Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Herdís Storgaard hjúkrunarfræðingur: „Skelfilegar afleiðingar vinnuslysa hjá börnum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta gerist á hverju vori og blasir á auglýsingatöflum í búðum og upp spretta auglýsingar  í hverfahópum. Ég sendi inn grein á MBL nú fyrir nokkrum dögum. Mér þótti mjög athyglisvert að sjá viðbrögð lesenda og hversu kjánaleg einhver ummælin voru. Fjölmargir fullorðnir rituðu og sögðu að þeir hefðu nú aðeins verið um sex ára gamlir að passa börn. Engum hefði nú orðið meint af því,“ segir Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur hjá Slysavörnum barna um viðbrögð almennings við nýbirtri grein, en í skrifum sínum áréttar Herdís að börnum yngri en 15 ára sé óheimilt að gæta sér yngri barna og þiggja fyrir laun.

Yngri en fimmtán ára mega ekki gæta annarra barna

Ekki er langt síðan MANNLÍF fjallaði um tímakaup það sem foreldrar telja ásættanlegt að bjóða barnapíum í sumar, en hæfilegur aldur til starfans að mati þeirra foreldra sem tóku til máls í umræðuhóp nú fyrir skemmstu spannar aldursskeiðið 12 til 17 ára. Samkvæmt Herdísi hafa foreldrar þó ekki heimild til að bjóða börnum sem enn er í gagnfræðaskóla, launað starf við barnapössun nú í sumar, þar sem reglugerðin kveður á um að unglingur skuli hafa náð fimmtán ára aldri og þar með lokið grunnskóla.

Ekki í lagi

„Það þykir allt í lagi að bjóða litlu barni upp á þessar aðstæður,“ áréttar Herdís í viðtali við blaðamann og bendir á nauðsyn þess að gæta öryggis allra. „Börnin eru bara þarna. En börn ber að vernda, því barnið sjálft sem er jafnvel tíu ára gamalt þegar það býður fram þjónustu sína við gæslu sér yngri barns, er ekki komið með nægan þroska til að gæta sjálfs síns. Þar erum við einnig að tala um skynfæri líkamans og hvernig heilinn bregst við boðum. Það er ekki fyrr en barnið er orðið tólf ára gamalt sem það er orðið nægjanlega þroskað til að sýna næg viðbrögð til að geta verndað sjálft sig, hvað þá aðra.“

Barnapíur með hærri laun en unglingar Vinnuskólans

- Auglýsing -

Fyrstu viðbrögð

Reglugerðin fellur undir Vinnueftirlitið að sögn Herdísar sem segir athyglisvert að taka púlsinn á þjóðarsálinni gegnum opinbera umræðu og sífræðslu. „Þá eru margir búnir að gleyma því að reglugerðin sem ég vísa til hér kom fram á sjónarsviðið árið 1995 gegnum lögboðna tilskipun frá Evrópusambandinu. Þegar reglugerðin barst fyrst til Íslands mátti lesa afmörkun á því hversu þungum byrðum börn mættu lyfta við vinnu til að hindra bakverki og stoðkerfisvanda seinna á ævinni. Það var þá sem ég fór að hugsa um barnapíurnar og setti mig í framhaldinu í samband við Félagsmálaráðuneytið.“ Viðbrögð ráðuneytis á þeim tíma segir Herdís hafa einkennst af vandræðagangi. „Þetta var allt saman frekar pínulegt og viðbrögð ráðuneytisstarfsmanna komu mér virkilega á óvart. Menn þar á bæ brugðust illa við og sögðu samfélagið alltaf hafa verið svona, að börn hefðu alltaf passað börn og að reglugerðin ætti því ekki að ná yfir barnapíur.“

Evrópusambandið hneykslað

- Auglýsing -

Herdís, sem var sjálf í miklum samskiptum við stjórnsýslu sökum starfa sinna á þeim tíma lagðist í framhaldinu yfir reglugerðina með Umboðsmanni barna og sendi að lokum erindi út til Evrópusambandsins. „Þarna kom ekkert fram um barnapössun en aðeins þau störf sem snúa að því að lyfta þungu eða hafa óskerta athygli á eigin störfum. Þarna kom til að mynda fram reglugerð um aldur þeirra barna sem mættu vinna með vélar, en á þessum tíma höfðu hræðileg slys átt sér stað þar sem börn misstu útlimi við fiskvinnslu og sveitastörf.  Að hafna í slíku vinnuslysi sem barn merkir ævilanga örkumlum. Þessi reglugerð þótti mér eiga við um barnagæslu líka og hafði því samband út. Ég man enn viðbrögð Evrópusambandsins, undrun og hneyksli var undirtónninn. Þessi börn eru enn bara börn á umræddum aldri. Niðurstaða Evrópusambandsins var þó skýr, börn fimmtán ára og eldri mega sinna gæslu sér yngri barna.“

Efni í lögboðna tilkynningu

Í nýlegri grein sinni bendir Herdís einmitt þannig á að brot á fimmtán ára aldursreglu sé í raun einnig efni í lögboðna tilkynningu til barnaverndaryfirvalda. „Það myndi ég halda, þar sem skýrt er kveðið á um slíkt samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni. Gera foreldrar barna sér grein fyrir því, þegar þau eru að ráða sig í þetta starf, hver það er sem axlar ábyrgðina ef illa fer? Af því að þú heimilar barninu þetta brot, þetta reglugerðarbrot. Ef um væri að ræða vinnustað yrði sá aðili sem ræður til sín unglinga í hættulega vinnu samstundis sektaður.“ Þá bendir Herdís á að um tvöfalt öryggi sé að ræða. Þess sem gætir og þess sem er gætt. „Hér eigum við að hugsa um líkama þess sem er að passa og lyftir þungum hlutum í starfi. Við eigum líka að hugsa um öryggi barnsins sem er verið að gæta“.

Vill fræða og upplýsa

Aðspurð segir Herdís fræðslu mikilvægasta alls. „Ég er nú ekki mikið gefin fyrir boð og bönn,“ svarar hún þegar blaðamaður spyr hvort hún hvetji til slíkra tilkynninga sem hér eru til umræðu. „Ég er mikið gefin fyrir að fræða fólk og fræðsla er af hinu betra. Þess vegna var þetta nú sett inn á Facebook síðu Miðstöðvar um slysavarnir barna fyrir stuttu síðan. Mér fannst umræðan vera orðin svo mikil á Facebook síðum hverfanna að mér þótti full ástæða til að árétta um reglugerð.“

Ekki á skrá sem launagreiðendur 

Slík tilfelli ættu einnig að rata á borð Vinnueftirlitsins, þar sem um  hreint brot á vinnuverndarlöggjöf er að ræða. „Mál sem þessi heyra undir Vinnueftirlitið. Launagreiðendur barnagæsluaðila eru ekki að reka fyrirtæki og því er erfiðara viðureignar að ráða við þar sem foreldrar eru að öllu jöfnu ekki á skrá hjá Vinnueftirlitinu sem launagreiðendur. Þá er sú framför sem hefur átt sér stað hjá Vinnuskólanum algerlega til fyrirmyndar fyrir unglinga. Þeir eru í viðeigandi hlífðarbúnaði í starfi, fá fræðslu og kennslu. Allt þetta hefur gert að verkum að við erum ekki að horfa á þessi hroðalegu slys sem voru hér áður fyrr“.

Börn misstu útlimi í vinnuslysum 

Slysin sem Herdís vísar til eru að sögn hjúkrunarfræðings flestum gleymd í dag en voru reglubundnir viðburðir hér á landi fyrir fáeinum áratugum. „Ég var sjálf að vinna á Slysadeild á árabilinu 1978 og fram til 1981 og í starfi mínu sá ég með eigin augum skelfilegar afleiðingar vinnuslysa hjá börnum. Þetta voru bara smákrakkar. Þau voru jafnvel ferjuð með sjúkraflugi utan að landi og voru búin að missa útlim vegna vinnu við afhausunarvélar í fiskvinnslu. Við erum hér að tala um mjög unga krakka.“ Stór séu því orðin sem látin eru falla á samfélagsmiðlum þessa dagana og tíðni alvarlegra vinnuslysa hjá börnum og unglingum hér á landi fyrir örfáum áratugum síðan virðast með öllu gleymd. Að endingu bendir Herdís á að foreldrar axli alla ábyrgð á mögulegum slysum sem komi fyrir barn í umsjá barns sem er að passa og gæti lögfræðilegt álitaefni hæglega komið til, þó sem betur fer hafi ekkert slíkt mál enn komið til hér á landi. „Þetta er þó vel þess virði að velta fyrir sér og eitthvað sem allir foreldrar ættu að hafa hugfast,“ segir Herdís.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -