Halldóra Rut Jóhannsdóttir, íbúi í Langholtshverfi, sýnir sannan íslenskan jólaanda því hana langar til þess að hjálpa innbrotsþjófi sem hefur ítrekað brotist inn í bílinn hennar. Hana grunar að um íbúa hverfisins sé að ræða sem hafi lítið á milli handanna.
Halldóra biður íbúa Langoltshverfis um að gæta þess að læsa bílunum sínum því tvívegis hafi verið brotist inn í bílinn hennar á stuttum tíma. Hún ritar færslu þess efnis í hverfihóp á Facebook. „Í morgun, í annað skipti á stuttum tíma, kom ég út í bíl og tók eftir því að einhver hefði farið inn í bílinn minn. Ekkert var tekið, enda læsingarnar á bílnum verið bilaðar í þónokkurn tíma, og ekkert verðmætt þar að finna. En, þar sem þetta hefur gerst tvisvar á stuttum tíma og þrisvar síðan í sumar á sama stað, þá hef ég mínar hugmyndir um að þetta gæti mögulega verið einhver í hverfinu mínu sem hefur verið þar á ferli að leita af einhverju sem hægt er að fá einhvern pening fyrir,“ segir Halldóra.
Halldóra segist vera til í að hjálpa þjófinum og tekur það fram að hún ætli ekki til lögreglu vegna innbrotanna. „Ég á svo sem ekki mikið, en ef sá einstaklingur/einstaklingar sem hafa verið í þessu eiga lítið á milli handanna þá er þeim meira en velkomið að senda mér skilaboð. Ég get boðið þeim mat eða þessháttar til þess að hjálpa þeim,“ segir Halldóra og bætir við:
„Um leið og það veitir mér og fjölskyldu minni hugarró að vita til þess að enginn sé inn í bílnum á næturnar, þá værum við ánægðari að vita til þess að það sé ekki einhver þarna úti sem þarf að fara þessa leið til þess að hafa það huggulegt um jólin.“
Í morgun, í annað skipti á stuttum tíma, kom ég út í bíl og tók eftir því að einhver hefði farið inn í bílinn minn….
Posted by Halldora Rut Johannsdottir on Wednesday, December 9, 2020