Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Henry um viðbrögð Vöndu: „Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með hana – Við erum á botninum„

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölmiðlamaðurinn Henry Birgir Gunnarsson segir að Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ hafi fallið á sínu fyrsta prófi í starfi, og telur Henry Birgir að það að Vanda ákvað að fara í felur nú þegar sambandið ákvað að segja upp Eið Smára Guðjohnsen.

„Vanda hefur ekki veitt viðtal, í þessari yfirlýsingu kemur fram að hún geti ekki tjáð sig um persónuleg mál Eiðs Smára. Gott og blessað, það er fullt af öðrum spurningum í þessu máli sem þarf að spyrja hana að. Það er frekar lélegt að ætla að fara í felur. Þetta er fyrsta stóra málið sem kemur upp hjá henni, tækifæri fyrir hana að stíga fram fyrir skjöldu og sýna leiðtogahæfni og hvað í henni býr. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum að hún skuli ekki fronta þetta mál og taka á því.“

Þetta sagði Henry Birgir á Bylgjunni í gær.

Uppsögn Eiðs Smára var tilkynnt seint á þriðjudagskvöld, en málið tengist leik íslenska landsliðsins í Norður-Makedóníu – það hvað gerðist eftir leikinn.

- Auglýsing -

„Málið er sorgarsaga, í raun og veru byrjar þetta síðasta sumar þegar Eiður Smári er sendur í tímabundið leyfi og fær áminningu. Og var gert að taka á sínum málum, hann vildi aldrei segja hvað hann hefði gert í sínum málum. Nú kemur fram að málið hafi átt sér langan aðdraganda. Það var áfengi haft um hönd eftir verkefnið í Norður-Makedóníu, þar virðist hafa orðið atvikið að stjórn KSÍ hafi sagt hingað og ekki lengra. Sorglegt mál.“

Henry Birgir hefur verið lengi í fjölmiðlum og segir að hér áður fyrr hafi oft verið mikið fyllerí í kringum landsliðið og að nú þurfi mögulega að fara aftur í grjótharðar reglur sem Lars Lagerback setti á sínum tíma.

„Ég hef verið í þessu talsvert lengi, það var mikið fyllerí í kringum liðið. Ekki hjá liðinu en hjá liðinu í kringum þetta, það var eitt sem Lars Lagerback breytti. Það var algjört áfengisbann þegar menn voru í gallanum. Það er fullt af liði þarna í erfiðri vinnu og þarna var verið að klára verkefni, á flestum starfstöðvum þætti það eðlilegt eftir mikla törn að fólk myndi fá sér rauðvínstár eða 2-3 bjóra. Svo færi það að leggja sig. Það virðist ekki ganga þegar Knattspyrnusambandið er annars vegar, þetta er annar þjálfarinn sem þarf að víkja þegar áfengi er haft um hönd. Það virðist borðleggjandi að fara í reglurnar frá Lagerback og bara sleppa þessu. Þetta virðist ekki hafa neitt nema hörmulegar afleiðingar í för með sér.“

- Auglýsing -

Bætti við:

„Það virðist ekki vandamál hjá heildinni en það virðist gera það að verkum að eitthvað stjórnleysi verður. Ég held að KSÍ ætti nú bara að taka ákvörðun að setja á bann, því miður virðist þetta ekki ganga. Þetta snýst um aga og kúltúr.“

Henry segir það hörmuleg vinnubrögð að enginn sem stjórni hjá sambandinu ætli að svara og útskýra hvað gerðust í Norður-Makedóníu:

„Tilkynningin sem KSÍ sendi frá sér um uppsögn Eiðs Smára er send út í skjóli nætur; að Eiði hafi verið sagt upp; svo daginn eftir svarar enginn. Ekki formaður, ekki framkvæmdarstjóri, ekki fjölmiðlafulltrúi. Það er ekki boðlegt, þetta er ekki einkafyrirtæki.“

Henry Birgir segir að „það fennir yfir þetta allt að lokum, vonandi ber Arnari Þór gæfa til að finna góðan mann með sér. Við erum á botninum, leiðin liggur upp,“ segir Henry.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -