2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hamingjusamur starfsmaður verður betri starfsmaður

VIRK, Embætti landlæknis og Vinnueftirlitið munu halda morgunfundi á fimmtudaginn þar sem mikilvægi þess að auka vellíðan á vinnustöðum verður rætt. Skipuleggjendur fundarins eru sammála um að vellíðan sé lykill að betri heilsu til framtíðar.

Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir, verkefnastjóri heilsueflandi vinnustaða hjá Embætti landlæknis, og Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri rýni hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði segja fólk almennt vera orðið meðvitað um mikilvægi þess að líða vel í vinnunni og á vinnustað sínum.

Aðalfyrirlesari á morgunfundinum er Vanessa King en hún er þekktur fyrirlesari og sérfræðingur um vellíðan, þrautseigju og hamingju á vinnustöðum. Auk Vanessu ávarpar Alma D. Möller landlæknir morgunfundinn, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir reifar rannsóknir sínar á hamingju vinnandi fólks á Íslandi og Ingibjörg Loftsdóttir kynnir VelVIRK verkefnið.

Spurðar nánar út í VelVIRK segir Ingibjörg: „Það er rúmt ár síðan að VIRK fór af stað með forvarnarverkefni sem hefur fengið heitið VelVIRK og í framhaldi af því hófum við samstarf við bæði Embætti landlæknis og Vinnueftirlitið. Í kjölfarið hafa þessar þrjár stofnanir ákveðið að hefja samvinnu um Heilsueflandi vinnustaði sem er verkefni nátengt Heilsueflandi samfélögum og Heilsueflandi skólum sem unnið hefur verið að hjá Embætti landlæknis síðasta áratug.“

Vanessa King lumar eflaust á góðum ráðum fyrir okkur til að auka vellíða.

Beðnar um að nefna dæmi um það sem verður fjallað um á fundinum segir Ingibjörg: „Vanessa King lumar eflaust á góðum ráðum fyrir okkur til að auka vellíðan en hún hefur meðal annars ritað tvær bækur um lykilinn að hamingjusömu lífi. Hún mun kynna fyrir okkur niðurstöður rannsókna um hamingju á vinnustöðum og leiðir til að tengja þær við raunverulegar aðstæður.

AUGLÝSING


Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis, mun síðan fjalla um íslenskar rannsóknir á hamingju en Dóra hefur meðal annars sérhæft sig í þeim fræðum. Ingibjörg kynnir síðan forvarnarverkefnið VelVIRK sem hefur vinnuheitið „Er brjálað að gera“ en verkefnið heldur meðal annars úti vefsíðunni www.velvirk.is. Þar er hægt að finna hagnýt ráð fyrir einstaklinga og stjórnendur til að ná jafnvægi í lífinu og auka vellíðan á vinnustöðum. En fyrst mun Alma Dagbjört Möller, landlæknir, setja morgunverðarfundinn. Alma er mikill talsmaður heilsueflingar og forvarna og telur mikilvægt að huga að vinnustöðum landsins í því samhengi.“

Jafnvægi á milli vinnu og heimilis mikilvægur þáttur

Að ykkar mati, er fólk orðið meira meðvitað um mikilvægi þess að líða vel í vinnunni og á vinnustað sínum?

„Já, tvímælalaust. Við erum orðin meðvitaðri um að vellíðan er lykill að betri heilsu til framtíðar og fyrirbyggjandi aðferðir eru áhrifaríkar í því sambandi. Rannsóknir sýna að vellíðan í starfi, bæði líkamleg, andleg og félagsleg, er fyrirbyggjandi og spornar gegn streitu og kulnun. Jafnvægi á milli vinnu og heimilis er mikilvægur þáttur og til að skapa jafnvægi þurfa bæði stjórnendur og starfsfólk að vinna saman.

Ábyrgðin liggur hjá báðum aðilum, það er hlutverk stjórnenda að skapa heilsueflandi umhverfi sem starfsfólki líður vel í, er vel skipulagt og hlutverk starfsmanna séu skýr. þeir þurfa að vita hvers er til af þeim ætlast og svo þarf umhverfið að styðja við fjölskyldulíf starfsmanna á jákvæðan máta. Starfsmaðurinn sjálfur ber ábyrgð á að stunda heilsusamlega lifnaðarhætti; huga að hreyfingu, mataræði og svefni ásamt því að sinna félagslegum tengslum sem hefur sýnt sig að leiði til aukinnar vellíðanar og betri heilsu til framtíðar,“ segir Sigríður.

Kostnaður fyrirtækja vegna aukinna veikinda, streitu og kulnunar er hár og því til mikils að vinna fyrir stjórnendur að huga að heilsueflingu því hún styður við vellíðan allra.

Hvað yfirmenn og stjórnendur varðar þá eru þeir vissulega jafn ólíkir og þeir eru margir að sögn Sigríðar og Ingibjargar. „En við teljum að vitund stjórnenda hafi aukist mikið, þeir eru meðvitaðri um ábyrgð sína í að skapa umhverfi sem er heilsueflandi. Í því felst það sem styður við líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Líði starfmanni vel og finnur að vinnuumhverfi hans styður við hann, þá verður hann að sjálfsögðu betri starfsmaður. Kostnaður fyrirtækja vegna aukinna veikinda, streitu og kulnunar er hár og því til mikils að vinna fyrir stjórnendur að huga að heilsueflingu því hún styður við vellíðan allra.“

Þess má geta að í lok morgunverðarfundarins ætla forsvarsmenn stofnananna þriggja að skrifa undir viljayfirlýsingu um samstarfið sem mun einkum snúast um að gefa út viðmið um heilsueflandi vinnustaði. Með tilkomu slíkra viðmiða munu stjórnendur geta mátað sig inn í þá þætti sem einkenna heilsueflandi vinnustaði.

„Við erum mjög spenntar fyrir komandi samstarfi með Vinnueftirlitinu og viljum benda stjórnendum og starfsmönnum á að hægt er að skrá sig á morgunverðarfundinn um hamingju á vinnustöðum sem verður þann 21. febrúar kl. 8.30 á virk.is,“ segir Ingibjörg.

Mynd / Hallur Karlsson

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is