Miðvikudagur 24. maí, 2023
7.8 C
Reykjavik

Haraldur geðlæknir segir ástandið ekki gott: „Allt að 10 ára bið eftir geðlækni á Íslandi“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Haraldur Erlendsson geðlæknir segir gríðarlegt upplýsingaflóð og upplýsingaáreiti vera eina stærstu heilsuógn samtímans. Haraldur, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir geðheilsuvanda þjóðarinnar orðinn að stærsta samfélagsmáli samtímans:

Viðtöl Sölva vekja ætíð mikla athygli.

,,Mesta ógnin við heilsu nútímamannsins eru of miklar upplýsingar og of mikið áreiti. Hvort sem það eru samfélagsmiðlar, sjónvarp, útvarp eða annað. Skynfærin og heilin eru stöðugt að taka við upplýsingum án þess að hafa næði til að vinna almennilega úr þeim. Það er ofurflóð af upplýsingum í gangi nánast allan sólarhringinn. Við þurfum öll ró og að vera í stað og stund án þess að vera að móttaka upplýsingar.

Svefninn er orðinn helsta skjólið fyrir heilann til að ná einhvers konar úrvinnslu. Rannsóknir sýna að ef fólk nær ekki alvöru draumsvefni og djúpsvefni, þá lærir það illa þær upplýsingar sem heilinn hefur fengið inn. En nú er staðan orðin þannig að margir ná ekki einu sinni almennilegum svefni, meðal annars vegna þess að áreitið á heilann er búið að vera of mikið,” segir Haraldur og heldur áfram:

,,Vandamál tengd geðheilsu eru orðin svo stór og algeng að engin geðheilsuþjónusta mun ráða við að sinna þeim ef svona heldur áfram. Vinnuframlag í þjóðfélaginu er að meðaltali skert um 30% vegna geðrænna vandamála og bið eftir geðlækni er orðin allt að 10 árum ef þú ert ekki með bráðavanda. Vandamálin virðast bara vera að aukast, þannig að það er augljóst að það þarf að finna einhverjar nýjar leiðir til að takast á við þennan faraldur. En það er augljóslega eitthvað mikið að í því hvernig við lifum lífi okkar miðað við það hve hratt líkamlegri og geðrænni heilsu okkar er að hraka.”

Haraldur segist hafa séð það í störfum sínum og samtölum við kollega að þörfin eftir geðheilsuaðstoð hafi aukist gríðarlega eftir Covid. Það tímabil hafi aukið á vanda margra sem voru í vanda fyrir:

- Auglýsing -

,,Við geðlæknar hittum oft fólk núna sem er komið vel á þrítugsaldur sem fer nánast ekki út úr herberginu sínu og lifir bara eins og það sé 12 ára. Það hefur enga þrautseigju eða tilgang og hefur aldrei orðið fullorðið. Ef þú gefur fólki aldrei erfiðleika eða eitthvað sem þýðir að það verður að standa í lappirnar endar það illa. Til þess að verða í alvöru fullorðin þurfum við að takast á við verkefni sem virðast vera okkur um megn. Við þetta verður til manndómsvígsla og fólk fer að trúa á sjálft sig. Við erum ekki hönnuð fyrir að festast í þægindaramma þar sem reynir aldrei á okkur. Menningar sveiflast á milli mildi og hörku og það er hægt að fara of langt í báðar áttir.

Við sem samfélag erum komin mjög langt í góðmennsku, sem er yndislegt, en á sama tíma erum við að taka burt þrautseigju. Harkan sem var hérna á árum áður er náttúrulega bara illmennska ef hún gengur of langt, en að sama skapi er of mikil góðmennska bara meðvirkni. Við erum alltaf að leita að hinum gullna meðalvegi í þessu, en núna erum við komin ansi langt í að þurrka út þrautseigju og innri styrk í okkar samfélagi.”

Haraldur segir að Covid faraldurinn hafi sýnt okkur mikilvægi þess að ekki verði til andrúmsloft múgsefjunar, þar sem opin umræða er stoppuð:

- Auglýsing -

,,Ein mesta ógn við lýðræðisréttindi í dag er þegar ríkisvaldið ætlar að ganga of langt í að hafa áhrif á líf þegnanna. Það er aldrei gott þegar það myndast þannig ástand að það sé bara ein skoðun leyfð og réttindi tekin af fólki og engin opinská umræða tekin í alvöru. Við þurfum andstæðar skoðanir, það er algjörlega lífsnauðsynlegt í lýðræðislegu samfélagi. Öll ferli í þjóðfélaginu þurfa sífellda endurskoðun. Á sínum tíma var búin til þrískipting valdsins og svo hafa fjölmiðlar tekið að sér hlutverk fjórða valdsins. En fjölmiðlarnir hafa í raun ekki fjárhagslegt umboð til að standa undir því hlutverki. Mín skoðun er sú að við þyrftum að ræða um hvernig við getum haft fjórða valdið formlegt í okkar samfélagi. Þá myndi það sinna því hlutverki að vera eins konar ,,devil´s advocate” og fara í gegnum öll ferli með gagnrýnum augum. Er dómsvaldið of hliðhollt undir framkvæmdavaldið? Eru fjölmiðlar að standa undir hlutverki sínu og svo framvegis. En þetta yrði auðvitað vandasamt í framkvæmd,” segir Haraldur og heldur áfram:

,,Stóra spurningin í samfélögum í gegnum tíðina er oft sú sama. Hvenær er hinn almenni borgari orðinn þræll? Hvað er eðlilegt að almennur maður hafi mikil réttindi og hvað er eðlilegt að hann vinni mikið? Nýju kynslóðirnar sjá þetta svolítið í öðru ljósi en við og forfeður okkar og vilja losna úr þrældómi þess að vera stanslaust að vinna og geta ekki notið lífsins. Margir eru að stíga út úr þessu kapphlaupi, sem ég held að sé gott, svo framarlega sem fólk gerir eitthvað uppbyggilegt.”

Viðtalið við Harald og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á solvitryggva.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -