Þriðjudagur 27. september, 2022
2.7 C
Reykjavik

Harmsaga Önnu á Tenerife heldur áfram: „Ég átti von á hinum verstu viðbrögðum“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir glímir enn við harðar sóttvarnaraðgerðir þar sem hún býr á Tenerife. Þar ætlaði hún svo sannarlega að hafa það gott yfir árið sem er að líða en raunin varð allt önnur.

Frá ævintýrum sínum greinir Anna í færslu á Facebook. „Það var farið að sjást til sólar að nýju eftir tveggja mánaða innilokun og mánuð í viðbót af ströngum takmörkunum, en ég gat þó farið að hreyfa mig utandyra og jafnvel skroppið á milli hreppa á eyjunni. Einnig var farið að létta svo á samkvæmislífinu að heimilt var að opna veitingahús og bari að nýju. Inga á Barnum var meðal þeirra fyrstu til að opna þrátt fyrir strangar takmarkanir, en það hafði lítið að segja því flestir Íslendingarnir voru farnir heim og ég stundum einasti viðskiptavinurinn,“ segir Anna.

Þrátt fyrir harðar aðgerðir hefur Anna haft í nógu að snúast. „Ég þurfti að kaupa mér nýja inniskó og finna mér aðra íbúð að búa í. Með hjálp góðs fólks fann ég svo loks íbúð rétt hjá Barnum, reyndar á annarri hæð í næstu götu. Svo háttar til hér í Paradís að ekki er lögð mikil áhersla á niðurföll af svölum og veröndum íbúðarhúsa, einfalt og stutt rör út og ekkert meira. Nokkru eftir að ég flutti inn gerði sjaldgæfa úrhellisrigningu og reyndist annað niðurfallið stíflað. Ég losaði um stífluna með þeim afleiðingum að vatn og óhreinindi sprautuðust niður og yfir íþróttagalla nágrannans. Ég átti von á hinum verstu viðbrögðum, en nágranninn var ekkert að æsa sig, bað mig samt að fara varlega næst þegar losa skyldi stíflu,“ segir Anna sem keypti sér líka nýja blæjubíl á dögunum:

„Sumir Íslendingarnir hérna aka um á gömlum druslum sem höfðu verið keyptar fyrir slikk og ég fór að leita að einhverri slíkri. Það reyndist ekki auðvelt að finna slíkan en svo benti Inga mér á einn sem hún fann á netinu. Gamla tveggja dyra Mercedes Benz blæjubifreið. Bílasalinn sem seldi mér bílinn var ekki alveg sáttur við Mercý, komst ekki almennilega inn í hana og fannst hún þröng og ómöguleg, þetta væri sko ekkert fyrir svona gamalt fólk eins og sig. Nú, hvað ertu gamall?, spurði ég. 65 var svarið. Þá hló marbendill.“

Erfiðleikar tóku aftur við hjá Önnu þegar tilfellum kórónuveirusmita fór ört fjölgandi á Tenerife í vetur. Árið sem átti að vera henni svo þægilegt varð að einni langri harmsögu. „Eftir of miklar tilslakanir fóru yfirvöld að herða aftur á reglunum. Fyrst var fyrirskipað að loka börum og veitingahúsum klukkan ellefu á kvöldin, síðar fyrir klukkan tíu með að útgöngubann á nóttunni varð að átta tíma banni allar nætur. Sum veitingahús sem höfðu opnað í von um að túristarnir færu að sjá sig, skelltu aftur í lás,“ segir Anna og bætir við:

„Ofan á allt hættu íslenskar ferðaskrifstofur að bjóða upp á ferðir hingað og ekkert beint flug var frá í ágúst og þar til skömmu fyrir jól. Hafa þessir Íslendingar aldrei heyrt um uppbyggingu trausts? Það gerist ekki með auglýsingum um sólarlandaferðir sem síðan er aflýst. Í Paradís sátum við og söknuðum Íslendinganna sem ætluðu að koma en komust ekki. Í staðinn fengum við krónuveirusmitaða Breta og ég horfði fram á stórtap á hlutabréfunum mínum í Icelandair.“

Dagur 2.138 – Annus horribilis 2020 – 3. hluti.

Það var farið að sjást til sólar að nýju eftir tveggja mánaða innilokun…

Posted by Anna Kristjánsdóttir on Wednesday, December 30, 2020

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -