Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Hanna Björk greindist með brjóstakrabbamein: „Rosalega heppin, bara annað brjóstið tekið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir rúmum 2 árum síðan fundust frumubreytingar hjá mér í öðru brjóstinu. Í kjölfarið fór ég í aðgerð þar sem það var fjarlægt. Síðan þá hafa ýmsar breytingar orðið á lífi mínu og flestar til góðs. Í gær flutti ég hugleiðingu í bleikri messu að beiðni séra Braga í Víðistaðakirkju, en séra Stefán Már Gunnlaugsson þjónaði fyrir altari. Ég ákvað að deila þessum hugleiðingum mínum með ykkur, segir söngkonan og söngkennarinn Hanna Björk Guðjónsdóttir, og bætir við:

„Að vísu sagði Stefán Már að þetta hefði verið meira í átt að predikun og var bara ánægður með það. En alveg var það nú eftir mér að fara að predika yfir öllum. Jæja hér kemur þá „predikunin“ mín fyrir þá sem hafa nennu til þess að lesa meira:

„Þegar séra Bragi sóknarprestur hér í Víðistaðakirkju hafði samband við mig, til þess að athuga hvort ég væri til í að halda erindi í tilefni bleikrar messu, þá var ég var ekki alveg sannfærð um að ég væri réttan manneskjan. En honum tókst að sannfæra mig um að litla sagan mín ætti allt eins erindi til ykkar eins og hver önnur.

Ég bið ykkur um að taka eftir því að ég segi „litla“ saga mín.

Eftir samtalið fór hugur minn á flug og daginn eftir fyrir klukkan sjö að morgni settist ég niður og fór að skrifa. Þeir sem þekkja mig eiga bágt með að ímynda sér mig vakna fyrir klukkan sjö og hvað þá að rjúka fram úr svona snemma.

Samtalið við Braga setti eitthvað af stað sem hafði lúrað í mér. Allt í einu þurfti ég að fara að skilgreina tilfinningar mínar og hugsanir og jafnvel fara í gegnum ákvarðanir sem ég hef tekið síðustu 2 til 3 ár. Sannarlega hef ég upplifað frá eigin hendi að hafa farið í gegnum í brjóstaskimun þar sem allt var ekki eins og það átti að vera og eftir það ekki fundist ég ráða neinu um það sem á eftir kom.

- Auglýsing -

En ég er mikil Pollýanna í eðli mínu og þið sem þekkið ekki söguna um Pollýönnu eða hafið séð myndina þá er uppáhalds setning mín í myndinni: „I‘m so glad I didn‘t brake both my legs.“

Hún var svo heppin þessi elska að hún braut bara annan fótinn.

Ég fór í aðgerð þar sem annað brjóstið var tekið í burtu. Ég sannfærði sjálfa mig um að ég væri rosalega heppin. Bara annað brjóstið var tekið. Ég þurfti ekki að fara í áframhaldandi meðferð og verð BARA í sérstöku eftirliti næstu 5 árin.

- Auglýsing -

Aðrir hafa þurft að ganga í gegnum miklu meira og þurft að þola töluvert erfiðari aðstæður en ég. Með þetta hugarfar hef ég farið í gegnum síðustu tvö ár en ég finn samt fyrir því að orkan mín er ekki sú saman og áður. Ég hef heldur ekki verið laus við að hafa áhyggjur af því að það fari af stað krabbamein í því brjósti sem eftir er. Hugsanir eins og „meinið gæti orðið verra og kannski yrði það illviðráðanlegt“ koma upp í hugann.

Þessar hugsanir koma og fara en sem betur fer stoppa þær stutt. Það er samt sem áður gott að viðurkenna fyrir sjálfum sér að þessar hugsanir séu til staðar og gera sér um leið grein fyrir því að þessar tilfinningar og hugsanir eru eðlilegar. Að það sé hægt að upplifa vanlíðan og hræðslu án þess að dvelja í því ástandi. Húmorinn hefur hjálpað mér mikið. Það er stundum gott að geta séð skoplegu hliðina á erfiðum aðstæðum enda er oft sagt að sorg og gleði séu systur.

Hlátur er ein leið til þess að takast á við erfiðar aðstæður en það þýðir ekki að maður taki öllu af léttúð og geri sér ekki grein fyrir alvarleikanum.

Ég fór í aðgerð haustið 2020 þar sem brjóstið var fjarlægt. Veturinn þar á eftir fór í það að jafna sig og venjast því að vera bara með eitt brjóst.

Svo kom sumarið.

Okkur hjónunum þykir gott að skella okkur í sund, sérstaklega á sumrin. Þetta sumar þurfti ég að tala mig til áður en ég gat stigið það skref að hátta mig fyrir framan aðra en valda aðila og heilbrigðisstarfsfólkið sem hafði sinnt mér. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort ástæðan var að mér fyndist óþægilegt að fólk sem ég þekkti ekki sæi mig bara með eitt brjóst eða hvort ég hafði áhyggjur af því að öðrum fyndist óþægilegt að sjá mig svona.

Hvort heldur sem er, þá þurfti ég minn tíma til þess að undirbúa mig fyrir þessar aðstæður. Svo kom að því. Ég valdi sundlaug í litlu bæjarfélagi úti á landi og þetta var í miðri viku. Auðvitað var sundlaugin full af fólki á þessum sólskinsdegi en ekki hvað.

Sundlaugarferðin gekk vel framan af eða alveg þangað til ég fór upp úr lauginni og þurfti að klæða mig aftur. Ég einbeitti mér að því að reyna að „trufla“ ekki neinn á meðan ég þurrkaði „sundbrjóstið“ mitt svo ég gæti troðið því þurru í brjóstahaldarann. Það fór ekki betur en svo að ég missti það út úr höndunum og þarna skoppaði það frá mér í átt að mæðgum, þrjár kynslóðir.

„Afsakið“ sagði ég skömmustuleg.

En þá fékk ég þetta dásamlega svar „Iss, þetta gerir ekkert til, mamma er alveg eins“ sagði unga móðirin og rétti mér brjóstið. Litla dóttir hennar hafði líka þörf fyrir að segja mér að þetta væri allt í lagi og sagðist elska brjóstið hennar ömmu sinnar, það væri svo mjúkt. Þar með var vígið fallið. Ég elska þessa sögu, mér finnst hún fyndin en jafnframt lýsir hún svo miklum kærleik. Kærleik náungans sem er ekki sama um þig og hvernig þér líður.

Við erum ekki ein.

Það sleppur enginn við áföll eða það að upplifa sorg einhvern tímann á lífsleiðinni. Við því er ekkert að gera nema að sýna æðruleysi þegar svo ber undir og gefa sér tíma til þess að takast á við það sem að höndum ber.

Stundum finnum við samsvörun í því sem aðrir eru að upplifa á meðan við eigum erfitt með að setja okkur í annarra spor. En að setja sig í annarra spor er ekki alltaf nauðsynlegt til þess hægt sé að sýna skilning og kærleika í garð annarra. Við þurfum stundum bara einhvern sem er tilbúinn að hlusta.

Fyrir ykkur sem eruð að ganga í gegnum erfiða tíma segi ég, gefið tilfinningunum rými. Við þurfum ekki að fela vanlíðan, sorg eða reiði. Leyfið ykkur einnig að finna fyrir gleði og jákvæðni. Best er að hafa húmorinn ekki langt í burtu hann er ótrúlega gott hjálpartæki til þess að takast á við erfiðar aðstæður.

Allt það sem ég hef gengið í gegnum nýti ég sem lærdóm til þess að skilja betur, öðlast ró og sýna æðruleysi. Þó er lykilorð mitt alltaf kærleikur.

Kærleikurinn er bestur.

Í Fyrra Korintubréfi 13. kafla stendur m.a. Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.

Að lokum langar mig að lesa upp fyrir ykkur sálm nr. 406 eftir Björn Halldórsson frá Laufási.

Sál mín, hrind þú harmi‘ og kvíða, hvers kyns neyð sem fyrir er, heyr þú raust þíns herra blíða, hana segja láttu þér: Það ,sem horfir þyngst til móðs, þér skal verða mest til góðs. Huggarinn á himni bætir hvað, sem mæðir þig og grætir.

Takk fyrir!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -