Miðvikudagur 24. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Albert hvílir yfir þessu máli eins og risastór skuggi“ – Saga Helga Magnússonar og Hafskips:

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helgi Magnússon, athafnamaður og stjórnarformaður Torgs, var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald árið 1986 þegar hann var sjálfstætt starfandi endurskoðandi, meðal annars fyrir Hafskip. Hann er í dag einn farsælasti fjárfestir landsins. Helgi rifjar upp þann feril og Hafskipsmálið í viðtali við Reyni Traustason.

„Menn töldu að Hafskipsmálið væri að taka einhverja nýja stefnu og það væri ástæða til að grípa til þessara aðgerða,“ segir Helgi Magnússon, athafnamaður og stjórnarformaður Torgs, sem hafði starfað sem sjálfstætt starfandi endurskoðandi meðal annars fyrir Hafskip þegar hann var handtekinn ásamt fleirum árið 1986 þegar grunur kom upp um misferli. Hann var settur í gæsluvarðhald þar sem hann sat í um þrjár vikur.

„Þetta var mjög óvænt lífsreynsla og ég hugsaði mikið og velti fyrir mér hvort ég væri að misskilja þetta allt saman einhvern veginn. Ég gerði mér fljótlega ljóst að þarna var eitthvað skrýtið á ferðinni en samviskan var ekkert að naga mig þannig að ég hugsaði með mér að ég yrði bara að komast í gegnum þetta.“

Helgi segir að það liggi algjörlega fyrir og varla deilt um það að gæsluvarðhaldsúrræðið hafi verið misnotað þarna á mjög freklegan hátt. „Það var engin þörf á að gera þetta. Ef fólk er hneppt í gæsluvarðhald þá er það annaðhvort vegna þess að menn eru með ofbeldi og hættulegir umhverfinu eða þá að menn hafi staðið að einhverjum blekkingum og fölsunum og það þarf þá að koma í veg fyrir að þeir eyði gögnum eða geti borið saman bækur sínar eða frásagnir sínar. Það var hálft ár frá því að félagið varð gjaldþrota og ef menn hefðu þurft að bera saman bækur sínar eða eyða einhverjum gögnum þá hefðu þeir haft hálft ár til þess. Þannig að það var algjörlega fáránleg hugmynd að beita gæsluvarðhaldsúrræði og það var bara misnotað þarna. Við sýndum fram á þetta allt saman. Þetta var mjög merkileg lífsreynsla og eitthvað sem maður hefði alveg viljað vera laus við. En það breytir samt ekki því að öll erfið lífsreynsla nýtist svo fólki síðar á ævinni ef það nær að vinna úr því.“

Það var hálft ár frá því að félagið varð gjaldþrota og ef menn hefðu þurft að bera saman bækur sínar eða eyða einhverjum gögnum þá hefðu þeir haft hálft ár til þess

Sveitarstjórnarkosningarnar voru fram undan vorið 1986 og óskaði Helgi eftir því að fá að kjósa en því var hafnað. „Mér og mínum lögmanni og réttargæslumanni, Ólafi Gústafssyni hæstarréttarlögmanni, fannst þetta vera ósanngjarnt og ég óskaði eftir því að við létum á þetta reyna. Hann fór með málið áfram og fór það fyrir undirrétt og þar var því hafnað. Við ákváðum að skjóta þessu til Hæstaréttar og féllst Hæstiréttur á að ég fengi að kjósa. Þetta var smásjálfstæðisbarátta en þetta breytti því ekki að ég fékk að kjósa utankjörfundar eins og það heitir; það var strákur frá lögreglunni sem fór með mér og fór ég svo með atkvæðið í Valhöll,“ segir Helgi sem var áður Sjálfstæðismaður. „Þetta var prinsippmál og mér skilst að þetta sé notað í kennsluefni í lögfræði einhvers staðar.“

Helgi Magnússon.
Mynd: si.is

Mál Helga og hóps Hafskipsmanna fór svo fyrir undirrétt. „Þar fékk þetta mjög faglega meðferð. Sverrir Einarsson sakadómari var forseti réttarins og hann gætti þess að öll sjónarmið kæmust að, bæði ákæruvaldsins og okkar lögmanna. Þeir fluttu þetta mál okkar mjög vel og voru vel undirbúnir. Þeir voru mjög hneykslaðir. Þetta voru mjög öflugir lögmenn eins og sá sem flutti þetta fyrir mig, Jón Steinar Gunnlaugsson. Jón Magnússon var þarna líka og svo tveir gamalreyndir, Guðmundur Ingvi Sigurðsson og Jónas Aðalsteinsson. Þessir voru mest fyrir okkur Hafskipsmennina.

- Auglýsing -

Það var mikill þungi í málflutningi þeirra og endaði með því að þessu var meira og minna öllu hent út af borðinu og ég fékk 100.000 króna sekt. Það var niðurstaðan eftir að það höfðu verið birt um 400 ákæruatriði og þá var dæmt fyrir fimm sem voru einhver mistakamál. Jónatan Þórmundsson prófessor sem var saksóknari í málinu sagði af sér; viðurkenndi í raun ósigur sinn. Þeir skipuðu annan sem fór með málið í Hæstarétt og þar var þetta klárað. En með öðrum orðum: Maðr þurfti að eyða fimm árum í þetta en ég gerði margt annað á meðan en engu að síður var þetta mjög sérstök lífsreynsla og eitthvað sem maður hefði alveg verið til í að vera laus við.“

Það var mikill þungi í málflutningi þeirra og endaði með því að þessu var meira og minna öllu hent út af borðinu og ég fékk 100.000 króna sekt

Helgi nýtti tímann í gæsluvarðhaldinu meðal annars með því að byrja á að skrifa bók um málið og kom hún út síðar sama ár. „Ég eiginlega skrifaði mig frá málinu og svo hélt ég bara áfram með lífið. Ég seldi endurskoðunarskrifstofuna um haustið en ég gat ekki hugsað mér að starfa í þessum bransa áfram. Þetta hafði þau áhrif að mér fannst ekki lengur vera áhugavert að starfa við þetta svo sem eftir fjölmiðlaumfjallanir og annað. Ég sneri mér að öðru og það var mjög gott. Ég met það þannig að það hafi gert mér persónulega mjög gott að skrifa þessa bók og ég setti þetta mál aftur fyrir mig.“

Þetta hafði þau áhrif að mér fannst ekki lengur vera áhugavert að starfa við þetta svo sem eftir fjölmiðlaumfjallanir og annað.

Helgi rifjar upp Hafskipsmálið sjálft en Hafskip lenti í sínum vandræðum 1984-1985 og úr því varð meint sakamál.

- Auglýsing -

„Það sem gerðist þarna var að það voru margháttuð öfl að verki og þetta var mjög flókið að mörgu leyti,“ segir Helgi og bætir svo við: „Þetta var mikið mál og kom upp rétt fyrir kosningar 1986. Menn geta alveg leyft sér að setja það í visst samhengi.

Þetta var svo mikið átakamál og fyrirtækið var litli aðilinn en stækkaði mjög hratt og var orðinn talsvert mikil ógn við Eimskipafélagið. Það voru til fleiri skipafélög; Sambandið var með skipadeild og það var ýmislegt sem gekk á. Ég er nokkuð sannfærður um að meðferðin á Hafskip var ekkert eðlileg og félagið lenti í erfiðleikum. Það þarf ekki að gera lítið úr því. Það fékk enga hjálp til að komast í gegnum erfiðleikana eins og mörg fyrirtæki sem lenda í mótbyr fá aðstoð og þeim er fleytt yfir hjallann. Það hefði alveg átt við í þessu tilviki en það sáu sér ýmsir leik á borði og það er náttúrlega engin launung á því, og það hefur komið fram í öllum þessum bókum og öllu sem hefur verið sagt og skrifað um þetta, að Eimskipafélagið reri undir og það var þeirra hagur að losna við þennan keppinaut. Það er engin spurning. Það sem er stóra málið í þessu öllu er Albert Guðmundsson. Hann hvílir yfir þessu máli eins og risastór skuggi. Albert var náttúrlega risastór stjórnmálamaður. Við megum ekki gleyma því að hans ferill var mjög sérstakur og merkilegur. Hann var bæði borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og svo þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og svo ráðherra. Það sem meira er; hann lét ekki vel að stjórn og fór sínar eigin leiðir og var mjög sterkur persónuleiki. Ég þekkti hann persónulega sem og foreldrar mínir.“

Helgi talar um að Albert hafi átt marga andstæðinga og keppinauta. „Ég held að það hafi spilað mjög inn í þetta mál viljinn til þess að koma höggi á Albert. Hann gaf þennan höggstað á sér að vera bæði formaður bankaráðs Útvegsbankans og vera síðan stjórnarformaður í Hafskip. Þetta veikir stöðu manna. Það er útilokað að þetta gæti gerst í dag en á þessum tíma sátu framámenn flokkanna í bankaráðum eins og ekkert væri. Forsvarsmenn Hafskips og ég, sem var utanaðkomandi ráðgjafi úti í bæ, endurskoðandi, vorum peð í þessu tafli og fórum illa út úr því að lenda í þessu. Það breytti samt ekki því að við tókum til varna og börðumst og náðum að sýna fram á það á endanum að við höfðum ekkert brotið af okkur og ekkert gert. Maður eyddi orku í þetta í mörg ár.“

Ég held að það hafi spilað mjög inn í þetta mál viljinn til þess að koma höggi á Albert.

Harpa Sjöfn og Bláa lónið

Þegar Helgi hafði selt endurskoðunarskrifstofuna sína hóf hann störf sem forstjóri ferðaskrifstofunnar Útsýn og var þar í tvö ár. Hann gerðist síðan ritstjóri Frjálsrar verslunar og gegndi því starfi í fjögur ár. „Það var mjög merkilegur og skemmtilegur tími. Maður hefur kannski verið með dulda fjölmiðlabakteríu,“ segir Helgi sem hafði á námsárunum verið ritstjóri Verslunarskólablaðsins. „Þetta er eitthvað sem leynist í fólki.“

Fjölskylda Helga átti meirihlutann í málningarverksmiðjunni Hörpu og varð hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem faðir hans hafði stýrt í áratugi. Því starfi gegndi Helgi í 12 ár. „Það var mjög góður tími. Áhugaverður tími. Ég keypti þá meira í fyrirtækinu og við áttum stóran hlut í þessu, feðgarnir. Það gerðist ýmislegt á þessum tíma og það merkilegasta var kannski það að við sameinuðumst Sjöfn á Akureyri, keppinauti okkar í málningarbransanum. Þá var hann fallinn frá og ég bar einn ábyrgð á því fyrir okkar hönd. Svo keypti okkar fyrirtæki norðanmennina út og við áttum þá Hörpu Sjöfn ein. Danir fengu mikinn áhuga á fyrirtækinu og gerðu okkur tilboð og við seldum Flügger fyrirtækið og þeir eiga það í dag og reka það með glæsibrag.

Það gerðist ýmislegt á þessum tíma og það merkilegasta var kannski það að við sameinuðumst Sjöfn á Akureyri, keppinauti okkar í málningarbransanum

Árið 2004 þegar þetta var búið sneri ég mér að því að sinna fjárfestingum og sitja í stjórnum. Ég varð meðal annars fljótlega formaður Samtaka iðnaðarins. Um þetta leyti bauð Grímur Sæmundsen, vinur minn til 40 ára, mér að koma að Bláa lóninu. Hann vantaði fleiri með sér til að fjárfesta og mér bauðst strax að fara í stjórnina og var í 17 ár í stjórn og þar af formaður í 10 ár. Allt þetta fyrirtæki er stórkostlegt ævintýri og eitt af mörgum merkilegum fyrirtækjum á Íslandi. Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í því. En allt hefur sinn tíma og þegar mér bauðst að selja á mjög góðu verði þá var það tilboð sem maður gat ekki hafnað. Og þá seldi ég síðastliðið haust og fór þá út úr því en það var 17 ára ferill.“

En allt hefur sinn tíma og þegar mér bauðst að selja á mjög góðu verði þá var það tilboð sem maður gat ekki hafnað

 

Lýðræðisvaktin

Helgi keypti hlut í Torg árið 2019 og er stjórnarformaður. „Þá keyptum við fyrst helminginn á móti hjónunum Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri og svo keyptum við hinn helminginn fyrir rúmum tveimur árum og höfum rekið þetta síðan. Svo keyptum við DV og Hringbraut kom inn í þetta. Það er búið að sameina þessi þrjú fyrirtæki. Þetta er spennandi og áhugavert en veiruvandinn hefur truflað þennan rekstur eins og kannski víða.

Ég hef fulla trú á þessum rekstri við eðlilegar aðstæður og við metum það þannig að annaðhvort erum við að komast frá þessari veiru eða læra að lifa með henni og þá á þessi rekstur að geta gengið ágætlega.“

Helgi segir að sér finnist fjölmiðlarekstur vera áhugaverður og mikilvægur. „Hluthafarnir standa með rekstrinum og við bara fleytum þessu öllu í gegnum þennan skafl. Svo teljum við og trúum að það séu góðir tímar fram undan og að reksturinn geti orðið eðlilegur. En hann verður kannski ekkert eðlilegur á meðan við höfum RÚV og menn verða að reikna með að lifa með því.

Hluthafarnir standa með rekstrinum og við bara fleytum þessu öllu í gegnum þennan skafl

Ég minni á það sem Jón Ásgeir sagði við mig og aðra og ég held hann hafi líka sagt það í viðtölum en það var að þegar þau voru búin að reka Fréttablaðið í 17 ár, hjónin, eða vera lykilaðilar í því þá sagði hann þegar hann var að selja okkur þetta að þau væru búin að standa þessa lýðræðisvakt svona lengi og að þau töldu sig vera búin að gera sitt. Ég tek alveg undir það. Það að standa í svona rekstri er ákveðin lýðræðisvakt. Þetta er til að tryggja að stórir fjölmiðlar séu ekki bara annars vegar á vegum sjávarútvegsins, eins og Morgunblaðið, eða á vegum ríkisins eins og RÚV. Það er þá ágætt að það komi fleiri aðilar að rekstri stórra fjölmiðla og þá fáum við kansnki meiri breidd í umræðuna og þetta verður ekki hættulega einsleitt eins og gæti orðið.“

Hlaðvarpsviðtalið við Helga er að finna hér.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -