Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Hallgrímur er látinn langt fyrir aldur fram: „Ég bið að heilsa ömmu og afa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hallgrímur Sveinn Sævarsson er látinn einungis 45 ára að aldri. Hann lést í Kópavogi þann 14. janúar síðastliðinn. Hallgrími er lýst sem tilfinninganæmu ljúfmenni sem barðist við grimma fíkn. Hann var barngóður og ef honum var rétt hljóðfæri þá var þó komin laglína stuttu síðar. Þó hann hefði aldrei áður spilað slíkt hljóðfæri.  Hann var fyrstur Íslendinga á þrítugsaldri til að ljúka Reykjavíkurmaraþoninu.

Bróðir hans segir að því miður hafi það ekki komið á óvart þegar hann frétti af fráfalli Hallgríms. „Elsku Hallgrímur! Það var erfitt að frétta af fráfalli þínu, þó svo að ég verði að viðurkenna að fréttin kom mér ekki mjög á óvart. Lífið fór ekki með þig einfalda eða auðvelda vegferð, sérstaklega núna síðari árin. Ég hugsaði oft með mér hvernig þú færir að því að komast í gegnum þetta allt saman aftur og aftur. Miðað við hvað það var erfitt að fylgjast með þér og baráttu þinni úr nokkurri fjarlægð á ég erfitt með að ímynda mér hversu erfitt það hefur verið að standa í baráttunni sjálfur. Ég efaðist aldrei um hvað þig langaði mikið í annað líf, en fíknin var þér oft og tíðum harður og grimmur stjórnandi. Eitthvað hlaut að þurfa að láta undan að lokum,“ segir bróðir hans, Ingi Þór Einarsson.

Ingi segir síðar í grein sinni að Hallgrímur hafi verið gífurlega skapandi. „En vá hvað ég á eftir að sakna þín Hallgrímur. Þú hafðir svo margt fram að færa og þú varst sá skapandi af okkur tveimur. Ég sá um ísköldu rökhugsunina á meðan þú sást ekki hindranirnar og skapaðir það sem þú sást fyrir þér. Það var líka lærdómsríkt að fylgjast með þér leika við börnin í fjölskyldunni. Þú varst alltaf tilbúinn að setjast niður með þeim, sást hlutina út frá þeirra sjónarhorni og tengdist þeim út frá þeirra forsendum. Eitthvað sem ég þurfti að tileinka mér, en allt svona virtist nánast koma náttúrulega hjá þér. Ég veit að þú ert hvíldinni feginn eftir langa baráttu og veit að þú ert kominn á betri stað núna. Ég bið að heilsa ömmu og afa og við sjáumst síðar,“ segir Ingi.

Systir Hallgríms segir Hallgrím hafa verið með fullkomið tóneyra. „Elsku bróðir minn er dáinn og eftir stendur óbærilega stórt skarð. Ég á ekki lengur tvo bræður og tvær systur. Ég á ekki lengur bróður sem gengur um með nákvæmlega eins fæðingarblett og ég á handleggnum. Ég á ekki lengur bróður með fullkomið tóneyra, myndavél um hálsinn, einhverja þjóðsögu á náttborðinu, hripandi niður ljóð og bundið mál eins og 18. aldar listamaður. Haggi var endurreisnarmaðurinn, fjölfræðingur sem virtist hafa áhuga á öllu og var ótrúlega fljótur að tileinka sér nýja færni. Það virtist vera hægt að rétta honum hvaða hljóðfæri sem er og nokkrum mínútum seinna kom laglína, eitthvað beint frá hjartanu,“ segir Guðrún systir hans.

Hún víkur svo máli að áföllunum í lífi hans. „En þrátt fyrir að allt léki í höndunum á Hagga, lék lífið þennan bróður minn mjög hart og undir það síðasta var ég farin að velta fyrir mér hvers konar ofurlíffæri hann hefði fengið í vöggugjöf sem þoldu óbærilegt álag á köflum. Haggi átti 9 líf og í hvert sinn sem ég hélt að þau væru búin reis hann upp aftur. Þangað til hann gerði það ekki. Hans saga einkenndist bæði af andlegum og líkamlegum veikindum en líka óbilandi elju og löngun til að ná bata. Ég lít svo á að hann hafi nú loksins fundið friðinn og hvíldina sem hann leitaði svo lengi að,“ segir Guðrún.

Fráfall Hallgríms verður einungis sorglegra þegar viðtal við hann frá árinu 2004 er lesið. Það birtist í Bæjarins besta  en þar var honum lýst sem útibússtjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar í Súðavík, grunnskólakennara og hlaupagikk sem ánetjaðist læknadópi í kjölfar bílslyss. Þar kemur fram að hann lenti í bílslysinu einungis tvítugur að aldri. Meiðsli hans voru talin lítils háttar við fyrstu sýn en áverkar á háls og hrygg drógu dilk á eftir sér. Þau urðu til þess að Hallgrímur ánetjaðist verkalyfjum.

- Auglýsing -

Í greinni segir: „Í sex ár barðist hann við lyfjafíknina án þess að gera sér grein fyrir skaðanum sem hann olli sjálfum sér og ástvinum sínum. Hann náði sér á strik og hófst þá ný barátta. Óöruggur en með von í hjarta fór hann út í samfélagið á ný. Hann hóf störf í Ölduselsskóla og undi sér vel í kennarastarfinu en líkaminn var illa á sig kominn af áralangri lyfjanotkun, hreyfingarleysi og ofáti. Hallgrímur Sveinn fór þá að hlaupa og ári seinna lauk hann Reykjavíkurmaraþoni.“

Hallgrímur lýsti tímanum eftir slysið sem algjörri eymd. „Sá tími frá því að slysið varð 25. október 1995 og fram til 10. október 2001 þegar ég sný við blaðinu mætti í heildina draga saman í eitt orð: Eymd. Frá því að vera lítil eymd til algjörrar eymdar og vonleysis. Einn dag átta ég mig svo á því að ég er að dauða kominn – félagslega, andlega og einnig líkamlega. Ég var illa á mig kominn og fitnaði hratt. Fannst allir hafa snúið við mér bakinu en í raun var það ég sem skreið í burtu, eins langt út í horn og ég gat. Ég svaf ekki vegna martraða og verkja,“ sagði Hallgrímur.

Hallgrímur segist hafa verið orðinn dópist sem braut þó ekki lög. „Ég var í daglegri neyslu og orðinn dópisti þó ég hefði lyfseðil fyrir lyfjunum. Ég var orðinn morfínsjúklingur og þreifst á morfínskyldum lyfjum og svefnlyfjum til að lina þjáningarnar og í raun til að deyfa mig frá umhverfinu. Ég gat ekki horfst í augu við sjálfan mig eins og ég var orðinn. Ég þekkti ekki lengur sjálfan mig, hvorki í útliti né atferli. Þarna var ég byrjaður að gera mér grein fyrir stöðu minni. Eymdin var alger,“ sagði Hallgrímur.

- Auglýsing -

Hallgrímur lætur eftir sig unga dóttur sem er rétt ríflega tvítug.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -