„Hef verið dugleg að safna forða á haustin“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Náttúrufræðingurinn Guðrún Bjarnadóttir opnaði Hespuhúsið í bílskúr í Borgarfirði árið 2012 en fljótlega var ekki lengur pláss þar fyrir allar hugmyndirnar sem hún hafði. Auk þess reyndist gestum svolítið erfitt að finna hana svo hún flutti sig um set og rekur nú fyrirtækið í Ölfusinu. Þar litar hún band úr jurtum sem hún tínir í náttúrunni og býður fólk velkomið að koma og skoða jurtalitunina, kaupa band og tylla sér í sófann með prjóna eða lesefni í hönd.

Blaðamaður og ljósmyndari Vikunnar heimsóttu Guðrúnu einn góðviðrisdag í júní og fengu að svipast um í Hespuhúsinu þar sem ríkir góður andi og gaman er að virða fyrir sér það sem er í boði og til sýnis.

Safnar forða á haustin
Guðrún segist gera sér fulla grein fyrir því að hún sé heppin að fá að gera það sem hún geri, það séu mikil forréttindi að hafa atvinnu af áhugamálinu sínu.

„Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að safna jurtum og ganga um í náttúrunni. Ég fer stundum út á morgnana og safna í mínu nágrenni því sem ég ætla að lita úr þann daginn, en það er góð byrjun á deginum bæði fyrir mig og hundinn. Hins vegar hafa málin þróast þannig að ég hef lítinn tíma á sumrin og hef því verið dugleg að safna forða á haustin og nýta um veturinn og sumarið eftir. Ég er svo heppin að hafa haft nemendur mína í bændadeildinni við Landbúnaðarháskólann mér til aðstoðar en þau eru í fjáröflun á haustin og eru hörkuduglegir starfskraftar. Þau safna fyrir mig helstu jurtum sem ég þarf mikið af. Sumt þarf ég að tína sjálf, en það eru tegundir sem þarf að tína mjög varlega og taka alls ekki of mikið af, til dæmis litunarskófirnar og lyngtegundir. Ég sendi því duglegu nemendurna í til dæmis lúpínuna sem má taka nokkuð ruddalega því hún bjargar sér alltaf aftur.“

Hún segist síðan flytja inn erlendar jurtir eða litarefni úr plöntum fyrir þá liti sem ekki fáist hér, eða sé erfitt að fá, til dæmis blátt, rautt og bleikt. „Ég segi að ég liti samkvæmt íslenskri hefð og það er hefð að flytja inn þessa liti. Ef við myndum bara nota íslenska náttúru væri litaflóran okkar dálítið fátækleg en við höfum fáar tegundir miðað við mörg önnur lönd.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Kaupa blað í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus var á fimmtudag kjörin formaður stjórnar Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda,...