Laugardagur 14. september, 2024
4.3 C
Reykjavik

Halldór Hafdal féll útbyrðis og óttaðist um ófædd börn sín: „Ég rankaði við mér á bólakafi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hvað ber hæst í sjómennskunni?“ spyr Reynir Traustason Halldór Hafdal Halldórsson, skálavörð á Hornbjargsvita og starfsmann Ferðafélags Íslands í hlaðvarpinu Sjóaranum. „Það er af ýmsu að taka eftir langan tíma. Andskotinn, ég man það ekki.“

Þetta er langur ferill og góður. 30 ár.

Hvað með sjávarháska?

Ég hef eflaust ekki farið djúpt.

„Það var allur andskotinn sem gekk á. Ég lenti ekki oft í einhverjum sjávarháska þannig en þó; ég lenti einu sinni í sjónum og synti á eftir bátnum úti við Eldey. Þá var ég á Haferninum frá Keflavík. Á snurvoð. Við vorum að láta voðina fara út við eyju og ég var aftur á rassgati og var að henda út voðinni. Eitthvað gerðist; ég hef aldrei áttað mig á hvað. Það sá þetta enginn þannig að það var enginn til frásagnar. Ég rankaði við mér á bólakafi. Ég man ekki neitt. Ég hlýt að hafa rotast; ábyggilega lent í gálganum. Og líklegast hefur tógið skotist undir rassinn á mér þegar það strekkti á því og bara þeytt mér fyrir borð. Ég opnaði augun og það var allt grænt í kringum mig. Ég byrjaði að synda og kom nú fljótlega upp. Ég hef eflaust ekki farið djúpt. Ég sá bátinn stíma í burtu og ég hugsaði með sjálfum mér: „Hver djöfullinn, nú er þetta búið“. En svo vaknaði eitthvað. Þetta var merkilegt. Jú, ég var reyndar í sambandi við konu en barnlaus. En þegar ég var að koma upp og sá bátinn fara í burtu og ég var við það að gefast upp þá kom eitthvað upp í kollinn á mér: „Heyrðu, þú átt eftir að ala upp börnin þín.“ En ég átti engin börn. Og það var ekkert svoleiðis á leiðinni.

Ég tók á honum stóra mínum. Ég var í sjógalla, lopapeysu og stígvélum og ég fór að synda. Ég tók strauið á eftir bátnum. Og þá sá ég mann á dekkinu. Ég fór að öskra en hann varð ekkert var við mig. Svo í seinna öskrinu leit hann á mig; ég hugsa að hann hafi ekki heyrt í mér. Hann var við hliðina á brúnni þar sem var helvítis hávaði og læti. En hann sá mig og sá mig veifa og stoppaði bátinn og þeir sneru við og komu. Þetta var kokkurinn. Ég skulda honum lífgjöfina. Svo komu þeir stímandi á fullri ferð. Þá fyrst varð ég hræddur því mér fannst þeir koma svo hratt að mér. Ég synti í burtu og var svo hífður inn. Svo var skipt um galla og haldið áfram.“

Það var ekkert verið að pústa.

- Auglýsing -

„Nei, það var ekkert verið að pústa.“

Þetta var í janúar. Halldór varð svo faðir í desember.

 

- Auglýsing -

Lyfti um 200 kílóa keri

Halldór Hafdal Halldórsson er spurður hvort þetta sé í eina skipti sem hann komst í sjávarháska. Hann nefnir annað atvik.

„Þetta var rétt fyrir jól.“ Þá var hann skipstjórinn um borð. Karlinn í brúnni. „Við vorum á línu frá Sandgerði á trilluhorni sem Árni Vikarsson átti. Það var búin að vera djöfulsins brælutíð og ekkert fiskerí. Ég sagði að það kæmi skotveiði og við fórum bara með tvöfalt.

Og hann var orðinn lunningarfullur af sjó.

Við fórum eitthvað út, um 30-40 mílur frá Sandgerði. Og lentum í þessu fína fiskeríi. Það voru 100-150 kíló á balann og það var kominn kjaftfullur bátur og meira til og það var kominn fiskur á dekk. En við náðum að draga upp línuna og svo var stímt í land. Ég var að tala við útgerðarmanninn í símanum og þá fann ég að það dró niður í bátnum. Ég sagði við hann „djöfullinn, það er eitthvað að gerast; það er að drepast á hjá mér“. Og bara hætti að tala og fór út að kíkja. Og þá var bara báturinn að sökkva. Þá hafði farið fiskur úr kari sem var á dekkinu fyrir lensport þannig að sjórinn sem kom inn á dekk komst ekkert út aftur. Og hann var orðinn lunningarfullur af sjó. Við vorum með beitingavél og þá var línan í pokum og ég fór að henda pokunum fram á til þess að létta á honum að aftan og ekkert gerðist. Ég sló af og þá byrjaði báturinn að kantera. Hann var sem sagt að fara yfir.“

Annar skipverji öskraði að þeir yrðu að henda línunni en Halldór sagði svo ekki vera. „Við hendum ekki helvítis línunni,“ segist hann hafa sagt. „Það síðasta sem maður gerir er að henda veiðarfærum. En hann hlustaði ekkert á mig og fór að henda línunni í sjóinn og ég var nú ekki glaður með þetta en það breytti engu. Hann hélt áfram að kantera, báturinn. Hann fór af bakborðshliðinni og við vorum búnir að henda yfir í stjóra og þá fór hann bara yfir á þá hliðina. Ég fór inn í stýrishús og kúplaði saman og reyndi að keyra hann upp og þá hélst hann nokkuð beinn á sjónum. En við náðum ekkert að losa af honum. Hann var bara fullur. Ég sá ekki ástæðuna fyrir þessu því það var fiskikar fyrir lensportinu sem lokaði.

En þarna kom einhver fítonskraftur.

Ég fór út á dekk og það voru góð ráð dýr. Þetta var ekki að ganga. Ég veit ekki hvað kom yfir mig. Ég leik þetta aldrei aftur. Það var dallur sem tekur 200 kíló af fiski sem var úti í annarri síðunni sem ég sá að var vandamálið og ég tók í sitthvort hornið á honum og jafnhenti honum upp og henti honum í sjóinn. 200 kílóum! Maður sem ræður ekki við 50 kíló að öllu jöfnu. En þarna kom einhver fítonskraftur. Það varð til þess að leysa málið. Þá var komið pláss á dekkinu og við gátum séð hvað var og þegar ég sá að það voru stífluð lensport þá náttúrlega hreinsaði báturinn sig og við í land. Og jólunum var reddað.“

 

Molnaði í tætlur

Halldór segist einu sinni hafa verið svo frægur að hafa dregið jaxl úr manni úti á sjó.

„Það var alveg skelfilegt. Ég var á honum Helga frá Keflavík sem var ansi mikill barkur, stór netabátur. Ætli ég hafi verið nema svona tvítugur. Það var einn, Gústi hét hann, og hann var með alveg hrikalega tannpínu. Og það mátti ekkert fara í land. Það var ekkert verið að vesenast í því. Það var farið að skoða hvað ætti að gera. Hann var búinn að bryðja allar töflur sem til voru í skipinu og ekkert dugði. Og við fórum að skoða apótekið og þar var einhver töng til að draga úr tennur. Ég hélt að þetta væri nú ekki neitt vandamál og sagði „ég dreg bara úr honum“. Og hann var til í það til að losna við verkinn. Það var sjúkraherbergi í þessum báti; hann var svolítið á undan sinni samtíð með sjúkraherbergi, saunabaði og öllum græjum. Nema það að maðurinn fór á bekkinn og ég var með töngina uppi í honum og tók á tönninni og hún var svo illa skemmd að hún molnaði í tætlur. Þetta endaði með því að það þurfti að sprauta kappann með morfíni og síðan að stíma með hann í land til að ná restinni. En menn voru ekkert að víla svona aðgerðir fyrir sér.“

 

Fundu lík

Halldór var á vertíðarbátum. „Fyrstu árin á netabátum frá Keflavík og Sandgerði. Ég var síðan margar vertíðir í Vestmannaeyjum með frændum mínum úr Bakkavíkinni. Það er nú saga að segja frá því. Við vorum fimm frændur um borð og skipstjórinn var elstur; hann hefur verið rétt rúmlega tvítugur. Ætli hann hafi ekki verið 21 árs. Við rerum þarna á trolli frá Eyjum. Okkur gekk andskoti vel. Nema svo vorum við einhvern tímann á landleið; við vorum að veiða í Háfadýpinu og þetta var um vetur. Hann hét Þórður þessi frændi minn sem var með bátinn. Hann kallaði út á dekk: „Strákar, það er að koma bræla, við skulum bara hífa og fara í land“. Og við gerðum það. Þetta var óvænt. Við áttum ekkert von á þessu. Og þegar við vorum úti á dekki þá sáum við tvö ljós á undan okkur; einhverjir sem voru á landleið líka. En svo hættum við að sjá þetta ljós og vorum ekkert að spá í þetta.“ Svo fóru mennirnir að sjá ýmislegt í sjónum. Fyrst var það fiskikassi. Svo fljótandi fiskur. Og ýmislegt annað. „Og þá var nú farið að líta í kringum sig; það hafði eitthvað gerst. Svo sáum við pínulitla týru og við sigldum að henni og þá var það bjargbátur; og í honum voru tveir menn gersamlega að niðurlotum komnir. Þeim var svo kalt. Þetta var um vetur og það var frost. Við náðum þeim um borð og þá var þetta skipstjórinn sem var í bátnum og einn háseti. Mig minnir að báturinn hafi heitið Ver. Ver frá Vestmannaeyjum. Og þeir höfðu farið niður. Það voru sex menn um borð en það voru bara tveir í gúmmíbátnum. Við fórum að leita og það var náttúrlega kallað út og allir bátar á svæðinu komu og það var farið að leita. Við vorum ekki búnir að leita lengi þegar við sáum einn sem maraði í kafi; það var bara rassinn upp úr. Við náðum honum og tókum hann inn og ég var á hakanum til þess að haka í hann. Ég ætlaði að krækja í beltistmegin á honum en þegar ég tók í beltið þá fann ég að þetta var ekki beltið. Ég hafði tekið í hold. Ég fann þegar hakið fór í gegnum og það kom straumur upp hakann. Þetta er held ég það versta sem ég hef lent í. Það þýddi ekkert að spá í það. Maðurinn var í sjónum og það þurfti bara að redda þessu og upp með hann. Hann var náttúrlega drukknaður. Við fórum að vesenast eitthvað í honum og settum hann á bakið að reyna að ná úr honum sjó og annað og enginn kunni neitt. Við vorum bara guttar.

Ég var að blása í hann og annar sem var þarna fór að gefa honum hjartahnoð. Hann kunni ekki neitt frekar en ég. Við djöfluðumst á honum þangað til komið var í land og þá kom læknir. Ég var miður mín að við skyldum ekki ná honum af stað en hann sagði að við hefðum aldrei þurft að reyna.“

Það var náttúrlega engin áfallahjálp eða neitt.

Þetta var búið.

„Þetta var löngu búið.

Eftir þetta; ég var kannski aldrei beint hræddur en þegar ég var í koju og báturinn tók dýfu eins og gerist á stímum og svona þá vaknaði ég alltaf með hjartslátt. Svona var þetta í nokkur ár. Það var náttúrlega engin áfallahjálp eða neitt.“

Allir fórust af sex manna áhöfn nema mennirnir tveir sem voru í björgunarbátnum. Og þetta eina lík.

Halldór var löngu síðar á loðnu. „Þá fórst olíuskip einhvers staðar fyrir Suðurlandi. Það voru menn um allan sjó.“

Þetta var á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar.

Þið komuð þarna að.

„Já, við vorum á veiðum þarna. Loðnuflotinn. Þannig að það var fjöldinn allur af bátum sem var að leita. Ég var frammi á bakka að kíkja; á útkíkki að leita. Og þá kom þetta upp í kollinn á mér löngu seinna og ég bað til Guðs: „Ekki láta okkur finna neinn.“ Það var alveg ótrúlegt. Þeir voru allir dánir. Þeir köfnuðu af olíu. Það var svo mikil svartolía í sjónum. Þó þeir hefðu lifað þá stífluðust öll vit.“

Halldór við Hornbjargsvita sem Ferðafélag Íslands rekur.

Myrkfælinn draugur

Halldór hætti á sjónum.

„Ég hafði alltaf sett mér það að þegar ég yrði fertugur þá myndi ég hætta. Ég var búinn að taka eftir því að fullorðnir sjómenn fengu enga vinnu.“

Þú kemur í land eins og hver annar jólasveinn í júní.

„Ég reyndar hætti nú ekki alveg þá. En þegar ég kynntist þessari konu minni, henni Dagmar, og við eignuðumst þetta barn sem ég hugsaði til þegar ég var í sjónum – það var í janúar sem ég fór í sjóinn en ég eignaðist barnið í desember – þá fór ég svo til í land. Þá fór ég að róa á þessum trillum. Og þá var þetta orðið dagróðrar eða næturróðrar og ég var mikið heima.“ Halldór segist hafa róið fyrir annan mann í einhver ár en síðan átt reyndar sína báta sjálfur.

„En þetta var ekkert hægt á þessum tíma. Ég seldi. Ég átti orðið tvo báta. Og einhvern tímann tvo róðra í röð þurfti ég að borga beitningarmanninum úr eigin vasa því að kvótaleigan var orðin miklu dýrari en maður fékk á markaðnum. Þetta var ekkert hægt. Ég var bara að fara á hausinn.

Ég átti svolítinn ýsukvóta; maður var að eltast við ýsu en þú ræður ekkert hvað bítur á krókana og þá þurfti að leigja fyrir þorskinum því að ég henti aldrei fiski.“

Halldór er spurður hvort hann hafi svo hætt alveg á sjónum þegar leiguliðasystemið hentaði honum ekki.

Í staðinn fyrir að berjast við einhverja brimskafla þá er maður að berjast við einhverjar ár uppi á fjöllum.

„Já, þá byrjaði ég hjá ferðafélaginu (Ferðafélagi Íslands). Þar raunverulega fékk ég allt sem ég fékk út úr sjómennskunni. Því að ég hef aldrei átt hobbí. Ég hef bara haft gaman af vinnunni minni. Og þegar ég fór í þessa fjallamennsku þá fullnægði það öllum mínum hvötum: Adrenalínið við að berjast við náttúruöflin en í staðinn fyrir að berjast við einhverja brimskafla þá er maður að berjast við einhverjar ár uppi á fjöllum.“

Og drauga.

„Og drauga.“

Þú hefur verið í Landmannalaugum einn um hávetur og ert hinn ánægðasti nema þú hefur stundum orðið var við eitthvað, sérstaklega í Hvítárnesi.

„Það er ansi mikið á sveimi þar. Það er ýmislegt þar. Við erum búin að vera að gera upp þennan skála þannig að ég er búinn að vera ansi mikið þarna undanfarin þrjú ár. Ég vakna stundum upp við það að það er eitthvað ofan á mér. Eitthvað þungt og kalt og ég er bara skelfingu lostinn. Þegar ég fór að hugsa um þetta eftir á þá útskýrir þetta orðið „martröð“. Það liggur eitthvað eins og mara yfir manni. Svo þegar maður nær að vakna þá er allt í góðu nema í fyrra vorum við búnir þarna og vorum að leggja okkur,“ segir Halldór og segist hafa verið í svefnrofunum. „Það lagðist eitthvað yfir mig og ég var að reyna að snúa mér. Ég var að reyna að vakna og þá klappaði konan mín á rassinn á mér og hvíslaði „þetta er allt í lagi, vinur“. Og við þetta vaknaði ég og sneri mér við en konan mér var ekkert með.

„Hún verndar þig.“

Ég fór að tala um þetta við Vigdísi, vinkonu mína sem er draugabani ferðafélagsins, og hún sagði að nú væri þetta í lagi og nú yrði ég látinn í friði. „Hún verndar þig.“ Og þá er þetta þessi einhenta sem þeir tala um. Það eru þarna tveir draugar; það er hún og síðan karlinn. Hún er ekkert að vilja illa. Hún þarf bara stundum að labba í gegnum þig því þú ert fyrir þegar hún þarf að sækja sér vatn. Og þá kemur hrollur yfir þig. En karlinn er illur og sagan segir að hann hafi drepið hana.“

Hann er illskeyttur.

„Já, það er hann sem er búinn að vera að pirra mig. En henni líkar ágætlega við mig.“

Þú trúir þessu.

„Já, það er ekkert hægt að neita þessu.“

Halldór segist ekki vera myrkfælinn. „Ég væri ekkert í þessu sem ég er að gera – að vera einn uppi í Landmannalaugum í fleiri daga – ef ég væri eitthvað smeykur. En maður veit að þetta er þarna og býður góða kvöldið. Það er draugur sem er myrkfælinn. Ég held reyndar að Vigdís sé búin að skemma þetta fyrir mér og sé búin að kveða hann niður. Ég varð ekkert var við hann í vetur.“

Myrkfælinn draugur í Landmannalaugum.

„Einhvern tímann var ég úti í glugga að tannbursta mig. Maður sér skálann í myrkrinu og þá tók ég eftir því að það var ljós í skálanum; ég var í skálavarðarbústaðnum sem er í 100-150 metra frá húsinu. og það var enginn á svæðinu nema ég. Ég dreif mig í buxur og peysu og fór út í skála því að það voru komnir gestir. Ég ætlaði að sjá hvað væri í gangi. Ég kom út og það var enginn í skálanum. Bara allt uppljómað. Það þarf að ýta á stofntakka til að kveikja á ljósunum þannig að ég hugsaði sem svo að það væri eitthvað skammhlaup í rafmagninu og sló öllu út í töflunni og fór svo yfir til mín og fór að sofa.

Tveimur kvöldum seinna gerðist þetta aftur en daginn eftir að þetta gerðist fór ég í gegnum rafmagnið til að sjá hvort það væri ekki allt í lagi. Og ég var alveg sannfærður um að það væri allt í lagi þarna. Svo gerðist þetta aftur, það kveiknaði á ljósinu. Ég fór út í skála með hálfum hug og kallaði en það var enginn þar. Svo skrifaði ég í dagbókina að það sé einhver bilun í ljósatöflunni; það hafi kveiknað ljós og engin skýring á því og ég sé búinn að yfirfæra allt og sjái ekkert athugavert. Þarna var ég að leysa af stelpu sem var þarna allan veturinn. Alveg merkilegt. Það er eitt að vera þarna einn í 15 daga en að vera í fjóra eða fimm mánuði! Hún þoldi það alveg og kunni bara vel við þetta. Ég vissi ekkert hver þessi stelpa var. Hafði aldrei séð hana. Svo hittumst við á einhverju slútti eða skralli hjá ferðafélaginu. Þá sagði hún þegar hún heyrði hver ég var „varst það þú sem skrifaðir í dagbókina um ljósið?“. Hún sagði að þetta væri alltaf að gerast. Þá vorum við sammála um að þetta væri draugur. Og hann er myrkfælinn.“

 

Einn

Halldór er núna á Hornbjargi á sumrin. Skálavörður.

Fiskibollurnar hans eru frægar. „Það er leyniuppskrift frá pabba gamla,“ segir hann og bætir við að uppskriftin hafi komið í þýska matreiðslubók.

Hvernig er að vera við ysta haf? Hornbjarg? Þetta er langt frá byggðu bóli. Er ekki einmanalegt að vera þarna?

„Nei, maður er aldrei einn þarna. Ég er búinn að vera viðloðandi á Hornbjargi í 10-11 ár. Ég kom þarna fyrst 2010. Það eru komin 12 ár. Og fyrstu árin var sonur minn alltaf með mér, Ketill. Hann hefur held ég alltaf verið með mér. Það er ekki gerandi að vera einn þarna að þvælast algjörlega bjargarlaus ef eitthvað kemur upp á; það þarf einhver að vera með manni. Allavega þegar maður er að þvælast á sjónum og taka á móti fólki úr bátnum og fara út að fiska og ganga frá.“ Það er farþegabáturinn sem fer frá Norðurfirði.

Hornbjargsviti er sögufrægur staður. Þetta var aflagt.

„1995 hætti komminn þarna, Óli,“ segir Halldór en Ólafur Þ. Jónsson var lengi vitavörður í Hornbjargsvita. „Þá var enginn í húsinu. Og það var í niðurníðslu í 10-11 ár og þá kom þarna góður maður sem var á einhverju ferðalagi og þekkti eitthvað aðeins til hjá Siglingastofnun og fengu lánað húsið. Fengu að sofa í því. Ég held það hafi varla verið hægt að sofa í því; þetta var bara orðinn hjallur. En úr varð að þeir leigðu húsið af stofnuninni og komu á fót gistingu og þau voru þarna í þó nokkuð mörg ár.“

Hvaða fólk var þetta?

„Ævar heitir hann.“

Halldór er spurður hvort einmanaleikinn nagi hann aldrei; þarna er oft þoka, kalt og hann einn í húsinu.

„Nei.“

Þér er sama?

„Já, mér líður best einum einhvers staðar.“

Hér má horfa á viðtalið við Halldór.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -