2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Heilsar öllum með bros á vör

Magnea B. Valdimarsdóttir vinnur nú að heimildamynd um Helga Hafnar Gestsson sem hefur verið fastagestur á kaffihúsinu Prikinu síðan 1970. Áætlað er að myndin verði frumsýnd seint næsta haust.

 

„Eitt sinn var ég stödd á Hlemmi með manninum mínum sem er alinn upp í miðbænum og hefur alltaf kannast við Helga. Þá datt mér í hug að spyrja Helga hvort hann væri nokkuð mótfallinn því að ég gerði mynd um hann. Að sjálfsögðu var hann til í það, ljúfmennið sem hann er,“ segir Magnea sem er kvikmyndaleikstjóri, leikkona, leiðsögumaður, leiklistarkennari og mamma.

Hún hefur áður gert heimildamyndir um persónur í miðbænum, eða síðan 2011. „Til dæmis fjallaði ein myndin um mann sem einnig heitir Helgi sem er vanur að ganga um og blessa öll húsin á Hverfisgötu. Myndin heitir Hverfisgata og það er hægt að finna hana á Vimeo. Svo hef ég líka gert myndir um konurnar á kassanum í Bónus á Laugavegi og örmynd um Dóru gullsmið á Frakkastíg. En síðasta heimildarmynd sem ég gerði heitir Kanarí.

Helgi hefur verið fastagestur síðan 1970 en hann flutti til Íslands 18 ára gamall frá Danmörku og þurfti þá að byrja að læra íslensku. Prikið á sér merkilega sögu og hefur verið starfrækt síðan 1951. „Helgi gefur lífinu lit, allan regnbogann. Hann geislar af góðmennsku og kærleika. Það er undravert hvað hann gefur sér mikinn tíma í að heilsa fólki á öllum aldri með annaðhvort knúsi eða handabandi og spjalla við það með bros á vör undantekningalaust. Líkt og einn maður sagði við mig um daginn: „Þegar maður hittir Helga hefur maður ósjálfrátt löngun til að vera góður við alla og sýna öðrum kærleika og mildi.““

„Helgi gefur lífinu lit, allan regnbogann.“

AUGLÝSING


Myndin er nú í tökum og verður í sumar en eitt ár er síðan Magnea hóf vinnslu hennar.

„Miðbær Reykjavíkur hefur breyst mikið á undanförnum árum en þar er samt viss þorpsandi. Ég tel mikilvægt að mynda sögu Reykjavíkur og að við fáum að kynnast persónum sem alla jafna fá ekki mikla athygli. Fólki sem er sannkallað krydd í tilveruna. Það er langt ferli að framleiða mynd upp á eigin spýtur en mér finnst gefandi að geta tekið viðtöl, myndað og klippt sjálf – þannig hef ég algjört listrænt frelsi og næ mikilli nánd við aðalpersónurnar. Svo á ég góða og klára vini sem aðstoða mig við eftirvinnslu myndarinnar. Myndin verður væntanlega tilbúin einhvern tíma seint í haust.“

Hægt er að styrkja myndina á söfnunarsíðunni Karolinafund undir nafninu Helgi á Prikinu.

HELGI Á PRIKINU STIKLA from Magnea on Vimeo.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is