• Orðrómur

Heiður horfir upp á systur sína visna upp og fær enga hjálp: „Við erum uppgefin, reið og sorgmædd“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Heiður Ósk Þorgeirsdóttir er bæði reið og sár yfir heilbrigðiskerfinu íslenska sem trekk í trekk hefur brugðist systur sinni. Nú sé svo komið að systirin er horfin í heim veikinda, vanlíðunar og verkja án þess að læknar geri nokkuð til hjálpar að mati Heiðar

Heiður ritaði færslu á Facebook um veikindi systur sinnar, sem glímir við Endómetríósu, legslímuflakk, og vonbrigðin með heilbrigðiskerfið sem hafi gjörsamlega brugðist. Henni liggur mikið á hjarta og kemur færsla hennar hér í heild sinni:

„Sjáið þið þessa konu?

- Auglýsing -

Tæp tvö ár eru á milli myndanna og þessi lífsglaða, hamingjusama og duglega kona sem sést hér á vinstri myndinni er horfin inn í heim veikinda, vanlíðunar og verkja. Grá í framan, lífslaus, með stöðuga verki og áhyggjur af sér og sínum á hún erfitt með vinnu, heimilisstörf og áhugamál. Hún er hætt að keyra því máttleysið er orðið of mikið og hætt að hafa sig til því hún hefur ekki orku til þess. Í gær fékk ég enn eitt símtalið frá henni, þar sem við grétum saman, meðan hún og mágur minn lýstu framkomunni og viðhorfinu sem þau fá frá heilbrigðisstofnuninni í þeirra bæ. Komin í tvær peysur og undir dúnsæng hélt hún varla augunum opnum því líkaminn er hægt og rólega að gefast upp.

Þessi kona er yndislega systir mín, stóra fyrirmyndin og kletturinn minn. Alltaf til staðar fyrir allt og alla, tilbúin til að aðstoða og gleðja. Hún á ekkert meira eftir. Endómetríósan er að ganga að henni dauðri. Og hvað gera læknarnir? Lítið sem ekkert! Hún upplifir sig móðursjúka, stöðugt að biðjast afsökunar á því að erfiða okkur hinum lífið og flakkar á milli þess að sjá engan tilgang með lífinu lengur og því að hún geti bara harkað af sér og hætt þessu væli.

Í janúar átti hún að fara í aðgerð vegna mikilla samgróninga og fleira sem var svo frestað vegna þess að önnur mál voru í forgangi. Þá var gripið á það ráð að senda hana í verkjastillingu fram að aðgerð sem taka átti þrjá mánuði. Gott og blessað. Örlítil reiði greip okkur vegna þessarar frestunar en við horfðum þó bjartsýnum augum á þessa verkjastillingu með von í hjarta um að hún myndi gera gagn og auðvelda henni örlítið lífið. Henni er komið inn í verkjateymi á vegum kvennadeildarinnar til að verkjastilla hana fram að aðgerð. Eitthvað sem átti að auðvelda henni aðgengi að verkjalyfjum og veita henni betra utanumhald. Gekk það eftir? Svo aldeilis ekki. Allan tímann meðan á verkjastillingunni stóð gekk henni alltaf illa að ná á lækninum til að fá lyfin sem áttu að hjálpa henni og verkjastilla hana. Ekki nóg með það, þá fær hún síðan símtal, nokkrum dögum fyrir aðgerðadag núna í apríl, frá lækninum sem stjórnaði verkjateyminu þar sem hann tilkynnir henni að hann ætli að útskrifa hana úr verkjameðferðinni (hans orð) á þeim forsendum að hún hafi ekki borið neinn árangur. Algjörlega orðlaus, slegin og dofin stóð hún eftir í lausu lofti með spurningar eins og: Hvað á ég að gera? Hvert á ég að leita til að halda verkjastillingu áfram? Hvað nú? Hún hefur samband við heimilislækni og kvennadeild til að leita svara en fær lítið um svör því allir eru jafn undrandi og hún. Hún var ekki í verkjameðferð heldur verkjastillingu fram að aðgerð en er svo bara hent út.

- Auglýsing -

Í apríl, þremur mánuðum eftir að aðgerðinni var frestað kom svo loks að því. Eða hvað? Aðgerðinni aftur frestað um mánuð þar sem önnur mál eru í forgangi. Nú eru 12 dagar í áætlaðan aðgerðardag og við horfum á frekari frestun. Ekkert hefur verið haft samband við hana og enginn læknir hringir til baka. Enginn heldur utan hennar mál, boðar hana og mág minn á fund til að leggja allt á borðið fyrir þau eða styðja við bakið á þeim. Það horfir enginn á áhrifin sem sjúkdómurinn er að hafa á hana og fjölskylduna hennar. Á meðan hún bíður eftir aðgerð, versna verkirnir og guð einn veit hvaða áhrif þessi bið er að hafa á líffærin hennar. Henni er sagt að taka lyf við verkjunum en svo þegar kemur að því að nálgast lyfin lendir hún á vegg og fær ræðu um það að hún megi ekki taka svona mikil lyf. Síðast þegar hún var lögð inn þurfti hún sjálf að kaupa lyfið sem hana vantaði að beiðni læknisins. Hversu eðlilegt er það?

Hún hefur farið óteljandi ferðir á sjúkrahúsið gjörsamlega búin á sál og líkama því verkirnir eru orðnir of miklir. En fær hún þá aðstoð sem hún þarf? Nei! Alltaf send heim og sagt að koma bara aftur ef þetta lagast ekki. Hafið þið heyrt þessa setningu? Í gærmorgun fór hún enn eina ferðina á spítalann því nýir og meiri verkir sem hún hefur aldrei upplifað áður herjuðu á hana eins og þeim væri launað fyrir. Orðin grá, köld og hálf meðvitundarlaus horfði mágur minn á hana og hélt í alvörunni að hann væri að fara að missa hana. Á sjúkrahúsinu fékk hún engin svör við þessum nýju verkjum og engin blóðprufa var tekin. Læknirinn sem tók á móti henni sendi hana heim eftir stutt spjall og skildi hana eftir grátandi frammi á gangi án þess að svo mikið sem spyrja hana hvort hún hefði einhvern til að sækja sig.

Í janúar og aftur í apríl var hún sprautuð með þriggja mánaða skammti af lyfi sem átti að bæla niður endómetríósuna. Í ljós kom svo í gær að þetta lyf er notað við fjórða stigs blöðruhálskirtilskrabbameini í körlum en sagði henni það einhver? Nei. Hún fékk að heyra það frá konu sem þurfti að leita hjálpar alla leið til útlanda því ekki var hlustað á hana hér á Íslandi. Aukaverkanirnar af lyfinu eru það miklar að flestar konur sem eru á því verða veikari en þær hafa nokkurn tímann verið. Eftir samtal við þessa konu og manninn hennar í dag sjáum við svo margt að heilbrigðiskerfinu hér á landi þegar kemur að konum með endómetríósu, því þrátt fyrir endalausar heimsóknir á sjúkrahúsið og lýsingar á því hvað er að gerast hjá henni er ekkert gert.

- Auglýsing -

Hvað þarf að gerast til þess að hlustað verði á hana? Hvað þarf að gerast til þess að hún fái viðeigandi aðstoð? Hvað þarf að gerast til þess að hún fái aftur eðlilegt líf og upplifi sig ekki stöðugt sem einhverja byrði á fjölskylduna? Við erum uppgefin, reið og sorgmædd fyrir hennar hönd og sjáum þessa yndislegu systur, móðir, unnustu og frænku visna hægt og rólega upp á meðan heilbrigðiskerfið bregst henni trekk í trekk!“

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Stuðmenn styðja Vilhjálm

Stuðmennirnir Egill Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon eru með stórmerkilega stuðningsyfirlýsingu við sjálfstæðismanninn Vilhjálm Bjarnason í Mogganum...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -