Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Hélt að kommentakerfin gengju af göflunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristjana Arnarsdóttir er nýr spyrill Gettu betur, fjórða konan sem gegnir því hlutverki á löngum ferli keppninnar. Kristjana hefur getið sér gott orð sem íþróttafréttamaður á RÚV, sem hún segir hafa verið æskudrauminn, henni hafi bara ekki dottið í hug fyrr en fyrir nokkrum árum að kona gæti fengið vinnu við að segja fréttir af íþróttum. Hún hafi þó ekki orðið vör við gagnrýni á störf sín vegna þess að hún sé kona, þvert á móti hafi fólk keppst við að hrósa henni fyrir að vinna vinnuna sína vel.

„Þetta leggst bara rosalega vel í mig,“ segir Kristjana hress, þegar hún er spurð að því hvernig þetta nýja hlutverk leggist í hana. „Ég hef verið að æfa mig á fullu og útvarpskeppnin fór fram í janúar, þannig að ég er aðeins komin með tilfinninguna fyrir þessu og hlakka mikið til að takast á við þetta.“

Kristjönu var boðin staðan eftir að myndband af Birni Braga Arnarssyni, fyrrum spyrli keppninnar, þar sem hann sást sýna sautján ára stúlku ósæmilega hegðun fór í umferð og hann sagði sig í framhaldi af því frá starfinu. Var Kristjana fyrsta val til að taka við af honum?

„Já, einhvern tíma í nóvember var ég boðuð á fund og spurð hvort ég hefði áhuga á að taka þetta að mér,“ segir Kristjana. „Það kom mér mjög á óvart, ég var ekki að hugsa um neitt annað en íþróttirnar og hefði líklega ekki borið mig eftir þessu sjálf, þannig að ég þurfti aðeins að melta þetta. Svo fór ég að skoða þennan hóp sem kemur að Gettu betur og leist rosalega vel á þau öll þannig að ég ákvað að slá til. Það var hægt að búa til smávegis svigrúm fyrir mig á íþróttadeildinni á móti svo þetta kemur ekkert niður á vinnu minni þar, ég held bara mínu striki þar áfram. Þetta verður svolítil keyrsla en ég er nú vön því og kvíði því ekkert.“

Þegar hún er spurð hvaða skoðun hún hafi á máli Björns Braga færist Kristjana undan því að svara.

„Ég held að ég sé ekki rétta manneskjan til að tjá mig um það,“ segir hún ákveðin. „Auðvitað skiptir máli að þeir sem eru í svona þáttum með ungu fólki séu góðar fyrirmyndir og ég vona að ég geti verið það, þótt það sé alltaf erfitt að leggja mat á sjálfan sig í þeim efnum.“

Alin upp í íþróttafréttunum

- Auglýsing -

Kristjana er dóttir Arnars Björnssonar, íþróttafréttamanns á Stöð 2, en segist aldrei hafa notað þau sambönd til að komast að sem íþróttafréttamaður, þvert á móti hafi það frekar verið notað gegn henni.

Kristjana Arnarsdóttir hefur getið sér gott orð sem íþróttafréttamaður á RÚV og
er nýr spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur. Kristjana byrjaði feril sinn í fjölmiðlum árið 2010 sem almennur blaðamaður á Fréttablaðinu þar sem hún var á innblaðinu. Mynd / Hallur Karlsson

„Já,“ segir hún hugsi. „En svo ég byrji nú alveg á byrjuninni þá er ég náttúrlega alin upp í þessu umhverfi, það snerist allt um íþróttir. Við pabbi horfðum til dæmis alltaf saman á enska boltann alveg frá því að ég var svona fimm ára. Svo fór ég sjálf að æfa fótbolta og hef bara verið á kafi í íþróttum síðan ég man eftir mér. Það var alltaf horft á íþróttafréttir heima og við fylgdumst vel með öllu sem var að gerast í þeim heimi.

Ég viðurkenni að ég hafði alltaf lúmskan draum um það að reyna að komast inn í íþróttafréttamennskuna.

Barnæska mín snerist öll um þetta og ég þekkti ekkert annað. Ég viðurkenni að ég hafði alltaf lúmskan draum um það að reyna að komast inn í íþróttafréttamennskuna en á sama tíma þá er ekki hægt að segja að þessi stétt hafi verið opin fyrir konum, það var engin kvenfyrirmynd í þessu starfi þegar ég var krakki, þannig að ég setti bara samasemmerki þarna á milli og ákvað að ég gæti aldrei gert þetta því það væru engar konur í þessu. Hvernig ætti ég að geta komið inn í þetta fag? Það var einfaldlega ekki raunhæfur möguleiki.“

- Auglýsing -

Kristjana byrjaði feril sinn í fjölmiðlum árið 2010 sem almennur blaðamaður á Fréttablaðinu þar sem hún var á innblaðinu, eða eins og hún segir í „bleiku fréttunum.“

„Ég leit svo á, á þeim tíma, að þetta væri sennilega það lengsta sem ég kæmist í blaðamennskunni, engar íþróttafréttir heldur var ég að skrifa um hluti sem ég hafði í rauninni engan áhuga á. Ég viðurkenni fúslega að ég fylgist ekkert með Hollywood-slúðri eða veit nokkuð um Kardashian-klanið og ég hlæ stundum að því enn þann dag í dag að ég hafi verið að vinna við þetta svona lengi. Ég var í þessu alveg til 2015, með smávegis hléum reyndar.

Þá sannfærðist ég meira og meira um að það þýddi ekkert fyrir mig að hugsa um íþróttafréttirnar, ég væri bara einhver kona sem skipti engu máli.

Til þess að setja í samhengi hversu fjarlægur draumur mér fannst það vera að ég gæti farið að vinna í svona hreinræktaðri karlastétt eins og íþróttafréttamennska var þá, get ég nefnt sem dæmi að ég var í fótbolta á þessum tíma og bað einhvern tíma um að fá að fara korteri fyrr af því ég þurfti að spila leik á Akranesi um kvöldið, þá fékk ég þau skilaboð frá yfirmanninum að ég væri nú ekki í Pepsi-deildinni og þyrfti nú ekkert að vera að stökkva fyrr úr vinnu fyrir einhvern leik. Svona athugasemdir voru alltaf að koma og þá sannfærðist ég meira og meira um að það þýddi ekkert fyrir mig að hugsa um íþróttafréttirnar, ég væri bara einhver kona sem skipti engu máli.“

Spurð hvort hún hefði ekki getað fengið pabba sinn til að tala máli sínu hristir Kristjana höfuðið ákaft.

„Ég vildi alls ekki koma pabba í þá stöðu. Ég vildi halda honum algjörlega fyrir utan þetta. Einhverra hluta vegna var það samt komið í umræðu hvort ég vildi ekki prófa að spreyta mig á íþróttadeildinni en ég gerði ekkert í því, ekki síst eftir að ákveðinn maður á blaðinu sagði mér að það þýddi sko ekkert fyrir mig að ætla að komast áfram á því að vera einhver pabbastelpa, ég gæti ekkert valsað bara inn í íþróttirnar þegar mér sýndist af því að ég væri dóttir Arnars. Ég fékk endalausar svona athugasemdir þannig að ég jarðaði þennan draum bara.“

Hélt að kommentakerfin gengju af göflunum

En hvernig kom það þá til að Kristjana tók að sér starf íþróttafréttamanns á RÚV?

„Þegar ég hætti á Fréttablaðinu flutti ég til Danmerkur til að „finna sjálfa mig“,“ segir hún og hlær. „Þetta hafði verið erfitt sumar á Fréttablaðinu og ég var pínulítið búin að fá nóg af þessu umhverfi. Mér fannst maður ekki metinn að verðleikum og maður var einhvern veginn alltaf að vinna yfirvinnu og stundum fór ég upp á blað á takkaskónum eftir fótboltaæfingar til að klára blaðið. Í Danmörku fór ég í tónlistarlýðháskóla, kláraði eina önn í Hróarskelduháskóla, fór að vinna í fiskbúð og sem syngjandi þjónn á veitingastað, bara til að gera eitthvað. Kom svo heim og fór í mannfræði í Háskólanum, vann eitt sumar í þjónustuveri í banka og svo árið eftir sem flugfreyja hjá Icelandair. Ég vissi bara ekkert hvað mig langaði að gera.

Þetta var líka glufa fyrir mig að fara inn í íþróttafréttirnar án þess að gera pabba einhvern óleik.

Vorið 2016 fékk ég skilaboð frá gömlum vinnufélaga þar sem hann spurði mig hvort ég hefði áhuga á að koma inn á íþróttadeildina á RÚV. Þarna var EM í fótbolta að byrja og mannekla á íþróttadeildinni og ég var beðin að taka nokkrar netvaktir. Þarna var ég að vinna sem flugfreyja og auðvitað brjálað að gera í því en ég ákvað samt að slá til, þannig að það sumar var ég að vinna töluvert, rúmlega 100% vinnu.

Ég kunni strax rosalega vel við mig á RÚV og fann strax að mér var vel tekið. Þetta var líka glufa fyrir mig að fara inn í íþróttafréttirnar án þess að gera pabba einhvern óleik. Þarna gat ég komið mér inn í starfið á mínum eigin forsendum. Þetta gekk mjög vel og vatt síðan upp á sig, ég fór að taka fleiri og fleiri vaktir og svo kom upp sú hugmynd hvort ég vildi prófa að æfa mig að lesa íþróttakvöldfréttir. Ég var alveg með í maganum yfir því í smátíma, hélt að nú færu kommentakerfin af stað um það hvaða vit þessi stelpa hefði á fótbolta.

Mér fannst ég vera að stíga inn á algjört sprengjusvæði, en svo gekk þetta bara vel og ég hef í rauninni aldrei fengið þessar athugasemdir sem ég óttaðist. Það kom mér ofboðslega á óvart því ég var búin að tala sjálfa mig svo mikið niður og sannfæra mig um að konur ættu ekki heima þarna því fordæmin voru svo fá. Þegar ég byrjaði var Edda Sif til dæmis eina starfandi íþróttafréttakonan og ég leit mikið upp til hennar. Ég var alveg steinhissa á því hvað fólk tók þessu vel. Ég varð að vísu dálítið hugsi yfir því að fólk var mikið að klappa mér á bakið fyrir að standa mig svona vel og það var auðvitað undirliggjandi að það hrós sem ég fékk var vegna þess að ég var kona. Það var smávegis „patrónæsing“ í því.“

Hér er við hæfi að bakka pínulítið og forvitnast um persónulega hagi Kristjönu. Hver er hennar saga utan við kastljós fjölmiðlanna?

„Ég ólst upp í vesturbænum í Kópavogi og bý þar enn,“ segir hún og hlær. „Ég vildi bara hvergi annars staðar vera. Þetta er í gamla hlutanum af Kópavogi og það er rosalega mikil værð hérna. Svo spillir auðvitað ekki fyrir að nánast öll fjölskyldan býr hér, mamma og pabbi eru hérna rétt hjá og systir mín og bróðir líka, auk frændfólks. Aðalvandamálið hefur verið að draga kærastann minn, sem er mikill KR-ingur, hingað.“

Umræddur kærasti er Haraldur Franklín golfari sem Kristjana hefur verið í sambandi við í eitt og hálft ár. Þau búa saman en hún segist samt vera mikið ein heima en golfið veldur því að Haraldur þarf að vera á stöðugu flakki og oft að dvelja langdvölum erlendis.

„Ég er að miklum hluta til grasekkja í Kópavoginum,“ segir Kristjana og glottir. „Hann fór til dæmis út í fyrradag og kemur ekki aftur fyrr en um miðjan mars, svo þetta eru ansi langir túrar sem hann er í. En hann er auðvitað atvinnukylfingur, þetta er vinnan hans, og ég er rosalega skilningsrík, þekki það enda mjög vel sjálf hvernig þetta virkar í íþróttunum, þannig að við eigum mjög vel saman.“

Mikilvægt að geta talað opið um kvíðann

Kristjana sagði mér frá því þegar hún var að tala um fyrstu sjónvarpssendingarnar að hún væri greind með kvíðaröskun. Hefur það vandamál hrjáð hana lengi?

„Nei, í rauninni ekki,“ segir hún. „Ætli ég hafi ekki verið svona 24 til 25 ára þegar þetta byrjaði. Ég fór að kvíða marga daga fram í tímann fyrir einhverjum venjulegum vinnudegi. Og var oft kvíðin yfir fáránlegustu hlutum. Ég vissi ekki almennilega hvað þetta var en í dag er ég greind með kvíða og er á lyfjum og er ekkert feimin við að viðurkenna það. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé hægt að tala opinskátt um andlega sjúkdóma.

Ég viðurkenni alveg að stundum er ég bara föst í því að kvíða því hvað ég geti haft í fréttunum eftir fjóra, fimm daga, eins og það sé einhver möguleiki að vita hvað muni gerast eftir fjóra, fimm daga í íþróttunum, þannig að stundum er þetta algjörlega fáránlegt og ég get hlegið að sjálfri mér fyrir að mikla hlutina svona fyrir mér. Þetta er þekkt í fjölskyldunni, við höfum sem betur fer að mestu sloppið við líkamlega sjúkdóma en andlegir erfiðleikar hafa verið okkar fylgifiskur og mér finnst óskaplega mikilvægt að þeir sem upplifa svona fái viðeigandi aðstoð. Það hefur algjörlega bjargað mér að vera sett á kvíðalyf og ég er mjög þakklát fyrir það.“

Við erum búnar að koma inn á það að íþróttirnar hafi verið þitt hálfa líf síðan þú varst krakki en lífið hlýtur nú að snúast um eitthvað fleira hjá þér, eða hvað?

„Það er spurning,“ segir Kristjana og skellir aftur upp úr. „Ég get alveg viðurkennt að ég er ekki í þessu starfi fyrir launin eða vinnutímann, þetta er ástríða og ég er rosalega mikið í vinnunni. Vaktafríin mín fara að miklu leyti í að liggja kyrr, horfa á Netflix eða sofa þannig að það er í rauninni ekkert margt annað sem kemst að. Mig langar að verða duglegri í golfi, er nýlega byrjuð í því en annars hafa síðustu ár bara verið vinna og aftur vinna. Og það minnkar ekki núna þegar Gettu betur kemur ofan á hitt. Ég er eiginlega nánast með lögheimilið í Efstaleitinu þessa dagana.“

Ég viðurkenni að ég er búin að keyra mig svolítið út, hefði örugglega gott af því að fara í hvíld á Heilsuhælið í Hveragerði.

Kristjana sagðist hafa flutt til Danmerkur á sínum tíma til að reyna að „finna sig“, er hún búin að því?

„Já, veistu ég held það bara,“ segir hún brött. „Ég er komin með BA-gráðu í mannfræði og masters-gráðu í markaðsfræði og var alltaf að reyna að finna mig í einhverju öðru en íþróttunum en það tókst ekki. Námið bættist ofan á alla vinnuna og ég viðurkenni að ég er búin að keyra mig svolítið út, hefði örugglega gott af því að fara í hvíld á Heilsuhælið í Hveragerði, en það er enginn tími til þess.“

Kristjana segir það hafa verið æskudrauminn að starfa við íþróttafréttamennsku, henni hafi bara ekki dottið í hug fyrr en fyrir nokkrum árum að kona gæti fengið vinnu við að segja fréttir af íþróttum. Mynd / Hallur Karlsson

Þessi draumur um að feta í fótspor pabba, hefur hann staðið undir væntingum? Er starf íþróttafréttamannsins eins skemmtilegt og þú ímyndaðir þér?

„Já!“ segir Kristjana strax. „Ég verð að segja það. Þetta er ofboðslega skemmtileg vinna og enginn dagur eins, maður er dálítið á yfirsnúningi þegar maður er á vöktunum. Ég kann vel við það að vera í svona miklum hraða, það hentar mér vel.“

Talar um það sem hún kann best

Nú er oft bent á það að kvennaíþróttir fái miklu minni athygli og umfjöllun í fjölmiðlum en karlaíþróttir. Hafið þið Edda Sif einhverja stefnu um það að leggja meiri áherslu á umfjöllun um íþróttir kvenna?

„Ég held að það gerist bara ómeðvitað, án þess að við séum endilega að pæla í því,“ segir Kristjana. „Mér finnst það bara vera svo eðlilegur hlutur þegar helmingur íþróttafólks í heiminum eru konur. Það er í rauninni furðulegt hversu fáar konur hafa starfað sem íþróttafréttamenn hér, mér finnst alveg nauðsynlegt að það séu konur í þessu starfi og geti endurspeglað konur í íþróttaheiminum á skjánum.

Sem betur fer er þetta að lagast. Núna eru konur í íþróttadeildunum á Stöð 2, Mogganum, Vísi og Fréttablaðinu og það er náttúrlega gjörsamlega frábært en ekki nóg. Það er 2019 og ég bara skil ekki að við séum ekki fleiri. Ef maður horfir á íþróttafréttir á Norðurlöndunum eru þar margar, margar, margar konur að vinna til jafns við karlana. Mæta á fótboltaleiki í úrvalsdeildinni á Englandi og standa á hliðarlínunni og taka viðtöl við bestu þjálfara heims og það er ekkert óeðlilegt við það. Hérna erum við einhvern veginn dálítið miklir eftirbátar hvað þetta varðar.

Það er í rauninni furðulegt hversu fáar konur hafa starfað sem íþróttafréttamenn hér.

Mér fannst til dæmis skrýtið eftir HM-stofuna síðasta sumar að það komu margir að máli við mig og fannst mikið til þess koma hvað ég vissi mikið um þetta og gerði þetta vel. Ég sagði; já, takk, en ég var sjálf í fótbolta í rúm tuttugu ár og skil alveg íþróttina, þannig að mér fannst þessi ummæli skjóta skökku við. Ég sat þarna og talaði um það sem ég kann best og það létu allir eins og það væri eitthvað magnað afrek. Þetta sat svolítið í mér. Ég lagði ofboðslega mikið á mig fyrir HM-stofuna, las mér til í marga mánuði um hin og þessi lið, ég ætlaði sko ekki að láta hanka mig á neinu.“

Þetta hljómar eins og þú sért mikil keppnismanneskja, ertu það?

„Ég er rosalega mikil keppnismanneskja,“ segir Kristjana. „Alveg svakaleg. Ég var í frábæru liði Breiðabliks upp alla yngri flokkana, þar komu þónokkrir Íslands- og bikarmeistaratitlar en svo fór ég í Verzlunarskólann og þá tók félagslífið við, ég sökkti mér alveg í það. Nemósýningar og söngvakeppnir, ritstjórn skólablaðsins og eitthvað. Þannig að metnaðurinn í fótboltanum sat svolítið á hakanum.“

Mynd / Hallur Karlsson

Talandi um félagslífið í Verzló, þú hefur ekki reynt að komast í keppnisliðið í Gettu betur þar?

„Nei, en ég held ég hafi nánast gert allt annað en það í félagslífi skólans,“ segir Kristjana og glottir aftur. „Á þeim tíma var ekki kominn kynjakvóti í keppnina og maður leit bara á þetta sem strákakeppni. Ég held það hafi ekki hvarflað að neinni stelpu á þessum árum að reyna fyrir sér í Gettu betur. Sem betur fer er það liðin tíð og margar gjörsamlega frábærar stelpur að keppa. Þessir krakkar eru auðvitað ótrúlegir, ég gapi bara stundum yfir því sem þeir geta. Dáist endalaust að þeim.“

Plássið er að hlaupa frá okkur og að endingu skelli ég einni hefðbundinni helgarviðtalsspurningu á Kristjönu: Hvað með framtíðarplön? Heldurðu að þú verðir í íþróttunum þangað til þú ferð á eftirlaunin?

„Ég held að það verði bara að koma í ljós,“ svarar Kristjana hugsi. „Ég ætla bara alltaf að hafa það að leiðarljósi að mér eigi að finnast gaman í vinnunni og á meðan mér finnst þetta gaman mun ég halda áfram. Svo er aldrei að vita, ég er með menntun sem ég hef ekkert nýtt hingað til og myndi alveg vilja nota. Það getur líka vel verið að við Haddi flytjum til útlanda og ef það gerist fer ég kannski í eitthvert meira nám. En eins og staðan er núna er ég ekkert að hugsa mér til hreyfings. Ég er alsæl í vinnunni minni.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur hjá Lancôme Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -