Harðar deilur um „vinalega“ kúnna: „Frekar vil ég fá klapp á rassinn og vera kölluð vina“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Það er óhætt að segja að sitt sýnist hverjum innan Facebook-hópsins Sögur af dónalegum viðskiptavinum í vikunni. Þar hafa átt sér stað harðar deilur um hvort það sé í lagi þegar viðskiptavinur kallar starfsmann „elskan“ eða önnur sambærileg orð.

Lína nokkur hóf umræðuna í byrjun en hún segir þetta óþolandi. „Hey… viðskiptavinir sem kalla „elskan!!“ Og eiga við mig… ég er ekki elskan þín og þú ert ekki að vera kurteis með því að kalla þjónustukonur elskurnar eða vinurnar… því ekki kallar þú karlmenn í sömu störfum þessum orðum. Og ég tek þessu ekki og mér er alveg sama þó þú sért móðgaður…. yfir því að ég sé móðguð,“ skrifar Lína en hún bætti þessu svo við síðar:

„Mig langar að koma því að að í þetta skiptið kemur viðskiptavinurinn aftan að mér kallandi elskan til að ná athygli minni en ég hef bara aldrei lent í því að vera kölluð elskan nema af kallinum mínum… svo eðlilega tók ég þetta ekki til mín.. og hann varð svona hissa að ég hefði ekki gert það. Ég sagði bara kurteislega á móti að ég væri ekki elskan hans… og svo hjálpaði ég honum með það sem þurfti en hann var bara móðgaðri en allt yfir þvi að hann mætti ekki kalla mig það sem hann vildi.“

Önnur kona, Sigríður, skrifaði færslu innan sama hóps en þar tók hún hinn pólinn. Þeirri færslu var eytt stuttu síðar. „Vá hvað ég sakna þess að vera kölluð: gæskan, vinan, elska, ást, ljúfan og öll þessi ljúfu orð. Það má ekkert í dag!!! Jú þú mátt vera kölluð „Drusla –trash– í druslugöngu „. Sætti mig aldrei við það! Frekar vil ég fá klapp á rassinn og vera kölluð vina. Bara tjáning.“

Færsla Línu stendur enn og þar hafa ófáir skrifað athugasemd. „Án djóks eg gæti ælt yfir orðunum elskan og VÆNA,“ segir ein kona meðan Jósef nokkur heldur að þetta tengist kynslóðum. „Er þetta ekki yfirleitt gamalt fólk að tala svona? Ég hef verið i þjónustustörfum. Var hér áður oft kallaður ljúfur og elskan af gömlum konum og stundum körlum. Fannst það bara vinalegt yfirleitt er fólk bara gefa hlýju eða kærleik með svona,“ segir hann.

Annar karlmaður segir henni að slaka á. „Ég held að þú ættir aðeins að slaka á. Ég sem viðskiptavinur legg mig fram um að koma vel fram við afgreiðslufólk og hluti af því er einmitt að vera vingjarnlegur og því kalla ég afgreiðslufólk vini – vinur og vina. Ef þú tekur því eitthvað illa þá er það eitthvað sem þú þarft að athuga en ekki ég,“ segir sá.

Kona nokkur segist gera þetta við alla, bæði konur og karla. „Ég kalla alla elskan! Hvort sem ég er viðskiptavinur eða að vinna í þjónustu starfi og geri ég það ekki til þess að vera kurteis heldur er þetta hvernig ég tala segi ég þetta ósjálfrátt já geri ég það viljandi já  segi ég þetta hvort sem þú ert barn, kvenmaður eða karlmaður.. uu já. Ef svona fer í taugarnar á þér þá sleppirðu því að hlusta á þessu tilteknu orð,“ segir hún.

Kristín nokkur kemur Línu til varnar og segir þetta snúast um mörk. „Þetta er ekki spurning um dónaskap heldur um ákveðin mörk. Henni finnst þetta fyrst og fremst óþægilegt og það er ekkert viðkvæmt við það. Það hafa allir sín mörk og þau eru mismunandi.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -