hugsað um það núna á seinni árum, eftir að farið var að tala svona mikið um eitraða karlmennsku og áhrif hennar, að ég hafi í rauninni að mörgu leyti verið mjög heppinn að fá að alast upp í gamla tímanum í fiskiþorpi. Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar. Það er leyfilegt að nota femínísku orkuna í sköpun, og ég er dálítið femínin þótt ég virki kannski ekki þannig, en á svona stöðum er ekkert pláss fyrir mýktina sem því fylgir nema í listsköpun.“

Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar.

Mættu í partí makaðir út í sósulit

Eftir að Jónas flutti á Austurlandið og settist á skólabekk í Alþýðuskólanum á Eiðum blómstraði hann sem tónlistarmaður og naut sín sem aldrei fyrr.

„Þar var tónlistin hátt skrifuð og þar naut ég mín vel,“ segir Jónas og brosir við minninguna. „Í Þorlákshöfn býr gott fólk en samfélagið var á þessum tíma dálítið harðneskjulegt enda flestir að vinna harðneskjulega vinnu. Á Eiðum, sem var alþýðuskóli fyrir sveitakrakka, var miklu meiri mýkt. Þar var ég strax kosinn í skemmtinefnd og við vorum með skemmtiprógramm á hverju kvöldi. Það var svona míni-þorrablót alla daga. Mér fannst það alveg svakalega skemmtilegt.“

Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á mill.

Upp úr dvölinni á Eiðum fór Jónas aftur suður og byrjaði að læra trommuleik í FÍH, en fann sig ekki fyrir sunnan, fór aftur austur og settist í Menntaskólann á Egilsstöðum. Það reyndist afdrifarík ákvörðun því þar var lagður grunnur að frama hans sem tónlistarmanns, reyndar alveg óvart og í algjöru flippi.

„Í Menntaskólanum á Egilsstöðum kynntist ég vini mínum Unnsteini Guðjónssyni og við byrjuðum á smáflippi sem seinna þróaðist út í hljómsveitina Sólstrandargæjana. Við vorum báðir í rokkhljómsveitum á þessum tíma og rosalegir pönkarar, berir að ofan með hakakrossa og allt heila dæmið,“ segir Jónas og glottir. „Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á milli, byrjuðum að maka okkur út í sósulit, mæta í partí og kynna okkur sem sólstrandargæja, alveg eins og hálfvitar. Í fáránlegasta „twisti“ ævi minnar verður það svo svona óskaplega vinsælt, þótt það væri reyndar ekki fyrr en nokkrum árum seinna.“

Orðinn faðir um tvítugt

Trúr sínu ADHD-eðli hætti Jónas í ME, fór suður og reyndi að halda náminu áfram í ýmsum framhaldsskólum, með misjöfnum árangri. Hann lauk loks stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Selfossi en þá höfðu enn ein skilin orðið í lífi hans. Hann hafði kynnst stúlku, sem er eiginkona hans enn í dag, hún fljótlega orðið barnshafandi og þau farið að búa í Hveragerði. Á þessum tíma vann Jónas á næturvöktum í frystihúsinu í Þorlákshöfn og var alveg viss um að þannig yrði það ævina á enda.

Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.

„Ég var tvítugur, hún tuttugu og tveggja og við héldum að við værum bara orðin fullorðin og svona yrði líf okkar framvegis. Nú væri allt flipp búið. Allt í einu hringir svo Unnsteinn vinur minn í mig og segir mér að fólk sé enn að syngja lögin sem við höfðum samið sem Sólstrandargæjarnir í partíum fyrir austan og hvort við ættum ekki bara að taka þau upp og gera disk til að selja þeim sem voru með okkur í menntaskólanum. Mér fannst þetta alveg fáránleg hugmynd, ég hafði aldrei leyft neinum að heyra þessi lög einu sinni, fyrir mér var þetta bara grín. Ég lét samt tilleiðast og við fórum í stúdíó, tókum upp disk, gáfum út og kynntum á útvarpsstöðvunum og allt í einu vorum við orðnir geysivinsælir og diskurinn algjört hitt. Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.“

Lífið orðið óviðráðanleg steik

Vinsældum Sólstrandargæjanna fylgdi endalaus spilamennska um allt land í eitt og hálft ár en Jónas var aldrei sáttur í þessu hlutverki og smátt og smátt tók gamli kvíðinn yfirhöndina í lífi hans. Sjálfsniðurrifið blossaði upp sem aldrei fyrr og honum fannst þetta allt saman ömurlegt.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt,“ útskýrir Jónas.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt og það veldur svo miklu vantrausti á sjálfum sér,“ útskýrir Jónas. „Svo bætist kvíðinn ofan á og það verður til einhver spírall sem maður hefur enga stjórn á. Staðalímyndin af kvíðasjúklingi er að hann liggi bara í hnipri og fari helst ekki úr húsi en ég var ekki þannig, alltaf rosahress. Ég var hins vegar óskaplega ör og aftengdur sjálfum mér og umhverfi mínu í stanslausri innri togstreitu. Vandamálin hrúguðust upp, við vorum stjórnlaus í fjármálunum og söfnuðum gígantískum skuldum, það var bara allur pakkinn. Mér fannst líf mitt vera orðið óviðráðanleg steik. Að vera frægur fyrir eitthvað sem mér fannst alveg glatað og ekki einu sinni töff, þetta var bara engan veginn að gera sig. Kvíðinn hefur líka þau áhrif að maður hættir að taka ábyrgð á nokkrum hlut og verður eiginlega bara „lásí“ karakter. Á endanum gafst ég upp á þessu, hætti í hljómsveitinni, hætti alfarið í tónlist, seldi næstum öll hljóðfærin mín, réði mig í vinnu við að líma saman húsgögn í lokuðu herbergi frá níu til fimm alla virka daga og fannst það bara mjög gott líf. Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.“

Eftir að seinna barnið fæddist flutti fjölskyldan í Þorlákshöfn, Jónas vann á daginn og sótti á kvöldin forritunarnámskeið sem olli enn einum straumhvörfunum í lífi hans. Þar var hann kominn á sína réttu hillu og hvattur áfram af kennurunum á námskeiðinu sótti hann um nám í kerfisfræði við HR, komst að og sat á skólabekk í tvö ár.

Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.

„Þarna var ég allt í einu kominn á nýja braut í einhverju sem ég var flinkur í,“ segir hann og hljómar enn undrandi á því öllum þessum árum síðar. „Ég ákvað að nú væri þessi fokking músík bara horfin úr lífi mínu, nú skyldi ég bara einbeita mér að því að verða góður að forrita, fá mér góða vinnu og verða loksins alvörumaður í samfélaginu. Námið gekk vel og ég fékk góða vinnu en gleðin yfir því entist stutt. Um leið og ég var búinn að ná tökum á þessu þá hætti mér að finnast þetta merkilegt. Þetta gætu nú allir. Ég fór fljótlega í sama gamla kvíða- og vanmáttarfarið og fannst allt ómögulegt.“

Sat uppi með sjálfan sig og hugsanir sínar

Hvatvísinni trú ákváðu Jónas og eiginkona hans að leysa öll þessi vandamál með því að flytja til Danmerkur og hefja algjörlega nýtt líf. Fyrstu vikurnar segist hann hafa verið rosalega jákvæður og fullur bjartsýni og viss um að allir draumar hans myndu rætast. Sú varð þó ekki raunin og þótt hann fengi góða vinnu hjá Microsoft og fjölskyldunni liði vel í litlu húsi við skóg í nágrenni Kaupmannahafnar hélt kvíðinn og sjálfsniðurrifið áfram að brjóta niður jafnóðum það sem hafði áunnist.

Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg.

„Eftir að við fluttum út hvarf allt utanaðkomandi áreitið sem fylgdi lífinu á Íslandi, ég gat ekki lengur dreift huganum með því að vera alltaf á kafi í verkefnum og sat uppi með mig og mínar hugsanir,“ útskýrir hann. „Það varð á endanum algjörlega yfirþyrmandi og ég ákvað að nú væri tími til kominn að taka á þessum málum. Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg. Ég var alltaf að láta mér detta í hug einhverjar patentlausnir á vandamálunum eins og til dæmis að fara í Smuguna í tvö ár og redda fjármálunum en auðvitað var það ekki raunhæft. Þarna var mér farið að líða svo illa að mig langaði eiginlega ekki að lifa lengur. Ég naut þess engan veginn hvað við áttum mörg falleg móment þarna í skóginum, ég var alltaf upptekinn af öllu sem var að. Svo gerðist bara eitthvað sem ég get ekki kallað annað en andlega vakningu, ég kynntist fólki sem var á kafi í sjálfsvinnu og kveikti á því að það geti kannski hjálpað. Í hvatvísikasti sópa ég öllum forritunarbókunum úr hillunum og panta tvo kassa af sjálfshjálparbókum og bókum um andleg málefni á Amazon. Svo lagðist ég í lestur og lærði um mátt hugleiðslu og bæna, sem ég átti reyndar dálítið erfitt með því ég hafði aldrei tengt við kristnina. Ég ákvað að ég myndi hugsa mér að eldri bróðir minn, sem hafði dáið áður en ég fæddist, væri þarna einhvers staðar í kosmósinu og ég gæti beint bænum mínum til hans og það hef ég gert síðan með góðum árangri. Ég fór að skrifa niður hugsanir mínar í tuttugu mínútur á dag, hugleiða og biðja og smátt og smátt fór það að skila sér. Ég komst út úr kvíðanum og fór að ná tökum á lífi mínu.“

Hættur að vera kallinn á kassanum

Eitt af því sem Jónas bað um í bænum sínum var að fá eitthvert merki frá æðri mætti um hvað hann ætti að gera við líf sitt. Það merki kom í líki Ísraela, Adam að nafni, sem var með honum á dönskunámskeiði og var einnig tónlistarmaður. Eftir að þeir voru farnir að hittast reglulega og spila saman bauð Adam Jónasi lán til þess að hann gæti gert sólóplötu. Eftir mikla umhugsun ákvað hann að þiggja það boð og platan Þar sem malbikið svífur mun ég dansa, varð til. Hún sló í gegn og síðan hefur Jónas verið eitt af stóru nöfnunum á íslensku tónlistarsenunni, einkum í samstarfi við hóp ólíkra tónlistarmanna sem hann hefur kosið að kalla Ritvélar framtíðarinnar. Þar hafa ýmsir af bestu tónlistarmönnum þjóðarinnar haft viðkomu en á nýju plötunni, Milda hjartað, eru Ritvélarnar þó ekki með sem slíkar þótt ýmsir af þeim sem með þeim hafa spilað séu þátttakendur, heldur er hér um að ræða sólóplötu með mun mildari boðskap en Jónas hefur boðað undanfarin ár.

Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi Jónas á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum. Mynd / Hákon Davíð

„Ég hef verið voðalega pólitískur á síðustu plötum,“ viðurkennir hann. „Magnús Þór Sigmundsson, vinur minn, var meira að segja farinn að kalla mig Kallinn á kassanum, alltaf að predika yfir fólki. Á plötunni Milda hjartað er ég miklu persónulegri og mildari, enda held ég að við séum að upplifa nýja hreyfingu í átt að meiri mildi og mannkærleik. Þessi plata er mitt innlegg í þá baráttu. Það mun taka einhver ár að breyta áherslunum í þjóðfélaginu en ég er alveg sannfærður um að við erum komin á brautina sem liggur þangað. Karlmenn eru meira að segja farnir að tala hver við annan um tilfinningar sínar, það er alveg óskaplega mikilvægt skref.“

Jónas viðurkennir að hann glími enn við kvíðann og vanmáttartilfinninguna en með hugleiðslu og bæn sé hann orðinn stjórnandi í eigin lífi og hættur að láta púkann á öxlinni hafa yfirhöndina.

„Ég hef kallað hann litla Satan,“ segir hann og hlær. „Þennan sem situr á öxlinni á manni og hvíslar að manni öllu sem maður hefur gert rangt á lífsleiðinni. Hann er þarna enn þá, fer örugglega aldrei, en ég er búinn að læra að þagga niður í honum. Hann stjórnar ekki lífi mínu lengur.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is