2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hátíð okkar allra

Leiðari úr 28. tölublaði Mannlífs

Hinsegin dagar, sem hófust í vikunni, eru fyrir löngu búnir að festa sig í sessi sem ein fjölsóttustu hátíðarhöld á landinu. Það að um það bil einn þriðji hluti Íslendinga skuli taka þátt í Gleðigöngunni ár hvert er út af fyrir sig grámagnað og sýnir vel hvað staðan hefur breyst á þeim 20 árum frá því hátíðin var fyrst haldin undir yfirskriftinni Hinsegin helgi á Ingólfstorgi og um 1.200 manns mættu til að fylgjast með. Sá fjöldi sem nú tekur þátt sýnir einfaldlega þá breytingu sem hefur orðið á afstöðu þjóðarinnar til réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi.

Í dag er ótrúlegt að hugsa til þess að einhvern tíma skuli hafa gilt lög sem gerðu samkynhneigð refsiverða. Fjarstæðukennt að fólk hafi átt hættu á að missa vinnuna eða leiguhúsnæði við það að koma út úr skápnum. Að viðkomandi hafi getað átt von á að vera hafnað af fjölskyldunni. Og það hér á Íslandi. Að einungis séu níu ár síðan ein hjúskaparlög fyrir alla tóku gildi. Og ekki sé lengra síðan en í júní á þessu ári að samþykkt var frumvarp um kynrænt sjálfræði sem gerir fólki kleift að skilgreina kyn sitt sjálft. Nokkuð sem er mikil réttarbót fyrir trans og kynsegin fólk.

Já það má segja að það séu viss forréttindi að búa í því samfélagi sem Ísland er orðið í dag og alls ekki sjálfsagt. Reglulega berast skelfilegar fréttir frá löndum þar sem réttindi hinsegin fólks eru fótum troðin. Sums staðar úti í heimi er til dæmis lagt blátt bann við hátíðarhöldum eins og Gleðigöngunni. Annars staðar hefur orðið bakslag í baráttunni og yfirvöld ríkja, sem eiga að heita þróuð, hafa afnumið réttindi sem barist hafði verið ötullega fyrir. Enn annars staðar sætir hinsegin fólk ofsóknum og grófu ofbeldi og er jafnvel tekið af lífi með samþykki stjórnvalda.

„Viðhorf meirihluta Íslendinga til hinsegin fólks hefur vissulega tekið miklum breytingum á síðustu árum og áratugum, en þótt stórir áfangar hafi náðst er ekki þar með sagt að vinnunni sé lokið. Að fullnaðarsigri sé náð.“

AUGLÝSING


Viðhorf meirihluta Íslendinga til hinsegin fólks hefur vissulega tekið miklum breytingum á síðustu árum og áratugum, en þótt stórir áfangar hafi náðst er ekki þar með sagt að vinnunni sé lokið. Að fullnaðarsigri sé náð. Enn eimir eftir af fordómum í þjóðfélaginu. Enn eru fyrir hendi þau viðhorf að það sé bara í fínasta lagi að gera lítið úr hinsegin fólki og níða það niður og engin ástæða sé til að æsa sig yfir því. Enn eru til staðar öfl sem ýta undir andúð á því og reyna að standa í vegi fyrir baráttu þess. Og slíkum öflum hefur vaxið ásmegin. Sjáum bara Miðflokkinn. Hann mælist nú með 13,4 prósenta fylgi og er þar með orðinn þriðji stærsti flokkur landsins.

Í ljósi þess má kannski segja að sjaldan hafi verið eins góð ástæða og einmitt nú til að halda Hinsegin daga hátíðlega. Eitt skýrasta dæmi um árangurinn sem náðst hefur í mannréttindabaráttu á Íslandi. Í raun hátíð allrar þjóðarinnar, ekki síður en baráttufólks fyrir bættum réttindum hinsegin fólks og samherjum þeirra. Já það er full ástæða til að fagna á næstu dögum. Fagna auknu viðsýni og frjálslyndi. Og muna hversu mikilvægt er að standa vörð um slík gildi. Þau eru langt frá því að vera sjálfgefin.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is