Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Helgi Björns dáður í áratugi og á fjölda sígildra laga: „Ég held ég hafi verið góður pabbi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sól Helga Björnssonar hefur líklega aldrei risið hærra en á Covid tímanum þegar hann efndi til eins stærsta sjónvarpsviðburðar sögunnar á Símanum með hljómsveit sinni. Á hverju laugardagskvöldi flykktist þjóðin að sjónvarpsskjánum til að horfa á Það er komin Helgi með Helga Björns og Reiðmönnum vindanna.

„Ég veit það ekki. Við náttúrlega gerðum þessa sjónvarpsþætti eða -útsendingar sem auðvitað náðu inn í hjarta þjóðarinnar þó ég segi sjálfur frá,“ segir Helgi Björnsson í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni en Það er komin Helgi sló í gegn í Sjónvarpi Símans og var í opinni dagskrá þar sem Helgi og félagar í Reiðmönnum vindanna tóku lagið sem og gestir þeirra. Það má einfaldlega segja að stofutónleikar þeirra hafi slegið í gegn í samkomubanninu.

Merkilegt fyrirbæri.

„Já, og það var náttúrlega alveg ótrúlegt. Fyrir okkur auðvitað var þetta ákveðið ævintýri en eftir á hefur maður líka fundið að þetta hefur verið mikil sáluhjálp hjá fullt af fólki. Þetta var kannski eðlilega ansi stórt þegar við byrjuðum með þessar útsendingar og við eins og allir aðrir í þjóðfélaginu og úti í heimi vissum svo sem ekkert hvað þetta var, við hverju mætti búast og hvað var að fara að gerast yfirleitt. Og þá er það tónlistin sem er alltaf mikil sáluhjálp. Tónlistin er alltaf nálægt okkur hvort sem er á sorgarstundum eða gleðistundum. Þannig að ég sá fyrir mér að við gætum sameinast þar og náð slökun og náð kannski utan um hvert annað með því að syngja saman lög sem allir þekkja. Og þetta tókst svona óskaplega vel.“

Maður hafi bara bjargað lífi þess.

Þú getur ekki hafa séð þetta fyrir.

„Nei, en ég sá það kannski fyrir að þetta væri eitthvað sem væri gott að væri til staðar,“ segir Helgi og bætir við að áhorf hafi verið svipað og áhorf á fréttir RÚV.

- Auglýsing -

Helgi hefur fundið fyrir miklu þakklæti frá fólki vegna útsendinganna. „Fólk kemur til manns úti á götu eða hvar sem er og hefur þörf fyrir að þakka fyrir; maður hafi bara bjargað lífi þess. Maður verður náttúrlega bara feiminn og hrærður og roðnar.“

Helgi Björnsson

„Passið árarnar, strákar.“

- Auglýsing -

Helgi Björnsson er frá Ísafirði.

Varstu villingur?

„Ég var orkumikill.“

Það heitir villingur.

„Við vorum mjög frjálslegir í fasi og uppátækjasamir. Fótboltinn var ríkjandi þegar maður var sex til tíu ára; það var alltaf farið út á völl að spila fótbolta, út á skólavöll Ég hef alltaf hugsað með mér hvað maður hefur verið heppinn að því leytinu til að alast upp úti á landi í ljósi þess hvert leiksvæðið var sem maður fékk að njóta; úti á bæjarbryggju og niðri í fjöru. Maður var svo nálægt atvinnuvegunum; maður var hoppandi um borð í togarana og bátana, maður krækti í þorskinn og rak fé í sláturhúsið og stal löppum til að flá og gera slíður fyrir hnífana. Frændi minn var sjö og ég sex og við fórum niður á dokku sem kallað var, það var norðurfjaran í rauninni, og bönkuðum upp á og fengum lánaðan bát og rerum út. Sex ára og sjö ára.“

Það var bara sjálfsagt.

„Það var bara sjálfsagt. „Passið árarnar, strákar, og skilið þeim svo þarna.“ Hann lét okkur fá árarnar.“

Fórum niður í Gamla bakaríið að kaupa kók með lakkrísröri.

Þetta var mikið frelsi.

„Þetta var rosalegt frelsi. Svo tókum við fötu og fylltum hana í fjörunni af kúskel. Ég man þegar smokkurnn synti upp í fjöru. Við vorum niðri í fjöru að tína smokk í fötu til að fara upp í beitningaskúr til að selja fyrir fimmkall eða tíkall. Og fórum niður í Gamla bakaríið að kaupa kók með lakkrísröri. Þegar maður hugsar til baka; þarna var þessi dýrindis fæða, smokkfiskur, sem er eitt það besta sem ég fæ í dag.“

En það hvarflaði ekki að okkur að borða hann þá.

„Nei, ekki að ræða það. Þetta fór bara í beitu. Það er svo auðvelt að beita þessu.“

 

Barnaskemmtanir

Helgi er spurður hvað hafi orðið til þess að vestfirskur drengur, hálfgerður villingur, hafi farið í tónlistina, leikhúsið og bíómyndirnar í stað þess að fara á sjóinn.

„Ég fékk snemma áhuga á tónlistinni. Ég lá og hlustaði á útvarpið og leitaði að músík og sönglaði mig í svefn er mér sagt.“

Helgi og vinur hans, Hörður, fengu bunka af þýsku Bravo-blöðunum hjá bróður Harðar og klipptu út myndir af Bítlunum. „Ég veggfóðraði allt herbergið mitt. Áhuginn var svo mikill.“

Helgi segist hafa verið svo heppinn að Margrét Óskarsdóttir, sem var mikill forkólfur í Litla leikklúbbnum á Ísafirði, hafi kennt sér í barnaskólanum. „Hún var svo mikil áhugamanneskja um leiklist. Það var frjáls stund einu sinni eða tvisvar í viku á stundaskránni og þá vorum við að leika; spinna og búa til litla þætti. Ég hafði mjög gaman af þessu og var síðan fenginn í barnaskemmtanir sumardaginn fyrsta. Þá voru einhverjir krakkar að gera eitthvað og ég var dreginn inn í það. Ég fór síðan 13 eða 14 ára að leika með Litla leikhópnum og lék aðeins með þeim sem unglingur.“

Þannig að það kom ekkert annað til greina en þessi leið.

„Nei.“

Helgi segir að þegar hann var 10-12 ára hafi hann sagt að hann ætlaði annaðhvort að verða poppstjarna eða atvinnumaður í knattspyrnu.

Hann varð ekki atvinnumaður í knattspyrnu. Hann segir að þegar hann hafi farið að fá áhuga á stelpum þá hafi gítarinn verið meira aðdráttarafl heldur en fótboltaskórnir.

Helgi Björnsson

Í banni

Hann var í skólahljómsveit í gegnfræðaskólanum.

„Ég og Hörður Ingólfsson, vinur minn, vorum mikið saman og sömdum meira að segja lög á þessum tíma, 14-15 ára. Við fluttum frumsamin lög á gagnfræðaskólaskemmtunum sem var ekki algengt á þeim tíma.“

Hann spilaði á skólaböllum og svo fór hann að koma fram í hléi á tónleikum Danshljómsveitar Vestfjarða.

Þá skiptu þeir allir um hljóðfæri og fengu mig til að syngja.

Var það kikk að koma fram í hléi?

„Já, að sjálfsögðu var það ákveðið kikk. Þá var þetta atriði í hléi; þá skiptu þeir allir um hljóðfæri og fengu mig til að syngja. Þetta átti að vera gestahljómsveit; allir fóru í einhverja búninga og þetta átti að vera pönkhljómsveit sem hét Skítkast. Í félagsheimilinu í Hnífsdal. Það var gaman að þessu öllu saman.“

Svo fór Helgi í Leiklistarskóla Íslands og þá mátti hann ekki koma fram; ekki einu sinni í sumarfríum.

„Ég man að ég fékk boð um að koma vestur og syngja með hljómsveit yfir sumarið en það var ekki í boði. Ég var í banni.“

Hver voru rökin fyrir því?

„Ég held að upphafið að þessu hafi verið það að leiklistarskólanemar voru svolítið þjóðnýttir í Þjóðleikhúsinu. Þeir náðu í þá; fengu þá til að vinna og tóku þá út á fyrsta eða öðru ári. Það kom smáóballans í skólanum; það voru strax einhverjir orðnar stjörnur.“

Helgi málaði eitt sumarið og annað sumar var hann í Kaupmannahöfn. „Ég málaði svolítið. Pabbi var málari áður en hann fór að vinna sem íþróttafulltrúi hjá bænum þannig að maður var liðtækur á penslinun.“

Þetta var í blóðinu; málningin.

„Já.“

 

Rosalega skemmtilegt

Hljómsveitin Grafík var búin að gefa út tvær plötur áður en Helgi gekk til liðs við hana.

„Ég útskrifaðist frá leiklistarskólanum vorið 1983 og Grafík var með söngvara sem var einhvern veginn ekki að ganga upp hjá þeim. Þeir voru búnir að bóka sig á böll þarna fyrir vestan; allan Vestfjarðarkjálkann. Það var Patró, Bíldudalur, Flateyri og svo framvegis – allar helgar föstudaga og laugardaga sem sýnir hvernig þetta var í þann tíð. Þú gast verið á Vestfjörðum og spilað allt sumarið. Rabbi hringdi í mig og sagði að þá vantaði söngvara fyrir næstu helgi og spurði hvort ég væri klár. Ég hugsaði mig um en kíldi svo á þetta. Ég var búinn að ráða mig í kvikmynd; fyrsta kvikmyndahlutverkið sem var í Atómstöðinni sem var tekin upp allt sumarið. Þetta átti að verða mikið stórvirki á þeim tíma og ætlað til útflutnings. Það var stefnt á heimsmarkað. Þess vegna var myndin í rauninni tekin upp bæði á íslensku og ensku. Ég lék í kvikmyndinni í miðri viku og flaug svo vestur um helgar. Og svo var keyrt á Patró, Flateyri eða hvert sem var.“

Þetta var rosalega skemmtilegt, maður.

Var þetta ekkret þreytandi líf?

„Þetta var rosalega skemmtilegt, maður.“

Helgi var 25 ára.

„Endalaus orka.“

Hljómsveitin samdi ný lög og þar á meðal Mér finnst rigningin góð.

„Það er merkilegt að „Rigningin“ er eitt af fáum lögum að ég held sem öðlaðist vinsældir áður en það var nokkurn tímann spilað í útvarpi af því að við byrjuðum að syngja þetta á böllum. Og svo fór liðið út eftir böll og söng þetta.“

Svo kom plata út og hún sló í gegn en á henni eru meðal annars lögin Þúsund sinnum segðu já, 16  og einmitt Mér finnst rigningin góð.

Helgi hætti í Grafík árið 1986.

„Stóri faktorinn var að ég var kominn inn í leikhúsið að leika í sýningu sem hét Lands míns föður og hún varð svo gríðarlega vinsæl. Við vorum að leika hana sex kvöld í viku; allan veturinn 1985/1986. Það var ekkert kvöld laust hjá mér. Þeir í Grafík vildu eðlilega gera eitthvað meira þannig að það flosnaði aðeins upp. Svo átti sýningin að fara í gang næsta vetur á eftir þannig að við tókum þessa ákvörðun nokkuð sameiginlega að þetta væri orðið gott og við tókum farvel-túr fyrir vestan. Tókum nokkur gigg.“

Helgi Björnsson
Helgi Björns í stúdíói Mannlífs ásamt spyrjanda. Mynd: Katrín Guðjónsdóttir.

SSSól

Kvöld eftir kvöld í Lands míns föður.

„Við náðum vel saman, ég og Pétur Grétarsson trommari, sem var að tromma í þeirri sýningu, og ákváðum við að gera eitthvað saman. Í framhaldinu hafði ég samband við Jakob sem hafði verið með mér í Grafík. Við hættum saman í Grafík. Hann tók Eyjólf Jóhannsson sem var með honum í Tappanum ásamt Björk og Eyþóri. Við byrjuðum að æfa og vinna saman og það var ekki mikill tími vegna þess að þeir voru í dagvinnu og við vorum alltaf á kvöldin og eini tíminn sem við fundum til að byrja með, sem sýnir ákveðnina í að láta eitthvað verða af þessu, var messutími; á sunnudögum klukkan 11.“

Þetta var upphafið að Síðan skein sól sem síðar varð SSSól og heldur hljómsveitin upp á 35 ára afmælið í ár og verða afmælistónleikar í Háskólabíói á næstunni.

35 ár.

Rolling Stones eru 60 ára.

„Já, og Stuðmenn 50 ára.“

Fjórðu tónleikar hljómsveitarinnar voru í Laugardalshöll.

Þið þurftuð ekki langan tíma til að slá í gegn.

„Nei, það er alveg rétt. Það var merkilegt að fyrsta árið sem við störfuðum þá byrjuðum við á að spila á tónleikum í Hlaðvarpanum í Grófinni. Síðan héldum við tónleika í Tónabæ, svo voru einir tónleikar á Hótel Borg og fjórðu tónleikar hljómsveitarinnar voru í Laugardalshöll.“

Ég segi það. Þetta er bara alvöru.

„Það var mjög fyndið en svona gekk þetta fyrir sig.

Svo kom ekki plata fyrr en árið eftir, 1988, og þá gáfum við fyrst út 12 tommu plötu þar sem var til dæmis lagið Bannað sem sló strax í gegn. Síðan um haustið kom út fyrsta stóra platan.“ Á henni er til dæmis lagið Geta pabbar ekki grátið?, Svo marga daga og fleiri lög sem náðu strax mikilli hylli.

Þið eigið bara marga hittara þannig að fólk á von á góðu í Háskólabíói.

„Já.“

Og þeir voru margir tónleikarnir sem voru haldnir eftir útgáfu plötunnar.

„Ég gerði fljótt samning við Íþróttta- og tómstundaráð Reykavíkur; ég seldi þeim þá hugmynd að ég myndi spila í öllum félagsmiðstöðvum og fengi eingreiðslu fyrir það. Mig minnir að það hafi verið 250 kall á þeim tíma. Þetta var samþykkt og ég fór beint með þetta upp í hljóðfærabúð og keypti lítið kerfi þannig að við mættum með kerfi og stillum upp og svo spiluðum við í öllum félagsmiðstöðvum borgarinnar. Og það var svo skemmtilegt þar. Ég virkaði alltaf krakkana þegar við vorum búnir að spila nokkur lög og spurði hvort einhver kynni að spila á trommur. Það var alltaf einn sem rétti upp hönd, eða tveir, og hann var tekinn upp og spilaði eitthvað. Wild Thing eða eitthvað sem hann kunni. Svo spurði ég hvort einhver spilaði á bassa og svo endaði þetta þannig að ég var kominn með nýtt band fyrir aftan mig og við sungum eitthvað einfalt lag sem allir kunnu.

Þá vorum við að kynna þessar hljómsveitir fyrir landsbyggðinni.

Svo fannst mér sérstaklega gaman að því kannski 10 árum seinn þegar einhverjir hljómsveitargaurar voru að koma til mín og sögðu að þeir hefðu spilað með okkur í félagsmiðstöð. Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt. Þetta hefur alltaf verið partur af minni sýn; eins og þegar við vorum orðnir vinsælir og vorum að spila sem mest úti á landi og vorum með full hús  – Ýdalir, Miðgarður, Njálsbúð og hér og þar og þúsund manns – þá tók ég alltaf með mér hljómsveitir til þess að spila bæði á undan og líka í pásu; og þá vorum við að kynna þessar hljómsveitir fyrir landsbyggðinni. Það voru til dæmis hljómsveitir úr bænum sem höfðu aldrei komið út á land. Þetta var stórt stökk fyrir þær og þær fengu þarna mega kynningu. Þetta voru hljómsveitir eins og Botnleðja, Kolrassa krókríðandi, Quarashi og 200.000 naglbítar. Þetta voru hljómsveitir sem urðu síðar þekktar.“

Helgi er spurður um tilurðina að nafni hljómsveitarinnar, Síðan skein sól, og segir að það megi segja að það hafi verið svar við þekktasta laginu með honum og Grafík: Mér finnst rigningin góð.

Það svínvirkar og síðan breyttist þetta í skammstöfun; SSSól.

„Það var þegar við ákváðum að fara erlendis og reyna fyrir okkur úti. Þá breyttist þetta í SSSól.“

 

Geta pabbar ekki grátið?

Helgi segir að hugmyndin að textanum í laginu Geta pabbar ekki grátið? tengist syni hans. „Hann sagði: „Pabbi, geta pabbar ekki grátið?“ Og mér fannst þetta náttúrlega alveg frábær spurning. Þannig að ég sneri þessu fljótt yfir í texta. Ég hef ekki nákvæmar skýringar á hvað er að gerast í hausnum á manni þegar manni dettur hitt og þetta í hug en ég hef alltaf verið frjór og mér finnst gaman að leika mér að svona hlutum; og kannski líka að koma á óvart. Og auðvitað í dægurlagatextum skiptir máli að grípa athygli og hafa grípandi frasa.“

Helgi og eiginkona hans, Vilborg Halldórsdóttir, eiga nokkur börn og er Helgi spurður hvernig pabbi hann hafi verið.

Maður var eins og sjómaður.

„Ég held ég hafi verið góður pabbi en ég sé það eftir á að ég var allt of mikið í burtu. Þegar maður hugsar til baka og vill breyta einhverju þá hefði maður viljað vera miklu meira til staðar. Maður var eins og sjómaður; maður var ansi mikið „á sjónum“ og sérstaklega á tímabili. Þessi ár þegar við vorum að taka þennan ballrúnt þá voru þetta allar helgar, föstudagur og laugardagur, og maður var kannski að koma heim um miðjan dag á sunnudegi. Þannig að margar fjölskyldustundir eru farnar og það er kannski sárast þegar maður hugsar til baka. En þegar ég var á staðnum þá held ég að ég hafi verið nokkuð góður.“

 

Gera meira

Helgi Björnsson hefur komið víðar við.

Þú ert „business-maður“ líka; þú ert í alls konar bixi ef maður má orða það sem svo.

„Það kom af því að ég þurfti fljótlega að fara að reka þetta batterí sem hljómsveitin var. Við vorum með umboðsmann þegar við vorum að byrja en það var bara tómt vesen og endaði yfirleitt í einhverju rugli. Þannig að ég tók þetta fljótlega yfir sjálfur og síðan varð þetta meiri og meiri rekstur og eftir því sem við urðum vinsælli, stærri og spiluðum meira þá fór þetta að verða útgerð.“

Þetta er eins og skip.

„Já; leigja rútu, hljóðkerfi og mannskap og vera að búa til auglýsingar og hitt og þetta. Þannig að þetta er bara orðið fyrirtæki og ég var náttúrlega að reka þarna fyrirtæki sem velti milljónum. Þannig byrjaði þetta. Þá fór maður að hugsa um þessa hluti. Síðan þegar ég var orðinn pínulítið þreyttur á þessum hring og þessari spilamennsku í bili af því að við vorum búnir að keyra svo helvíti stíft þá ákvað ég að taka frí og þá bauðst mér að reka lítinn matsölustað, pítsustað, niðri í Austurstræti sem hét Pisa. Hann var við hliðina á stað sem hét þá Berlin þar sem gamli Karnabær var. Ítalski staðurinn var í portinu. Þá kom í ljós að gestir skemmtistaðarins Berlin gátu gengið í gegnum eldhúsið og niður á annan skemmtistað niðri í kjallara sem hét Rosenberg. Það var sami leigjandi með báða staðina og ég sagðist ætla að taka þá báða og gera alvöru stað úr þessu. Og þá bjó ég til Astro. Skemmtistaðinn Astro.“

Það gekk vel.

„Það gekk rosalega vel. Þetta gjörsamlega sló í gegn. Í dag er talað um Astro-kynslóðina.“

Vilborg hafði verið í heimspekinámi við Háskóla Íslands og segir Helgi að hún hafi viljað fara í skiptinám til Ítalíu. Helgi seldi hlut sinn í Astro og fjölskyldan flutti til Florens. „Það var kærkomið frí og þar náðum við miklum kærleiks- og yndistíma saman, fjölskyldan. Við þurftum að stóla á hvert annað.“

Þau fluttu svo heim 1998 og nokkrum árum síðar keypti Helgi leikhús í Berlín og flutti þangað 2006. „Ég var kominn með íbúð þar en var alltaf með annan fótinn hér; við vorum búin að vera með stelpuna okkar yngstu á Ítalíu og það var svolítið mikið að rífa hana aftur upp úr skólanum til að fara með hana til Þýskalands allt í einu. Við vorum svona að fljúgast á.“

Helgi vann á þessu tímabili hjá Skjá einum sem markaðsstjóri. Þá vissi hann ekki að hann ætti eftir að halda stórum hluta landsmanna við skjáinn mörgum árum síðar þegar heimsfaraldur reið yfir og samkomubann gilti.

Þetta er í sjálfu sér ekki kalkúlerað.

Hvernig nærðu að endurnýja þig svona aftur og aftur? Þú hefur horfið í smátíma en kemur alltaf aftur.

„Þetta er í sjálfu sér ekki kalkúlerað, skipulagt eða úhugsað; þetta gerist meira í flæðinu og ég hef haft það að leiðarljósi að nota innsæið svolítið mikið og leyft hlutunum að koma til mín og það hefur reynst mér mjög vel í gegnum tíðina. Svo held ég að það hljóti að vera ákveðin forvitni og ástríða sem gera það að verkum að maður hefur löngun til að gera betur. Gera meira.“

Podcastið er að finna í heild sinni hér. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -