Föstudagur 19. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Hanna Katrín grunuð um peningaþvott í Svíþjóð: „Hún hrökk við og brosið hvarf af andlitinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, segir á Facebook farir sínar ekki sléttar af flugvelli í Stokkhólmi. Þar hugðist hún eiga í gjaldeyrisskiptum en það gekk ekki betur en svo að starfsfólk var farið að gruna hana um peningaþvott. Yfirmaður leyfði henni, þó með semingi, að kaupa 200 evrur á um 30 þúsund krónur. Hann sagði að næst yrði hún líklega ekki svo heppin.

„Smásaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og annarri spillingu. Mér hálfleiddist þarna á flugvellinum í Stokkhólmi enda 4 tíma bið í næstu vél á fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs á Álandseyjum. Þegar ég gekk fram á bás þar sem boðið var upp á gjaldeyrisskipti ákvað ég að slá til og kaupa 200 evrur (ca 32.000 ísl.kr.) Allt gekk vel í upphafi og ég svaraði samviskusamlega hverri spurningunni á fætur annarri, enda hver vill ekki aðstoða í baráttunni við peningaþvætti og annað slíkt. Þar til kom að spurninginni, við hvað starfarðu?,“ lýsir Hanna Katrín.

Þá fyrst fóru Svíar að gruna hana um græsku, enda algeng í hennar stétt. „Ég sver það, mér sýndust koma rauðar glæringar úr tölvu stúlkunnar þegar hún sló inn svarið; stjórnmálamaður. Í það minnsta hrökk hún við, við viðbrögðin á skjánum og brosið hvarf af andlitinu. Augnablik sagði hún og lét sig hverfa. Inn um hálflokaðar dyr sá ég hana í áköfum samræðum við eldri mann, líklega yfirmann. Þau komu svo bæði fram skömmu síðar og töluðu sín á milli yfir tölvunni um mig líkt og ég væri ekki á staðnum. Enda mögulega stórpeningaþvottakona. Þessi upphæð er undir viðmiðunum, sagði hann. Svo þú sleppir þessu í gegn. En skráðu þetta í kerfið og ef hún (ég) reynir þetta aftur þá gómar kerfið hana. Svo fór yfirmaðurinn og stúlkan kláraði að afgreiða mig. Ég er ennþá með 200 evrurnar í veskinu, var eitthvað rög við að nota þær,“ segir Hanna Katrín.

Þetta atvik mætti afskrifa sem sænska sérvisku en svo er ekki. Dóttir hennar fékk stuttu síðar harkalegri meðferð af öðrum banka. „Kvöldið eftir að ég kom heim eftir áhugaverða og skemmtilega ferð til Álandseyja vildi önnur dóttir mín ræða skrítinn póst sem hún hafði fengið frá viðskiptabanka sínum. Nefnilega þann að ef hún skilaði ekki inn skattskýrslum síðustu tveggja ára innan tveggja vikna frá dagsetningu póstsins yrði öllum bankaviðskiptum lokað á hana. Þegar hún sendi inn athugasemd á bankann vegna þessara harkalegu skilaboða kom í ljós að ástæðan var að hún er Politically Exposed Person í gegnum stórvarasama móður hennar. Skattskýrslurnar voru sendar og námsstúlkan fær því enn að geyma sumarhýruna sína í bankanum.“

Svo virðist sem starf Hönnu Katrínar geri hana geislavirka meðal banka. „Viku síðar reyndi hin dóttir mín að millifæra sumarhýruna sína af íslenska reikningnum sínum yfir á reikning sinn í bandaríska bænum þar sem hún stundar nám. Það gekk nú aldeilis ekki smurt fyrir sig, enda mjög grunsamleg aðgerð hjá Politically Exposed Person. Eftir nokkur tölvupóstsamskipti hrökk það í lag og námsstúlkan fær að nota peningana sína,“ segir Hanna.

Þessu var þó ekki lokið. „Og víkur þá sögunni að fjórða og síðasta fjölskyldumeðlimnum, henni Ragnhildur minni. Þegar hljómsveitin hennar Ukulellur er að komast yfir barm heimfrægðar og vill fara að rukka inn aðgangseyri eins og slíkar hljómsveitir gera, haldiði ekki að peningaþvottakonan ég þvælist fyrir enn og aftur. Ragnhildur er í stjórn Ukulella (allar alvöru hljómsveitir hafa stjórn) og þarf því að gefa upp allar helstu upplýsingar eins og þær hvað makinn er að bardúsa dags daglega. Og af því að makinn er ég og Ragnhildur þar með Politically Exposed Person þá stendur í kerfinu að veita Ukulellum leyfi til að tengja kortaposa við reikning hljómsveitarinnar.  Ég er samt ennþá velkomin á næstu Ukulellutónleika og passa bara að mæta með seðla. Ætli þær tækju við evrunum mínum? Niðurstaðan hér er að ég er lykilmanneskja í því að hindra mútur og spillingu hér á landi og jafnvel víðar. Ég og mitt fólk.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -