Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Hetjudáð Guðlaugs sem barðist berfættur og blóðugur: „Eitthvað hræðilegt hafði komið fyrir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1984 framkvæmdi ungur maður það einstaka þrekvirki að synda sex kílómetra í köldum sjó og dimmri nóttinni frá sökkvandi skipi undan strönd Heimaeyjar. Hann náði að synda í land og ganga befættur yfir úfið hraun til byggða. Föt hans frusu og honum blæddi. Hann var þjakaður af þorsta en samt sem áður náði Guðlaugur Friðþórsson til byggða. Hann var fimm klukkustundir á sundi í ísköldum sjónum og aðrar þrjár að komast yfir hraunið.

Guðlaugur Friðþórsson var 22 ára gamall stýrimaður á Hellisey VE 503 sem fórst að kvöldi sunnudagsins 11. mars árið 1984 undir miðnætti.  Með honum um borð voru: Hjörtur R. Jónsson skipstjóri, 25 ára, Pétur Sigurðsson, 1. vélstjóri, 21 árs, Engilbert Eiðsson, 2. vélstjóri, 19 ára, og Valur Smári Geirsson matsveinn, 26 ára. Þeir fórust allir.

Báðu Faðirvorið saman

Guðlaugur var sofandi neðan þilja þegar Valur Smári matsveinn vakti hann og sagði að trollið væri fast í botni. Þegar Guðlaugur kom á þilfar stóð strekktur togvírinn beint niður svo sjór rann inn fyrir lunninguna. Skyndilega hvolfdi bátnum, sennilega á einungis 4 til 5 sekúndum.

Skipverjarnir lentu allir í sjónum. Guðlaugi tókst að komast á kjöl bátsins ásamt þeim Hirti og Pétri og töluðu þeir vinir saman, báðu Faðir vor, og reyndu að hughreysta hver annan. Félögunum var ljóst að enginn kæmi þeim til bjargar. Þeir freistuðu þess að ná til gúmmbjörgunarbátsins, sem var á nokkra metra dýpi. Það reyndist ókleift. Skipið var ekki búið sjálfvirkum sleppibúnaði, en staðið hafði til að setja hann í bátinn um næstu páska. „Við ákváðum þarna saman þrír á kili að ef svo ótrúlega vildi til að einhver okkar lifði af, þá skyldum við láta það koma fram að það eina sem hefði getað bjargað okkur væri sjálfvirkur sjósleppibúnaður Sigmunds,“ sagði Guðlaugur síðar í viðtali við Árna Johnsen.

Skipið sökk stöðugt dýpra. Þremenningarnir þjöppuðu sér saman á kilinum.

- Auglýsing -

Og svo bara þögnin

„Allt í einu reis báturinn nær lóðrétt. Við báðum þá saman og töluðum hughreystandi hver við annan.“ Það hafði ekki hvarflað að Guðlaugi að reyna að synda til lands. „En þegar Hjörtur sagðist ætla að freista þess, sagðist ég einnig ætla að gera það. Skyndilega datt báturinn undan okkur og við vorum aftur í sjónum.“

Vitaljósið á Stórhöfða var leiðarljósið þar sem þeir lögðu til sunds. Guðlaugur sagði að fljótlega hefðu þeir Hjörtur verið einir og kallast á.

- Auglýsing -

„Síðan hætti ég að fá svar“

Guðlaugur skoraðist aldrei undan því að ræða atburði þessarar nætur og gerði það af miklu æðruleysi þrátt fyrir að finnast erfitt að vera í sviðsljósinu. Hann greindi frá því í viðtölum að hann hefði reynt að halda hugsunum sínum stöðugt gangandi á þessu langa, kalda og erfiða sundi. Verst þótti honum að deyja frá ógreiddum smáskuldum hér og þar. Lífshlaupið rann hjá eins og í kvikmynd. Hann talaði við múkkana sem fylgdust með honum á sundinu og reyndi að blístra. Hann hugsaði til nýja mótóhjólsins sem hann hafði pantað sér Bretlandi en ekki sótt enn. Hann sagði sjálfum sér brandara og velti vöngum af hverju hann hefði aldrei farið til New York eins og þeir félagarnar höfðu planað.

Vonin vaknar

Þrátt fyrir háskann fann Guðlaugur ekki til ótta. Kuldinn leitaði á, stundum barði hann saman fótunum til þess að finna fyrir þeim. Þegar um þriðjungur leiðarinnar var að baki sá hann bát nálgast og vakti það von um björgun. Báturinn sigldi hjá í um 100 metra fjarlægð og Guðlaugur segist hafa hrópað af öllum lífs og sálar kröftum og buslað til að vekja athygli á sér. En allt kom fyrir ekki og báturinn sigldi sína leið.

„Þá greip mig svolítið vonleysi, þegar ég sá á eftir bátnum, en svo sá ég að úr því að hjálpin bærist ekki yrði ég að bjarga mér sjálfur og við það styrktist ég aftur og tók stefnuna á Heimaey sem grillti í langt fjarri í myrkrinu,“ sagði Guðlaugur síðar í samtali við Árna Johnsen.

Landi náð

Loksins náði Guðlaugur inn að brimgarðinum við hamra Heimaeyjar. Hann náði taki á kletti og kastaði alda honum í urðina. „Þar komst ég upp á syllu, sem ég skreið upp á, því ég gat ekki staðið. Ég hugsaði með mér að ég væri með sjóriðu og fannst það skammarlegt af sjómanni að vera. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að lappirnar voru búnar, en síðan komst ég, milli laga, fyrir bergsnös í fjörunni og upp á þurrt, loksins.”

Það var freistandi fyrir Guðlaug að leggja sig en hann vissi að hann myndi ekki vakna aftur. Hann varð að halda áfram. „Ég taldi mér borgið þegar ég var kominn á land, en samt var það ef til vill erfiðara að fara landleiðina um hraunið en sjóleiðina, berfættur og svo dofinn að maður fann ekki fyrir sjálfum sér þótt maður klipi sig.“

Á miðri leið rakst Guðlaugur á baðkar sem notað var til að brynna fé og náði að brjóta þumlungsþukkan ís ofan af því svo hann gæti svolgrað í sig vatnið. „Það hressti mig mikið, en samt var ég svo móður og þungur á göngunni að ég geri mér varla grein fyrir hvernig ég liðaðist upp hlíðina og yfir hraunið.”

„Þegar ég komst upp á milli Fellanna og ljósin í bænum blöstu við, leit ég einhverja stórkostlegustu sýn í lífi mínu og mér óx ásmegin og greikkaði sporið að fyrsta húsinu sem ljós var í.“

Heimkoman

Guðlaugur bankaði upp á í Suðurgerði 2 um kl. 6.55 að morgni mánudagsins 12. mars. Þar kom til dyra Freyr Atlason, þá 17 ára. „Hringdu á sjúkrabíl,“ var það fyrsta sem Guðlaugur stundi upp. Freyr bauð honum inn og sá að Guðlaugur var ekki einungis illa klæddur í frostinu, heldur rennblautur, berfættur og blóðugur á fótunum. Freyr vakti föður sinn, Atla Elíasson, sem kom fram. Atli sagði í samtali við Morgunblaðið á sínum tíma að blóðið hefði lagað úr fótum Guðlaugs og sporin sést eftir gangstéttinni upp að húsinu. Feðgarnir komu Guðlaugi í stól, breiddu yfir hann sæng og hringdu á lögregluna. „Hann nefndi bátsnöfn, Hellisey, mannanöfn og sagði „synti, synti“. Það fór ekkert á milli mála að eitthvað hræðilegt hafði komið fyrir,“ sagði Atli.

Guðlaugur var fluttur á Sjúkrahús Vestmannaeyja til aðhlynningar og björgunarlið var kallað út. Bátar og skip fóru til leitar á slysstaðnum og björgunarmenn gengu fjörur. Brak fannst á reki og olíuflekkur sýndi hvar báturinn hafði farið niður. Enginn skipverjanna fjögurra, sem fórust, fannst.

„Ég gleymi þessu aldrei. En þótt ég bjargaðist þá var þetta mikill harmleikur, sem mér finnst stundum gleymast,“ sagði Guðlaugur síðar.

„Þrátt fyrir að ég ynni þetta afrek, sem svo er kallað, þá dóu þarna fjórir ungir menn í blóma lífsins.“

Þrátt fyrir harmleikinn fór Guðlaugur síðar aftur á sjó árið 1987 í rúman áratug og starfaði síðar meðal annars sem vélstjóri og sat í bæjarstjórn Vestmannaeyja.

Árið 2012 gerði Baltasar Kormákur kvikmyndina Djúpið sem byggð er á þessum atburðum og ár hvert fer fram Guðlaugssund í sundlaug Vestmannaeyja til að minnast þessarar hetjudáðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -